Ef þú skerð þig á beittum hníf, fellur harkalega eða færð bólgu í sár, veldur það líkamlegum sársauka.
Hann virkjar skyntaugar sem senda heilanum boð um sársaukann.
Þótt bæði karlar og konur hafi skyntaugar hefur lengi verið talið að kynin skynji sársaukann ekki á sama hátt. Fyrri rannsóknir hafa sýnt að karlar hafi hærri sársaukaþröskuld en konur.
Og nú hafa sérfræðingar hjá heilsuvísindasviði Arizonaháskóla í Bandaríkjunum fundið ástæðuna.
„Fram til þessa hefur verið álitið að sú taugavirkni sem veldur sársaukaskyni sé í grunninn eins hjá báðum kynjum,“ segir Frank Porreca sem er doktor og rannsóknastjóri hjá Verkja- og sársaukamiðstöðinni við Arizonaháskóla í fréttatilkynningu.
Þetta kynni nú að reynast rangt. Allavega sýnir þessi nýja rannsókn að það er kynbundinn munur á skyntaugaviðtökunum.
Grunngildin mismunandi
Við rannsókn sína notuðu vísindamennirnir hormónið prólaktín sem stýrir myndun brjóstavefs og boðefnið orexín sem er notað sem uppfrískandi lyf.
Áhrif þessara efna á skyntaugar voru skoðuð í sýnum úr nagdýrum, prímötum og mönnum.
„Við komumst að því að ákveðin grunngildi sem leiða af sér sársaukatilfinningu, eru mismunandi í karl- og kvenmúsum og sömuleiðis í karl- og kvenkyns prímötum og svo í körlum og konum,“ segir Frank Porreca.
Ryður brautina fyrir nýja meðhöndlun
Þessi tvö efni, prólaktín og orexín, auka næmi skyntauganna gagnvart sársauka. Vísindamennirnir sáu að prólaktín hafði áhrif á skyntaugar kvenkynsins en ekki karlkynsins. Orexín reyndist virka á taugar í karlkyninu en ekki kvenkyninu.
Árið 2018 fundu vísindamenn bandarískan strák sem fann ekki fyrir sársauka.Sem ungbarn brosti hann þegar hann var umskorinn, rétt eins og verið væri að kitla hann. Og níu mánaða gamall tuggði hann tá sína þar til tábeinið varð sýnilegt. Þetta sýnir að sársauki er nauðsynlegur. Við myndum deyja án hans.
„Það sem einkum vekur athygli er að til eru karlkynsskyntaugar og kvenkynsskyntaugar en það hefur ekki verið þekkt,“ segir Frank Porreca.
Vísindamennirnir segja að niðurstöðurnar muni nýtast til að ákvarða hvort meðhöndla beri sársauka með kynbundnum lyfjum.
Rannsóknin birtist í vísindatímaritinu Brain.