Fyrstu skordýrin komu fram fyrir 479 milljónum ára. Síðan þá hefur leiðin aðeins legið framávið fyrir þessi litlu dýr.
Skordýr eru helmingur af heildarþyngd allra dýra á jörðinni og eru skordýr klárlega farsælasti dýrahópurinn með nokkrar milljónir tegunda. Árangur sem má ekki síst þakka sköpunarkrafti skordýranna þegar byggja á heimili, halda óvinum í fjarlægð og tryggja vatnsbirgðir.
EITURGUFA

Lirfan felur sig á tóbaksplöntum til að verjast mögulegum óvinum.
Eitraður tóbaksúði heldur óvinum í burtu
Fyrir flest dýr er tóbaksplantan eitruð, því nikótínið í laufblöðunum minnkar getu þeirra til að anda og hreyfa sig. En fyrir lirfur Manduca-sexta fiðrildisins í Suður- og Norður-Ameríku er tóbak bæði uppspretta fæðu og varnarvopn.
Lirfan getur tekið upp nikótínið sér að skaðlausu vegna þess að sérstök prótein skilja hættulega efnið frá og flytja það út í húðina.Nikótínið myndar þar eiturgufur sem losna úr húðinni og setjast eins og þoka utan um maðkinn og fælir hugsanlega óvini í burtu.
LIFANDI VERKFÆRI

Lirfur mauranna framleiða silki sem límir laufblöðin saman.
Vefaramaurar nota lirfur sem límbyssu
Flestir maurar halda sig á jörðinni en vefaramaurar kjósa heldur þakíbúðirnar. Maurabú þeirra eru á stærð við sundbolta og hanga niður úr trjátoppunum.
Vinnumaurarnir sem byggja búin eru aðeins fimm til tíu millimetra langir sem er ekki mikið þegar þeir þurfa að draga stór laufblöð sem þeir nota sem byggingarefni upp að búinu.
Þeim tekst það með því að vinna þétt saman. Þeir hengja sig saman í langar keðjur með því að krækja klónum um miðjuna á þeim næsta. Þannig mynda þeir, hundruðum saman allt að 20 cm langar keðjur og þannig ná þeir til laufblaðanna.
Síðan líma þeir blöðin saman með nokkurs kona límbyssum sem eru í raun lirfur mauranna sjálfra.
Þær spinna límkenndan silkiþráð sem fullorðnu maurarnir gera ekki. Fullorðnir maurar halda í lirfurnar með klónum og beita þeim eins og límbyssum og dreifa þannig silkilíminu á brúnir laufblaðanna og líma þau þannig saman.
GRÆN ORKA

Gulir blettir á skel geitungsins innihalda xanthopterin sem breytir sólarljósi í rafmagn.
Geitungur er með sólarsellukerfi innbyggt í skelina
Vísindamenn hafa hingað til talið að plöntur og einstaka bakteríur séu einu lífverurnar sem geta tekið til sín orku beint frá sólinni.
En nú hefur komið í ljós að austurlenski geitungurinn getur framleitt rafmagn með því að nota sérhæfðar frumur á ytri skel sinni.
Gulu hlutar skeljar geitungsins innihalda litarefnið xanthopterin. Vísindamenn einangruðu litarefnið úr geitungnum og notuðu það í venjulegt sólarrafskaut.
Þegar rafskautið varð fyrir sterku ljósi var orkan flutt yfir í litarefnislausnina sem í kjölfarið myndaði raforku.
Hins vegar getur dýrið aðeins nýtt 0,335 prósent af sólarorkunni og því verður það að mestu að treysta á fasta fæðu sér til viðurværis.
LOFTFIMLEIKAR

