Lifandi Saga

1942 – Upphafið að endalokunum: Orrustan um Midway á að gjöreyða flota BNA

Í júni 1942 siglir voldugur floti japanskra herskipa í átt að Midway til að lokka leifarnar af Kyrrahafsflota BNA í gildru. En Bandaríkjamönnum hefur tekist að ráða dulmálslykil Japana og US Navy er tilbúinn í slaginn.

BIRT: 16/01/2024

Þokan liggur eins og þykkt teppi yfir sjávarborðinu og myndar draugalega stemningu meðan tröllaukna japanska flotadeildin Kido Butai sker sig í gegnum öldurnar þann 3. júni 1942. Hún stefnir á tvær litlar kóraleyjar þar sem er að finna bandarísku herstöðina Midway.

 

Fram til þessa hefur japanski flotinn reynst vera ósigrandi en engu að síður er andrúmsloftið spennu þrungið meðal herforingja í brúnni á hinu 260 metra langa flugmóðurskipi Akagi. Yfirmaðurinn á því, varaaðmírállinn Nagumo, er áhyggjufullur.

 

„Hvar er floti óvinarins?“ spyr hann upphátt.

 

Enginn getur svarað honum, enda veit enginn hvaða óvinur það er sem bíður þeirra í þokunni. Hins vegar vita þeir allir að Bandaríkjamenn eru einhvers staðar nærri og líkast til mættir með allan þann slagkraft sem þeir búa yfir.

 

Leiðangur Nagumos felst í að leggja undir sig Midway sem eins og nafnið gefur til kynna liggur í miðju Kyrrahafi milli Asíu og Ameríku. Kóraleyjurnar sjálfar skipta í raun litlu máli.

Önnur eyja Midway er þakin flugbrautum fyrir fjölda flugvéla. Hin eyjan er nýtt undir ratsjárstöðvar og Midway er því í raun ein stór herstöð.

Snjallt bragð afhjúpar fyrirætlanir Japana

Bandarískur dulmálsfræðingur leggur gildru fyrir óvininn til að sanna að Midway sé skotmarkið.

 

Japanski dulmálskóðinn JN 25 samanstendur af um 45.000 þriggjastafa tölum sem allar standa fyrir orð eða setningu. Vorið 1942 tekst bandarískum dulmálssérfræðingum að ráða kóðann og þann 8. maí tekst hlerunarstöðinni Hypo á Hawaii að greina árásaráform Japana gegn skotmarki sem þeir nefna AF.

 

Flotakafteinninn Joseph Rochefort er yfirmaður hlerunarstövarinnar Hypo og hann er sannfærður um að AF sé Midway. Yfirmenn hans í Washington eru ekki sama sinnis og því leggur Rochefort gildru fyrir Japana.

 

Hann fær útvarpsstöð á Midway til að senda tilkynningu um að ferskvatnsbirgðir eyjarinnar séu á þrotum vegna bilunar í hreinsibúnaði – og Japanar bíta á agnið. Ekki líður á löngu þar til dulmálssérfræðingar Rocheforts geta staðfest japanska tilkynningu um að vatn skorti á AF.

 

Japanar skipta um dulmálskóða skömmu fyrir orrustuna um Midway en þá vita Bandaríkjamenn nógu mikið um væntanlegar aðgerðir þeirra.

Þó vissulega gæti verið nytsamleg útstöð Japana þar, mun nær BNA en nokkur önnur japönsk herstöð. Eiginlegt markmið leiðangursins er hins vegar að lokka bandaríska Kyrrahafsflotann fram úr leynum og gjöreyðileggja hann í eitt skipti fyrir öll.

 

Japanar eru vissir um að Bandaríkjamenn muni ekki gefa Midway baráttulaust. Þeir muni því senda US Navy til að berjast – og þá getur Kido Butai sökkt bandarísku flugmóðurskipunum niður í djúp hafsins.

 

Nagumo óttast þó að það muni ekki ganga jafn snurðulaust fyrir sig eins og raunin var hálfu ári áður í Pearl Harbor.

