Tækni

Blýböðullinn: uppfinningamaðurinn sem jók heimsku mannanna

Blýbensín er undralyfið sem kemur bensínbílunum til að mala eins og kettir en bæði uppfinningamaðurinn Thomas Midgley og yfirmenn hans hjá General Motors vita vel að blý er banvænt eitur.

BIRT: 12/12/2023

Vélaverkfræðingurinn Thomas Midgley er ekki í sínu rétta umhverfi þann 30. október 1924 þegar hann stígur á svið fyrir framan skara af blaðamönnum. Hann kann best við sig í rannsóknastofunni en er fremur uppburðarlítill í margmenni. Nú þarf hann að verja opinberlega nýjustu uppfinningu sína: Blýbensín.

 

Midgley er heilinn á bak við þetta tímamótaeldsneyti sem eykur stöðugleika bensínvéla til mikilla muna. En fyrr í þessum mánuði hafa hins vegar nokkrir verkamenn látið lífið í tengslum við framleiðsluna.

 

Vinnuveitandi Midgleys, General Motors og samstarfsfyrirtækið Standard Oil hafa orðið fyrir harðri gagnrýni. Viðbrögð fyrirtækjanna eru nú að setja á svið eins konar leiksýningu í höfuðstöðvum Standard Oil við hina frægu leikhúsagötu Broadway í New York. Ætlunin er að þagga niður allt tal um að það sé hættulegt að blanda blýi í bensín – í eitt skipti fyrir öll.

 

„Ég legg mig ekki í minnstu hættu,“ segir Midgley og hellir tetraethylblýi yfir hendurnar á sér.

„Ég gæti gert þetta á hverjum einasta degi án þess að það hefði nein áhrif á heilsufar mitt.“

Thomas Midgley um innöndun tetraethýlblýs.

Þessi vökvi er einmitt sá sem General Motors og Standard Oil blanda í bensínið svo úr verður svokallað ethylbensín.

 

Verkfræðingurinn þurrkar sér um hendurnar með vasaklút, alveg áhyggjulaus á svip. Hann tekur síðan glas með eiturvökvanum og heldur því undir nefinu meðan sekúndurnar tifa. Hann fjarlægir glasið ekki fyrr en eftir heila mínútu.

 

„Ég gæti gert þetta á hverjum einasta degi án þess að það hefði nein áhrif á heilsufar mitt.“

 

Bæði Midgley og yfirmenn hans hjá General Motors vita þó full vel hversu hættulegt er að blanda blýi í bensín. En það skiptir þá engu máli. Þeir græða nefnilega fúlgur fjár á þessari gerð eldsneytis sem á eftir að menga jarðarkúluna í meira en hálfa öld, valda skertri greind barna og drepa fólk sem er grunlaust um hættuna.

Midgley var eins konar Georg Gírlausi raunveruleikans – hann fann t.d. upp bolta sem náði betri skrúfu í kasti en venjulegir hafnaboltar.

Georg Gírlaus veruleikans

Líkt og teiknimyndafígúran Georg Gírlaus létu hversdagsleg vandamál Thomas Midgley ekki í friði. Stórt sem smátt reyndi hann alltaf að leysa með nýrri uppfinningu.

 

Thomas Midgley yngri fæddist inn í uppfinningafjölskyldu og það var einkum faðir hans sem hafði vakið athygli fyrir fjölmargar endurbætur á bíldekkjum sem hann hafði fengið einkaleyfi fyrir. Sonurinn var því frá unga aldri áhugasamur um að finna lausnir á vandamálum.

 

Fyrsta uppfinningin kom strax í menntaskóla, þegar hann hannaði nýjan hafnabolta sem náði meiri snúningi í lofti eftir að hafa verið fægður með álmviðarberki.

 

Boltinn náði vinsældum kastara því með meiri snúningi var erfiðara að hitta hann rétt með kylfunni.

 

Þar eð Midgley var áhugasamur um véltækni frá unga aldri flaug hann í gegnum vélaverkfræðina í Cornellháskóla í New York. Að námi loknu fór hann að vinna við þróun hjá fyrirtæki föður síns, Midgley Tire & Rubber Company.

