Þess vegna ættirðu að lesa greinina
Mörg okkar kljást við myrk skapgerðareinkenni á borð við kvalalosta, sjálfhverfu og siðblindu á misháu stigi.
Kynnist níu myrkum skapgerðareinkennum og komist að raun um hvað greinir að illsku og hluttekningu.
Skoðið störfin sem lostakvalarar og siðblindingjar sækjast eftir og kannið ykkar eigin myrku hliðar.
Líklega eruð þið ekki sú manngerð sem mylur í sundur meinlausar flugulirfur í kaffikvörn, ánægjunnar einnar vegna. Ímyndið ykkur þá að þið séuð neydd til að sitja og horfa á skelfilega langa og leiðinlega kvikmynd og lirfudráp sé eina önnur dægradvölin sem býðst til að þið deyið ekki úr leiðindum.
Nýverið var gerð tilraun sem fól í sér nákvæmlega þessa tvo valkosti og það vakti furðu hve margir voru tilbúnir til að mylja frekar lirfur en horfa á langdregnu kvikmyndina. Ef marka má vísindamennina að baki tilrauninni þarf ekki nema smávægileg leiðindi til að laða fram í mörgum okkar lostakvalarann.
Og ef þið búið yfir örlitlum kvalalosta er hætt við að þið hafið einnig yfir að ráða öðrum myrkum kenndum.
Kvalalosti er aðeins einn þáttur af illsku. Árið 2018 skráðu vísindamenn alls níu óþægileg skapgerðareinkenni sem öll stafa af einum og sama þættinum, þ.e. svokölluðum D-þætti sem skilgreinir hve langt við erum tilbúin að ganga til að fá okkar framgengt á kostnað annarra.
1-2 prósent íbúanna búa yfir mjög myrkum skapgerðareinkennum en tíu sinnum fleiri hafa þau í vægari mæli.
Þessi níu einkenni eiga að miklu leyti rætur að rekja til erfða og tengjast hvert öðru, þannig að þeir sem hafa tilhneigingu til kvalalosta eru mjög sennilega einnig sjálfhverfir og sjálfselskir.
En hvernig stendur eiginlega á því að framþróunin hefur leyft svo andfélagslegum og oft eyðileggjandi kenndum að erfast áfram? Jú, þetta er vegna þess að eilítil mannvonska getur stöku sinnum verið kostur.
Illska hefur fengið á sig sex nýjar hliðar
Þar til fyrir skemmstu einblíndu sérfræðingar einkum á þrenns konar grundvallareinkenni í persónuleika þegar þeir hugðust útskýra verstu hliðar mannsins: siðblindu, sjálfhverfu og svonefnt undirferli en svo kallast tilhneigingin til að ráðskast verulega með aðra til að fá sínu framgengt.
Þessi þrjú skapgerðareinkenni grundvallast öll á klínískum greiningum á skapgerðartruflunum og nefnast einu nafni myrka þrenningin (ens.: „dark triad“).
Árið 2018 bætti atferlissálfræðingurinn Ingo Zettler, Kaupmannahafnarháskóla, aukalegum sex þáttum við skilgreininguna á myrkum persónuleika. Hann var jafnframt fyrstur allra til að nota hugtakið D-þáttur, þar sem D stendur fyrir enska orðið „dark“ og kvað það vera undirliggjandi orsök allra eiginleikanna.
Hér eru níu verstu hliðar mannsins
Atferlissálfræðingur Ingo Zettler hefur greint níu myrk persónueinkenni sem öll stafa af svokölluðum D-þáttum:
1. Kvalalosti
2. Undirferli
3. Oflæti
4. Sjálfhverfa
5. Siðblinda
6. Sjálfselska
7. Sjálfsupphafning
8. Tillitsleysi
9. Illgirni
Þó svo að aukalegu skapgerðareinkennin sex eigi þátt í að skilgreina myrkan persónuleika má með sanni segja að þau séu öll léttvægari en siðblinda, sjálfhverfa og undirferli.
Versta einkennið, kvalalosti, er einungis talinn flokkast sem geðrænn sjúkdómur þegar hann sýnir sig í hrottafengnu kynferðislegu samhengi. Hin einkennin: sjálfselska, sjálfsupphafning, oflæti, illska og tillitsleysi teljast ekki vera sjúkleg skapgerðareinkenni.
Zettler komst að raun um D-þáttinn þegar hann útbjó spurningalista sem sneri að því að sannreyna dökku hliðarnar á persónuleika okkar.
Zettler og starfsbræður hans við tvo þýska háskóla, þ.e. Ulm og Koblenz Landau, báðu rösklega 2.500 tilraunaþátttakendur um að taka afstöðu til nokkurra staðhæfinga og láta í ljós hvort þeir væru sammála eða ósammála.
