Lifandi Saga

El-Alamein: Montgomery sigrar Rommel í sandbylnum

Bresku hermennirnir mynda síðasta varnarvígið milli Þjóðverja og olíulindanna. Í október 1942 eru 1.600 skriðdrekar saman komir í egypsku eyðimörkinni. Í orrustunni við El-Alamein munu úrslit stríðsins í Norður-Afríku ráðast.

BIRT: 01/12/2022

Í eyðimörkinni ríkti ísköld kyrrð. Næturhiminninn var stjörnubjartur og mánaskinið litaði flata eyðimörkina stálgráa.

 

Alls voru 380.000 hermenn og 640 skriðdrekar samankomnir en bæði menn og vélar voru í leynum í skotgröfum beggja vegna 60 km langrar víglínunnar og huldir felulitum.

 

Milli herjanna tveggja var breitt jarðsprengjusvæði. Hvorki óbreyttir borgarar né byggingar voru í grenndinni. Þarna voru einungis tveir herir hvor andspænis öðrum, rétt eins og á öldum áður þegar konungar og stríðsherrar mættu á fyrirfram ákveðinn vígvöll á tilsettum og umsömdum tíma.

 

Nú biðu allir þess að kyrrðin breyttist í storm.

 

Sigurganga Þjóðverja

Eyðimerkurhernaðurinn hafði nú staðið í tvö ár og víglínan færst fram og til baka. Hitler vildi vinna Kaíró af Bretum og nota Nílardalinn sem stökkbretti fram til stóru olíulindanna á Arabíuskaga.

 

Jafnframt hefði Súez-skurðurinn opnað Þjóðverjum leið út á Indlandshaf og í átt að ríkidæmi Austurlanda. Og Foringjanum hafði nú næstum tekist þetta ætlunarverk. Þýski hershöfðinginn Erwin Rommel hafði komist alla leið til El-Alamein í Egyptalandi – aðeins 240 kílómetra frá Kaíró.

 

Herför Rommels hófst í Lýbíu, nýlendu Ítala. Þessi snjalli hershöfðingi var mun liðfærri en hafði engu að síður unnið hvern sigurinn á fætur öðrum í baráttunni við Breta sem fljótlega gáfu honum heitið „Eyðimerkurrefurinn“.

 

Myndskeið: Sjáðu sigurgöngu Þjóðverja í Afríku 

En sóknin í átt að Kaíró gekk þó svo hratt að birgðaflutningar höfðu ekki undan. Eldsneyti, vopn og skotfæri voru flutt sjóleiðis frá Ítalíu til Trípóli og þaðan þurfti að flytja varninginn á vörubílum yfir eyðimörkina.

 

Þegar Rommel var kominn til El-Alamein var aðflutningslínan orðin 2.000 km löng og mjög viðkvæm. Breskar herflugvélar réðust á bílalestir í Norður-Afríku og herskip og kafbátar sökktu ítölskum flutningaskipum á Miðjarðarhafi.

 

Rommel átti ekki annars úrkosta en að stöðva sóknina. Hann afréð að taka sér varnarstöðu bak við breitt jarðsprengjusvæði og skipaði fótgönguliðum að grafa sig niður í skotgrafir. Bretar máttu ekki fá tækifæri til að hrekja Þjóðverja til baka.

 

Churchill sendi réttan mann

Breski forsætisráðherrann, Winston Churchill, hafði verið undir mikilli pressu. Stjórnmálamenn og hátt settir menn í hernum, jafnt innanlands sem utan, drógu í efa að Bretar væru yfirleitt færir um að vinna sigur í orrustu. Nú gafst Churchill loks tækifæri til að gefa bandamönnum sínum von.

 

Fram að þessu hafði eyðimerkurhernaðurinn verið háður á forsendum Rommels. Forsætisráðherrann sendi nú til Norður-Afríku óþekktan en upprennandi hershöfðingja, Bernard Montgomery sem taldi sig hafa lausn á því hvernig unnt væri að brjóta sókn Eyðimerkurrefsins á bak aftur.

Breskir sprengjuleitarmenn voru undir mikilli tímapressu. Skriðdrekarnir gátu ekki ráðist fram fyrr en þeir voru búnir.

