Lifandi Saga

Orrustan um Stalíngrad: Persónulegt einvígi Hitlers og Stalín

Haustið 1942 eiga Stalín og Hitler í persónulegu einvígi á götum Stalíngrad. Hvorugur gefur tommu eftir og þeir kæra sig kollótta um ægilegt mannfall manna sinna. Orrustan um Stalíngrad er ein harðasta orrusta sögunnar.

BIRT: 19/12/2022

Ótrúleg sjón mætti hinum unga sovéska hermanni Mikhail Panikakha þegar hann kom að austurbakka Volgu, septembernótt eina árið 1942.

 

Hinum megin fljótsins lýstu risastórar eldtungur og sprengingar upp Stalíngrad meðan að stórskotalið lét eldi og brennistein rigna yfir borgina.

 

Mitt í þessu helvíti reyndu óþjálfaðir sovéskir hermenn að hamla framrás Þjóðverja inn í rústirnar af þessari áður voldugu iðnaðarborg.

 

Eina líflína örvæntingarfulls varnarliðsins var Volga, þar sem heill floti af prömmum og litlum bátum sigldu nótt hverja með matvæli, skotfæri og liðsauka frá austurbakkanum.

Þýska sveitirnar fengu stuðning frá Luftwaffe í orrustunni um Stalíngrad. Flugmennirnir gátu hins vegar aldrei verið öruggir þegar þeir flugu yfir borgina. Til dæmis skutu sovéskir hermenn niður þessa þýsku flugvél, Messerschmitt Bf 109, í orrustunni.

Þessa nótt fóru Panikakha og félagar hans úr 883. herdeildinni yfir fljótið og voru strax sendir í fremstu víglínu þar sem rústir húsa og illa lyktandi lík blöstu alls staðar við.

 

Örmagna hermenn gátu sagt nýliðunum að væntanlegur líftími þeirra í Stalíngrad væri einungis fáeinir dagar.

 

Og þetta átti fyrir Panikakha að liggja. Þann 1. október – þremur dögum eftir komuna til Stalíngrad – lá hann í skotgröf nærri stálverksmiðjunni Rauða október þegar að þýskur skriðdreki rúllaði fram í átt til hans.

 

Hann kveikti í klútum sem stóðu upp úr flösku fullri af bensíni en meðan hann var að þessu sullaðist eldfimur vökvi yfir hann.

„Hnífar og litlar beittar skóflur voru bestu vopnin í návígi við stormsveitarmenn – allt snérist um andlega hörku og snögg viðbrögð“.

Rússneskur hermaður um orrustuna við Stalíngrad

Búningur hans stóð í ljósum logum þegar hann stökk fram úr skjóli sínu og hljóp eins og lifandi kyndill í átt að bryntröllinu. Panikakha braut flöskuna við kæligrindina yfir mótornum og skriðdrekinn sprakk upp í heljarinnar eldsúlu.

 

Hetjudáð þessa unga manns kom sér vel fyrir áróðursmaskínu Sovétríkjanna og ekki leið á löngu þar til flugrit á vígstöðvunum hvöttu menn til að fara að dæmi hans.

 

Panikakha var sú gerð hermanna sem rauði herinn þurfti nú verulega á að halda til að verja Stalíngrad.

Vopn Rússa gegn ofureflinu

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Algjörir yfirburðir Þjóðverja

Vígamóðar þýskar herdeildir höfðu náð fram til úthverfa Stalíngrad undir lok ágúst 1942. Þær tóku þátt í hinni miklu hernaðaraðgerð Hitlers „Fall Blau“ hvers markmið var að ráða yfir Kákasus og þeim miklu olíulindum sem tryggðu rauða hernum eldsneyti.

 

Upprunalega gerði áætlun Þjóðverja einungis ráð fyrir Stalíngrad sem tilfallandi ávinningi en Joseph Stalín lagði mikla áherslu á að verja borgina.

 

Hann taldi að baráttuandi meðal hermanna hans myndi hríðfalla ef borgin sem bar nafn hans félli í hendur óvina. Borgin var einnig mikilvæg vegamót fyrir flutninga á olíu norður á bóginn. Einræðisherrann skipaði því mönnum sínum að verja Stalíngrad til síðasta manns.

Staðreyndir: Orrustan um Stalíngrad

Orrustan um Stalíngrad átti sér stað frá 23. ágúst 1942 til 2. febrúar 1943.

