Nú á dögum er vinsælt að stunda sjósund í köldum sjó eða að fara í ískalt vatn í pottum sundlauganna.
Margir hafa þó sennilega velt því fyrir sér hvort sjósund sé í raun og veru heilnæmt fyrir okkur?
Teymi ástralskra vísindamanna hefur fínkembt rannsóknir á þessu tiltekna sviði og benda niðurstöðurnar til þess að þrenns konar ávinningur fáist af því að dýfa sér í kaldan sjó eða kalt vatn.
Í fréttatilkynningu vísindamannanna kemur fram að kalt vatn geti dregið úr streitu, bætt svefn og aukið lífsgæði almennt.
Kaldur sjór kann að vera gagnlegur
Margir þeirra sem stunda sjóböð tengja stutta veru í köldum sjó við hamingjutilfinningu sem gerir vart við sig í kjölfarið.
Nýlegar rannsóknir gefa jafnframt til kynna að þetta eigi við rök að styðjast.
Vísindamenn við háskólann í Suður-Ástralíu fínkembdu ellefu rannsóknir á sviði sjósunds sem fólu í sér upplýsingar frá alls 3177 þátttakendum.
Rannsóknir þessar gáfu til kynna að þeir þátttakendur sem létu renna á sig ískalt vatn í 20, 60 eða 90 mínútur meðan á morgunsturtunni stóð nytu meiri lífsgæða en ella.
Getur dregið úr streitu
Vísindamennirnir skoðuðu einnig gögn yfir þá þátttakendur sem dýfðu sér í ískalt vatn eða syntu í um það bil tíu gráðum heitum sjó.
Þátttakendurnir voru annars vegar með allan líkamann, eða þá hluta hans, í sjónum í minnst 30 sekúndur og varð sjórinn að ná þeim minnst upp að brjóstkassa.
Í ljós kom að streitumagn þátttakendanna minnkaði. Þess ber þó að geta að vænlegu áhrifanna naut aðeins við fyrstu 12 klukkustundirnar eftir dvöl í köldu vatninu.
Stór rannsókn sýnir hugsanlega fram á hina einföldu leið til lengri lífs – sér í lagi fyrir þá sem hreyfa sig ekki mikið.
Kalt vatn á líkamann virðist einnig tengjast bættum svefngæðum en þetta átti reyndar aðeins við um karlmenn, leggja vísindamennirnir áherslu á.
Flest áhrifanna virtust dvína að nokkrum mánuðum liðnum og vísindamennirnir fundu engar sannanir fyrir því að ónæmiskerfið styrktist eftir sjóböð.
Rannsóknin birtist í vísindatímaritinu PLOS One.