Lifandi Saga

Franklin D. Roosevelt: Leiddi Bandaríkin gegnum kreppu og stríð þó lamaður væri

Með pólitískum klókindum tókst Roosevelt að snúa kreppuhrjáðum Bandaríkjunum frá brún efnahagslegs hyldýpis og stýra þjóðinni af öryggi til sigurs í seinni heimsstyrjöldinni. Allt var þó undir því komið að leyndarmál hans yrði ekki opinbert.

BIRT: 01/12/2024

Þann 4. mars árið 1933 steig nýkjörinn 32. forseti Bandaríkjanna í ræðustól á Capitol Hill í Wasington og horfði yfir þau 150.000 sem safnast höfðu saman til að hylla hinn nýkjörna forseta.

 

Allt frá hruni hlutabréfamarkaðarins í New York árið 1929, höfðu Bandaríkin verið í djúpri efnahagskreppu – síðar þekkt sem „kreppan mikla“ – sem hafði gert milljónir manna atvinnulausar og veski þeirra jafn tóm og maga þeirra.

 

Roosevelt – almennt kallaður FDR – fékk í hendurnar vandasamt verkefni: Að lyfta þjóðinni upp úr kreppunni og breyta vonleysi landsmanna í trú á framtíðina. Innsetningarræða hans fór í sögubækurnar.

 

„Í dag hefst nýtt tímabil fyrir landið okkar. Þessi stolta þjóð mun blómstra að nýju og rísa aftur til þeirrar velmegunar sem áður var. Leyfið mér því fyrst að lýsa þeirri sannfæringu minni að það eina sem við þurfum að óttast er óttinn sjálfur – nafnlaus, ástæðulaus, óskynsamleg skelfing sem kemur í veg fyrir árangur af þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að snúa hnignun í framfarir,“ sagði hann.

Á palli fyrir framan Capitol Hill er FDR settur sem forseti 4. mars árið 1933.

Tónninn er ákveðinn og hann undirstrikar orð sín með áberandi höfuðhreyfingum.

 

Það er varla nokkur í mannfjöldanum sem veltir því fyrir sér hvers vegna hann – eins og aðrir góðir ræðumenn – notar ekki handahreyfingar til að leggja áherslu á orð sín. Það er gild ástæða fyrir því.

 

Hann notar hendurnar til að styðja sig við ræðupúltið því það eru aðeins stálspelkurnar sem hann ber frá mitti og niður sem tryggja að hann geti staðið uppréttur.

 

Fæstir Bandaríkjamanna vita að hinn sjálfsöruggi nýi forseti þeirra er fatlaður.

 

Milljónaarfur tryggði stjórnmálaferil

FDR var léttur á fæti áður en hann veiktist af lömunarveiki.

Franklin D. Roosevelt fæddist árið 1882 á heimili milljónamæringa nálægt Hudson ánni norðvestur af stórborginni New York. Hann var einkabarn og ólst upp við forréttindi sem fáir Bandaríkjamenn nutu.

 

Faðir hans var gamall og veikburða en móðir hans, Sara Roosevelt, var viljasterk og ótrúlega rík. Hún hafði erft milljónir dollara eftir föður sinn sem um miðja 19. öldina græddi stórfé á að flytja inn te og versla með ópíum í Kína.

 

Auður Roosevelt fjölskyldunnar gerði það að verkum að Franklin þurfti ekki að afla sér tekna og gat því sinnt stjórnmálaferli sínum án fjárhagsáhyggja.

 

Eldri frændi hans, Theodore Roosevelt, hafði verið forseti Bandaríkjanna og Franklin D. Roosevelt dreymdi um að feta í fótspor hans.

Ronald Reagan var kallaður „babblandi bjáni“ þegar hann varð forseti BNA árið 1981. En þessi fyrrum leikari átti drjúgan þátt í að rífa niður járntjaldið í Evrópu og binda þannig enda á kalda stríðið.