 

Þátttakendur í orrustunni við Stalíngrad voru Sovétríkin og öxulveldin sem samanstóðu af Þýskalandi, Ítalíu, Rúmeníu, Króatíu og Ungverjalandi.

 

Fjöldi látinna, særðra og týndra í orrustunni við Stalíngrad er talinn vera tæpar 2 milljónir manna – samkvæmt nýjustu upplýsingum.

Borgin fékk þó engan liðsauka því Stalín óttaðist á þessum tíma árás Þjóðverja gegn Moskvu og því mátti veikburða 62. her hans berjast aleinn.

 

Hann samanstóð einkum af lítt þjálfuðum hermönnum sem höfðu mátt þola mikið mannfall í bardögum vestan við borgina og fengu nú einungis aðstoð frá þeim borgarbúum sem voru tilbúnir að taka upp vopn.

 

Hinum megin víglínunnar stóð hinn þrautþjálfaði 6. her með meira en 250.000 manns og yfirmaður hans, Friedrich Paulus hershöfðingi, átti von á skjótum sigri.

 

Þann 13. september sendi hann hersveitir sínar fram. Sovéskur hermaður skrifaði uggandi um sjónina sem blasti við þeim þegar þýskar brynsveitir og hermenn streymdu fram.

 

„Þetta leit út eins og svarmur af svörtum skordýrum sem tættu í sundur borgina. Þeir voru afar vel vopnaðir og sífellt komu fleiri og fleiri í ljós. Við héldum að þeir myndu bara rúlla beint yfir okkur“.

Stalíngrad var heimavöllur leyniskyttanna með þúsundir af leynistöðum þar sem þolinmóð skytta gat beðið eftir bráð sinni. Snemma morguns yfirgaf skyttan vistarverur sínar og læddist fram á einhvern stað þar sem hermaðurinn svipaðist um eftir þýskum njósnaflugvélum.

Á fáeinum tímum náðu Þjóðverjar hæðardraginu Mamajev Kurgan milli miðborgarinnar og iðnaðarhverfanna í norðri og þaðan sáu þeir vítt og breitt yfir Volgu.

 

Á meðan þrengdu aðrir Þjóðverjar sér inn í hjarta borgarinnar þar sem þeir nálguðust lífsnauðsynlega ferjuhöfnina með ógnvekjandi hraða.

 

Árásarliðið hafði u.þ.b. helmingi fleiri hermenn en 62. herinn, fimm sinnum fleiri skriðdreka og réði algjörlega ríkjum í loftinu.

 

Einungis grjóthörð staðfesta varnarliðsins bjargaði borginni frá því að falla þegar á öðrum degi bardaganna.

 

Bóndasonur tók stjórnina

Margar vikur með loftárásum Þjóðverja höfðu þegar kennt sovéskum hermönnum að fara einungis yfir Volgu í skjóli nætur.

 

En þann 14. september var 62. herinn í Stalíngrad svo illa haldinn að mörg þúsund hermönnum var skipað að fara yfir fljótið í dagsbirtu.

LESTU EINNIG

Bátarnir sigldu með hraði milli sprengja og skothríðar og minna en helmingurinn af varnarlausum hermönnunum lifðu af þessa háskaför. En þeim sem lifðu af þessar hremmingar var strax kastað fram í gagnárás sem kom í veg fyrir skjótan sigur þýskra.

 

Á næstu vikum ógnaði hver árásin af öðrum að þrýsta Rússum endanlega út í Volgu. En eftir fyrsta áfallið tókst Vasily Chuikov undirhershöfðingja að koma skipan á varnir.

 

Hinn 42 ára gamli Chuikov hafði fyrst fengið stjórn 62. hers rétt eftir að þýska árásin hófst.

„Við megum ekki leyfa óvininum að koma sér í góða fjarlægð“

Vasilij Chuikov, sovéskur hershöfðingi

En hann var glerharður nagli, rétt eins og faðir hans sem hafði verið nautsterkur glímumaður. Chuikov var einatt í einkennisbúningi sem var svo skítugur og krumpaður að menn töldu hann vera óbreyttan hermann.

 

Chuikov var mikill skaphundur og öskraði á liðsforingja sem stóðust ekki miklar væntingar hans og hann greip oft til líkamlegra refsinga.