Bandamenn voru liðfleiri

445.000 þýskar jarðsprengjur skildu að hersveitir Rommels og her Montgomerys. Aldrei áður hafði breskur her þó haft jafn traustan stuðning af stórskotaliði. Jafnframt höfðu Bretar næstum þrefalt fleiri skriðdreka en Þjóðverjar og Ítalir til samans – og næstum tvöfalt fleiri fótgönguliða. Montgomery hafði góð spil á hendi.

 

Afríkuher Rommels

Fótgönguliðar: 116.000

 

Skriðdrekar: 574

 

Skriðdrekabanar: 496

 

Aðrar fallbyssur: 0

 

Flugvélar:350

 

8. her Montgomerys

Fótgönguliðar: 220.000

 

Skriðdrekar: 1.029

 

Skriðdrekabanar: 1.401

 

Aðrar fallbyssur: 900

 

Flugvélar: 520

Montgomery rauf þá vanabundnu hugsun að skriðdrekar skyldu sækja fram á undan fótgönguliðinu. Hann hugðist láta stórskotalið sitt eyðileggja fallbyssuhreiður andstæðinganna og ekki fyrr en að því loknu skyldu fótgönguliðarnir ryðja braut gegnum jarðsprengjusvæðið. Ekki fyrr en að lokum skyldu svo skriðdrekarnir sækja fram og berjast „augliti til auglitis“ og hrekja andstæðingana á flótta.

 

Það var breska hershöfðingjanum líka til uppörvunar að hinn ógnvænlegi Eyðimerkurrefur var ekki sjálfur á orrustuvellinum. Eyðimerkurhernaður síðustu tveggja ára hafði tekið svo mikinn toll að Rommel var nú í veikindaleyfi í Austurríki. Hershöfðinginn Ritter von Toma leysti hann af við El-Alamein.

 

Blæddi úr eyrunum

Klukkan 21.10 þann 23. október upphófst skothríðin sem hermennirnir höfðu beðið eftir í angist í eyðimerkurnóttinni. 800 breskar fallbyssur rufu þögnina á sömu sekúndu. Skotglæringarnar lýstu í myrkrinu og hávaðinn sem rauf næturkyrrðina heyrðist alla leið til Alexandríu í 120 km fjarlægð til austurs.

 

Montgomery lét stórskotaliðið einbeita sér að einum tilteknum hluta varnarlínu þjóðverja í einu. Hann líkti því við að spúla óvininn með einni öflugri vatnsslöngu í stað þess að láta rigna yfir þá í dropatali.

 

Myndskeið: Sjáðu stórskotahríðina lýsa upp eyðimerkurnóttina

Fyrst rigndi sprengjunum yfir fallbyssustæði Ítala og Þjóðverja. Þessi upphafssprengjuhríð stóð yfir í 40 mínútur og eyddi mörg hundruð fallbyssum óvinanna.

 

Að meðaltali rigndi 20 sprengjum yfir fallbyssuhreiður Þjóðverja og Ítala á móti hverju einu fallbyssuskoti sem þeir náðu að skjóta sjálfir. Þýskir og ítalskir stórskotaliðar féllu unnvörpum en aðrir misstu heyrn í sprengjugnýnum og það blæddi úr eyrunum.

 

Þessu næst beindu Bretar fallbyssum sínum að þýsku og ítölsku fótgönguliðunum sem lágu í skotgröfunum handan við jarðsprengjusvæðið. Skotgrafir, gaddavírsgirðingar og sprengjusvæði urðu að engu.

Breska stórskotaliðið ryður brautina fyrir fótgönguliðana. Á orrustudögunum tíu skjóta fallbyssurnar meira en milljón sprengjum.

Þessi framlínuárás stóð yfir í fimm mínútur. Því næst gengu tækniþjálfaðir menn fremstir af stað yfir jarðsprengjubeltið – einungis vopnaðir málmleitartækjum – en á hæla þeirra komu fótgönguliðarnir.

 

„Það þarf hugrekki til að standa uppréttur með málmleitartæki, meðan allir aðrir beygja sig eða liggja á maganum til að forðast byssukúlurnar,“ sagði breskur yfirmaður.

 

Þegar leitartækið skynjaði málm, stakk hermaður byssusting sínum skáhallt niður í sandinn. Rækist hann í jarðsprengju settist hann á hækjur sér, gróf sprengjuna upp og gerði óvirka.