 

Midgley hafði góðar tekjur af uppfinningum sínum og samtals fékk hann einkaleyfi fyrir meira en 100 uppfinningum. Því miður ollu tvær þeirra jarðarbúum gríðarlegum skaða.

 

Aliquam sit amet aliquet lacus. Nunc sit amet tincidunt enim. Maecenas eget dignissim dolor, non varius tortor. Fusce nec pretium quam, sit amet condimentum mi.

Í leit að hinu fullkomna bensíni

Þegar Thomas Midgley yngri fæðist í þennan heim 1889 í Beaver Falls í Pennsylvaníu er bílaöldin ekki gengin í garð en á uppvaxtarárum hans taka bílarnir að leggja undir sig göturnar í Bandaríkjunum.

 

Þegar olía finnst í Texas upp úr aldamótunum 1900 hraðar það mjög framþróun bílanna. Bensín er framleitt úr olíu og þessar auðugu olíulindir gera bensínframleiðslu bæði auðveldari og ódýrari. Bílaöldin tekur líka nýjan kipp þegar Henry Ford setur ódýran bensínbíl, Ford T, á markað 1908.

 

Bandaríkjamenn taka strax ástfóstri við bílana og segja má Thomas Midgley hafi alist upp með bensín í blóði, því faðir hans rak dekkjafyrirtæki.

LESTU EINNIG

Eftir að hafa lokið prófi í vélaverkfræði starfar hann hjá fyrirtæki föður síns en árið 1916, þegar hann er 27 ára, verða þáttaskil þegar Charles Kettering, yfirmaður þróunar hjá General Motors, ræður Midgley til starfa.

 

Kettering hefur þegar valdið byltingu með því að finna upp startarann, bílaeigendum til óblandinnar ánægju þar eð þeir þurftu nú ekki lengur að snúa vélina í gang. Bílar komust nú líka hraðar yfir en áður eftir að háþrýstivélar komu til sögunnar.

 

En bílaiðnaðurinn á þó enn við alvarlegan vanda að glíma. Sífellt og hávært bankhljóð heyrist frá vélunum og bankið veldur líka hristingi sem dregur úr afli vélarinnar.

„Ímyndaðu þér hve mikla peninga við græðum á þessari afurð.“

Thomas Midgley í bréfi til yfirmanns síns.

Bílaframleiðendur vita að bankið stafar af ójafnri brennslu í vélinni og verkfræðingar Ketterings komast smám saman að þeirri niðurstöðu að bensínið sé syndaselurinn. Hinn nýráðni Midgley staðfestir þessa tilgátu endanlega þegar hann blandar joði í bensín og tekst þar með að fá vél í rannsóknastofunni til að suða reglubundið og án minnstu högghljóða.

 

En þar eð joð er bæði ætandi og afar dýrt í svo miklu magni, getur það ekki orðið undraefnið sem leysi vanda bílaframleiðendanna.

 

Frá morgni til kvölds prófar Midgley þess vegna önnur íblöndunarefni sem gætu aukið svokallaða oktantölu bensíns en þannig má skapa jafnari brennslu og losna við högghljóðin. Hann hellir bráðnu smjöri í bensínið og prófar líka kamfóru og álklóríð, sem notað er í svitalyktareyði. Án árangurs.

 

Eina efnið sem hefur þessi tilætluðu áhrif er spíri (etanól). En etanól er framleitt með því að gerja t.d. vínþrúgur eða kartöflur og eima síðan áfengið. Sú lausn vekur því hvorki áhuga hjá General Motors né olíufélögunum.

 

Notkun spíra myndi hafa í för með sér að 10-20% af eldsneytissölunni rynni til bænda og það telst óásættanlegt að missa af svo stórum hluta hagnaðarins. Midgley þarf sem sagt að finna aðra lausn.