 

En óbreyttir hermenn áttu eftir að dá hann, því Chuikov var af sama bergi brotinn og þeir sjálfir. Með grófa andlitsdrætti, dökkt og úfið hár og þurran húmor. Og svo var hann aldrei fjarri fremstu víglínu.

 

Meðan hershöfðinginn Paulus gaf skipanir sínar vel varinn 100 kílómetra að baki víglínunni voru aðalstöðvar Chuikovs í miðju helvítinu í Stalíngrad meðan átökin áttu sér stað.

Hermenn lærðu skjótt að halda höfðinu niðri þegar þeir fóru um milli rústanna.

„Áhrif þessa á okkur voru feikileg: Okkar æðsti yfirmaður var þarna með okkur, mitt í helvítinu. Það veitti okkur endurnýjaðan vilja til að verja stöðu okkar“, sagði liðsforingi einn um hershöfðingja sinn sem heimsótti oft skotgrafirnar, íklæddur sínum einkennandi svarta frakka.

 

Chuikov hvatti liðsforingja sína til að deila út stærri skömmtum af smjöri, kexi, sykri og sígarettum með óbreyttum hermönnum og bannaði þeim að nýta sér stöðu sína til að ná fram einhverjum forréttindum.

 

Sameiginlegar þjáningar allra þeirra efldu liðsandann verulega í 62. hernum, þrátt fyrir ægilegt mannfall.

 

Helsta framlag hershöfðingjans fólst þó í herfræðilegum skilningi hans sem hjálpaði honum að átta sig á þessum einstöku aðstæðum fyrir götubardaga í borg.

 

Hús Stalíngrad urðu að virkjum

Joseph Stalín hafði gert öllum ljóst að verja ætti Stalíngrad án tillits til gjaldsins.

 

„Ekki eitt skref til baka“, hafði hann hrópað. Sérhver liðsforingi sem leyfði mönnum sínum að hörfa undan þurfti að mæta fyrir herdómstól.

 

Mikilvægasta varnarlína Chuikovs samanstóð af röð virkja í sterkbyggðustu byggingum borgarinnar. Við þær var búið að koma upp miklum gaddavírsflækjum og jarðsprengjum til að torvelda frekari framrás Þjóðverja.

Árásarfallbyssan StuG III var múrbrjótur Þjóðverja meðan þeir réðust inn í borgina. Í miðri borg komust öll farartæki þó skammt vegna rústanna.

Virki þessi virkuðu eins og brimbrjótar sem gerðu samhæfða framrás Þjóðverja ógjörlega.

 

Þegar Þjóðverjar gerðu þó árás var kallaður út liðsauki frá sífellt stækkandi fallbyssum á austurbakka Volgu. „Þessir fasistar munu brotna á þeim eins og bylgjur á klettum“, hafði Chuikov sagt.

 

Þetta voru orð sem hermenn hans gátu skilið. Hús eitt á Pensenskaja-götu hafði sérstaka þýðingu fyrir hermennina í 62. her, því það kom oft við sögu í áróðri Sovétmanna.

 

Byggingin sem var þekkt sem „Hús Pavlovs“ hýsti eina hersveit sem liðsforinginn Jakov Pavlov fór fyrir og barðist stöðugt áfram, jafnvel löngu eftir að búið var að hrekja aðra sovéska hermenn í burtu.

 

Samkvæmt opinberri frásögn um tveggja mánaða baráttu Pavlovs hafði hann haldið inn í bygginguna með einungis 25 menn, tilbúinn að berjast fram í rauðan dauðann. En samkvæmt öðrum vitnum var hús Pavlovs vel varið og mannað.

 

Milli bardaganna héldu rússneskir hermenn til í kjöllurum og byrgjum þar sem þeir voru vel varðir gegn sprengingum.

Þjóðverjar töpuðu orrustunni um Stalíngrad þegar þeim tókst ekki að losa sig við alla sovéska hermenn úr borginni. T.a.m. varði sovésk hersveit hús eitt í tvo mánuði. Húsið er í dag þekkt sem "Hús Pavlovs" - eftir sovéska liðþjálfanum Jakov Pavlov.

Í kjallaranum undir „Húsi Pavlovs“ elduðu hermennirnir mat á gamalli eldavél og þeir sváfu meira að segja á dýnum íklæddir stígvélum.

 

Í kjallaranum voru einnig fleiri fjölskyldur sem ekki höfðu náð að flýja út úr borginni tímanlega. Þar fæddi ein kona stúlkubarn sitt en faðir þess hafði fallið sem hermaður á fyrstu dögum bardaganna.