 

Meðan hermennirnir unnu sig þannig hægt og sígandi í gegnum sprengjusvæðið rigndi fallbyssuskotum og kúlnahríð úr vélbyssum yfir vígvöllinn. Kúlnahljóðin virtust koma úr öllum áttum. Hermenn féllu kveinandi niður í sandinn en félagar þeirra héldu áfram.

 

Í myrkrinu klöngruðust menn áfram yfir sandinn þúsundum saman, þar sem hreinsað hafði verið og hundruð skriðdreka fylgdu á eftir.

Breskir Churchill skriðdrekar sækja fram á aðeins 15 metra breiðri leið sem fótgönguliðið hefur hreinsað á þýska jarðsprengjubeltinu.

Fótgönguliðarnir báru daufa lampa á bakinu til að félagarnir að baki þeim sæju til vegar en óvinurinn greindi ekki ljósið. Aðrir drógu langar hvítar línur í sandinn til að merkja leiðirnar sem höfðu verið hreinsaðar en í fyrstu voru þær einungis 15 metra breiðar.

 

Fyrstu vandamálin komu fljótlega upp. Teppur mynduðust í þessum þröngu leiðum, menn rugluðust í ríminu og skriðdrekar þurftu að nema staðar og bíða eftir hreinsuninni fremst.

 

Aðrir skriðdrekar villtust út af hreinsuðum leiðum og enduðu úti á sprengjubeltinu og hópar fótgönguliða villtust líka í myrkrinu sem varð æ svartara vegna þess hve mikið af fínum sandi þyrlaðist upp.

 

Þjóðverjar afvegaleiddir

Áætlun Montgomerys var sú að rjúfa skarð í gegnum jarðsprengjusvæðið norðarlega á víglínunni og senda síðan megnið af herstyrk sínum þar í gegn.

 

Til að villa um fyrir óvinunum réðist Montgomery til atlögu gegn þýsku skriðdrekasveitunum í suðri, skammt frá Quattara-lægðinni. Og ástralskar sveitir réðust líka til afvegaleiðandi árásar alveg norður við ströndina.

 

Þjóðverjar og Ítalir höfðu enn ekki hugmynd um hvar meginárásarinnar væri að vænta og neyddust til að dreifa vörnum sínum meðfram allri víglínunni. Á meðan héldu Bretar áfram að vinna sig í gegnum sprengjusvæðið í norðri.

 

Í sólarupprás 24. október höfðu nokkrar hersveitir komist yfir jarðsprengjusvæðið og að fremstu varnarvirkjum óvinanna.

 

Þeim tókst þó ekki að ná valdi á skotgröfunum nema á örfáum stöðum og flestir Bretarnir neyddust til að grafa sig niður í sandinn til að verða ekki að of auðveldu skotmarki í dagsbirtunni. Að baki þeim ríkti enn ringulreið á þeim leiðum sem hreinsaðar höfðu verið gegnum sprengjusvæðið.

Bestu stríðsmyndirnar falsaðar

Stríðsfréttaritarar í Norður-Afríku féllu oft fyrir byssukúlum. Uppstilltar ljósmyndir voru mun áhættuminni.

 

Eyðimörkin í Norður-Afríku var eini staðurinn þar sem Bretar háðu orrustur á árunum 1940-42. Bresk og ekki síður áströlsk blöð fylgdust vel með.

 

Blaðamenn og ljósmyndarar flykktust á vígstöðvarnar og í viðleitni sinni til að ná stórum fréttum og góðum myndum urðu margir fórnarlömb þýskra kúlna eða fallbyssuskota.

 

Tíð dauðsföll urðu til þess að breski ljósmyndarinn Len Chetwyn og fleiri tóku að sviðsetja atburði til að mynda. Ritstjórar við Fleet Street heima í London hrifust af lifandi og veruleikasönnum ljósmyndum og birtu þær stöðugt í blöðum sínum.

Breski ljósmyndarinn Chetwyn kveikti í færanlegri eldunaraðstöðu til að fá reyk á þessa sviðsettu „bardagamynd“.

Sólarhitinn fór vaxandi fyrri hluta dagsins og reykur frá sprengingum og skriðdrekum slævði skyggnið til muna.