 

Ný afurð leysir vandann

Hinn 9. desember 1921 er mikill gleðidagur hjá Midgley og yfirmönnum hans. Nú blandar verkfræðingurinn efninu tetraethýlblýi í bensínkút og hellir svo úr honum á tilraunavélina í rannsóknastofunni í Dayton í Ohio. Vélin gengur jafnt og rólega og til tilbreytingar heyrist ekki það bankhljóð sem árum saman hefur borist frá rannsóknastofu Midgleys.

 

Kettering og aðrir yfirmenn eru himinlifandi yfir uppgötvun Midgleys sem verkfræðingurinn sjálfur eignar „heppni og trú ásamt smáskammti af vísindum“.

 

En uppgötvunin er ekki gallalaus. Tetraethýlblý er blýsamband og afar hættulegt efni. Í hinni fornu Rómarborg vissu lærðir menn að blý er eitraður málmur og á tímum iðnvæðingarinnar var blýeitrun vel þekkt áhætta sem fylgdi starfi í verksmiðjum.

Líkaminn þolir ekki blý

Blý veldur eitrun í líffærakerfum, svo sem blóði, nýrum, taugum og heila. Einkenni eru þess vegna misjöfn, frá magaverkjum og krömpum til ofskynjana, heilaskaða og jafnvel dauða.

Blý festist í lungum

Innöndun blýs sem borist hefur í andrúmsloftið veldur mestri hættu á blýeitrun í fullorðnum. Lungun halda í sér meira blýi en nokkurt annað líffæri.

Safnast í maga

Blý berst einnig með fæðu þegar blýmengaður matur berst gegnum meltingarfærin. Um 5% af þessu blýi safnast upp í líkamanum en afgangurinn fer í klósettið.

Blý kemst gegnum húð

Húðin heldur mörgum efnum úti en það gildir ekki um tetraethýlblý. Vísindamenn segja þó einkum fólk sem er í daglegri snertingu við blý sem eigi blýeitrun á hættu.

Þegar þýski efnafræðingurinn Carl Jacob Löwig framleiddi hinn litlausa vökva tetraethýlblý í fyrsta sinn árið 1853 komst hann fljótt að þeirri niðurstöðu að efnið væri afar hættulegt. Það olli öndunarerfiðleikum og gat leitt til ofskynjana, krampa og jafnvel köfnunar.

 

Midgley er augljóslega kunnugt um hætturnar því eftir að hafa unnið með þetta efni í rúmt ár finnur hann fyrir áhrifunum á eigin skinni.

 

„Ég finn að þetta hefur áhrif á lungun og mér er nauðsynlegt að hætta alveg þessu starfi og anda að mér miklu magni af fersku lofti,“ segir hann 1923 og tekur sér mánaðarfrí frá vinnunni.

 

Blý er „Guðs gjöf“

Heilsufarsafleiðingarnar eru ræddar hjá General Motors en Midgley heldur því fram, þrátt fyrir eigin reynslu, „í meðalumferð verði gatan líkast til svo laus við blý að það verði ekki mælanlegt í útblæstrinum“.

 

Með öðrum orðum skal þetta eiturefni ekki verða nein hindrun í vegi þeirra svimandi háu tekna sem bíða uppfinningamannsins og yfirmanna hans.

 

„Ímyndaðu þér hve mikla peninga við græðum á þessari afurð,“ skrifar Midgley í bréfi til Ketterings í mars 1923, þegar hann og General Motors hafa þegar tryggt sér einkaleyfi á ethýlbensíni.

Olíufyrirtækin sýndu í auglýsingamynd hvernig ethýlbensín (blýbensín) fjarlægði hið pirrandi bankhljóð úr bílvélinni.

Fáeinum mánuðum síðar hefst samstarf General Motors og Standard Oil um fyrirtækið Ethyl Corporation sem á að framleiða ethýlbensín og draga þannig inn hagnaðinn af þessu eitraða bensíni. Yfirmaður þróunar hjá Standard Oil, Frank Howard hefur ekkert nema gott eitt að segja um þetta nýja bensín, sem hann kallar „Guðs gjöf“.

 

Heilbrigðisyfirvöld eru hins vegar ekki sannfærð um að blýbensín sé nein himnasending. Þau láta í ljós áhyggjur en Ethyl Corporation svarar því til að félagið muni kosta vandaða rannsókn á heilsufarslegum afleiðingum.