 

Þessu nýfædda barni var ekki gefnar miklar lífslíkur en hermenn Pavlovs sem voru fljótir að venjast hörmungunum í kringum sig, hættu lífi sínu til að útvega mjólkandi móðurinni fæðu. Sina, eins og stúlkan var nefnd, lifði þessar raunir af.

 

Orrustan rústaði borginni

Árið 1942 var Stalíngrad héraðsborg með einungis um 400.000 íbúum. Í blóðugum bardögum á götunum féllu meira en milljón manns frá 6. þýska hernum og 62. her rauða hersins.

Þýskt leifturstríð inn í miðborgina

Sjötti herinn hefur leifturstríð sitt þann 13. september. Markmiðið er að leggja undir sig borgina með einfaldri og skjótri árás. En jafnvel þótt að árásarliðið nái djúpt inn í miðborgina nær mótspyrna Sovétmanna að stöðva það.

Herirnir tveir skiptast á árásum

Járnbrautarstöðin liggur á framrásarási Þjóðverja við Volgu og þar er hart barist. Þann 15. september skipta meginbyggingarnar um hendur fjórum sinnum og heiftarlegar árásir og gagnárásir halda áfram til 19. september.

Þykkir steypuveggir verja varnarhreiður

Korngeymslan nærri bökkum Volgu er með þykka steypuveggi sem veita góða vörn fyrir um 50 sovéska hermenn þar inni. Öflugar þýskar herdeildir ráðast til atlögu þann 17. september og þrátt fyrir að eldar geysi inni í geymslunni heldur varnarliðið út í fimm daga og veldur miklu mannfalli meðal Þjóðverja.

Þýskir skriðdrekar ná loksins fram til Volgu

Ferjuhöfnin skiptir sköpum fyrir sovéska herliðið því það er í henni sem liðsauki er settur á land. Þegar að Þjóðverjar leggja undir sig höfnina þann 22. september brotnar skipulögð andspyrna í miðborginni saman. Eftir þetta smíða sovéskar verkfræðingadeildir nýja höfn við stálsmíðastöðina Rauða október öllu norðar og Þjóðverjum tekst aldrei að stöðva ferðir báta um nætur yfir Volgu.

Liðþjálfi hélt út í tvo mánuði

„Hús Pavlovs“ er íbúðablokk þar sem sovéskir hermenn bjuggust til varnar. Þar heldur Jakob Pavlov liðþjálfi ásamt hermönnum sínum áfram að berjast eftir að aðrir hlutar miðborgarinnar eru fallnir. Þetta fámenna varnarlið hrindir öllum atlögum Þjóðverja það sem eftir lifir bardaganna.

Ný árás á að gera útslagið

Þann 27. september hefst ný árás Þjóðverja. Markmiðið er að kæfa mótspyrnuna í iðnaðarsvæði Stalíngrad áður en miskunnarlaus rússneskur vetur gengur í garð.

Rauði herinn ræðst fyrst fram

Mamajev Kurgan er hæðardrag sem rís 102 metra yfir Volgu og veitir gott útsýni til allra átta. Því hafa árásir og gagnárásir snúist um þessa hæð, allt frá fyrsta degi átakanna. Þann 27. september, þegar að Þjóðverjar hyggjast einmitt hefja ógnarsókn í norðri, ráðast sovéskar herdeildir fram til árásar eftir gljúfrum. Orrustan um Stalíngrad er alls ekki ráðin.

Þýsk árás verður að blóðugri martröð

Í iðnaðarhverfinu er haldið áfram að framleiða vopn meðan að orrustan geisar. Sovéskir skriðdrekar sem ekki eru búnir miðunarbúnaði, rúlla af færibandinu beint á vígstöðvarnar þar nærri. Fyrir þýska hermenn verður árásin á iðnaðarhverfið ennþá verri heldur en í miðborg Stalíngrad. Heilum herdeildum er kastað inn í bardagana þar sem sérhver fermetri er goldinn dýru verði.

Árásin stöðvast

Þann 14. október ráðast þýskar herdeildir fram með endurnýjuðum krafti og dag eftir dag berjast þeir í gegnum verksmiðjurnar. En 62. her heldur stöðu sinni við síðasta brúarsporðinn og undir lok mánaðarins er þýska árásin þrotin af kröftum.