Staðhæfingarnar voru sem dæmi: „Ég veit að ég er sérstakur af því að fólk segir það“, „Gættu þess að áætlanir þínar henti þér sjálfum og ekki öðrum“ eða „Ég kætist af að særa aðra“.
Leiðindi geta dregið fram sadistann í mörgum okkar. Og ef þú ert með einn myrkan eiginleika eru miklar líkur á að þú sért með fleiri.
Sérhver setninganna fól í sér eitt eða fleiri myrku skapgerðareinkennanna níu og þegar rannsakendurnir skoðuðu svörin komust þeir að raun um að náið samhengi var á milli margra þeirra.
Algerir lostakvalarar voru iðulega einnig siðblindir. Þeir sjálfhverfu voru að sama skapi meira fyrir það gefnir en aðrir að hefja sjálfa sig upp á kostnað annarra og voru haldnir miklu oflæti, á meðan þeir sjálfselsku höfðu að öllu jöfnu einnig yfir að ráða skapgerð sem einkenndist af undirferli og tillitsleysi.
Ingo Zettler dró fyrir vikið þá ályktun að öll níu skapgerðareinkennin tengist að vissu leyti og að fáir greinist með eitt þeirra í miklum mæli án þess að hafa einnig tilhneigingu til nokkurra hinna myrku þáttanna.
Þetta gerði Ingo Zettler kleift að skilgreina sameiginlegan dökkan þátt sem skapgerðareinkennin níu eiga rætur að rekja til.
Taktu prófið: Hvaða einkunn færðu fyrir myrkar kenndir?
Fæst getum við sagst vera algerlega laus við snefil af dökku skapgerðareinkennunum sem D-þátturinn er samsettur úr.
Kynnist myrku skapgerðareiginleikunum níu og takið síðan prófið sem leiðir í ljós hvar á kvarðanum þið eigið heima.
D-þátturinn segir í stuttu máli til um tvennt: Í hve miklum mæli við sækjumst eftir því sem við viljum á kostnað annarra og svo hvernig við leitum eftir að réttlæta gjörðir okkar.
Þetta segir samt í raun og veru ekkert til um hvort við fáum því framgengt sem við sækjumst eftir, með ofbeldi eða svikum.
Hluttekning getur bæði gagnast og skaðað
Bæði dekkstu og björtustu skapgerðareinkenni okkar eru nátengd því hverjum augum við lítum samferðafólk okkar.
Sem hjarðdýr erum við algerlega háð því að geta skilið hvað samferðamenn okkar eru að hugsa og að geta sett okkur inn í tilfinningar þeirra. Þetta á við hvort heldur sem við hyggjumst starfa með þeim eða notfæra okkur þá.
Fyrir vikið erum við mennirnir útbúnir tvenns konar einstökum eiginleikum, þ.e. hluttekningu og innlifunargetu.
Hluttekning gerir okkur bókstaflega kleift að finna sjálf fyrir tilfinningum annarra en innlifunargetan gerir okkur fært að skilja hvers vegna öðrum líður á einhvern tiltekinn veg.
Þessir tveir eiginleikar gera okkur fær um að aðstoða aðra en geta á hinn bóginn einnig nýst til að ráðskast með þá og notfæra okkur þá.
Innsýn í aðra er lykillinn að illsku
Dökku þættirnir gera vart við sig í samspili milli hluttekningar og innlifunargetu okkar annars vegar og svo eigin hagsmuna hins vegar. Skilning á öðru fólki má bæði nota til að koma því að gagni og til að notfæra sér það.
1. Hluttekning skynjar tilfinningar annarra
Þegar við upplifum aðra sem þjást eða gleðjast, virkjast sama net í heilasvæðum (rautt) og það sem vinnur úr okkar eigin tilfinningum við svipaðar aðstæður. Hluttekningin gerir það að verkum að við skynjum sjálf tilfinningar annarra.
2. Innlifunargeta les hugsanir annarra
Við reynum stöðugt að skilja hvers vegna aðrir breyta líkt og þeir gera, hvað þeir hyggist fyrir, hvert sé þeirra næsta þrep, o.s.frv. Innlifunargetan á rætur að rekja til bleika heilanetsins sem er aðgreint frá netinu sem við notum til að velta fyrir okkur eigin lífi.
3. Hluttekning og innlifunargeta starfa saman
Netin tvö eru óháð hvort öðru og fyrir vikið er hægt að hafa yfir að ráða mikilli hluttekningu en slælegri innlifunargetu. Netin eiga þó einnig í samstarfi: Innlifunargetan getur t.d. sagt hluttekningunni að það sé meiðandi að verða fyrir einelti, jafnvel þó það sjáist ekki.