 

Fyrirtækið snýr sér til bandaríska námuráðuneytisins í september 1923 til að fá sérfræðinga þess til að vinna matsskýrslu. Ráðuneytið og starfsmenn þess eru þekkt fyrir að sjá í gegnum fingur sér varðandi ýmsa ágalla hjá iðnfyrirtækjum til að takmarka ekki möguleika þeirra.

 

 

Verkamenn veikjast og deyja

Hjá Ethyl Corporation er niðurstaðnanna enn beðið þegar nýbyggðar framleiðsluverksmiðjur eru settar í gang.

 

Fyrsta verksmiðjan hefur starfsemi haustið 1923 í Deepwater í New Jersey. Verkamennirnir eru ekki látnir klæðast neinum hlífðarbúnaði við framleiðslu tetraethýlblýs og áður en 30 dagar eru liðnir hafa nokkrir þeirra dáið úr blýeitrun sem eyðilagði nýru og taugakerfi.

 

Dauðsföllin eru þögguð niður og innan skamms taka tankbílar að flytja blýbensínið sem þaggar niður í vélunum, til bensínstöðva.

 

Vorið 1924 verður svo aftur slys, þegar tveir verkamenn í verksmiðju í Dayton láta lífið og fjölmargir aðrir fá ofskynjanir og hegða sér undarlega. Þeir segjast m.a. sjá fiðrildi og fleiri ímyndaðar skepnur skríða um veggina.

 

Blýbensínið gerir þá hringavitlausa – vandamál sem gætir á fjölmörgum stöðum haustið 1924 og nú geta blöðin ekki lengur komist hjá að sjá að eitthvað er að í ethýl-verksmiðjunum.

Blýi hiklaust blandað í allskyns varning

Árþúsundum saman notuðu menn blý án nokkurrar umhugsunar. Rómverjar veiktust af víndrykkju og börn fengu í sig blý þegar þau sleiktu uppáhaldsleikföngin sín.

Banvænir timburmenn

Rómverjar vildu ekki súrt vín og bættu út í það hvítleitu sætuefni sem því miður var blýsambandið blýacetat. Vínið rann ljúflega niður en timburmennirnir komu í formi blýeitrunar.

Vatn leitt í blýpípum

Rómverjar gerðu líka vatnsleiðslur úr blýi. Lengi síðan öpuðu aðrir það eftir og blý blandaðist vatninu. Danir notuðu t.d. blý í vatnsrör fram yfir 1950 og í fáeinum tilvikum munu þau enn til.

Slitsterk málning

Fram á áttunda áratuginn var blýi blandað í málningu til að auka slitþolið. Enn í dag þurfa iðnaðarmenn og aðrir sem slípa burt gamla málningu að hafa varann á.

Dósirnar menguðu

Niðursuðudósir öðluðust vinsældir í fyrri heimsstyrjöld og svo hjá húsmæðrum um allan heim. Fram til 1991 var blýblanda notuð til að sjóða dósirnar saman.

Eitruð leikföng

Á áttunda og níunda áratugnum var blý algengt í vinsælum leikföngum, m.a. Barbiedúkkum. Blýið var bæði í litunum og plastinu – og óheppilegt þar sem lítil börn stinga slíku gjarnan upp í sig.

Kristall er varasamur

Geymdu aldrei besta viskýið í kristalsflösku. Í kristalsgleri er nefnilega notað blý til að tryggja ljósbrotshæfnina svo kristallinn glitri. En vökvinn drekkur blýið í sig með tímanum.

Í október segir New York Times frá því að margir verkamenn hafi orðið fyrir eitrun og komið heim í augljóslega sinnissjúku ástandi eftir vinnu í ethýldeildum Bayway-olíuhreinsistöðvanna í New York og New Jersey. Einn þeirra er William McSweeney sem finnur til óþæginda á fimmtudegi en er orðinn alveg ruglaður á föstudegi.