62. herinn barðist um nætur

Eftir fyrstu bardagana sá Chuikov hvernig vinna mætti gegn yfirburðum Þjóðverja í lofti og stórskotaliði þeirra. Hann gaf hermönnum sínum skipun um að þjappa sér nærri óvininum.

 

Fjarlægðin milli víglínanna ætti að vera afar lítil – helst alveg niður í 25-50 metra – til þess að Þjóðverjar gætu ekki látið sprengjum rigna yfir sovéskt herlið án þess að hitta eigin hermenn.

 

„Við megum ekki leyfa óvininum að koma sér í góða fjarlægð“ hljómuðu fyrirmæli Chuikovs.

 

Meðan Þjóðverjar reyndu að halda skipulagi og öðlast yfirsýn lagaði hann sig að þeim óhjákvæmilega glundroða sem myndaðist í bardögum í sundurskotnum bæjarrústunum.

„Enginn skal bola okkur frá þessum stað.“

Einræðisherrann Adolf Hitler um Stalíngrad

Í staðinn fyrir umfangsmiklar aðgerðir með þátttöku þúsunda hermanna skipti hann liði sínu upp í árásarhópa sem töldu einungis milli 50 og 80 hermenn. Og allir kunnu þeir mun betur að rata um völundarhúsið Stalíngrad.

 

Hver hópur samanstóð af árásarliði, liðsstyrk og varaliði. Þeir fóru á stjá eftir sólsetur, því þá gátu þeir farið víðar um án þess að óttast loftárásir.

 

Á þessum tíma hvíldu Þjóðverjar sig jafnan til að safna kröftum fyrir átök næsta dags og athöfnuðu sig því sjaldan í myrkri, enda gátu þeir ekki notið stuðnings stórskotaliðs og flugvéla.

 

Óbreyttur rússneskur hermaður hefur lýst næturárás á banka þar sem 30 þýskir hermenn voru til staðar.

 

Rússarnir sprengdu sér leið inn í bygginguna og voru allt í einu í flasinu á óvininum, þannig að þeir þurftu að grípa til hnífa og skófla í grimmilegu návígi. Einn Þjóðverji greip um háls hans og reyndi að kyrkja hann en Rússinn svaraði með því að stinga hnífi í hnakka hans.

 

„Slík návígi eru engu öðru lík. Þegar maður er kominn inn í byggingu dugar vélbyssan ekki, enda varla tími til að hlaða hana eða beita henni almennilega. Hnífar og beittar skóflur voru bestu vopnin í návígi og þá snerist allt um líkamsstyrk og skjót viðbrögð“, skrifaði hann.

Hve margir létust í orrustunni um Stalíngrad?

Það er frekar erfitt að finna nákvæma tölu á því hversu margir létust í orrustunni um Stalíngrad og fer svolítið eftir því við hvað er miðað.

 

Tölurnar eru breytilegar eftir því hvort aðeins er reiknað með þeim sem létust í bardögum í borginni eða hvort taka eigi með í reikninginn átök sem tengjast orrustunni um Stalíngrad.

 

Fjöldi þeirra sem létust í orrustunni um Stalíngrad er u.þ.b. ein milljón manns í heildina.

 

Ef reiknað er með fjölda særðra og týndra er talan nær 1,8 til 2 milljónir

Slíkir bardagar skutu Þjóðverjum skelk í bringu og það sama á við sífelld launsátur þegar sovéskir hermenn réðust allt í einu á þá aftan frá.

 

Þegar þýskar herdeildir sóttu fram læddust árásarhópar Chuikovs um að baki þeirra í gegnum holræsi, byggingar og kjallara þar sem þeir höfðu fyrirfram gert göt á skilrúm milli múrveggjanna.

 

Þjóðverjinn Wilhelm Hoffman var hermaður í 34. fótgönguliðsdeildinni og tók þátt í bardögunum í miðborg Stalíngrads. Hann skrifaði fullur viðbjóðs í dagbók sína:

 

„Maður getur ekki séð þá, þeir leynast í byggingum og kjöllurum og ráðast á okkur úr öllum áttum – jafnvel aftan frá. Rússarnir eru þannig allt í einu komnir í bæjarhluta sem við höfðum náð á okkar vald fyrir tveimur dögum og þannig hefst þetta allt upp á nýtt“, skrifaði Hoffman.