Í upphafi gekk allt samkvæmt áætlun. Sem 28 ára lögfræðingur vann Franklin D. Roosevelt embætti öldungadeildarþingmanns fyrir New York fylki.

 

Eftir glæsilegt endurkjör árið 1913 var Roosevelt útnefndur aðstoðarráðherra sjóhersins í forsetatíð Woodrow Wilson.

 

Roosevelt stóð sig vel í því embætti og þegar Bandaríkin drógust inn í fyrri heimsstyrjöldina árið 1917 og þurftu að senda milljónir hermanna yfir Atlantshafið var ekki einu einasta flutningaskipi sökkt af þýskum skipum og kafbátum. 

 

Vaknaði lamaður

Ein örfárra mynda sem til eru af FDR í hjólastól. Myndin var tekin árið 1937 rétt fyrir bátsferð niður Hudson ána.

Sumarið 1921 fór Franklin í frí með eiginkonu sinni, Eleanor og börnum þeirra í sumarbústað fjölskyldunnar.

 

Á meðan á dvölinni stóð fór honum skyndilega að líða illa. Hann hélt að hann væri með slæmt kvef og lagðist í rúmið.

 

Þegar hann vaknaði daginn eftir gat hann ekki lengur staðið á fótunum.

 

Læknir á staðnum taldi að vanlíðan hans stafaði einfaldlega af alvarlegri ofkælingu og fullvissaði hann um að hann mundi ná fullum bata.

 

Það gerðist hins vegar aldrei. Roosevelt hafði smitast af mænusótt og lamast af völdum hinnar hættulegu veiru.

 

Mænusóttin lamaði Roosevelt fyrir lífstíð. En sjúkdómurinn var ekki bara bölvun. Hann kenndi honum hvað það þýðir að þjást – og gaf honum tækifæri til að finna nýjar uppsprettur styrks innra með sér.

 

Eins og Roosevelt orðaði það sjálfur:

 

„Þegar þú hefur eytt tveimur árum í rúminu í eilífri baráttu við að hreyfa stóru tána virðist allt annað vera auðvelt“.

 

Hjónaband Roosevelts

Eleanor Roosevelt tilbúin að rétta óstöðugum eiginmanni sínum hjálparhönd.

Platónskt hagkvæmnishjónaband

Þegar Franklin D. Roosevelt flutti inn í Hvíta húsið varð eiginkona hans, Eleanor Roosevelt, einn mikilvægasti samstarfsmaður hans. Í svefnherberginu var hins vegar kalt á milli þeirra hjóna.

 

Þegar FDR varð forseti Bandaríkjanna árið 1933 hafði hann verið kvæntur eiginkonu sinni, Eleanor, í næstum 30 ár.

 

Allt frá því að Eleanor Roosevelt komst að því að eiginmaður hennar átti í ástarsambandi við ritara sinn, Lucy Mercer, árið 1917, höfðu hjónin sofið í aðskildum svefnherbergjum.

 

Sambandið var platónsks eðlis og bæði áttu í nokkrum ástarsamböndum utan hjónabands – oft með samþykki hins.

 

Eleanor Roosevelt varð mikilvægur samstarfsmaður FDR – og gífurlegar vinsældir hennar meðal almennings juku vinsældir eiginmanns hennar.

 

„Talaðu við fólkið og segðu mér hvað því finnst,“ sagði Franklin D. Roosevelt við eiginkonu sína sem virkaði eins og augu hans og fætur þegar hann komst ekki sjálfur um landið.

 

Eleanor var líka ein af ástæðunum fyrir því að FDR gat talað beint við Bandaríkjamenn á skýru og auðskiljanlegu máli:

 

„Ég var vön að segja manninum mínum að ef hann gæti fengið mig til að skilja eitthvað, þá væri það skiljanlegt öllum öðrum þegnum landsins“.

 

 

Lyfti Bandaríkjunum upp úr kreppunni

Þrátt fyrir lömunina hélt Roosevelt áfram að sinna pólitískum frama sínum næstu árin og árið 1933 náði hann toppnum þegar hann var kjörinn 32. forseti Bandaríkjanna.

