Það getur verið erfitt og pirrandi fyrir foreldri að sjá barnið ýta grænmetinu stöðugt til hliðar á disknum. En það þarf ekki að vera þannig.
Vísindamenn frá háskólanum í Umeå í Svíþjóð og Kaliforníuháskóla fylgdust með tveimur hópum barna á aldrinum 4 til 6 mánaða eitt og hálft ár. Annar hópurinn borðaði miðað við opinberar ráðleggingar sænskra yfirvalda. Hinn hópurinn fékk svokallað „norrænt“ mataræði sem auk móðurmjólkur byggist í ríkara mæli á t.d. ávaxtamauki, berjum og rótargrænmeti.
Niðurstöðurnar lofuðu góðu. Börnin sem vöndust á að borða meira grænmeti snemma borðuðu rétt um 45 prósentum meira af ávöxtum og grænmeti þegar þau voru orðin 12- 18 mánaða gömul miðað við samanburðarhópinn.
Engar aukaverkanir
Að sögn forsvarsmanns rannsóknarinnar Ulricu Johansson voru engar vísbendingar um neikvæðar afleiðingar vegna norræna mataræðisins, sem inniheldur minna prótein miðað við magnið sem er ráðlagt frá hinu opinbera.
„Norrænt mataræði með meiri ávöxtum og grænmeti er öruggt fyrir barnið og getur jafnframt stuðlað að heilbrigðari matarvenjum í æsku,“ segir Ulrica Johansson.
LESTU EINNIG
Norræna mataræðið inniheldur árstíðabundna ávexti, grænmeti, ber, kryddjurtir, sveppi og belgjurtir ásamt jurtafitu og -olíu, fiski og eggjum. Og mun minna af sælgæti, kjöti og mjólkurvörum.
200 börn tóku þátt í rannsókninni. Rannsakendur munu halda áfram að fylgjast með börnunum þar til þau verða 7 ára til að kanna hversu lengi áhuginn fyrir hinu norræna mataræði varir.