 

BNA leggur allt í sölurnar

Bandaríska flugmóðurskipið Yorktown er í bágbornu ástandi þegar það nálgast Midway þennan sama dag. Japanar náðu nýlega að varpa sprengjum á skipið í bardaga við Kóraleyjar norðaustur af Ástralíu og verkamenn í skipasmíðastöðinni í Pearl Harbor hafa einungis fengið 72 tíma til að gera við verstu skemmdirnar.

Flugvélar skiptu sköpum í orrustunni um Midway (1)

Japan: Mitsubishi A6M Zero

Gerð: Orrustuflugvél

Hámarkshraði: 533 km/klst.

Drægi: 3.105 km

Vopn:  2 x 7,7 mm vélbyssur og 2 x 20 mm fallbyssur

Sprengjufarmur: 120 kg

 

Frammistaða við Midway

♠ ♠ ♠ ♠ ♠

BNA: Grumman F4F Wildcat

Gerð: Orrustuflugvél

Hámarkshraði: 531 km/klst.

Drægi: 1.360 km

Vopn: 4 x 12,7 mm vélbyssur

Sprengjufarmur: 90 kg

 

Frammistaða við Midway

Um borð hefur þurft að stífa af mörg rými með voldugum bjálkum. Æðstráðandi um borð er Frank Jack Fletcher varaaðmíráll og hann er svo úrvinda eftir langan tíma til sjós og í bardögum að hendur hans skjálfa lítillega þegar hann hittir Chester Nimitz aðmírál á Hawaii, yfirmann Kyrrahafsflotans.

 

En nú gefst ekkert færi á að hvíla sig og safna kröftum. Bandaríkjamenn hafa ráðið japanska dulmálskóðann og hlerað loftskeyti um yfirvofandi árás á Midway í náinni framtíð. Fletcher er ætlað að stöðva óvininn og fer hann fyrir þremur tiltækum flugmóðurskipum Kyrrahafsflotans. Glatist þau er öllu lokið.

 

Japanar gera fyrstir árás

Þegar sólin rís yfir Midway þann 4. júní situr hinn sautján ára gamli loftskeytamaður Harry Ferrier tilbúinn í átök í Avenger-tundurskeytavél sinni ásamt flugmanni og skyttu.

 

Um sex leytið heyrir hann tilkynningu í heyrnartólum sínum: „Flokkur óvina í sigti, 320 gráður, fjarlægð 150 sjómílur“. Árásarflokkur 108 japanskra flugvéla er á leiðinni til Midway.

Ekki ein einasta bandarísk sprengja eða tundurskeyti hittir skotmark sitt og einungis 33 af 51 flugvél frá Midway snúa heim.

Sex Avenger-flugvélar, þar á meðal vél Harry Ferriers, taka strax á loft. Þeim er ekki ætlað að verja Midway, heldur ráðast á japönsku flugmóðurskipin. Harry Ferrier er glaður í bragði. Loksins fær hann að taka þátt í bardaga!

 

Eftir því sem hópur Harrys – og 45 aðrar bandarískar flugvélar – fjarlægjast Midway taka reykjarstrókar að stíga upp frá eyjunum þegar Japanar varpa sprengjum á bandarísku herstöðina.

Fjögur japönsku flugmóðurskipin í orrustunni um Midway voru öll orðin frekar gömul. Helmingur þeirra, eins og Kaga á myndinni, voru einnig umbreytt orrustubeitiskip.

Þrátt fyrir að Midway sé vel varin verður eyðileggingin mikil. Það kviknar í eldsneytistönkum og margar byggingar eru sprengdar en einungis tíu japanskar flugvélar eru skotnar niður.

 

Árás Bandaríkjamanna misheppnast hins vegar hrapallega. Ekki ein einasta bandarísk sprengja eða tundurskeyti hittir skotmark sitt og einungis 33 af 51 flugvél frá Midway snúa heim.

 

Bandarísku sprengjuflugvélarnar og tundurskeytavélarnar fá enga vörn, þar sem þær fáu orrustuflugvélar sem eru til taks, þurfa að verja Midway-eyjarnar og hinir reyndu japönsku flugmenn fara létt með að tína hægfara bandarískar flugvélar niður af himninum, enda eru flugvélar þeirra mun hraðskreiðari.

