Eru sjóböð að vetri heilsusamleg?

Sjósundkappar stökkva út í ískaldan sjóinn allan liðlangan veturinn. Getur hugsast að vetrarböð og óhóflegur kuldi séu líkamanum holl?

BIRT: 21/11/2022

LESTÍMI:

3 mínútur

Vetrarböð leysa úr læðingi endorfín

 

Þegar þeir sem stunda köld böð að vetri stingast ofan í jökulkaldan sjóinn myndast ógrynni svonefndra endorfína en svo nefnast náttúruleg morfínefni líkamans.

 

Endorfín hafa verkjastillandi áhrif sem að öllu jöfnu endast í tvær til fjórar klukkustundir. Þetta gerir það að verkum að vetrarböð geta haft góð áhrif á kvilla sem valda verkjum.

 

Þar að auki hafa endorfín áhrif á lundina sem táknar að vetrarböð geta einfaldlega bætt skapið og haft vænleg áhrif á væg þunglyndiseinkenni.

 

Rannsókn hefur einnig sýnt að snöggur kuldi getur flýtt fyrir efnaskiptum með því að virkja hvíta fituvef líkamans og umbreyta honum í fitubrennandi, brúnan fituvef.


Danskir vísindamenn frá Kaupmannahafnarháskóla hafa nýlega komist að því að snöggkólnun veldur því að mýs seyta sérstöku próteini, YBX1, sem gegnir lykilhlutverki í breytingu á fituvef úr hvítu í brúnt.

Uppgötvunin gæti hjálpað vísindamönnum að þróa nýjar aðferðir til að hjálpa of þungu fólki að léttast.

 

Vetrarböð kallast það þegar fólk dýfir sér ofan í kaldan sjó.

Vetrarböð lækka blóðþrýstinginn

Margir þeirra sem stunda vetrarböð staðhæfa að „blóðið streymi hraðar í æðunum“ eftir sundferð í köldum sjó. Rannsókn á vegum finnska læknisins Kyllikki Kauppinen leiddi í ljós að þetta á við rök að styðjast.

 

Þegar húðin kemst í snertingu við kaldan sjó dragast æðarnar saman í því skyni að halda hita á líffærum á borð við hjartað. Blóðþrýstingurinn eykst og púlsinn verður örari til að forðast ofkælingu.

 

Þegar vetrarbaðkappar koma upp úr köldum sjónum víkka æðarnar á nýjan leik og senda varma um allan líkamann.

 

Þó svo að blóðþrýstingur og púls hækki í köldum sjó geta reglubundin vetrarböð í raun valdið lækkun á hvoru tveggja. Þetta á sér stað sökum þess að líkaminn aðlagast miklum sveiflum í hitastigi hægt og rólega og hann hættir að verða fyrir eins miklu losti.

 

Vetrarböð - Átta ráðleggingar fyrir þá sem vilja stunda vetrarböð

Vetrarböð eru gagnleg margra hluta vegna en ískaldur sjór getur einnig verið varasamur.

 

Hér er að finna nokkur hollráð í tengslum við vetrarböð:

 

1. Byggið upp kuldaþol strax um haustið

Þeir sem ekki hafa vanist vetrarböðum verða fyrir líkamlegu losti þegar þeir fá fyrst á sig ískaldan sjó. Kuldalostið getur leitt af sér oföndun og hættan á drukknun eykst til muna. Rannsóknir hafa sýnt að hægt er að venja líkamann við kuldann og fyrir vikið getur reynst vel að hefja vetrarböð áður en sjórinn verður ískaldur.

 

2. Stundið aldrei vetrarböð einsömul

Vetrarböð geta valdið miklu álagi á líkamann og fyrir bragðið skyldi enginn leggja stund á þau aleinn. Vænlegast er að synda í hópi þannig að unnt sé að bjarga þeim úr sjónum sem hugsanlega verða slappir.

 

3. Kannið umhverfið

Farið aldrei í sjóinn án þess að kanna fyrst veður og vind því slæmt veður í köldum sjó getur reynst lífshættulegt. Gætið þess að björgunarbúnaður sé innan handar ef þið eða aðrir skyldu fá þörf fyrir slíkt.

 

4. Farið hægt í sjóinn

Farið varfærnislega ofan í sjóinn til þess að líkaminn venjist miklum hitastigsmuninum hægt og rólega. Sé stokkið beint í sjóinn verður gríðarlegur hitastigsmunur sem orsakað getur allt of háan blóðþrýsting og hjartsláttartruflanir.

 

5. Dragið andann hægt og rólega

Gætið vel að andardrættinum þegar vetrarböð eru stunduð. Í tilraun einni leið yfir tvo óreynda vetrarsundmenn eftir einungis eina mínútu. Ástæðan var oföndun, þar sem andardrátturinn verður örari en sem nemur sjö lítrum lofts á mínútu.

 

6. Haldið ykkur nærri landi

Syndið ekki í átt frá landi því skyndilega getur reynst nauðsynlegt að komast úr sjónum. Þá er einnig mikilvægt að gæta vel að undiröldu sem getur dregið fólk út á opið haf.

 

7. Dveljið ekki of lengi í sjónum

Gætið þess að vera ekki of lengi í sjónum. Hálf mínúta dugir til að njóta kostanna sem vetrarböð hafa í för með sér. Sé verið í margar mínútur í sjónum er hætt við vöðvalömun.

 

8. Gætið höfuðsins

Öndunin skiptir sköpum þegar vetrarböð eru stunduð. Fyrir vikið skyldi ekki stinga höfðinu á kaf lengur en örfáar sekúndur.

 

BIRT: 21/11/2022

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is