4. Sjálfsskynjun nýtir upplýsingarnar
Framlægu ennisblöðin hýsa sjálfsskynjun okkar (blátt) en þar ákvarðast hvernig við bregðumst við upplýsingum sem berast frá netunum tveimur. Hamingja annarra getur t.d. hæglega leyst úr læðingi öfund, ef okkur sjálfum finnst við einnig eiga það sama skilið.
Innsýn í aðra er lykillinn að illsku
Dökku þættirnir gera vart við sig í samspili milli hluttekningar og innlifunargetu okkar annars vegar og svo eigin hagsmuna hins vegar. Skilning á öðru fólki má bæði nota til að koma því að gagni og til að notfæra sér það.
1. Hluttekning skynjar tilfinningar annarra
Þegar við upplifum aðra sem þjást eða gleðjast, virkjast sama net í heilasvæðum (rautt) og það sem vinnur úr okkar eigin tilfinningum við svipaðar aðstæður. Hluttekningin gerir það að verkum að við skynjum sjálf tilfinningar annarra.
2. Innlifunargeta les hugsanir annarra
Við reynum stöðugt að skilja hvers vegna aðrir breyta líkt og þeir gera, hvað þeir hyggist fyrir, hvert sé þeirra næsta þrep, o.s.frv. Innlifunargetan á rætur að rekja til bleika heilanetsins sem er aðgreint frá netinu sem við notum til að velta fyrir okkur eigin lífi.
3. Hluttekning og innlifunargeta starfa saman
Netin tvö eru óháð hvort öðru og fyrir vikið er hægt að hafa yfir að ráða mikilli hluttekningu en slælegri innlifunargetu. Netin eiga þó einnig í samstarfi: Innlifunargetan getur t.d. sagt hluttekningunni að það sé meiðandi að verða fyrir einelti, jafnvel þó það sjáist ekki.
4. Sjálfsskynjun nýtir upplýsingarnar
Framlægu ennisblöðin hýsa sjálfsskynjun okkar (blátt) en þar ákvarðast hvernig við bregðumst við upplýsingum sem berast frá netunum tveimur. Hamingja annarra getur t.d. hæglega leyst úr læðingi öfund, ef okkur sjálfum finnst við einnig eiga það sama skilið.
Vísindamenn meta sem svo að einungis eitt til tvö prósent allra búi yfir mjög myrkum skapgerðareinkennum. Alls tíu til tuttugu prósent hafi yfir þeim að ráða í vægri útgáfu og að það nægi til þess að þeir einstaklingar sem um ræðir séu í ríkum mæli lygalaupar, svikahrappar eða ofbeldishneigðir.
Þeir sem búa yfir ríkulegum D-þætti eiga að öllu jöfnu erfiðara en aðrir með að spjara sig vel í lífinu. Þeir sem hafa yfir andfélagslegri hegðun að ráða, eru ofbeldishneigðir eða ráðskast með aðra, verða oft til trafala fyrir samfélagið og flosna upp úr hjörðinni.
15% allra fanga í fangelsum eru með siðblindueinkenni. Sömu sögu er að segja af 4-12% allra yfirstjórnenda.
Mýmargar rannsóknir hafa leitt í ljós að það borgar sig ekki til lengdar að vera óskammfeilinn og tillitslaus.
Ef um er að ræða verulega væg myrk skapgerðareinkenni geta þau á hinn bóginn orðið kostur og þess vegna er einkennin enn að finna í genamengi okkar.
Siðblinda gagnast stjórnendum
Mörg fyrirtæki sannreyna myrk skapgerðareinkenni starfsumsækjenda, ekki einungis til að koma upp um hugsanlegt eyðileggjandi atferli þeirra, heldur einnig vegna þess að eilítill skammtur af D-þætti kann í sumum tilvikum að gera fólk markvissara í starfi en ella.
Eitt þeirra einkenna sem kann að gagnast á vinnumarkaðinum er siðblinda.
LESTU EINNIG
Siðblindingjar eru nefnilega bæði mjög vel undir það búnir að taka áhættu og að láta til skarar skríða. Þeir gera það sem hugnast þeim, án þess að leiða hugann mikið að afleiðingunum fyrir aðra. Sú tegund af ískaldri óskammfeilni getur gagnast vel þegar viðkomandi er hátt settur í valdaröðinni og þarf að taka veigamiklar og oft óþægilegar ákvarðanir.
Margar rannsóknir hafa enn fremur gefið til kynna að á bilinu 4-12% allra yfirstjórnenda hafi yfir siðblindueinkennum að ráða sem er langtum hærra hlutfall en gerist og gengur meðal almennings, þar sem hlutfallið nemur einungis einu prósenti. Á hinn bóginn nálgast hlutfallið meðal yfirstjórnenda það sem gengur og gerist í fangelsum en talið er að um 15% allra fanga séu haldnir siðblindu.