 

Hjá Ferrier breytist eftirvæntingin skjótt í skelfingu. Svarmur Zero-flugvéla kasta sér yfir sex einmana Avenger-flugvélar. Harry sér síðan félaga sína vera skotna niður einn af öðrum.

Japönsku Zero orrustuflugvélarnar sem réðust á Midway frá flugmóðurskipunum voru einfaldar en mjög svo skilvirkar.

Vélbyssukúlur dynja einnig á flugvél hans og ein þeirra strýkst við höfuð hans. Harry missir meðvitund og þegar hann raknar úr rotinu finnur hann blóðið fossa niður andlit sitt. Á bak við hann er skyttan samanhnipruð og dáin.

 

Flugmaðurinn varpar tundurskeyti sínu í áttina að japönsku skipi en hann missir marks. Hann er samt svo lánsamur að sleppa undan Zero-orrustuflugvélunum. Harry lifir af þessa eldskírn en er í miklu áfalli. Á fáeinum mínútum hefur hann misst 16 af alls 17 félögum sínum í Avenger-hópnum.

 

Taktísk klemma aðmírálsins

Kido Butai hefur unnið fyrstu lotuna en Nagumo varaaðmíráll er mjög áhyggjufullur. Bandaríski flotinn hefur ekki ennþá komið í ljós. Hvar er hann og hversu stór er hann?

 

Nagumo hefur haldið eftir hluta af flugvélum sínum til að geta ráðist á bandarísku herskipin þegar þau dúkka upp. Sumar varaflugvélarnar eru með tundurskeyti en ennþá á eftir að vopna aðrar.

 

Þar sem nú þarf nýjan árásarflokk til að berja niður varnir á Midway tekur Nagumo afgerandi ákvörðun: Tundurskeytin skal fjarlægja. Allar varaflugvélar verða þess í stað búnar sprengjum til að ráðast á Midway.

 

Meðan sjóliðarnir vinna á fullu við flugvélarnar fær Nagumo tilkynningu sem gjörsamlega breytir forsendum fyrri ákvörðunar hans. Ein njósnaflaug Japana hefur komið auga á tíu bandarísk herskip – þar á meðal eitt flugmóðurskip – í um hálftíma flugstefnu í norðvestur!

 

Varaaðmírállinn er nú lentur í djöfullegri klemmu. Hann vill helst ráðast á flotann strax en sjóliðar hans hafa þegar náð að skipta út fjölmörgum tundurskeytum á flugvélum og komið fyrir sprengjum. Auk þess eru flugvélarnar frá fyrstu árásinni á Midway samtímis á leiðinni til baka og þurfa brátt að lenda til að verða ekki eldsneytislausar.

 

Tíminn er afar naumur. Ef Nagumo ræðst strax til atlögu verður hún að vera með takmörkuðum flugflota og hluti flugvélanna mun vera með rangan vopnafarm. Því kýs hann að bíða átekta og nota tímann í að undirbúa árás af fullum slagkrafti.

Japanir höfðu fleiri skip en BNA fleiri flugvélar

Herafli Japana
Flugmóðurskip:  4
Orrustuskip:  2
Beitiskip:  3
Tundurspillar:  12
Flugvélar: 248
Herafli Bandaríkjanna
Flugmóðurskip: 3
Orrustuskip: 0
Beitiskip: 9
Tundurspillar: 15
Flugvélar: 233/127 * (*Flugvélar á 3 flugmóðurskipum/Midway)

Á japanska flugþilfarinu ríkir algjör ringulreið. Tímapressan og skipti á vopnafarmi hefur leitt til þess að það er fullt af sprengjum og tundurskeytum á þilförunum. Auk þess er að finna þar eldsneytisslöngur sem liggja þvers og kruss út um allt. Japanska flugmóðurskipið er fljótandi púðurtunna.

 

Uppi í brúnni horfir Nagumo varaaðmíráll upp til himins og enn aukast áhyggjur hans. Ef hann bara nær að koma flugvélum sínum á loft áður en næsta árásarbylgja Bandaríkjamanna kemur til hans. Það skiptir sköpum.

 

US Navy er með forskot

Bandaríski flotinn nálgast í tveim flotadeildum til þess að mynda ekki eitt skotmark fyrir óvininn. Flugmóðurskipið Yorktown með fylgdarskipum myndar aðra eininguna en flugmóðurskipið Enterprise með fylgdarskipum hina.