 

„Snemma næsta morgun hafði mágkona hans samband við lögreglu og skýrði frá því að hann hegðaði sér undarlega. Lögregluþjónn var sendur til að tala við mr. Sweeney en neyddist til að kalla til þrjá til viðbótar til að róa hann og flytja á Alexiansjúkrahúsið þar sem hann var settur í spennitreyju,“ sagði blaðið sem nefnir líka Walter Dymock sem sýndi svipuð einkenni og „reis upp um nóttina og stormaði út um svefnherbergisgluggann á annarri hæð.“

 

Dymock lifir af og er fluttur á sjúkrahús.

 

Öllu verr fór fyrir Ernest Oelgert sem fyllist ofsóknaræði föstudaginn 24. október og hleypur skelfingu lostinn um verksmiðjuna.

 

„Þrír af þeim ráðast á mig,“ æpir hann á flóttanum undan þeim verum sem í ofskynjunaræðinu elta hann. Tveimur dögum síðar deyr hann.

 

„Þessir menn gengu trúlega af vitinu eftir að hafa lagt of hart að sér við vinnu,“ var skýring yfirmanns hjá Bayway-hreinsistöðinni í New Jersey, þegar New York Times spurðist fyrir um þessa undarlegu atburði.

 

 

Í vörn fyrir „bjánabensínið“

Í Bayway-hreinsistöðinni einni saman láta fimm verkamenn lífið en 35 fá magakrampa, lömun eða önnur einkenni blýeitrunar. Allt bendir til að dauðsföllin og veikindin stafi af „bjánabensíninu“ eins og bæði verkamenn og blaðamenn fara nú að nefna uppfinningu Midgleys.

 

Frásagnirnar valda skelfingu meðal bandarísks almennings, ekki síst þegar það rennur upp fyrir fólki að eiturefnið er að finna í bensíngeyminum í bílnum.

 

Svar General Motors og Standard Oil verður að blása til blaðamannafundarins á Broadway þann 30. október 1924, þar sem Midgley hellir tetraethýli yfir hendurnar á sér.

 

Blaðamannafundurinn verður langur og m.a. lýsir heilbrigðisráðgjafi Standard Oil, William Gillman Thompson, því yfir að þessir leiðindaatburðir hafa orðið vegna ófyrirséðra óhappa í kjölfar skyndilegrar uppgufunar úr stórum eimingartönkum.“

„Þið segið að þetta sé hættulegt. Við segjum að þetta sé hættulaust. Sannið að við höfum rangt fyrir okkur.“

Svar olíufyrirtækjanna til vísindamanna sem gagnrýndu blýbensínið.

Thompson vísar því algerlega á bug að bensínið sé á nokkurn hátt hættulegt.

 

„Þótt vissulega sé blý í blöndunni, eru þessi bráðaeinkenni algerlega ólík þeim sem vart verður í tengslum við blýeitrun, t.d. hjá málurum. Að lýsa bensíninu sem „dularfullu“ eða „bjánabensíni“ er gróflega misvísandi.“

 

En þótt Midgley og Thompson berjist eins og ljón til að koma í veg fyrir aðgerðir, verður niðurstaðan sú að New York, Philadelphia og fleiri ríki ákveða að banna blýbensín. Bíla- og olíuiðnaðurinn neitar þó að gefast upp. Til þess eru allt of margir dollarar í hættu.

LESTU EINNIG

Ráðuneytið friðar eiturbensínið

Einmitt þegar yfirvöld í fjölmörgum ríkjum Bandaríkjanna hafa snúist gegn blýbensíni, lýkur námuráðuneytið í nóvember 1924 þeirri úttekt sem þar hafði hafist árið áður. Fyrir General Motors og Standard Oil kemur þessi skýrsla eins og himnasending.

 

Rannsóknin er byggð á tiltölulega takmörkuðum dýratilraunum. Niðurstöðurnar benda ekki til mikillar hættu af völdum blýbensíns og Midgley og félagar hans fá nú einmitt þá umfjöllun í New York Times sem þá hafði helst dreymt um.