 

Myndskeið: Þýskur sjónvarvottur segir frá upplifun sinni í orrustunni um Stalíngrad

Þannig héldu bardagarnir áfram með miklu mannfalli og ólýsanlegum þjáningum fyrir hvora tveggju, allt undir lok september þegar Þjóðverjar náðu loksins undir sig miðborg Stalíngrads.

 

En þessi áraun var einungis fyrsti þátturinn í blóðbaðinu og nú var sá næsti að hefjast – með ennþá meiri villimennsku og mannfalli.

 

Sólin hvarf á bak við reyk

Hvað Joseph Stalín og Adolf Hitler varðar tók nú minna að bera á stratigískum ráðagerðum þegar hégómleikinn hafði heltekið þá báða.

 

Öllu skyldi til kostað til að vinna sigur að mati einræðisherranna án tillits til mannfalls og tugþúsundum nýrra hermanna var nú varpað inn í bardagann.

 

Meðan kirkjugarðar Þjóðverja stækkuðu stöðugt að baki víglínunni var Hitler heltekinn af hugmyndinni um að ná Stalíngrad.

 

„Enginn skal bola okkur frá þessum stað“, lýsti hann yfir í ræðu einni við Berlínarbúa þann 30. september 1942.

Baráttuandi þýskra hermanna snarféll meðan átökin í Stalíngrad drógust á langinn.

Hershöfðingjar hans vöruðu hann við að ekki tækist að ná til olíulindanna í Kákasus fyrir veturkomu og að stytta þyrfti þessa löngu víglínu með því að draga sumar herdeildir til baka.

 

Hitler hundsaði slíkt tal og fyrirskipaði nýja árás í Stalíngrad.

 

Þann 14. október vakti Luftwaffe herlið Chuikovs þegar umfangsmesta sókn Þjóðverja hófst. Stuka-steypiflugvélar birtust á himni og slepptu fyrst sprengjufarmi sínum rétt yfir skotmarkinu til að hitta ekki þýska hermenn.

 

„Við neyddumst til að nánast ýta sprengjunum á skotmarkið sem braust út í gríðarmiklu eldhafi“, lýsti hinn 31 árs gamli þýski major Paul-Werner Hozzel – þrautreyndur flugmaður sem fór fyrir Stuka-sprengjuflugvélunum við Stalíngrad. Herdeild hans náði að fara um 12.000 leiðangra yfir borgina.

LESTU EINNIG

Eftir þessa hamslausu loftárás fylgdi sprengiregn frá meira en 2.000 þýskum fallbyssum og sprengivörpum í kjölfarið. Hátt yfir vígvellinum skein sólin þennan dag en niðri á jörðu virtist sem myrkur væri skollið á.

 

„Það var ekki lengur hægt að sjá sólina, einungis dapurlegan brúnan hring sem grillti í í gegnum þokuna. Ryk, eldur og reykur spratt upp hvarvetna í kringum okkur. Það var ekki hægt að greina sprengjurnar í sundur – þetta var bara einn samfelldur þrumugnýr“, skrifaði einn rússneskur hermaður.

 

Líf kviknar í rústunum

Þegar fallbyssurnar þögnuðu réðust 90.000 Þjóðverjar með 300 skriðdrekum yfir fimm km breiða víglínuna. Markmið þeirra var að ná undir sig þremur stórum verksmiðjum í norðurhluta Stalíngrads þar sem Chuikov hélt enn velli.

 

62. her hans taldi einungis tæplega 20.000 menn og um 20 skriðdreka. En þeir höfðu reist götuvígi í hverri einustu götu til að tefja þýsku skriðdrekana, gert göt á byggingar fyrir skriðdrekabyssur og safnað saman miklu magni af sprengjuefni.

Borgin Stalíngrad, sem í dag heitir Volgograd, var algerlega eyðilögð í síðari heimsstyrjöldinni í orrustunni um Stalíngrad.

Þegar þýskir hermenn og skriðdrekar ruku fram á við kom aragrúi sovéskra hermanna fram úr leynistöðum sínum í rústunum. Heiftarleg sprengjuárásin áður hafði þannig haft takmörkuð áhrif.

 

„Það var eins og við höfum kastað leikfangasprengjum í staðinn fyrir raunverulegar sprengjur“, sagði Stuka-majórinn Hozzel.