 

Japanska njósnaflugvélin uppgötvar Yorktown klukkan 8.20 meðan Bandaríkjamenn hafa þegar um sexleytið getað staðsett japönsku flugmóðurskipin í um 200 sjómílna fjarlægð. US Navy hefur þannig risavaxið forskot og Frank Fletcher varaaðmíráll er fyrir löngu búinn að senda sínar flugvélar á loft.

 

Þegar Nagumo varaaðmíráll fær tilkynningu um bandarísku flugmóðurskipin eru meira en 100 bandarískar sprengjuflugvélar, tundurskeytavélar og orrustuflugvélar þegar á leiðinni í átt að honum.

Flugvélar skiptu sköpum í orrustunni um Midway (2)

Japan: Nakajima B5N Kate

Gerð: Tundurskeytavél

Hámarkshraði: 378 km/klst.

Drægi: 1.992 km

Vopn: 2 x 7,7 mm vélbyssur að aftan

Sprengjufarmur: Eitt tundurskeyti eða 750 kg af sprengjum

 

Frammistaða við Midway

♠♠♠♠

BNA: Douglas TBD Devastator

Gerð: Tundurskeytavél

Hámarkshraði: 331 km/klst.

Drægi: 1.152 km

Vopn: Ein framvísandi vélbyssa og önnur afturvísandi

Sprengjufarmur: Eitt 544 kg tundurskeyti eða 454 kg af sprengjum

 

Frammistaða við Midway

Þegar Nagumo fær sífellt fleiri tilkynningar um óvinveittar flugvélar sem nálgast verður honum ljós ógnvænleg staðreynd: Allar þessar flugvélar geta ómögulega komið frá einungis einu flugmóðurskipi!

 

Klukkan 9.20 hefur Nagumo endurheimt flugvélar sínar frá fyrstu árásarbylgjunni á Midway og nýjar flugvélar eru brátt að verða tilbúnar á þilfarinu með fulla eldsneytistanka og vopnafarm. Það er einungis spurning um nokkrar mínútur áður en þær fyrstu geta tekið á loft. En þær mínútur fær Nagumo aldrei.

 

Skyndilega eru Bandaríkjamenn yfir honum. Skip hans eiga í erfiðleikum með að forðast skothríðina og tundurskeytaárásir og þau stuttu hlé sem eiga sér stað eru notuð til að lenda Zero-orrustuvélum sem eru við það að verða eldsneytislausar.

 

Á Akagi liggur Mitsuo Futsita skipverji flatur á þilfarinu og sér marga hópa bandarískra tundurskeytavéla nálgast. Akagi getur alls ekki forðast svo mörg tundurskeyti, hugsar hann með sér. Enn og aftur reynast Zero-orrustuflugvélarnar frábærar.

 

Þær skjóta hverja tundurskeytavélina á fætur annarri niður og í hvert sinn má heyra fagnaðaróp frá áhöfninni um borð í Akagi. Enn einu sinni hefur árás Bandaríkjamanna orðið fallbyssufóður Japana.

Japanski varaaðmírállinn Nagumo, sem stjórnaði bardaganum frá flugmóðurskipinu Akagi, reyndi í örvæntingu að vernda flota sinn fyrir bandarískum flugvélum.

Í einni af flugvélunum frá 8. tundurskeytadeildinni sem að ræðst á japanska flugmóðurskipið og flýgur rétt yfir sjávarmáli situr lautinantinn George Gaye. Hann upplifir árásina sem eina langa martröð. Fyrst eru Devastator-flugvélarnar 15, síðan 14, 13, 12, 11 …

 

Að lokum er George Gaye einn um að gera árás. Hann berst við að forðast Zero-orrustuflugvélarnar og japanska loftvarnarskothríð og þegar hann er nærri einu japönsku flugmóðurskipi íhugar hann í stutta stund að láta sig hrapa niður á flugvélarnar á þilfarinu og sprengja allt í loft upp.

 

Ekki kemur þó til þess því nú er George Gaye einnig skotinn niður. Ægileg vélbyssuskothríð og 20 mm sprengjur frá Zero-orrustuflugvélum eyðileggja hæðarstýri flugvélarinnar og Devastor-flugvél hans skellur á sjávarborðinu.

