Hættulegustu dýr í heimi
Í heiminum öllum fyrirfinnast um 8,7 milljón dýrategundir og langflest dýrin eru sáraskaðlaus okkur mönnunum.
Á þessu eru þó undantekningar.
Það fyrirfinnast nefnilega margar tegundir dýra sem deyða margt fólk árlega með t.d. biti, eitri eða sjúkdómum.
Hættulegustu dýr í heimi eru:
- Flóðhestar
- Fílar
- Bandormar
- Krókódílar
- Tsetseflugur
- Spólormar
- Rántítur
- Vatnasniglar
- Hundar
- Slöngur
- Menn
- Mýflugur
Kynnist tólf hættulegustu dýrunum á yfirlitinu hér að neðan og sjáið hversu marga þau deyða.
12. Flóðhestar
Flóðhesturinn er ekki lengur hættulegasta dýrið í Afríku.
- Dauðsföll á ári: 500
Ef ljónið telst vera konungur gresjunnar, mætti kalla flóðhestinn óróasegginn á svæðinu og þess má geta að mönnum er ráðlegt að forðast þennan skapstygga risa.
Flóðhestar töldust fyrir skemmstu vera hættulegustu dýrin í Afríku en arftaka hans munum við kynnast aðeins neðar á listanum.
Flóðhestar leggja alls 500 manns að velli á hverju ári, m.a. með því að hvolfa bátum og brjóta þá með ógnarstórum kjaftinum, sem er með 826 kg bitstyrk.
11. Fílar
Mörg dauðsföll af völdum fíla eru aldrei tilkynnt því þau eiga sér stað í tengslum við veiðiþjófnað.
- Dauðsföll á ári: Yfir 500
Fíllinn er langstærsta dýrið á listanum, en þess má geta að það er skapofsi dýrsins og þörf fyrir að vernda sem kemur honum á listann en ekki löngunin í kjöt.
Erfitt er að segja nákvæmlega til um hversu margt fólk fílar deyða árlega því árekstrar á milli manna og fíla eru sjaldnast skráðir, þar sem í hlut eiga veiðiþjófar.
Í Kenýa voru samt skráð um 200 dauðsföll á árunum milli 2010 og 2017 sem áttu rætur að rekja til árekstra milli manna og fíla.
Í Sri Lanka eru níutíu manns álitnir hafa fallið fyrir fílum árlega frá árinu 2016. Þetta er haft eftir þarlendum fréttamiðli, Economy Next.
Á Indlandi er áætlað að um 400 manns verði fílum að bráð á ári hverju, samkvæmt upplýsingum indverskra yfirvalda.
LESTU EINNIG
10. Bandormar
Bandormur getur lifað í hýsli sínum áratugum saman og haft í för með sér banvænan sjúkdóm.
- Dauðsföll á ári: 700
Bandormar eru í hópi þeirra flatorma sem virðast vera sárameinlausir. Þeir hafa hins vegar tileinkað sér einkar óþægilegar lífsvenjur, þar sem þeir lifa sem sníkjudýr í m.a. mönnum.
Þar verpa þeir eggjum og þegar þau klekjast út í mönnum, og öðrum hryggdýrum, sýkist hýsillinn af sjúkdóminum cysticercosis, sem leggur að velli um 700 manns árlega.
Bandormurinn getur orðið á bilinu 4-10 metra langur og lifað í allt að 30 ár í hýslinum.
9. Krókódílar
Krókódílar eru komnir fram úr flóðhestum sem hættulegustu dýrin í Afríku.
- Dauðsföll á ári: 1000
Líkt og áður kom fram telst flóðhesturinn ekki lengur vera hættulegasta dýrið í Afríku. Það dýr sem tekið hefur við titlinum sem hættulegasta dýr Afríku er aftur á móti krókódíllinn.
Nákvæmur fjöldi látinna er ekki þekktur, en samtökin Food and Agricultural Organisation gera því skóna að um þúsund manns verði krókódílum að bráð árlega.
Krókódíllinn er hættulegasta dýrið í Afríku sökum þess að:
- Til er ógrynni stórra krókódíla og þeir geta fjölgað sér mjög ört.
- Krókódílar geta haldið sig mjög nærri mönnum án þess að þeirra verði vart.
- Upplýsingar um fjölda látinna eru mjög á reiki því engin ummerki eru um þá sem krókódílar éta. Þetta á einkum við um þá sem eru einir þegar ráðist er á þá. Því er talið að dauðsföllin séu enn fleiri.
8. Tsetseflugur
Tsetseflugur smita menn af svefnsýki þegar þær sjúga úr þeim blóð.
- Dauðsföll á ári: 3.500
Í áttunda sæti listans yfir hættulegustu dýr veraldar er að finna eitt minnsta dýrið – tsetsefluguna.
Íbúar fyrir sunnan Sahara eiga einkum á hættu af að látast af völdum svefnsýki. Sjúkdómur þessi kemur hins vegar ekki af sjálfu sér, heldur bera hann örlitlar flugur sem kallast tsetseflugur, en þær lifa á blóði annarra, m.a. manna.
Þegar flugan bítur getur hún borið með sér svefnsýki í fólk, þ.e.a.s. ef tsetseflugan er smituð.
Um 3.500 manns láta lífið af völdum svefnsýki ár hvert og eru einkennin höfuðverkur, hiti, liðverkir og kláði.
Þegar sjúkdómurinn er langt genginn leiðir hann til meðvitundarleysis og þaðan stafar heiti hans, þ.e. svefnsýki. Í Austur-Afríku gengur heiftarlegt afbrigði svefnsýkinnar, sem dregur fólk iðulega til dauða innan fárra vikna.