Siðblindir eru oft markvissir og atorkusamir í vinnu og fyrir vikið eiga þeir meiri möguleika á að vinna sig upp á vinnustaðnum og verða yfirmenn.
Í svokallaðri safngreiningu frá árinu 2019 rannsakaði fyrirtækjasálfræðingurinn Marcus Crede sem starfar við Iowa ríkisháskólann, niðurstöður 92 rannsókna sem gerðar höfðu verið á siðblindum stjórnendum.
Þegar karlar voru skoðaðir kom í ljós að siðblindir höfðu meiri möguleika á að komast í stjórnendastöðu en aðrir og stóðu sig betur í starfinu. Hvað konur áhrærði var enginn merkingarbær munur á hvort siðblindar konur fengju frekar stjórnandastarf en aðrar konur en ef þær hins vegar fengu það, spjöruðu þær sig að öllu jöfnu slælegar en þær sem ekki voru haldnar siðblindu.
Þegar bæði kynin voru skoðuð kom í ljós að siðblindir áttu erfiðara með að hvetja starfsmennina til dáða.
Dökkir þættir auka líkur á frama í starfi
Vitað er að siðblinda er algengari meðal stjórnenda en annarra þjóðfélagshópa. Þetta stafar m.a. af því að siðblindir eiga auðveldara með að taka ískaldar ákvarðanir án þess að kippa sér upp við það. Rannsóknir hafa samt leitt í ljós að velgengni þeirra er takmörkuð.
1. Siðblindir setjast í forstjórastól
Væg siðblindueinkenni gagnast jafn vel eða síður þeim sem setjast í forstjórastól samanborið við þá sem ekki eru siðblindir (0 á Y-ásnum). Eftir því sem siðblindueinkennin verða greinilegri aukast möguleikarnir á að komast á toppinn.
2. Leiðir af sér niðurstöður að vissu marki
Stjórnendur með væg siðblindueinkenni standa sig verr en þeir sem engin siðblindueinkenni hafa (0). Eftir því sem siðblindueinkennin aukast komast siðblindir upp á sama þrep og þeir sem ekki eru siðblindir en eftir það dala áhrifin aftur.
3. Samstarfsmenn glata traustinu
Ef siðblindueinkennin eru engin eða væg hafa stjórnendur góða möguleika á að ávinna sér traust samstarfsmanna sinna og fá þá til að starfa að sameiginlegu markmiði. Eftir því sem siðblindueinkennin aukast, dalar traust starfsmannanna.
Leiðindi geta gert úr okkur sadista
Tvíburarannsóknir hafa leitt í ljós að skýra megi um tvo-þriðjuhluta af siðblindueinkennum okkar út frá erfðavísum og að aðeins sé við umhverfið að sakast í helmingi færri tilvikum.
Hvað sjálfhverfu áhrærir eiga 59% tilfella rætur að rekja til arfberanna og 41% stafar af umhverfisáhrifum. Undirferli stafar í langtum fleiri tilfellum af umhverfi heldur en við á um genin en hlutföllin nema hér annars vegar 69% og hins vegar 31%.
Þó svo að vísindamennirnir þekki ekki þá sérstöku arfbera sem valda myrku skapgerðareiginleikunum níu, þá virðist ýmislegt benda til þess að við öll höfum yfir einhverjum þeirra að ráða og að dökku hliðarnar liggi því í láginni hjá okkur.
LESTU EINNIG
Þetta á að minnsta kosti við um kvalalosta, líkt og Stefan Pfattheicher, sálfræðingur við háskólann í Árósum sýndi fram á árið 2020.
Með því að leggja fyrir þátttakendur spurningalista tókst Pfattheicher að sýna fram á samhengi milli kvalalosta og leiðinda. Fólk sem á það til að láta sér leiðast dags daglega sýnir oftar einkenni um kvalalosta en þeir sem létu sér sjaldan leiðast.
Hversdagskvalalostinn gerði m.a. vart við sig á þann hátt að fólki fannst skemmtilegt að skrifa illkvittnislega hluti á netinu og að horfa upp á aðra gera grín að börnum sínum.
Það var einnig Pfattheicher sem byrjaði að gera tilraunir með leiðinlegar kvikmyndir og flugulirfurnar. Til allrar hamingju voru þó einnig góðar fréttir innan um dökku niðurstöðurnar um kvalalosta og leiðindi:
Ef þátttakendunum bauðst að gera eitthvað annað til að losna frá leiðindunum en að drepa lirfur völdu flestir þann kostinn sem ekki fól í sér lirfudráp.