 

Gaye rétt nær að klifra úr stjórnklefanum áður en Kyrrahafið gleypir flugvélina og loftskeytamann hans sem situr illa særður í vélinni. 8. tundurskeytasveit bandaríska flotans heyrir nú sögunni til.

 

Taflið snýst á fimm mínútum

Allt bendir til þess að Japanir muni sigra á ný. Bandaríkjamenn hafa þolað gríðarlegt tap meðan öll japönsku flugmóðurskipin eru óskemmd og flestar flugvélar tilbúnar að taka á loft.

Eins og gráðugir ránfuglar þjóta steypiflugvélarnar í krappri beygju lóðbeint niður að þremur japönskum flugmóðurskipum.

Margar bandarískar flugáhafnir hafa fórnað lífi sínu að því er virðist til einskis. En þá kemur að örlagaríku augnabliki í bardögunum sem veitir framtaki þeirra mikið vægi.

 

Hópur Dauntless-steypiflugvéla frá Enterprise hafa átt erfitt með að finna japönsku flugmóðurskipin en nú eru þær loksins komnar á vígvöllinn – nánast á sama tíma og flokkur steypiflugvéla frá Yorktown.

 

Steypiflugvélarnar nálgast flugmóðurskipin úr mikilli hæð einmitt þegar hetjuleg frammistaða tundurskeytavélanna hefur dregið Zero-orrustuflugvélarnar niður að sjávarborði og eru þær margar hverjar að verða skotfæralausar. Eins og gráðugir ránfuglar þjóta steypiflugvélarnar í krappri beygju lóðbeint niður að þremur japönskum flugmóðurskipum.

 

Á Akagi sér flotakafteinninn Mitsuo Fuchida dökka skugga óvinavélanna stækka í sífellu á himninum. Hann heyrir skelfilegt vælið frá fallandi sprengjum og þar á eftir margar ægilegar sprengingar sem fá skipið til að hristast óskaplega.

 

Hitabylgja skellur á honum meðan hann sér örvæntingarfullur æðandi eldhaf breiðast út um flugvélarnar sem eru með fulla eldsneytistanka og hvernig þær springa ein af annarri.

Flugvélar skiptu sköpum í orrustunni um Midway (3)

Japan: Aichi D3A Val

Gerð: Steypiflugvél

Hámarkshraði: 389 km/klst.

Drægi: 1.472 km

Vopn: 3 x 7,7 mm vélbyssur, tvær framvísandi og ein að aftan

Sprengjufarmur: 250 kg

 

Frammistaða við Midway

♠♠♠♠

BNA: Douglas SBD Dauntless

Gerð: Steypiflugvél

Hámarkshraði: 410 km/klst.

Drægi: 1.240 km

Vopn: 2 x 12,7 mm vélbyssur, tvær framvísandi og ein 1 x 7,62 mm að aftan

Sprengjufarmur: 1.020 kg

 

Frammistaða við Midway

♠♠♠♠♠

Akagi er dauðadæmt. Uppi í brúnni ákveður Negumo varaaðmíráll að yfirgefa sitt elskaða flaggskip gegn vilja sínum. Háttsettir liðsforingjar, þar með talinn Mitsuo Fuchida, yfirgefa skipið niður kaðalstiga. Einn þeirra heldur á mynd af keisaranum undir arminum.

 

Á einungis fimm-sex mínútum hefur staðan gjörbreyst. Flugmóðurskipin Akagi, Kaga og Soryu hafa fengið að kenna á steypiflugvélunum og standa í logandi ljósum.

 

Einungis flugmóðurskipið Hiryu er enn bardagafært. Það liggur í dágóðri fjarlægð norðan við hin flugmóðurskipin og steypiflugvélar US Navy taka ekki eftir því.

 

George Gaye lautinant er ennþá á lífi eftir að hafa hrapað með tundurskeytavél sinni. Hann liggur í lygnum sjónum og heldur utan um sætispúða úr flugvél sinni og fylgist með þegar Dauntless-vélarnar ráðast á skotmörk sín. Dásamleg sjón, hugsar hann.