 

„Ethýlbensínið er ekki hættulegt mönnum, segir námuráðuneytið að loknum langvarandi tilraunum með útblástur – fleiri dauðsföll ósennileg,“ segir blaðið.

 

Margir sérfræðingar eru ósammála þessum niðurstöðum. Lífeðlisfræðingurinn Yandell Henderson, prófessor við Yaleháskóla, ásakar ráðuneytið fyrir að vera í vasanum á fyrirtækinu sem kostaði rannsóknina og er svartsýnn á framtíðina, nú þegar þetta eitraða bensín fer að streyma um allt landið.

 

„Þetta er trúlega stærsta, staka vandamálið varðandi lýðheilsu sem bandaríska þjóðin hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir. Kannski, ef þetta blýblandaða bensín drepur nógu marga nógu fljótt til að hafa áhrif á almenningsálitið, þá gætum við fengið hið nauðsynlega bann frá þinginu,“ segir prófessorinn.

 

Henderson og aðrir heilsufarssérfræðingar meta ástandið réttilega þannig að útblásturinn frá blýbensíninu muni menga loftið við umferðargötur svo mikið að fólk sem við þær býr eigi á hættu að fá blýeitrun.

Það má kalla kaldhæðni að hið stórhættulega blýbensín skyldi auglýst sem hið „snjalla“ og „örugga“ val ábyrgra bílstjóra.

En fullkomnar sannanir skortir og þess vegna geta stórfyrirtækin leyft sér að hæðast að gagnrýninni.

 

„Þið segið að þetta sé hættulegt. Við segjum að þetta sé hættulaust. Sannið að við höfum rangt fyrir okkur,“ er stöðugt viðkvæðið hjá General Motors og Standard Oil og yfirmennirnir gleðjast þegar hver borgin á fætur annarri afnemur bannið við blýbensíninu.

 

Raddir Hendersons og annarra gagnrýnenda drukkna í stöðugu auglýsingaflóði um nýja undrabensínið sem skilar „auknum hraða, meira vélarafli upp brekkur, meiri hröðun og endanlegum friði fyrir bankinu (í vélinni, ristj.)“

 

„Ethýlbensínið hefur gert þetta mögulegt. Keyrðu með ethýl í háþrýstivél og njóttu lífshamingjunnar,“ segir í auglýsingu í National Geographic.

 

Almenningur gleymir alveg hættunni á eitrun í lönguninni til að geta brunað um vegina án óþægilegra bankhljóða og sumarið 1925 hefur selst 1,1 milljón lítra af eldsneyti Midgleys sem þar með hefur náð undirtökunum á markaði. Upp úr 1930 ganga 90% alls bandaríska bílaflotans á blýbensíni.

Þegar bensín var skammtað á stríðsárunum birtu olíufyrirtækin tilfinningahlaðnar auglýsingar. „Bensínið knýr árásina – ekki sólunda einum dropa!“

Vinsældir blýbensíns eru svo miklar að yfirmaður heilsuvarna í Bandaríkjunum, Hugh S. Cumming, fer að aðstoða Ethyl Corporation við að koma blýbensíni á markað í Evrópu. Cummings fullyrðir við evrópsk heilbrigðisyfirvöld að blýbensínið sé alveg hættulaust.

 

Ár eftir ár eykst bílasalan og æ meira blý mengar andrúmsloft jarðarbúa. Það er ekki fyrr en á sjöunda áratugnum sem menn leiða hugann aftur að blýbensíninu.

 

 

Skerðir greind barna

Áratugum saman hugsar ekki nokkur maður út í það, að útblástur bíla sé blýmengaður. Þetta tekur þó að breytast þegar vísindamaðurinn Clair Patterson sannar mengunina á síðari hluta sjöunda áratugarins.

 

Þessi bandaríski jarðefnafræðingur vinnur í rauninni að því að ákvarða aldur jarðar með greiningum á blý-ísótópum en við þá vinnu uppgötvar hann blýmengun á rannsóknastofu sinni.

