Menning og saga

Konur vilja helst hellisbúa

Einu sinni í mánuði er valið einfalt

BIRT: 04/11/2014

Þegar karlmaður einu sinni hefur sagt konunni sinni að hann elski hana gerir hann ekki ráð fyrir að þurfa að endurtaka sig. Konur hafa hins vegar þörf fyrir að endurmeta stöðugt ástarsambandið og það felur í sér að báðir aðilar tjái hvor öðrum ást sína með reglulegu millibili.

Þannig lýsir hinn vinsæli hjónabandssérfræðingur John Gray þessu í bók sinni „Karlar eru frá Mars og konur frá Venus“ og ef við leiðum hugann að þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið á samböndum kvenna og manna á undanförnum árum skiljum við ögn betur hvernig á þessu stendur. Vísindin hafa nefnilega leitt í ljós að konur laðast að tveimur tegundum manna, allt eftir því hvar í tíðahringnum þær eru staddar. Mestallan mánuðinn hafa konur mestan áhuga á trygglyndum, tillitssömum mönnum, sem búa yfir nánast sömu einkennum og þær sjálfar en ef kona kynnist karlmanni rétt áður en egglos verður er hættara við að hún laðist öðru fremur að mjög karlmannlegum mönnum, sem ekki eru eins ábyrgir og hinir.

Óháð því með hvernig manni hún er, þá hefur hún mikla þörf fyrir öryggi til þess að hún geti gætt barnanna sinna og fylgst með þeim vaxa úr grasi. Þess vegna vill hún að maðurinn staðfesti stöðugt að honum finnst hún enn vera aðlaðandi og muni ekki yfirgefa hana, og þessar kröfur gera konur einnig til manna sem aldrei eiga eftir að geta uppfyllt þær.

Karlmennska gefur til kynna góða erfðavísa

Heather Rupp, sálfræðingur við Kinsey rannsóknarstofnunina á sviði kynlífs, kynferðis og æxlunar við Indiana háskóla í Bandaríkjunum er ein þeirra sem fært hafa sönnur á að konur hafi meiri áhuga á mjög karlmannlegum mönnum í kringum egglos. Konurnar eru raunar þeirrar skoðunar að sambönd við karlmannlega menn séu áhættusöm og ótraust, og ekki er hægt að segja annað en að þær hafi rétt fyrir sér. Aðrar vísindalegar rannsóknir hafa nefnilega sýnt fram á að menn með hátt testósterónhlutfall yfirgefa í meiri mæli konur sínar og börn í leit að nýjum samböndum.

Konurnar eru engu að síður tilbúnar til að taka þessa áhættu, því ómeðvitað finnst þeim að þeim verði umbunað fyrir að hefja samband með slíkum mönnum. Þær hafa í rauninni líka rétt fyrir sér. Hátt testósterónmagn, sem gerir það að verkum að menn fá karlmannlegt útlit, gefur til kynna góða erfðavísa, því það eru aðeins menn með sterka erfðavísa sem geta staðið af sér þá veikingu ónæmiskerfisins sem hátt testósterónmagn hefur í för með sér. Á sviði þróunarrannsókna er þess vegna álitið að það séu einmitt góðu erfðavísarnir sem konur eru á höttunum á eftir þegar egglos á sér stað og þær hafa von um að verða þungaðar.

Kvenlegir menn gera betri feður

Það að konur verði skyndilega til í að líta framhjá mönnum sem eru tilbúnir til að axla ábyrgðina sem fylgir föðurhlutverkinu og velja þess í stað ótrygg sambönd til þess að njóta góðs af vænlegum erfðavísum, sem fylgja háu testósterónhlutfallinu, er í algerri andstöðu við aðrar rannsóknir sem leitt hafa í ljós að konur í leit að lífsförunaut hafi augun opin fyrir mönnum með kvenlega andlitsdrætti.

Vísindamenn við Durham og St. Andrews háskóla í Skotlandi fengu birtar niðurstöður rannsóknar í Science Daily árið 2007 sem gekk út á það að fá 400 enska karla og konur til að meta andlit sem sýnd voru án hárs, eyrna og háls og lýsa manngerðinni að baki andlitinu.

Þau andlit sem virtust vera mjög karlmannlegt vegna þess að kjálkar voru stórir, nefið stórt og augun lítil, voru túlkuð á þann veg að þau tilheyrðu mönnum sem hvorki væru mjög hlýlegir né ástúðlegir, en væru á hinn bóginn ráðríkir, ótrúir og slæmir feður. Túlkunin á andlitum sem höfðu yfir að búa kvenlegum andlitsdráttum, á borð við þykkar varir, stór augu og þynnri en sveigðari augabrúnir, var alveg andstæð. Slík andlit voru álitin tilheyra mönnum sem væru hlýlegri, ekki eins ráðríkir og sennilega betri feður.