 

Hávaði frá vélum, sprengjum og vélbyssum olli því að menn heyrðu ekki hver í öðrum. Hermenn bandamanna og ökumenn skriðdreka lentu í vandræðum með að halda áttum.

 

Þrátt fyrir ringulreiðina lék aldrei vafi á því hvernig bardaginn gekk – bandamenn settu gríðarlegan þrýsting á Þjóðverja. Hitler fékk skilaboð um að Norður-Afríkuherinn ætti í vök að verjast.

 

Í örvæntingu sinni rak Foringinn Erwin Rommel upp úr hvíldarsænginni og sendi hann til vígstöðvanna með flugvél gegnum Ítalíu og Krít. Rommel kom til vígstöðvanna að kvöld 25. október og varð strax ljóst að staðan var afleit.

 

Bretar tóku ekki fanga

Þann 26. október réðust breskir skriðdrekar á skotgrafir Ítala að baki jarðsprengjusvæðinu. Margar breskar hersveitir höfðu fengið skipanir um að taka ekki fanga.

 

Enginn tími mátti fara til spillis. Ekkert mátti hægja á sókninni, jafnvel þótt það þýddi að allir mannúðarsáttmálar væru fótum troðnir.

 

„Fyrstu skotgrafirnar sem við komum að voru fullar af ítölskum hundingjum. Við gerðum langa sögu stutta. Við keyrðum meðfram skotgröfunum og köstuðum handsprengjum í hausinn á þeim og kölluðum: Egg í morgunmatinn!“ sagði breskur skriðdrekahermaður síðar.

 

Rommel varð nú fyrst ljóst hvar Bretar ætluðu sér að ryðjast í gegn. Þýskir og ítalskir skriðdrekar voru sendir til gagnárásar á hæðardragi sem kallaðist „Kidney Ridge“ og þar sóttu menn og hörfuðu á víxl.

„Aðstæðurnar hér gætu ekki verið verri. Ég vona að við höfum þetta af.“

Erwin Rommel í bréfi til konu sinnar.

Þegar dagur var að kvöldi kominn hafði ítölsku skriðdrekunum fækkað úr 41 í 2. Oft lokaðist áhöfnin inni í skriðdrekanum og fórst í eldinum, ýmist vegna þess að neyðarútgangar höfðu hrokkið í baklás eða voru komnir á kaf í sand.

 

Hermennirnir fyrir utan hlustuðu á neyðarópin. Margir ákölluðu mæður sínar.

 

„Sumir skriðdrekar keyrðu sjálfir áfram eftir að þeir höfðu orðið fyrir skoti og stóðu í ljósum logum. Mennirnir voru dauðir eða deyjandi. Skriðdrekarnir voru eins og stór, sjálfkeyrandi líkbrennsla þar sem fótur dauðs manns stóð enn á inngjöfinni,“ skrifaði breskur yfirmaður.

Morgunin 27. október brutust nokkrir breskir Crusade-skriðdrekar gegn um varnarlínur Þjóðverja.

Hægt og bítandi boruðu Bretar sig dýpra inn í varnarlínuna. Að kvöldi 28. október skrifaði Rommel í bréfi til Luciu, konu sinnar:

 

„Bardagarnir eru mjög harðir. Enginn getur ímyndað sér undir hversu miklu álagi ég er. Enn einu sinni er allt undir. Aðstæðurnar hér gætu ekki verið verri. Ég vona að við höfum þetta af.“

 

Dýrkeyptur sigur

Aðföng Rommels voru nú á þrotum. Hann hafði ekki lengur neitt til að setja í staðinn fyrir eyðilagðan skriðdreka, fallbyssu, olíutunnu eða fallinn hermann. Her hans varð berskjaldaðri með hverjum klukkutímanum sem leið.

 

Klukkan 11.00 þann 2. nóvember veitti Montgomery svo náðarhöggið. Hann sendi 94 skriðdreka og 400 fótgönguliða gegnum víglínuna.

 

En þessi lokaárás var dýr. Aðeins 19 skriðdrekar og 170 örþreyttir hermenn náðu upp á hæðardragið Tel el Aqqaqir og gátu þaðan sent upplýsingar um aðgerðir Rommels.