 

Aldrei hefur kjörtímabil forseta hafist svo langt niðri í kolakjallaranum því þegar Roosevelt kom inn í Hvíta húsið stóðu Bandaríkin á barmi efnahagshruns.

 

Kreppan eftir hrun hlutabréfamarkaða árið 1929 olli mesta atvinnuleysi í sögu Bandaríkjanna og 5.000 bankar höfðu orðið gjaldþrota.

 

Það sem helst tryggði Roosevelt sigur í forsetakosningunum var loforð hansum að koma Bandaríkjunum aftur á réttan kjöl með efnahagslegri og félagslegri umbótaáætlun sem nefnist „New Deal“ sem átti að strengja efnahagslegt öryggisnet undir kreppuhrjáða Bandaríkjamenn, skapa atvinnu fyrir milljónir atvinnulausra og koma efnahag Bandaríkjanna á réttan kjöl.

 

Á fyrstu 100 dögum sínum í embætti sendi hinn nýi forseti 15 byltingarkennd lagafrumvörp til löggjafarþingsins á Capitol Hill og þingið samþykkti þau öll.

 

Þekktustu umbæturnar, almannatryggingalögin (Social Security Act), voru kjarninn í áætlun Roosevelts.

 

Í fyrsta skipti í sögu Bandaríkjanna fengu margir Bandaríkjamenn aðgang að opinberum lífeyri. Einnig var veittur fjárhagslegur stuðningur til atvinnulausra og aðstoð af öðrum toga til viðkvæmra hópa. Félagslegt öryggisnet varð að veruleika.

 

Kreppan í Bandaríkjunum

Bandarískt fátækrahverfi - kallað "Hooverville" – í kreppunni. Svona hverfi skutu urðu til um gervöll Bandaríkin og voru nefnd eftir Herbert Hoover, sem var forseti í Wall Street hruninu.

Efnahagslegar rústir

Þegar hlutabréfabólan sprakk í New York árið 1929 varð efnahagslægð um allan heim sem kom sérstaklega hart niður á Bandaríkjunum. Svar FDR var markviss löggjöf.

Stjórn á bankaheiminum

Á nokkrum vikum misstu milljónir Bandaríkjamanna lífeyrissparnað sinn og neyddust til að selja til dæmis dýra bíla til að eiga fyrir mat. Árið 1933 samþykkti Roosevelt röð laga sem komu reglu á bankaheiminn, gerðu hlutabréfa- og skuldabréfamarkaðinn gegnsærri og vörðu sparifjáreigendur gegn tapi.

Hungur og atvinnuleysi: Félagslegt öryggisnet

Vegna þess hve margir voru atvinnulausir opnuðu góðgerðarsamtök súpueldhús og brauðlínur til að fæða hinar fjölmörgu hungruðu fjölskyldur. Myndin er af biðröð í New York-borg í febrúar 1932. Með innleiðingu umbóta á almannatryggingalögunum árið 1933 fengu atvinnulausir fjárhagsaðstoð og súpu- og brauðröðum fækkaði smám saman.

Fátækrarhverfi: Ódýrari íbúðalán

Bandarísk fátækrahverfi í kreppunni voru kölluð „Hoovervilles“ eftir forvera FDR, forsetanum Herbert Hoover. Talið er að allt að tvær milljónir manna hafi orðið heimilislausar. Roosevelt lét innleiða löggjöf sem gerði íbúðalán ódýrari fyrir aðþrengdustu húseigendurna. Til að tryggja að lögin kæmu fátækustu húseigendunum til góða var sett þak á lánin við 20.000 dollara.

Þögult samkomulag við fjölmiðla

Þá sem nú var enginn möguleiki á lækningu eða meðferð við lömunarveiki. Roosevelt taldi sjálfur að heit böð gætu hjálpað, svo hann fór oft til Warm Springs í Georgíu (mynd) til að æfa fæturna.