Nýlegar rannsóknir frá Durham háskóla gefa enn fremur til kynna að konur og menn leiti að algerlega ólíkum þáttum í fari hvert annars. Þar sem menn leita að konum með skyndikynni í huga eru konur í leit að körlum sem henta fyrir langvarandi sambönd.

En líkt og rannsókn Heather Rupp gefur til kynna er þessu þó ekki ætíð þannig farið, því öðru hvoru séu konur nefnilega tilbúnar til að taka þá áhættu í makavali að sambandið geti staðið stutt yfir, sem karlmannlegir drættir mannsins gefa til kynna, til þess einfaldlega að verða sér úti um sterka erfðavísa hans.

Karlrembur eiga í flestum samböndum

Svo virðist sem sérlegur hópur karlrembumanna kunni að notfæra sér þennan áhuga á mjög karlmannlegum mönnum. Peter Jonason við New Mexico ríkisháskólann lagði stund á rannsóknir árið 2008 á því hve vel mönnum með karlrembuleg einkenni gengur að finna bólfélaga.

Um er að ræða menn sem í sambandi við konur gætu minnt á Don Juan, James Bond og aðra alræmda kvennabósa. Þessar manngerðir fá háa einkunn hvað varðar sjálfselsku, hvatvísi og tilhneigingu til að notfæra sér aðra. Þessi þrjú einkenni hafa verið nefnd myrka þrenningin, vegna þess að þau hafa í för með sér félagsleg vandamál og leiða oft til árekstra við annað fólk. Í rannsókninni spurði Peter Jonason 200 háskólanema út í kynlíf þeirra og afstöðu til ástarsambanda og þá einnig hvort samböndin stæðu lengi eða stutt yfir. Hann lagði jafnframt fyrir þátttakendurna persónuleikapróf sem mældi hve háa einkunn þeir hlutu fyrir myrku þrenninguna. Rannsóknin leiddi í ljós að menn sem hlutu háa einkunn fyrir einkennin þrjú áttu fleiri bólfélaga og höfðu meiri áhuga á skammtímasamböndum en hinn hluti karlmannanna. Jonason dró því þá ályktun að menn sem hefðu þessi einkenni ættu auðvelt með að ná sér í margar konur en að þeir stöldruðu hins vegar stutt við.

Önnur rannsókn, sem vekur athygli í þessu samhengi, gaf til kynna að mönnum í föstum samböndum væri illa við ráðríka karlmenn meðan á egglosi eiginkvennanna stóð. Hugsanlegt er að eðlisávísun þeirra gefi til kynna að samböndum þeirra geti í raun staðið ógn af slíkum mönnum á þessum tíma. Þróunarfræðingar hafa átt erfitt með að koma auga á þróunarfræðilegan tilgang myrku þáttanna þriggja, þ.e. sjálfselsku, hvatvísi og tilhneigingar til að notfæra sér aðra, því öll einkennin eigi það sameiginlegt að ógna mannlegu samneyti. Hefðinni samkvæmt er í þróunarfræði nefnilega litið á mannlegt samneyti sem einn af mikilvægustu þáttunum fyrir það að lifa af og því hefur verið álitið að það séu einkum þættir sem styrkja hana sem erfast gegnum kynslóðirnar.

Þar sem myrku þættirnir þrír eru að hluta til einnig arfgengir er ýmislegt sem bendir til að þeir erfist þegar karlremburnar eignast afkvæmi.

David M. Buss, sálfræðingur við Texas háskóla í Austin í Bandaríkjunum, sem er einn viðurkenndasti vísindamaðurinn á sviði þróunarvísinda vegna makavals, stóð fyrir rannsókn árið 2008 sem leiddi í ljós hvaða hugmyndir, meira eða minna meðvitaðar, liggja að baki makavali kvenna í dag.

Konur gera fjórar kröfur til karla

Rannsóknin leiddi í ljós að konur meta menn út frá fjórum kennistærðum, þ.e. hversu vænlegir erfðavísarnir séu, hversu góð laun hann hafi eða muni hafa, hve viljugur hann sé til að verða faðir með þeim skuldbindingum sem því fylgja og, að lokum, hvort hann sé ástúðlegur maki.

Þegar kona stendur frammi fyrir vali á maka metur hún hugsanlega vonbiðla út frá því hve háa einkunn þeir hljóta á þessum fjórum sviðum. Hún metur að sama skapi sjálfa sig og hvað hún geti gert miklar kröfur miðað við eigið ágæti.

Góð gen koma í ljós í framhjáhaldi

Eigið ágæti konunnar í tengslum við makaval er metið með hliðsjón af því hvað körlum finnist aðlaðandi og þar telur æska og fegurð hæst. Falleg, ung kona hefur hátt makavalsgildi og hefur því meiri möguleika á að geta fengið uppfylltar allar fjórar kröfur sínar í vali á manni.