Montgomery gerði alltaf mikið úr eigin verðleikum og hann lenti því upp á kant við Churchill.

Eyðimerkurrottan keppti við Eisenhower

Montgomery var trompás Churchills. En eftir sigurinn í Norður-Afríku þurfti hann að lúta í lægra haldi fyrir yfirhershöfðingja Bandaríkjanna.

 

Bernard Montgomery var fæddur í London 1887 og sonur biskups. Hann útskrifaðist frá konunglega herskólanum Sandhurst 1908 og starfaði síðan árum saman í Indlandi sem þá var eins konar krúnudjásn breska heimsveldisins. Þaðan lá leið hans í skotgrafirnar í Frakklandi. Þar fékk hann skot í brjóstkassann 1914 og særðist alvarlega.

 

Hann sneri aftur tveimur árum síðar og var orðinn aðstoðarhershöfðingi 1918. Árið 1938 var honum falin yfirstjórn breska hersins í Palestínu og í júlí 1942 fól Churchill honum forystu fyrir 8. hernum í Lýbíu.

 

Í desember 1943 fékk Montgomery yfirstjórn þess landhers Breta sem taka átti þátt í innrásinni á meginlandið. Það var þó ekki nóg fyrir þennan metnaðargjarna hershöfðingja.

 

Hann óskaði eftir stöðu yfirhershöfðingja yfir bæði breskum og bandarískum hersveitum á D-dag en fékk ekki. Bandaríkjamenn vildu sinn mann, Eisenhower hershöfðingja og Churchill varð að lúta því.

 

Á blaðamannafundi setti Montgomery spurningarmerki við færni Eisenhowers. Minnstu munaði að Churchill svipti hann stöðu sinni en gerði hann á endanum að yfirmanni bresku varnarsveitanna í Evrópu.

Rommel sendi 60 skriðdreka til að loka gatinu en breskar fallbyssur og flugvélar studdu við hina fámennu hersveit. Þegar sólin settist áttu Þjóðverjar aðeins 30 skriðdreka eftir.

 

Þýski hershöfðinginn gaf nú upp alla von. Aftur skrifaði hann konu sinni: „Erfiðir dagar eru framundan. Hinir látnu eru heppnir. Hjá þeim er þessu lokið. Örlög okkar eru í Guðs höndum. Ég kveð þig og litla soninn okkar.“

 

Hann var búinn að gera sér ljóst að innan tíðar myndu hersveitir bandamanna streyma í gegnum gatið í varnarlínunni eins og vatn fossar í gegnum brostna stíflu.

 

Rommel ákvað að bjarga því sem eftir var af hernum og gaf skipun um að hörfa. Tugþúsundum saman flúðu Þjóðverjar og Ítalir til smábæjarins Fuka um 100 km vestan við El-Alamein.

„Þetta er ekki endirinn. Heldur ekki upphafið að endinum. En kannski endir upphafsins.“

Winston Churchill eftir sigurinn við El-Alamein.

Fyrst voru þó gerðar ráðstafanir til að eyðileggja þær birgðir sem eftir voru. Sprengingar og reykur frá meira en 12.000 tonnum af skotfærum vörpuðu nánast dómsdagsblæ á eyðimörkina.

 

Í stað þess að elta flóttann og gera út af við her Rommels, fór Montgomery gætilega. Hann vildi ekki eiga á hættu að glata hinum dýrkeypta ávinningi af sigrinum með annarri orrustu gegn Rommel sem síðustu tvö árin hafði hvað eftir annað tekist að rjúfa fylkingararma og koma Bretum í opna skjöldu.

Í fyrsta sinn síðan stríðið braust út tveimur árum fyrr, gátu Bretar loksins hrósað sigri í orrustu.

Um veturinn var Rommel á stöðugu undanhaldi. Baráttunni um Norður-Afríku lauk í örvæntingarorrustu gegn Bretum í Túnis, þar sem 140.000 Ítalir og 100.000 Þjóðverjar gáfust upp 13. maí 1943.

 

Þá var Rommel reyndar farinn til Evrópu, þar sem Hitler hafði falið honum nýtt stórverkefni. Hann átti að undirbúa varnir fyrir innrás bandamanna á meginland Evrópu.