Þegar Franklin D. Roosevelt varð fyrir barðinu á mænusóttarveirunni 39 ára að aldri breyttist líf hans til frambúðar.

 

Maðurinn sem áður var líkamlega virkur og mikill íþróttamaður sem elskaði að veiða, sigla á Hudson ánni og spila golf var lamaður fyrir neðan mitti.

 

Hann reyndi að endurhæfa fæturna með sundi og annarri meðferð en ekkert hjálpaði.

 

Sem forseta tókst Roosevelt ótrúlega vel að halda fötlun sinni leyndri fyrir umheiminum. Valdamesti maður heims mátti ekki virðast veikur og máttvana, sérstaklega ekki á krepputímum.

 

Þegar Roosevelt hélt ræður stóð hann uppréttur með stuðningi tveggja stálspelkna sem náðu frá hælum hans upp á mjaðmir.

 

Með göngustaf og aðstoðarmenn til að styðjast við gat Roosevelt jafnvel gengið á almannafæri án þess að fötlun hans væri sýnileg.

 

Fjölmiðlar voru vel meðvitaðir um fötlun forsetans en létu vera að skrifa mikið um hana eða taka myndir af FDR í hjólastól.

 

„Heiðursmannasamkomulag“ milli Roosevelts og fjölmiðla réði því.

 

Ef ljósmyndarar reyndu þrátt fyrir samkomulagið að taka myndir af forsetanum í hjólastól komu leyniþjónustumenn Roosevelts í veg fyrir það. Þess vegna eru fáar myndir af forsetanum í hjólastól til í dag.

 

Stjórnunarstíll Roosevelts

Á fyrsta kjörtímabili sínu sem forseti hóf Roosevelt félagslega og efnahagslega umbótaáætlun sem hann kallaði „New Deal“.

 

Vinnan við að innleiða hana fór fram í samstarfi forsetans, hóps þrautþjálfaðra ráðgjafa – sem kallast „The Brain Trust“ – og fjölda leiðandi stjórnmálamanna í ríkisstjórn og á þinginu.

 

Stjórnunarstíll Franklins D. Roosevelts var blanda af dreifingu verkefna og skýrri skilgreiningu á hlutverki og ábyrgð hvers og eins í hópnum sem reyndist skynsamlegt og árangursríkt fyrirkomulag.

Þegar Roosevelt vildi fá fólkið með sér var útvarpið uppáhaldsmiðillinn hans. Það gerðist oft á sunnudagskvöldum í svokölluðum „fireside chats“ hans, þar sem hann talaði um bankakreppuna, lánafyrirkomulag eða fasisma á tungumáli sem venjulegir Bandaríkjamenn skildu.

Ekki voru þó allir aðdáendur stefnu Roosevelts. Andstæðingar hans sökuðu forsetann um að miðstýra verkefnum og veita hinu opinbera allt of mikil völd.

 

Snemma á öðru kjörtímabili sínu árið 1937 reyndi Roosevelt að innleiða stjórnarskrárbreytingu sem myndi tryggja yfirráð forsetans yfir Hæstarétti.

 

Það mistókst og pólitísk áhrif hans döluðu sem leiddi af sér stöðnun á „New Deal“ áætluninni og nýja efnahagskreppu undir lok fjórða áratugarins.

 

Það var þó ekki stærsti höfuðverkur Roosevelts. Það voru atburðir hinu megin við Atlantshafið.

 

Roosevelt og seinni heimsstyrjöldin

Breskir hermenn á flótta undan áhrifaríkri leiftursókn Hitlers bíða eftir kraftaverki sumarið 1940 á ströndum Dunkerque í Norður-Frakklandi.

Alla tíð Roosevelts sem forseta hafði hann fylgst með því hvernig Nasistastjórn Hitlers vann sig kerfisbundið í átt að nágrönnum sínum, þar til Hitler hóf leifturstríð sitt (Blitzkrig) og lagði fyrst undir sig Pólland og síðan Frakkland.