 

Með því að bora niður í Grænlandsjökul getur hann skoðað blýinnihald lofthjúpsins í tímans rás og rannsóknirnar sýna að blýmengunin hefur aukist mikið frá lokum síðari heimsstyrjaldar, þegar bílum tók að fjölga á vegunum fyrir alvöru.

 

Nú getur Patterson sýnt óyggjandi fram á það, að blýlosun upp á milljónir tonna á ári hafi valdið miklum skaða. Þetta hættulega efni er ekki aðeins að finna í borgum, heldur hefur það borist með vindum og sest m.a. í matjurtir á ökrum þannig að blýinnihald matvæla hefur aukist.

Eftir seinni heimsstyrjöldina sprakk fjöldi bíla og flestir fylltu tankinn af blýbensíni - vegna þess að Ethyl Corporation seldi leyfi til allra annarra olíufélaga.

Olíufélögin finna fyrir auknum þrýstingi fram eftir áttunda áratugnum. Bandaríski prófessorinn Herbert Needleman kemst að því að mikil blýmengun í lofti hafi áratugum saman skert greind barna, þótt þau hafi aldrei sýnt bein einkenni blýeitrunar.

 

Prófessorinn hefur rannsakað barnatennur þúsundum saman en blý safnast einmitt upp í tönnum. Hann hefur líka greindarpróf fyrir börnin. Niðurstöður hans sýna að börn með mikla blýþéttni í líkamanum hafa skerta einbeitingarhæfni, lakari málþekkingu og fá lægri einkunn á greindarprófum (að meðaltali munar 6 stigum) en börn sem ekki hafa orðið fyrir blýmengun.

 

„5% barnanna í rannsókn minni höfðu verið rænd möguleika á mjög góðri greind vegna blýmengunar. Það þýðir í raun að 875.000 bandarísk börn sem hefðu getað orðið mjög snjöll, urðu það ekki vegna blýmengunar,“ segir Needleman.

 

Niðurstöðurnar vekja athygli. Það reynist ekki nóg með að blý geti valdið krampa og ofskynjunum, heldur hefur þetta ósýnilega eiturefni beinlínis gert mannkynið heimskara.

 

Olíufyrirtækin reyna í örvæntingu að sá efasemdum um rannsóknir Needlemans en tímarnir – og almenningsálitið – hafa nú loksins snúist í afstöðu sinni.

LESTU EINNIG

Blýlaust bensín

Eftir að hafa eitrað gufuhvolfið í meira en hálfa öld verða olíufyrirtækin uppiskroppa með röksemdir á áttunda áratugnum.

 

Kröfur bæði sérfræðinga og almennings um hreinna loft leiða af sér þróun hvarfakútsins – eins konar efnahvarfahraðals – sem á að draga úr hættulegum efnum í útblæstri bíla. Og þar eð hvarfakútur virkar alls ekki með blýblönduðu bensíni er ævintýri olíufyrirtækjanna nú ógnað fyrir alvöru.

 

Útfösun eiturbensíns Midgleys verður þó fremur hæg þar eð lagasetning dregst aftur úr. En 1986 er blýblandað bensín endanlega bannað í Bandaríkjunum og lýðheilsan fer þá hratt batnandi.

 

Frá 1976 dregur úr blýþéttni í líkama Bandaríkjamanna um 93,8%. Og árið 2021 – eftir nærri 100 ár á markaði – er blýbensín bannað í Alsír og hefur þar með verið bannað um allan heim.

 

Vísindamenn eiga erfitt með að ákvarða hversu mörg mannslíf og sjúkdómstilvik uppfinning Midgleys hefur kostað, ekki síst vegna þess að blýblöndun í málningu og niðursuðudósum á líka sinn þátt í eitrunaráhrifunum. En Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, ályktar að blýtengdir sjúkdómar hafi áratugum saman kostað um milljón mannslíf á hverju ári.

Risastórir kæliskápar urðu vinsælir í Bandaríkjunum eftir seinna stríð en þessi íburðarmiklu tæki kældu matvörur með hinu hættulega freongasi.

Midgley-uppfinning eyddi ósonlaginu

Auk blýbensíns gerði Thomas Midgley aðra stóra uppfinningu: Freongas í kæliskápa. Sú uppfinning varð mannkyninu líka dýr.