 

Bretar náðu Eyðimerkurrefnum aldrei á sitt vald en þýsk-ítalska ævintýrinu í Norður-Afríku var lokið og Þriðja ríkið eygði aldrei aftur von um að ná olíulindunum á Arabíuskaga.

 

Í endurminningum sínum skrifaði Churchill: „Fyrir Alamein höfðum við aldrei sigrað. Eftir Alamein töpuðum við aldrei.“

Erwin Rommel var lengi ein af helstu hetjum Hitlers en endaði ævina í ónáð.

Eyðimerkurrefurinn neyddur til sjálfsmorðs

Hitler hafði mikið álit á Rommel en haustið 1944 setti hann honum úrslitakosti: að taka eitur eða deyja með skömm.

 

Rommel fæddist árið 1891 í Heidenheim um 110 km norðvestur af München. Hann langaði að læra verkfræði en faðir hans krafðist þess að hann færi í hermennsku.

 

Hann gekk í herinn 1910, þá 19 ára og þegar stríðið braust út 1914 var hann þegar orðinn lautinant. Augljósir leiðtogahæfileikar leiddu til kapteinstignar og hann var sæmdur járnkrossinum.

 

Árið 1937 gaf hann út bók um hernaðarlist fótgönguliða. Hitler las bókina og varð svo hrifinn að hann gerði Rommel að herforingja yfir 7. skriðdrekaherdeildinni sem réðist inn í Frakkland í maí 1940.

 

Árið 1941 skipaði Hitler hann yfirmann „Deutsches Afrikakorps“ sem ætlað var að hertaka Kaíró og Nílardalinn. Í júní 1942 fékk hann titilinn yfirhershöfðingi.

 

Snúinn aftur til Evrópu tveimur árum síðar tók hann í sig kjark og varaði Hitler við því að Þjóðverjar væru á barmi ósigurs og hvatti til uppgjafar en án árangurs.

 

Skömmu síðar setti hershöfðinginn Ludwig Beck sig í samband við Rommel og bað hann um að skipuleggja banatilræði við Hitler.

 

Rommel afþakkaði en stakk upp á því að Hitler yrði dreginn fyrir dóm. Hitler fékk fregnir af þessum svikum og þann 14. október 1944 fékk Rommel skilaboð: Sviptu þig lífi og fáðu viðhafnarútför eða sættu ákæru fyrir landráð. Rommel valdi sjálfsmorðið. Opinber skýring nasista var sú að Rommel hefði látist úr blóðtappa.

LESTU MEIRA UM EL-ALAMEIN

 • Stephen Bungay: Alamein, Aurum Press, 2007

 

 • Niall Barr: Pendulum of War: The Three Battles of El Alamein, Jonathan Cape, 2004

 

 • Ken Ford: El Alamein 1942: The Turning of the Tide, Osprey, 2005

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Morten Rendsmark

© Imperial War Museums,© Polfoto/Topfoto,© All Over Press/Getty Images,© Imperial War Museums & Scanpix,© Imperial War Museums,© Polfoto/Topfoto,© ullstein bild

Náttúran

Þannig sigruðu fuglaköngulærnar allan heiminn

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Heilsa

Óhefðbundin en áhrifarík meðferð geðraskana

Heilsa

Óhefðbundin en áhrifarík meðferð geðraskana

Læknisfræði

Þannig má vinna bug á ógleði

Náttúran

Horfðu á myndskeiðið: Ný tegund risaslöngu fannst í Amasonregnskóginum

Lifandi Saga

Hvenær eignuðumst við grasflatir?

NÝJASTA NÝTT

Heilsa

Rannsókn: Þekkt sætuefni sem m.a. er notað er í tannkrem getur aukið hættu á hjartasjúkdómum

Lifandi Saga

Ævilöng barátta Arthurs Conan Doyle við Sherlock Holmes

Maðurinn

Er íþróttafólk í meiri hættu á að fá hjartastopp?

Maðurinn

Hvaða áhrif hefur þungunarrof á heilsu kvenna?

Náttúran

Lengri en strætisvagn: Slanga á Indlandi gæti hafa verið stærsta slanga heims

Náttúran

Af hverju stinga moskítóflugur mest á kvöldin?