 

Í Dunkerque tókst Bretum að bjarga stórum hluta af herliði sínu frá meginlandi Evrópu á síðustu stundu en stríðið dró máttinn úr Stóra-Bretlandi á öllum sviðum, ekki síst efnahagslega.

 

Roosevelt vissi of vel að Bretland rambaði á barmi ríkisgjaldþrots. Jafnvel áður en Winston Churchill tók við embætti forsætisráðherra 10. maí 1939 hafði hann átt í leynilegum viðræðum við hann.

 

Þar lofaði Roosevelt fullum siðferðilegum stuðningi við Churchill og Stóra-Bretland, þó án þess að gefa Churchill það sem hann vildi helst: að Bandaríkin tækju þátt í stríðinu með Englendingum.

 

Roosevelt talaði oft tveimur tungum. Stærsta áskorun hans var að tryggja að almenningsálitið væri með honum. Og ef það var eitthvað sem FDR var góður í, þá var það að hafa áhrif á viðhorf almennings.

 

Einangrunarhyggja var mikil í Bandaríkjunum á árunum fyrir stríðið. Samkvæmt skoðanakönnun í janúar 1940 vildu 88 prósent þjóðarinnar að Bandaríkin héldu sig utan stríðsins í Evrópu.

 

Engu að síður tókst Roosevelt að knýja fram ýmislegt sem hélt Bretum á floti. Mikilvægast var lánafyrirkomulag á hergögnum til landa sem börðust gegn öxulveldunum; svokölluð lánaleigulög.

 

Hins vegar þurfti Roosevelt enn kraftaverk til að geta tekið síðasta afgerandi skrefið. 

Roosevelt og Churchill hittast í Kanada á annarri Quebec ráðstefnunni í september árið 1944.

Brothætt bandalag Churchills og Roosevelts

Meira en nokkur annar unnu Churchill og Roosevelt stríðið fyrir hinn lýðræðislega heim. Samt einkenndist samband þeirra af djúpu vantrausti.

 

Snemma í stríðinu vissi Churchill að aðeins væri hægt að sigra Hitler ef Bandaríkin tækju þátt í stríðinu. Þess vegna biðlaði hann til Roosevelts jafnvel áður en hann komst til valda í Bretlandi.

 

Á meðan á stríðinu stóð glóðu símalínurnar á milli þeirra tveggja og þeir hittust oft.

 

FDR var alltaf velkominn og Churchill hrósaði sér af því að einu sinni hafi hann tekið á móti Roosevelt nakinn.

 

Hins vegar var FDR ekki sáttur við mikla drykkju Churchills. Hann hafði heldur ekki skilning á áherslu Breta á heimsvaldastefnu sína og að viðhalda Breska samveldinu óbreyttu. Til dæmis vildi FDR sjálfstæði fyrir Indland og aðrar nýlendur breska heimsveldisins.

 

Það sem pirraði Churchill mest var að einn daginn gat hann heyrt Roosevelt lofa Englandi skilyrðislausum stuðningi í einrúmi – aðeins til að þurfa daginn eftir að hlusta á loforð Roosevelts til bandarísku þjóðarinnar um að halda Bandaríkjunum utan við stríðið.

 

Hitler batt enda á það hik þegar Þýskaland lýsti yfir stríði á hendur Bandaríkjunum í kjölfar stríðsyfirlýsingar Bandaríkjanna á hendur Japan eftir árásina á Pearl Harbour.

 

Þrátt fyrir að Churchill hafi náð sínu fram blossaði vantraustið upp aftur þegar Stalín varð þriðja hjólið í sambandi þeirra.

 

Churchill var snemma sannfærður um að Sovétríkin vildu leggja undir sig stóra hluta Evrópu. Það var því stefna hans að stöðva útrás Stalíns með árás úr suðri upp í gegnum Evrópu. Roosevelt, fyrir sitt leyti, sá sér hag í því að Evrópa hefði að minnsta kosti tvö sterk evrópsk stórveldi sem gætu haldið hvort öðru í skefjum.