 

Gaye upplifir hvernig eldurinn á næsta flugmóðurskipi „öskrar eins og gríðarstór fýsibelgur“. Mestur hluti af skipsskrokknum er rauðglóandi. Skömmu síðar sér George Gaye enn stórkostlegri sýn: Bandaríska sjóflugvél sem lendir og tekur hann um borð.

Auk japönsku flugmóðurskipanna tókst bandarísku orrustuvélum einnig að eyðileggja mörg japönsk fylgdarskip, til dæmis hið öfluga beitiskip Mikuma.

Japanar gera aðra árás

Japanar hafa orðið fyrir reiðarslagi en óbugaður baráttuvilji þeirra er enn til staðar. Á meðan Nagumo varaaðmíráll yfirgefur Akagi tekur flokkur VAL-steypiflugvéla á loft frá óskadda flugmóðurskipinu Hiryu. Í kjölfar þeirra kemur flokkur Kate-tundurskeytavéla.

 

Tamon Yamaguchi varaaðmíráll sem er yfirmaður um borð í Hiryu, stendur á flugþilfarinu og kveður hvern einasta flugmann sinn með handabandi áður en hann sendir þá af stað.

 

„Berjist vel“, segir hann.

Frá öðrum skipum gátu bandarískir sjómenn horft á félaga sína á flugmóðurskipinu Yorktown berjast fyrir lífi sínu.

Flugmennirnir vita að líkast til munu þeir allir deyja en enginn þeirra hikar við að gegna skyldum sínum fyrir keisara og föðurland. Einn flugmannanna er ekki með nægjanlega mikið eldsneyti til að ná til baka til Hiryu þar sem annar vængtankurinn er gegnumboraður eftir árásina um morguninn á Midway. Það stöðvar hann þó ekki.

 

Yorktown verður skotmark gagnárásar Japana. Fyrst hitta margar steypiflugvélar flugmóðurskipið og eftir þeim fylgja tundurskeytavélarnar. Þrátt fyrir að þeim mæti heiftarleg loftvarnarskothríð frá Yorktown ná margar flugvélar í gegnum þessar varnir og geta losað sig við banvæn tundurskeyti.

Japanskir flugmenn fljúga í gegnum ægilega loftvarnarskothríð og margar þeirra hitta skotmark sitt – flugmóðurskipið Yorktown.

Gular trjónur tundurskeytanna blika í sólinni áður en þau skella inn í skrokk Yorktown. Skömmu síðar fer flugmóðurskipið að hallast. Að lokum er slagsíðan heilar 26 gráður. Vélarnar stöðvast og þetta mikla herskip liggur hreyfingarlaust og hjálparvana í sjónum.

 

Áhöfnin fær skipun um að yfirgefa skipið. Fletcher varaaðmíráll hefur þegar yfirgefið Yorktown eftir fyrstu árásina frá steypiflugvélunum.

 

„Ég er of gamall fyrir þetta rugl“ stynur þessi 57 ára gamli yfirmaður þegar hann klifrar niður í bátinn.

Gríðarlegar vatnssúlur þeyttust í loft upp þegar tundurskeytin skullu á flugmóðurskipinu.

Flugmóðurskipið Yorktown sekkur að lokum

Áhöfnin nær að slökkva þrjá aðskilda elda sem sprengjuflugvélar óvinarins hafa orsakað en framlag þeirra er til einskis, þegar japanskur kafbátur hittir beint í mark.

 

Þrátt fyrir að hafa orðið fyrir fjölmörgum sprengjum og tundurskeytum helst flugmóðurskipið Yorktown enn á floti og US Navy berst í marga daga við að bjarga því. Menn vona að draga megi það til flotahafnarinnar Pearl Harbor á Hawaii og gera enn á ný við það.

 

Flokkur tundurspilla hefur slegið hring í kringum flugmóðurskipið en þvert á allar líkur tekst japanska kafbátnum I-168 að laumast í gegnum varnirnar. Skömmu eftir kl. 13 þann 6. júní skýtur kafbáturinn fjórum tundurskeytum. Eitt þeirra hittir tundurspilli sem sekkur samstundis en tvö önnur skella inn í síðuna á Yorktown. Eftir þessa vel heppnuðu árás tekst kafbátnum ofan í kaupið að sleppa undan.