Þær konur sem ekki hafa hátt eigið makavalsgildi eru hins vegar í þeirri aðstöðu að þær verða að slá af kröfunum. Þær gætu því átt það til að leita að manni sem hefði góð laun og yrði sennilega góður pabbi og maki. Vilji þær einnig finna góða erfðavísa verða þær að finna þá annars staðar en í föstum samböndum. Þetta er í mjög góðu samræmi við rannsóknir á fjölda bólfélaga gagnkynhneigðra karla og kvenna.

Eins furðulega og það kann að hljóma segjast miklu fleiri gagnkynhneigðir karlar hafa átt marga ólíka bólfélaga heldur en konurnar. En samkvæmt ofur einföldum útreikningi ætti ekki að vera flókið að sjá að það þarf jafn margar konur og það þarf karla til að dæmið gangi upp.

Þess vegna hafa menn gert því skóna að konur verði sér úti um stutt ástarsambönd, utan hjónabandsins, meðan á egglosi stendur, sem haft geti í för með sér góð gen, sem er fjórði þátturinn í makavali kvenna, en að þær þegi yfir þessum yfirsjónum sínum í rannsóknunum. Sú staðreynd, að u.þ.b. 10-12 hundraðshlutar barna eru getin utan hjónabands, gæti jafnframt skotið stoðum undir þessa kenningu.

David Buss dregur engu að síður þá ályktun, með vísan í rannsóknir sínar, að fæstar nútímalegar konur óski þess að halda framhjá og að þær séu frekar tilbúnar til að slaka aðeins á kröfunum til þess að hjónabandið endist.

Ótrúar konur eru með lágt eigið makavalsgildi

Þetta er í raun mjög rökrétt með hliðsjón af þróunarfræðinni. Konur hafa nefnilega allar götur þurft að verða sér úti um menn sem gátu verndað þær og alið önn fyrir þeim og börnum þeirra. Ósk konunnar er því að lifa í traustu sambandi og hún er sér þess meðvituð að það hriktir í stoðum sambandsins ef hún er ekki trú sjálf. Í raun réttri hefur framhjáhald neikvæðari áhrif á makavalsgildi kvenna en karla. Ástæðuna segir Buss vera þá að framhjáhald kvenna geti haft það í för með sér að maðurinn þurfi að ala önn fyrir afkvæmi keppinautarins og slíkt telst í hans augum vera sóun. Konur eru á hinn bóginn umburðarlyndari gagnvart framhjáhaldi karla en þeim stendur á hinn bóginn mikil ógn af tilfinningalegum tengslum makans við aðra konu. Ástæðan kann að vera sú að tilfinningar mannsins í garð annarrar konu gætu haft í för með sér langvarandi samband og ógnað stöðu hennar sjálfrar fyrir vikið.

Sagt er að menn eigi stundum í basli með að vita hvað konur vilja og við því er í rauninni ekkert að segja. Meðan á egglosi stendur vilja þær karlmannlega menn og eru tilbúnar til að hætta á að þeir kunni að yfirgefa þær og börn þeirra.

Það sem eftir lifir mánaðarins kýs hún þó öðru fremur traustan og áreiðanlegan maka, sem getur örvað hana tilfinningalega, hefur áhuga á börnunum og hefur að auki góð laun eða útlit fyrir að eiga eftir að hafa góðar tekjur. Ef draga ætti einhvern lærdóm af þessu, og fyrir þá menn sem vilja halda í konurnar sínar, þá gæti verið gott ráð að taka fram mótorhjólið kringum þann tíma er egglos verður og bjóða konunni í ferð, sem bæði gæti virst vera háskaleg og haft samt tiltekna umbun í för með sér að lokum.

Subtitle:
Einu sinni í mánuði er valið einfalt
Old ID:
771
589

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Alheimurinn

Hvað verður um gaspláneturnar?

Læknisfræði

Hver var fyrsti kvensjúkdómalæknirinn?

Maðurinn

Af hverju þreytumst við í hita?

Menning og saga

Hvað varð um Nefertítí drottningu?

Alheimurinn

NASA uppgötvar dularfullan hlut sem er 27.000 sinnum stærri en jörðin – hreyfist á 1,6 milljón km/klst.

Maðurinn

Lyktin afhjúpar öll þín leyndarmál: Lyktin er hið nýja fingrafar

Tækni

Líkami þinn er orkuver

Jörðin

Myndast skýstrókar í Norður-Evrópu?

Lifandi Saga

Hver var fyrsti þekkti guðinn?

Lifandi Saga

Hvenær fórum við að kyssast?

Maðurinn

Hvers vegna verður maður þreyttur eftir að hafa borðað?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is