Þann 9. desember 1941 flutti Roosevelt eina alvöruþrungnustu útvarpsræðu sína í allri forsetatíð sinni.

 

Tveimur dögum áður hafði bandaríska flotastöðin Pearl Harbor á Hawaii verið sprengd af Japönum.

 

Tímabili einangrunarsinnaðrar utanríkisstefnu, þar sem Bandaríkin létu sér nægja að útvega Stóra-Bretlandi og Sovétríkjunum stríðsgögn og vistir með svokölluðum lánaleigulögum, var lokið. Bandaríkin voru nú í beinu stríði við öxulveldin.

 

„Ásamt öðrum frjálsum þjóðum berjumst við nú fyrir því að viðhalda rétti okkar til að búa með nágrannalöndum okkar við frelsi og almenna velsæld, án ótta við árásir,“ sagði forsetinn í útvarpi við bandarísku þjóðina.

 

Með þátttöku Bandaríkjanna í stríðinu snérist stríðsgæfan til bandamanna og þegar Roosevelt tók við völdum í fjórða sinn í árslok 1944 var stríðinu svo gott sem lokið.

 

Opinberar loks fötlunina

Einkamynd frá árinu 1941 af Roosevelt í hjólastól með hund og barn.

Roosevelt fékk þó aldrei að upplifa endanlega uppgjöf Þjóðverja 8. maí 1945.

 

Þann 12. apríl 1945, þegar aðeins 83 dagar voru liðnir af fjórða kjörtímabili hans, lést FDR af völdum heilablæðingar. Hann varð 63 ára gamall.

 

Í síðustu opinberu ræðu sinni mánuði áður talaði hann í fyrsta skipti til stuðningsmanna sinna og andstæðinga úr brúna viðarhjólastólnum sínum.

 

„Ég vona að þið afsakið þessa óvenjulegu stellingu þar sem ég ávarpa þetta þing en þið verðið að skilja að það er miklu auðveldara fyrir mig þegar ég þarf ekki að bera fimm kíló af stáli um fæturna,“ sagði hann við þrumandi lófaklapp.

 

Það var í fyrsta, eina og síðasta sinn sem hann minntist opinberlega á fötlun sína.

Lestu meira um Franklin D. Roosevelt

Jean Edward Smith: FDR – Franklin D. Roosevelt, Gyldendal, 2009

 

Al Cimino: Roosevelt and Churchill: A Friendship That Saved the World, Chartwell Books, 2018

 

HÖFUNDUR: Andreas Ebbesen Jensen , Mikkel Hede

© Alamy/Photo12/Ann Ronan Picture Library/Imageselect,© Wikimedia Commons,© Harris & Ewing/Library of Congress,© FDR Presidential Library & Museum,© FDR Presidential Library & Museum,© Seattle Municipal Archives,© Bettmann/Getty Images,© Seattle Municipal Archives,© Glasshouse Imageselect RM/JT Vintage/Imageselect,© Imperial War Museums/Public domain,© akg-images/Imageselect

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Maðurinn

Af hverju sjá sumir drauga en aðrir ekki?

Heilsa

10 matvæli með meira C-vítamín en appelsínur

Maðurinn

Þráhyggja tekur heilann í gíslingu

Alheimurinn

Stjörnufræðingar leita langt eftir svörum: Er líf í alheiminum?

Heilsa

Hvers vegna verður okkur kalt þegar hitinn hækkar?

Náttúran

Bakteríur grafa eftir gulli

Lifandi Saga

Barbarossa: Illskeyttur sjóræningi soldánsins fór ránshendi á Miðjarðarhafi

Maðurinn

Gleymdu erfðum og umhverfi: Persónuleikinn stafar af tilviljunum

Maðurinn

Af hverju hressumst við af koffeini?

Maðurinn

Ný tækni les hugsanir

Lifandi Saga

Bernska útilegunnar

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is