Til skemmri tíma getur svefnleysi valdið höfuðverk, vanlíðan og aukið hættuna á mistökum og slysum.
Til lengri tíma litið getur svefnleysi leitt til hjarta- og æðasjúkdóma, veikt ónæmiskerfið og aukið líkur á sjúkdómum eins og sykursýki.
Læknar og vísindamenn um allan heim eru sammála um að of lítill og lélegur svefn getur verið alvarleg ógn við heilsuna.
En það er ein mjög einföld aðgerð sem þú getur nýtt þér til að bæta svefninn og auka líkurnar á því að ná 7-9 klukkustunda svefni á hverri nóttu.
Þetta sýnir stór rannsókn þar sem alþjóðlegt vísindateymi fylgdist með þátttakendum í 10 ár.
Rannsóknin byggði á gögnum frá 4399 einstaklingum, þar af 2085 miðaldra karlmönnum og 2254 miðaldra konum, sem tóku þátt í evrópskri langtímarannsókn um öndunarfærin, European Community Respiratory Health Survey.
Að minnsta kosti tvisvar í viku
Í upphafi rannsóknarinnar svöruðu þátttakendur frá níu Evrópulöndum spurningalista um hreyfivenjur sínar, svefnvandamál og þreytu yfir daginn.
Tíu árum síðar voru þeir spurðir aftur um sömu þætti.
Þeir sem stunduðu líkamsrækt að minnsta kosti tvisvar í viku í eina klukkustund eða meira, voru flokkaðir sem líkamlega virkir.
Niðurstöðurnar sýndu að:
- 37% þátttakenda voru stöðugt óvirkir (hreyfðu sig lítið) yfir 10 ára tímabilið.
- 18% urðu líkamlega virkir á tímabilinu.
- 20% hættu að hreyfa sig.
- 25% voru stöðugt líkamlega virkir.
Minnstu vandræðin hjá þeim sem stunduðu stöðuga líkamsrækt
Niðurstöðurnar sýndu einnig að þeir sem voru stöðugt virkir, þ.e. voru duglegir að hreyfa sig voru:
- 42% ólíklegri til að eiga í vandræðum með að sofna.
- 22% ólíklegri til að finna fyrir einhverjum svefnvandamálum.
Og ef þessir einstaklingar upplifðu svefnvandamál, voru einkenni þeirra mun mildari en hjá öðrum hópum.
Þegar tekið var tillit til aldurs, kyns, líkamsþyngdar og sögu um reykingar kom í ljós mun minni hætta á svefntruflunum hjá þeim sem sem hreyfðu sig reglulega 2-3 sinnum í viku.
Hreyfingaleysi olli mestum vandræðum
Hinum megin á skalanum voru þeir sem voru óvirkir – þ.e. hreyfðu sig lítið. Voru þeir mun líklegri til að glíma við svefnvanda.
Vísindamennirnir bentu þó á ákveðna takmörkun rannsóknarinnar, þar sem hún byggðist á sjálfsmati þátttakenda með spurningalistum. Þeir höfðu því ekki beina yfirsýn yfir raunverulegar breytingar á hreyfingu þátttakenda yfir tímabilið.
Hvers vegna í ósköpunum er nauðsynlegt að sofa þriðjung lífsins? Ýmislegt bendir til að margvísleg lífsnauðsynleg ferli í heila og líkama eigi sér stað í svefni. En hvers vegna geta þessi ferli ekki allt eins átt sér stað meðan við erum vakandi?
Niðurstöðurnar eru þó í samræmi við fyrri rannsóknir sem sýna að líkamleg hreyfing getur aukið svefngæði og dregið úr einkennum svefnvandamála.
Jafnframt telja vísindamennirnir að niðurstöður þeirra undirstriki mikilvægi þess að stunda reglulega hreyfingu.
„Rannsóknin sýnir hversu mikilvægt það er að stunda stöðugt reglulega líkamsrækt þar sem tengslin hurfu hjá þeim sem voru virkir í upphafi en urðu síðan óvirkir,“ segja vísindamennirnir í rannsókninni, sem birtist í vísindatímaritinu BMJ Journals.