Enski sjóliðsforinginn James Cook sigldi um heimshöfin á 18. öld og dvaldi drýgstan hluta ævi sinnar á sjónum.
En hann hefði ekki getað synt nokkra metra þó líf hans lægi við.
Cook var ekki einn um að kunna ekki sundtökin því flestir evrópskir sjómenn gátu ekki synt svo nokkru næmi fyrr en á 19. öld.
Ein orsök var sú að sund þótti vera óheilsusamlegt.
Þannig trúðu margir Evrópubúar á miðöldum að dvöl í vatni dreifði sýkingum og gæti jafnvel orsakað drepsóttir. Auk þess var litið á sund sem óheppilegt fyrir virðulega karlmenn:
„Til að synda verður maður að vera nakinn og hvernig getur nokkur sómakær maður haldið virðingu sinni án klæða?“ skrifaði breski rithöfundurinn George Borrow.
Þegar óheppinn sjómaður féll um borð skipti sköpum fyrir hann að ná taki á einhverju fljótandi braki.
Sund skapaði hugleysingja
Síðast en ekki síst voru konunglegi breski flotinn og aðrir flotar harla sáttir með að sjómenn þeirra gætu ekki synt.
Þannig væri tryggt að áhöfnin héldi sig á skipinu í stað þess að hoppa fyrir borð og synda í land þegar skarst í odda.
Einnig má geta þess að umtalsverður fjöldi sjómanna voru refsifangar sem létu vera að flýja af skipinu, enda hefðu þeir drukknað í hafinu.
Það var fyrst seint á 19. öld sem farið var að kenna sjómönnum sundtökin. Eftir það spruttu upp fjölmörg sundfélög víðs vegar um Evrópu.