Þann 18. maí 1933 kom fljótaprammi með fyrstu fangana til eyjunnar Nazino. Hún er í miðju Op-fljóti í Síberíu og var föngunum ætlað að yrkja jörðina og koma á laggirnar sjálfbærri nýlendu, samkvæmt ákvörðun kommúnistaflokksins og Stalíns.
Þegar síðasti pramminn sigldi burt voru mörg þúsund glæpamenn og aðrir „óæskilegir borgarar“; menn, konur og börn skilin eftir á þessari þriggja kílómetra löngu og 600 metra breiðu eyju.
Nazino var mýrlend og veitti föngunum enga möguleika á að nærast eða komast í skjól.
Strax fyrstu nóttina dóu um 300 fangar úr kulda og vosbúð og á næstu dögum steig dánartalan hratt.
Fangarnir höfðu hvorki fengið vistir eða verkfæri heldur fengu þeir einungis handfylli af mjöli fjórða eða fimmta hvern dag.
,,Fólk fangaði stúlkuna”
Ekki leið á löngu þar til fyrstu örvæntingarfullu fangarnir tóku að stunda mannát til að seðja hungur sitt.
„Fólkið fangaði stúlkuna, batt hana við tré, skar brjóst hennar af og vöðvana og allt sem hægt var að borða“, sagði einn fangi síðar.
Brátt herjuðu flokkar af blóðþyrstum föngum á aðra fanga þar sem þeir rændu þá og drápu miskunnarlaust.
MYNDSKEIÐ: Mannætueyja Stalíns
Eftir minna en einn mánuð gátu kommúnistaforkólfar ekki lengur hundsað þessa óhugnanlegu framvindu og ákváðu að loka búðunum.
Þegar fangarnir voru fluttir til annarra fangabúða höfðu einungis 2.200 af upprunalegum 6.700 föngum lifað af sult, sjúkdóma og mannát.
Af þeim voru aðeins 300 þeirra í sæmilegu líkamlegu ástandi. Síðar tók embættismaðurinn Vasily Velchko viðtöl við suma fangana og skrifaði skýrslu sem hneykslaði flokksforystuna.
Atburðirnir á Nazino voru þaggaðir niður og skýrslan geymd í skjalasafni allt fram til ársins 1988 þegar mannréttindasamtökin Memorial grófu upp frásögnina.