 

Liðsyfirburðir Þjóðverja þrengdu samt sem áður að varnarliðinu, þar til það gat einungis varist á um 200 metra breiðu belti. Þjóðverjar réðu nú yfir 90% af Stalíngrad og létu skothríðina dynja á Rússum.

 

Jafnvel bjartsýni hershöfðinginn Chuikov átti eftirmiðdaginn 15. október erfitt með að sjá útgönguleið.

„Í Stalíngrad getur sérhver dáið á hvaða andartaki sem er“.

Wilhelm Hofmann, þýskur hermaður

Þjóðverjar nálguðust höfuðstöðvar hans og hann kallaði til sín litla bróður sinn sem var í herráði hans:

 

„Fjodor, einn okkar verður að sleppa héðan lifandi. Þegar Þjóðverjar ná hér í gegn tek ég vélbyssu mína og berst til hins síðasta á bökkum Volgu. Ég gefst ekki upp – ég vil deyja í bardaga“, sagði undirhershöfðinginn.

 

Hann rétti bróður sínum síðasta bréfið til konu sinnar Valentínu og sendi hann í skjól á austurbakka Volgu.

 

Síðan gaf hann fallbyssuherdeild skipanir um að sprengja höfuðstöðvar sínar til að eyða öllu, tækist Þjóðverjunum að brjótast í gegn.

 

Gálgahúmor og leyniskyttur

Í sovéskum skotbyrgjum og skotgröfum meðfram fljótsbakkanum lifðu hermenn í núinu, enda áttu fæstir von á því að lifa lengi og pældu því ekkert í morgundeginum.

 

Herdeildir með þúsundir manna voru sallaðar niður í fáein hundruð eftir tveggja daga bardaga.

 

Nýir leikir tóku að myndast meðal dauðadæmdra hermanna. Einn þeirra fólst í að benda á einn vasa sinn, benda á vasa annars félaga og segja „Skipta án þess að sjá“. Svo skiptust hermennirnir á innihaldi vasanna og fengu kannski úr eða sígarettur – eða jafnvel ekki neitt.

Orrustan um Stalíngrad var hreint út sagt ömurleg fyrir hermenn úr báðum herbúðunum. Hér má sjá ungan þýskan hermann sem tekinn var höndum af sovéskum hermönnum.

Með slíkum leikjum reyndu hermennirnir að hughreysta hverja aðra þrátt fyrir að líf þeirra væri mælt í mínútum. Hinum megin víglínunnar lýsti þýski hermaðurinn Wilhelm Hofmann nákvæmlega aðstæðum í dagbók sinni.

 

„Í Stalíngrad getur sérhver dáið á hvaða andartaki sem er“.

 

Læknar og hjúkrunarlið 62. hersins börðust allan sólarhringinn við að bjarga særðum hermönnum en áttu í erfiðleikum með að flytja þá yfir á austurbakkann.

 

Í sumum tilvikum voru illa særðir hermenn látnir fara niður Volgu á timburflekum í von um að einhverjir gætu sinnt þeim síðar.

 

Meðan bardagar héldu áfram í októbermánuði urðu leyniskyttur eitt af mikilvægustu verkfærum Sovétmanna.

 

Hermaðurinn Alexandr Kalentjev hafði komið á laggirnar skóla þegar hann bað um leyfi til að halda einn síns liðs í bardaga. Hann hafði snemma þótt frábær skytta og nú myndi hann „fara á veiðar á Fritzum með vopni sínu“ eins og hann sagði sjálfur.

 

Hann fann sér góðan útsýnisstað í rústunum þar sem hann lá þolinmóður í leyni og á nokkrum dögum náði hann að skjóta tíu Þjóðverja.

 

Þetta spurðist út og ekki leið á löngu þar til aðrir sovéskir hermenn fylgdu dæmi hans. Þeir kölluðu það að „opna reikning“ – hefndarreikning þar sem innlögnin fólst í dauðum Þjóðverjum. Chuikov hershöfðingi sá strax möguleikann í þessari strategíu og hvatti menn sína:

 

„Þetta verður til að hver einasti Þjóðverji heldur að hann sé í miði byssu“. Dagblað hersins hyllti í sífellu dugmestu leyniskytturnar sem náðu að merkja 50 eða jafnvel 100 dráp inn á „reikninginn“ sinn.

 

Þjóðverjar komu með sínar eigin leyniskyttur og börðust þær hatrammlega í rústunum.