Náttúran

Tungan: Svissneskur vasahnífur dýraríkisins

Lifandi Saga

EM í fótbolta: Enginn nennti að verða Evrópumeistari

Lifandi Saga

Fótbolti: Sjálfsmark kostaði landsliðsmann lífið

Náttúran

Af hverju sveigir bolti?

Heilsa

Rannsókn: Þekkt sætuefni sem m.a. er notað er í tannkrem getur aukið hættu á hjartasjúkdómum

Lifandi Saga

Ævilöng barátta Arthurs Conan Doyle við Sherlock Holmes

Maðurinn

Er íþróttafólk í meiri hættu á að fá hjartastopp?

Maðurinn

Hvaða áhrif hefur þungunarrof á heilsu kvenna?

Náttúran

Lengri en strætisvagn: Slanga á Indlandi gæti hafa verið stærsta slanga heims

Náttúran

Af hverju stinga moskítóflugur mest á kvöldin?

Náttúran

Tungan: Svissneskur vasahnífur dýraríkisins

Lifandi Saga

EM í fótbolta: Enginn nennti að verða Evrópumeistari

Lifandi Saga

Fótbolti: Sjálfsmark kostaði landsliðsmann lífið

Náttúran

Af hverju sveigir bolti?

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Náttúran

Snjöll skordýr hafa fundið upp bestu brellur náttúrunnar

Náttúran

Snjöll skordýr hafa fundið upp bestu brellur náttúrunnar

Jörðin

Veðrið er hlaupið í baklás

Jörðin

Veðrið er hlaupið í baklás

Lifandi Saga

Hvaðan eru indíánar?

Menning

Muhammad Ali: Versti andstæðingur hans var BNA 

Tækni

Er gler í rauninni vökvi?

Lifandi Saga

Upphafsár slökkviflugvéla: Óttalausir flugmenn réðust gegn eldinum

Vinsælast

1

Lifandi Saga

Fótbolti: Sjálfsmark kostaði landsliðsmann lífið

2

Náttúran

Af hverju stinga moskítóflugur mest á kvöldin?

3

Lifandi Saga

EM í fótbolta: Enginn nennti að verða Evrópumeistari

4

Maðurinn

Rannsókn: Hvernig færðu aðra til að líka vel við þig?

5

Maðurinn

Hvaða áhrif hefur þungunarrof á heilsu kvenna?

6

Maðurinn

Er íþróttafólk í meiri hættu á að fá hjartastopp?

1

Náttúran

Af hverju stinga moskítóflugur mest á kvöldin?

2

Maðurinn

Hvaða áhrif hefur þungunarrof á heilsu kvenna?

3

Maðurinn

Er íþróttafólk í meiri hættu á að fá hjartastopp?

4

Náttúran

Lengri en strætisvagn: Slanga á Indlandi gæti hafa verið stærsta slanga heims

5

Náttúran

Tungan: Svissneskur vasahnífur dýraríkisins

6

Lifandi Saga

Ævilöng barátta Arthurs Conan Doyle við Sherlock Holmes

Heilsa

Vísindamenn hafa loksins leyst barnadauðaráðgátu.

Lifandi Saga

Hin voldugu turnskip Kínverja þoldu hvorki öldugang né vind 

Lifandi Saga

Hvers vegna hættum við að nota einglyrni?

Náttúran

Tungan kom lífinu upp á þurrlendið

Lifandi Saga

Hver var æpandi múmían?

Maðurinn

Er hægt að þreytast af fersku lofti?

Lifandi Saga

Hvers vegna lítur dagatal svona út?

Tækni

Óvinsæl flugsæti eru öruggust

Lifandi Saga

Búdda skapaði paradís – fyrir karla

Heilsa

Vísindamenn uppgötva óvænta orsök útbreiðslu krabbameins

Náttúran

Moskítóflugur: Hvað elska þær og hvað hata þær?

Maðurinn

Höfuðkúpan getur afhjúpað sjúkdóm

Rannsókn: Þekkt sætuefni sem m.a. er notað er í tannkrem getur aukið hættu á hjartasjúkdómum

Í ljós kom að einstaklingar með þetta sætuefnið í blóði sínu var í aukinni hættu að fá hjarta- og æðasjúkdóma.

Heilsa

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

 • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
 • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
 • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
 • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
 • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
 • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
 • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.