Thomas Edison, Viktoría Englandsdrottning, Henrik Ibsen, Jules Verne, Leó 13. páfi og forsetinn Ulysses S. Grant lýstu öll opinberlega yfir hrifningu sinni á rauðvíni með viðbættu kókaíni.
Þetta vinsæla vín var framleitt af franska efnafræðingnum Angelo Mariani á sjöunda áratug 19. aldar en drykkurinn samanstóð af kókaíni, sykri, rauðvíni og brennivíni. Hann kallaði drykkinn Mariani-vín og auglýsti hann sem kraftaverkadrykk og sagði drykkinn „styrkja og hressa upp á líkamann og heilann.“
Þessi vímuvaldandi drykkur öðlaðist strax miklar vinsældir, beggja vegna Atlantsála. Vinsældirnar stöfuðu ekki hvað síst af því að framleiðandinn hafði narrað marga þekkta einstaklinga til að koma fram í auglýsingum fyrir drykkinn.
Meðal þeirra var Leó 13. páfi sem var svo hrifinn af Mariani-víni að hann gekk ætíð með vasapela á sér til þess að geta fengið sér „hressingu þegar bænirnar þraut“.

Mariani tókst að fá marga fræga til að auglýsa vöru sína, en það var ekki vaninn á þessum tíma.
Áfengisbann gaf okkur kók
Vinsældir Mariani-vínsins gerðu það að verkum að margir freistuðu þess að gera eftirlíkingar og var ein þeirra Pemberton’s French Coca Wine sem bandaríski lyfjafræðingurinn John S. Pemberton tappaði á flösku árið 1885. Hann auglýsti að kókaín-vínið hans gæti læknað „höfuðverk, móðursýki og depurð“.
Að einungis einu ári liðnu var samþykkt áfengisbann í hluta af fylkinu Georgíu og Pemberton leysti rauðvínið af hólmi með sódavatni og breytti heitinu í Coca Cola. Drykkurinn innihélt þó áfram kókaín en í hverju glasi reyndust að meðaltali vera 9 mg af kókaíni. Til samanburðar má geta þess að hver lína af kókaíni sem fíkniefnaneytendur soga upp í nefið, inniheldur um 50 mg.

Coca Cola sem innihélt kókaín fyrstu árin, var aðallega markaðssett sem söluvara fyrir konur.
Það var svo ekki fyrr en á öndverðri 20. öld sem það upplýstist að kókaín væri í raun og veru ekki neitt kraftaverkalyf, heldur stórvarasamt efni sem gerði það að verkum að farið var að líta afurðir á borð við Coca Cola og Mariani-vín hornauga. Pemberton hætti að bæta kókaíni út í drykk sinn árið 1904 en drykkurinn innihélt engu að síður áfram koffín og hélt vinsældum sínum.
Mariani barðist fyrir að fá leyfi til að nota áfram kókaín í drykk sínum en hafði ekki erindi sem erfiði. Árið 1914 var honum bannað það með öllu. Mariani lést sama ár og ævintýradrykkurinn hans var tekinn úr sölu.
Eftir að hafa læknað Hitler af magaverkjunum fær læknirinn Theodor Morell leyfi til að gefa honum önnur lyf. Foringinn þjáist m.a. af einbeitingarörðugleikum og getuleysi. Á nokkrum vikum verður leiðtogi Þýskalands algerlega háður lækninum – og með metamfetamín í blóðinu hefur hann seinni heimsstyrjöld.