7. Spólormar
Spólormar geta leitt af sér hættulega sýkingu.
- Dauðsföll á ári: 4.500
Spólormar valda sýkingu í mönnum sem kallast ascariasis. Í 85% tilfella hefur sjúkdómurinn engin einkenni í för með sér, en einkennin geta þó gert vart við sig sem andnauð og sótthiti.
Spólormar eru afar sjaldséðir á Norðurlöndunum en algengir í öðrum hlutum heimsins. Slæm sýking getur haft í för með sér göt á þörmum, svo og gulu, en hvort tveggja getur dregið fólk til dauða ef kvillarnir eru ekki meðhöndlaðir.
Í rannsókn einni sem birtist í The Lancet árið 2013 kom fram að 4.500 manns létu lífið árlega af völdum spólorms.
LESTU EINNIG
6. Rántítur
Rántítur bera með sér svokallaðan Chagas-sjúkdóm, sem aðallega er bænvænn börnum.
- Dauðsföll á ári: 12.000
Rántítur hafa yfir að ráða sterklegum rana, sem þær bæði stinga og sjúga með. Þegar títurnar sjúga blóð úr mönnum geta þær borið með sér Chagas-sjúkdóm, sem er sníkjudýrasjúkdómur í hitabeltinu. Hann dregur um 12.000 manns til dauða ár hvert, einkum börn.
Sjúkdómseinkennin lýsa sér í fyrstu sem þrútin eymsli í kringum bitið.
Að örfáum vikum loknum fær sjúklingurinn síðan hita og finnur fyrir þreytu, auk þess sem bólga verður í eitlum, milta og lifur. Sé sjúkdómurinn ekki meðhöndlaður dregur hann tíu af hundraði til dauða.
5. Vatnasniglar
Þeir láta ekki mikið yfir sér, en vatnasniglar eru meðal hættulegustu dýra heims.
- Dauðsföll á ári: yfir 20.000
Vatnasniglar eru litlir og óásjálegir á að líta, en geta borið með sér sníkjuorm sem haft getur í för með sér sjúkdóminn schistosomiasis.
Einkennin stafa af viðbrögðum líkamans við eggjum sníkilsins og eru m.a.:
- Blóð í þvagi og hægðum
- Blöðrukrabbamein
- Nýrnabilun
- Lifrarbilun
Rösklega 200 milljónir eru sýktar á heimsvísu og sjúkdómurinn dregur ríflega 20.000 manns til dauða ár hvert, samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, sem vill meina að fjöldinn geti verið allt að 200.000.
Vatnasniglar er ljómandi dæmi um það að dýr þurfa ekki að vera ógnvænleg á að líta þótt þau geti verið banvæn.
4. Hundar
Að öllu jöfnu eru það ekki sjálfir hundarnir sem draga fólk til dauða, heldur veirusjúkdómurinn hundaæði, sem hundar geta sýkt okkur mennina af.
- Dauðsföll á ári: 59.000
Besta vin mannsins er einnig að finna á listanum. Ástæðan er þó engan veginn sú að hundar bíti eigendur sína á hol, heldur geta þeir borið með sér veiru sem veldur hundaæði.
Sjúkdómurinn getur greinst í mönnum ef þeir komast í tæri við munnvatn smitaðra hunda, t.d. eftir bit.
Alls 99% af um 59.000 árlegum dauðsföllum af völdum hundaæðis eiga rætur að rekja til hunda, ef marka má Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina. Sjúkdómurinn kann að sama skapi að smitast við það eitt að hundur með hundaæði sleiki opið sár.
Hundaæði er banvænn sjúkdómur, sem afar erfitt er að lækna. Flestir þeirra sem sýkjast af hundaveiki deyja innan tveggja vikna.
Um 99% af öllum sem veikjast af hundaæði hafa fengið það frá hundum, að mati WHO.
LESTU EINNIG
3. Slöngur
Til eru mjög margar eitraðar slöngur víða í heiminum og þannig komast slöngur á listann yfir hættulegustu dýr í heimi.
- Dauðsföll á ári: 100.000
Slöngur eru meðal hættulegustu dýra heims. Ár hvert metur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sem svo að á bilinu 81.000-138.000 manns láti lífið á heimsvísu af þeirra völdum.
2. Menn
Menn fremja mörg hundruð þúsund morð ár hvert og verma fyrir bragðið annað sætið.
- Dauðsföll á ári: 464.000
Í dapurlegum tölfræðigögnum frá Fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofu SÞ kemur fram að framin hafi verið um 464.000 morð á mönnum, af mönnum, árið 2017.
Þetta gerir manninn nánast að helsta óvini hans.
1. Mýflugur
Litla sakleysislega mýflugan er hættulegasta dýrið fyrir okkur mennina.
- Dauðsföll á ári: 1.000.000
Mýflugan er versti óvinur okkar og hættulegasta dýr veraldar. Þessi smágerða blóðsuga smitar mörg hundruð milljónir af sjúkdómum ár hvert og um ein milljón lætur lífið af hennar völdum.
Mýflugur eru fyrir bragðið sú dýrategund sem dregur hvað flesta til dauða.
Einn hættulegasti sjúkdómurinn sem mýflugur bera með sér er malaría, sem á sök á rösklega 400.000 dauðsföllum ár hvert.
Af öðrum lífshættulegum sjúkdómum nægir að nefna beinbrunasótt sem er banvænn í mörgum tilfellum og leggst aðallega á börn í Asíu og Suður-Ameríku.
Ekki hefur reynst gerlegt að fá tæmandi upplýsingar um fjölda þeirra sem hver dýrategund dregur til dauða og því skyldi líta á listann sem lauslegt yfirlit.