 

Gagnárás braut Þjóðverja á bak aftur

Októbermánuður leið án þess að Þjóðverjum tækist að brjótast endanlega í gegn og jafnvægið tók nú að breytast.

Þýski hersöfðinginn Friedrich Paulus gegndi öllum skipunum Hitlers fyrir utan eina: Hann lét taka sig til fanga á lífi þegar orrustan var töpuð.

Örmagna hermenn í 6. her Paulusar misstu smám saman trú á að þeim tækist að brjóta Rússa á bak aftur.

 

Sovéskur liðsforingi tók eftir því hvernig þýskir hermenn breyttu háttum sínum. Áður gættu þeir þess ævinlega að þrífa sig og raka, jafnvel þegar að bardagar voru hvað harðastir en nú sinntu þeir því í engu, styrkur árása þeirra fór einnig þverrandi.

Eftir tæplega 6 mánaða hörð átök gátu sovésku hermennirnir loks fagnað sigri á Þjóðverjum í orrustunni um Stalíngrad þann 2. febrúar 1943. Borgin var hins vegar rústir einar.

Meðan eins konar sinnuleysi greip um sig í Stalíngrad réðust úrslit bardaganna utan við borgina. Sovéski herinn hafði safnað saman varaliði með einni milljón manna og þann 19. nóvember 1942 réðust herdeildirnar fram.

 

Gríðarmiklar bryndrekadeildir fóru í gegnum víglínuna norðan og sunnan við Stalíngrad og eftir nokkra daga mættust þær á bak við 6. herinn. Þetta öfluga umsátur Þjóðverja var nú orðið sjálft umsetið.

 

Við bakka Volgu skildu hermenn Chuikovs að raunir þeirra væru brátt á enda.

 

Eftir nokkra daga gátu þeir heyrt fjarlægar drunur frá sovéskum fallbyssum í vestri – á bak við óvininn. 62. herinn hafði haldið stöðu sinni og barðist nú ekki lengur einn.

 

Bardagar við þýska 6. herinn stóðu allt fram til 2. febrúar 1943, tveimur dögum eftir að Paulus sjálfur hafði verið handtekinn.

LESTU EINNIG

Ekki er hægt að segja hversu margir féllu í þessum bardögum í Stalíngrad en hvað varðar Þjóðverja og Rússa má ætla að mannfallið hafi numið einni milljón manna að særðum og föngnum meðtöldum.

 

Bardaginn um Stalíngrad og algjör ósigur Þjóðverja varð vendipunkturinn í stríðinu á austurvígstöðvunum.

 

Chuikov tók síðan þátt í bardögunum um Berlín árið 1945 og hlaut orðu sem hetja Sovétríkjanna tvisvar sinnum.

 

Hann var hækkaður í tign og gerður að hermarskálki og þegar hann lést árið 1982 var brugðið frá því að greftra hann í Moskvu. Þess í stað fékk hann sína síðustu hvíld í Stalíngrad.

Lestu meira um Stalíngrad

  • Michael L. Jones: Stalingrad – How the Red Army triumphed, Pen & Sword Military, 2007

 

  • Peter Antill: Stalingrad 1942, Osprey Publishing 2007

 

  • Anthony Beevor: Stalingrad, Penguin Books 2007.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Esben Sylvest

© Klimbim,© Scanpix/AFP/Ria Novosti,© Scanpix/AFP/Ria Novosti,© Scanpix/AKG Images,© Russian State Military Archive,© Ullstein Bild,© Das Bundesarchiv,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Alheimurinn

Stjörnufræðingar finna fyrstu frumvísa að Vetrarbrautinni

Maðurinn

Hve hratt fer blóðið um líkamann?

Lifandi Saga

Fjöldamorð SS leiddi til miskunnarlausrar hefndar

Lifandi Saga

Hvað var gula?

Náttúran

Öflugasta bit heims – Hér eru fimm dýr sem ekki væri gott að enda í skoltinum á

Náttúran

Geta elliglöp herjað á hunda?

Lifandi Saga

Martröð í Mogadishu

Náttúran

Eðlisfræðingar afnema hlutlægan raunveruleika 

Lifandi Saga

Af hverju vill Indland heita Bharat?

Lifandi Saga

Hve mikið af gulli fannst í gullæðinu?

Alheimurinn

Með þvergöngu Venusar var hægt að mæla sólkerfið

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is