Við erum langt í frá eina tegundin með einstakan heila. Milljónir dýrategunda Jarðar hafa mjög svo mismunandi heila þar sem hver og einn er aðlagaður að sérstökum lifnaðarháttum eiganda síns og hver með sínum einstöku einkennum.
Heili okkar mannana bliknar í samanburði við suma dýraheila. Við erum til að mynda langt frá því að vera með stærsta heila jarðar – eða stærsta heilann miðað við líkamann.
Það er ekki auðvelt að veita yfirsýn yfir hinn gífurlegan fjölbreytileika heila, en hér eru nokkrir mjög svo sérstakir dýraheilar.
STÆRSTUR

Hvalsheili fimmfalt þyngri en í okkur
Tegund: Búrhvalur.
Met: Heilinn vegur 8 kg.
Sérkenni: Heili búrhvals er um 8 kg og þar með langstærsti heili á jörðinni. Auk stærðarinnar er bygging heilans líka mjög þróuð. Dýrið hefur m.a. vel þroskaðan heilabörk með áberandi fellingum sem bendir til mikillar hæfni. Litli heilinn er líka tiltölulega stór og flókinn.
Hæfni: Þessi stóri heili hefur afgerandi þýðingu fyrir háþróuð samskipti og bergmálsstaðsetningu en hvort tveggja felst í breytilegum mynstrum smellihljóða. Heilinn styður líka flókna félagshæfni búrhvala ásamt hæfni til að muna staðsetningu heppilegra fæðusvæða. Heilinn stýrir líka flóknum vöðvahreyfingum sem eru nauðsynlegar á sundi og til köfunar.
HLUTFALLSLEGA STÆRSTUR

Maurar hafa gríðarstóran heila
Tegund: Maurinn Brachymyrmex.
Met: Heilinn er 15% af líkamsþyngd.
Sérkenni: Heilinn í maur af tegundinni Brachymyrmex vegur aðeins 0,006 mg en þar eð maurinn er aðeins 2 mm að lengd er heilinn engu að síður 15% af líkamsþyngdinni. Hlutfallslega er hann þar með meira en fimmfaldur að stærð á við mannsheila og heilinn slær þannig öll met í hlutfallslegri stærð.
Hæfni: Lifnaðarhættir Brachymyrmex og fleiri maurategunda krefst tiltölulega stórs heila. Maurar eru meðal ratvísustu dýra og nota sólina, klofin ljósbrigði, lykt og sjónpunkta ásamt minnislægu korti til að rata. Að auki er samfélagsgerðin flókin í sambýli allt að milljón maura sem þó hafa mismunandi hlutverk, svo sem að afla fæðu, verja búið eða annast ungviðið.
MINNSTUR

Hringormsheili er lítill en skarpur
Tegund: Hringormurinn Caenorhabditis elegans.
Met: Aðeins 302 taugafrumur í heilanum.
Sérkenni: Heimsins smæsti heili er í hringorminum C. elegans. Í honum eru aðeins 302 taugafrumur sem er ótrúlega lítið í samanburði við 86 milljarða í mannsheilanum. Hver taugafruma tengist að meðaltali 20 öðrum þannig að tengingar verða samtals um 6.700. Þessi heili er svo lítill að vísindamenn reikna með að geta fljótlega skapað fullkomið sýndarlíkan af honum.
Hæfni: Þótt heili hringormsins sé lítill er hann þó fær um ákvarðanatöku og þar með eins konar hugsun. Hafi ormur t.d. uppgötvað fæðu en verður fyrir ógn rándýrs, er hann fær um að ákvarða hvort óhætt sé að halda áfram að éta eða hvort betra sé að leita skjóls.
HARÐGERÐASTUR

Spætuheilinn þolir ofboðslegt álag
Tegund: Spæta.
Met: Heilinn þolir álag upp á 1.400 g.
Sérkenni: Vísindamenn héldu lengi að í höfuðkúpu spætunnar væri innbyggður eins konar höggdeyfir sem verndaði heilann þegar fuglinn heggur gogginum í trjáboli en ný rannsókn sýnir að reyndar tekur heilinn sjálfur á sig allan höggþungann. Staðsetning heilans tryggir þó sem minnsta sköddun og trúlega býr spætuheili yfir hæfni til smærri viðgerða.
Hæfni: Höggþol heilans er spætunni lífsnauðsynlegt. Fuglinn hamrar goggnum í tréð allt að 20 sinnum á sekúndu, m.a. í leit að fæðu. Heilinn stenst því álag upp á allt að 1.400 g. Mesta afl sem maður hefur lifað af var 214 g, þegar formúlubíll lenti í árekstri á 354 km hraða.
UNDARLEGASTUR

Fæða kolkrabbans berst gegnum heilann
Tegund: Risakolkrabbi.
Met: Í gegnum heilann er eins sentimetra gat.
Sérkenni: Heili risakolkrabba er undir 100 grömmum en trúlega sá stærsti í hryggleysingjum. Til viðbótar hefur kolkrabbinn lengstu taugar dýraríkisins – þær geta verið nokkurra metra langar og meira en millimetri á þykkt eða þúsundfalt þykkari en í mönnum. Það sérkennilegasta er þó að gat er í gegnum miðjan heilann sem fyrir bragðið gæti minnt á kleinuhring.
Hæfni: Hin einstæða kleinuhringslögun opnar vélindanu leið gegnum heilann en það sparar pláss í skrokknum. Gríðarlangar taugar tryggja að boð berast hratt og kolkrabbinn getur því hreyft sig mjög snöggt þegar hann þarf t.d. að forða sér. Hraði taugaboða fer nefnilega eftir þykkt taugafrumnanna.
Við fyrstu sýn virðast þeir vera óttalega vitlausir en kolkrabbar eru reyndar svo greindir að stundum leiðist þeim hreinlega. Rannsóknir á gagnsæjum afkvæmum kolkrabba hafa nú fært vísindamenn nær grunnuppskrift náttúrunnar á greind.