 

Björgunarsveitir sem hafa verið settar um borð í flugmóðurskipið gefast upp á að reyna að bjarga því. En Yorktown neitar ennþá að gefast upp og það er fyrst um morguninn sem bryntröllið verður að játa sig sigrað.

 

Þetta stolta og sterkbyggða skip heldur þá loksins í sína síðustu ferð – 5.500 metra niður á botn Kyrrahafsins.

Hitt aftur og aftur

Flugmóðurskipið Yorktown skemmdist af völdum sprengja japanskra árásarflugvéla, en það var tundurskeyti frá kafbáti sem sökkti skipinu.

Náðarhöggið veitt

Japanar vita nú frá njósnaflugvélum sínum að US Navy er með þrjú flugmóðurskip en í fyrstu tekst einungis árásarhóp frá Hiryu að staðsetja Yorktown og sprengja það. Margar flugvélar glatast í árásinni.

 

Tamon Yamaguchi varaaðmíráll er nú með takmarkaðan flokk flugvéla en engu að síður ráðgerir hann nýja árás þegar það tekur að skyggja. Það verður þó aldrei af henni.

 

Um klukkan 15, tíu tímum eftir fyrstu árásina á Midway staðsetja steypiflugvélar frá Enterprise og Hornet síðasta flugmóðurskip Japana og veita því náðarhöggið.

Á ögurstundu breyttu Dauntless flugvélarnar ósigri í sigur.

Steypiflugvélarnar reynast enn og aftur afar hittnar og sprengjur þeirra kveikja í eldsneyti og skotbirgðum þannig að á örskömmum tíma umbreytist skipið í eitt eldhaf.

 

Þegar bandarísku flugvélarnar hverfa yfir sjóndeildarhringinn hringa síðustu Zero-orrustuflugvélarnar ennþá hið glataða Hiryu, nú án þess að geta nokkurs staðar lent. Um borð ákveður Yamaguchi varaaðmíráll að fara niður með skipi sínu.

 

Kido Butai, hryggjarstykkið í japanska flotanum, er nú rústir einar. Hópur fylgdarskipa án flugmóðurskipa sem þau geta fylgt. Chuichi Nagumo varaaðmíráll hefur tapað orrustunni. Japanski flotinn nær aldrei að endurvinna slagkraft sinn og yfirburði á Kyrrahafinu.

Eftir orrustuna gafst tími til að heiðra þá fjölmörgu bandarísku hermenn sem létu lífið í hinum afgerandi bardaga.

Japan missti yfir 3.000 menn

Orrustan við Midway kostaði 307 bandaríska hermenn lífið. 150 bandarískar orrustuflugvélar voru einnig skotnar niður af Japönum. Að auki misstu Bandaríkin einn tundurspilli og flugmóðurskip.

 

Orustann endaði hræðilega fyrir Japani. Alls létust 3.057 japanskir ​​hermenn í bardaganum. Allar 248 flugvélar japönsku flugmóðurskipanna voru ýmist skotnar niður eða hröpuðu í sjóinn því hvergi var hægt að lenda. Verst var þó að missa beitiskip og fjögur flugmóðurskip.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Christer Bergström

US Army, © Keystone/IB, © Horace Bristol/US Naval Aviation Photographic Unit, © Kibbe museum, © Bridgeman/IBL,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Fangar í útrýmingarbúðum fölsuðu peninga fyrir nasista

Heilsa

Vísindamenn: Blóðsýni afhjúpa elliglöp 15 árum fyrir einkenni

Maðurinn

Af hverju erum við með mismunandi blóðflokka?

Alheimurinn

Bilaðasta tilraun heims: Komdu með í ferðalag til endimarka alheims

Maðurinn

Getur kláði verið smitandi?

Alheimurinn

Jörðinni var bjargað af illa tvíbura sínum

Heilsa

Fjöldi daglegra salernisheimsókna getur haft afleiðingar fyrir heilsuna

Maðurinn

Genagalli gerir albínóa hvíta

Maðurinn

Hið fullkomna morð er dautt

Lifandi Saga

Teþorstinn knésetti stórveldi

Náttúran

Fræðimenn rýna í innsta eðli risaeðlanna 

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is