 

Í lok þriðja áratugarins ákvað Midgley að leysa stórt vandamál. Eiturgas í frystiskápum kostaði óheppna notendur lífið. Hann ákvað að nota freongas í staðinn.

 

Kannski með blýbensínsýninguna 1924 í huga, hélt hann ámóta stórsýningu árið 1930. Hann andaði að sér freongasi og slökkti svo á kerti með því að anda gasinu frá sér.

 

Hálfri öld síðar gátu vísindamenn slegið því föstu að notkun freons í kæliskápum og úðabrúsum hefði skapað stórt gat í ósonlagið. Gasið átti sem sé sök á því að menn, dýr og plöntur voru verr varin gegn útfjólubláum geislum sólar.

 

1987 náðist samkomulag allra aðildarþjóða Sameinuðu þjóðanna um að hætta notkun freons til að bjarga ósonlaginu.

 

Vegna uppfinninga Midgleys á blýbensíni og notkun freongass kvað umhverfissagnfræðingurinn J.R. McNeill upp þann dóm árið 2000 að Bandaríkjamaðurinn hefði haft „meiri áhrif á gufuhvolf jarðar en nokkur önnur einstök lífvera í sögu hnattarins.“

Blýböðullinn dó í eigin uppfinningu

Þótt Thomas Midgeley hafi aldrei verið gerður ábyrgur gerða sinna, er óhjákvæmilegt að vitneskja hans um áhrif ethýlbensíns muni um aldur og ævi stimpla hann sem samviskulausan mann sem hafði milljónir mannslífa á samviskunni.

 

Verkfræðingurinn lifir þó ekki nógu lengi til að verða vitni að banninu, né heldur dómi vísindasamfélagsins yfir hörmulegum afleiðingum uppfinningarinnar.

 

Midgley fékk lömunarveikina 1940 og missti hreyfigetu. En slíkur uppfinningamaður fann að sjálfsögðu upp búnað til að hífa sig upp úr rúminu á morgnana.

 

Búnaðurinn var gerður úr reipum og hjólatrissum og þessi uppfinning átti líka eftir að kosta mannslíf – að þessu sinni hans eigið líf. 1944 flæktist Midgley, þá 56 ára gamall, í reipunum og kafnaði.

Lestu meira um blý í bensíni

  • Gerald Markowitz & David Rosner: Deceit and Denial: The Deadly Politics of Industrial Pollution, University of California Press, 2013.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: TROELS USSING , ANDREAS ABILDGAARD

© Shutterstock. © Armstrong Roberts/Stringer/Getty Images, Gavin Zeigler/Imageselect. © Harold M. Lambert/Getty Image, Wikipedia & Historical/Getty Images. © Wolfgang Sauber/Wikimedia Commons. © Thester11/Wikimedia Commons. © PAF/Imageselect. © Polfoto/TOPFOTO/Ritzau Scanpix & Shutterstock. © H. Armstrong Roberts/Stringer/Getty Images, Gavin Zeigler/Imageselect. © FPG/Staff/Getty Images & Shutterstock.

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Gallerí: Baráttan við náttúruöflin

Lifandi Saga

Miðaldir voru tími svikahrappanna: Sérfróðir í svikum og prettum 

Lifandi Saga

Hversu margir bjuggu í Ameríku þegar Kólumbus bar að garði?

Lifandi Saga

Öll von slokknaði í fangelsum 19. aldarinnar

Maðurinn

Streita veldur ofþyngd

Maðurinn

Svartir punktar afhjúpa getgátur heilans

Alheimurinn

Hvað ef jörðin væri í öðru sólkerfi?

Náttúran

Skoðið myndirnar: Úlfar hegða sér eins og allt önnur dýr

Alheimurinn

Ótrúlegt afrek: Nemendur slá nokkur heimsmet með heimagerðri eldflaug

Náttúran

Hversu stór gátu skorkvikindi orðið?

Lifandi Saga

Olíuborpallur springur: Eldhaf í Norðursjó

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.