Allt að 60 prósent af líkama fullorðinnar drekaflugu samanstendur af flugvöðvum.
Þyrluvængir vinna óháð hver öðrum
Vængir drekaflugunnar eru svo einstakir að gerð að bandaríski herinn og geimferðastofnunin NASA hafa reynt að endurskapa þá til að nota á dróna.
Vængirnir eru nefnilega bæði léttir og stífir en á sama tíma sveigjanlegir. Það er vegna þess að gullsmiðurinn getur hreyft hvern fyrir sig óháð hinum. Þannig getur hún breytt stefnu á flugi hraðar en ella.
Þegar drekaflugan flýgur, sveiflast fram- og afturvængirnir ekki í sama takti. Þannig búa framvængirnir til litla hvirfilvinda sem gefa afturvængjunum aukinn lyftikraft.
Til að breyta um stefnu slá vængirnir á hvorri hlið í sitt hvora áttina.
Drekaflugan getur einnig hangið kyrr í loftinu eins og þyrla með því að sveifla framvængjunum upp og afturvængjunum niður á sama tíma eða öfugt.
Drekaflugan getur þess vegna flogið með höfuðið niður ef hún vill.
Aðeins ein önnur skordýrategund býr yfir sams konar flugeiginleikum. Það er meyjarflugan sem er náskyld drekaflugunni.
AÐ FINNA VATN

Skuggabjallan drekkur rakan úr þoku frá Atlantshafinu.
Eyðimerkurbjöllur fanga þokuna
Í Namibíueyðimörkinni í Suðvestur-Afríku er morgunþokan frá Atlantshafinu eina örugga vatnsuppsprettan.
Skuggabjöllur hafa sérhæft sig í að nýta sér rakann úr þokunni. Þær stilla sér upp með upprétta afturfætur og afturendann upp í loftið og standa þannig í þokunni svo að rakinn úr henni safnast í dropa á skrokki þeirra sem þær geta síðan drukkið.
MÓTEFNI OG SÝKLALYF

Termítar lifa í sambýli við sóttverjandi bakteríur
Termítar nota eigin saur sem lyf
Ferskur termítaskítur inniheldur mikið af bakteríum og örverum. Þær lifa í sambýli við termítana í þarmakerfi þeirra og gera þeim kleift að melta við.
En saur er líka kjörfæða fyrir bakteríur af ættkvíslinni Streptomyces sem framleiðir margs konar efni sem drepur alls lags sýkla, bakteríur, veirur og sveppi.Með öðrum orðum þá lifa termítarnir eiginlega í sínu eigin lyfjabúri. Og lyfin eru ótrúlega áhrifarík.

Bakteríur halda lífi í termítabúinu
Afkomumöguleikar termítanna fara eftir því hvaða örverur lifa í búum þeirra. Þar sem mikið er af Streptomyces bakteríum (appelsínugula línan) sem drepa sveppi og aðrar bakteríur, þá lifa um 85% termítanna í búinu í 60 daga.
Í dauðhreinsuðu umhverfi (bláa línan) lifir ekki eins hátt hlutfall. Og ef þessar bakteríur eru ekki til staðar þá lifir einungis um helmingurinn í 60 daga.
Í fyrsta lagi verða termítar sjaldan veikir. Í öðru lagi eru þeir líka vel varðir gegn mörgum leiðum manna til að útrýma skordýrum þar sem örverur eru notaðar í stað eiturefna.
Heimaræktuð lyf termítanna eru svo áhrifarík að lyfjafyrirtæki hafa lagt í miklar rannsóknir til að reyna að hagnýta sér þau.
Vonast menn eftir að hægt verði að þróa nýjar gerðir sýklalyfja, meðal annars til að berjast gegn fjölónæmum bakteríum.
DULARGERVI

Erfitt getur verið að koma auga á fetalirfuna á kvistinum.
Búningurinn dugar í margar mínútur
Fetar eru stór hópur næturfiðrilda og lirfur þeirra nota allar sömu varnartækni.
Þegar lirfurnar skynja aðsteðjandi hættu grípa þær með afturfótunum í greinina sem þær skríða á og teygja síðan líkamann út frá henni þannig að þær líta út eins og litlir kvistir. Lirfurnar geta setið í þessari sömu stellingu í margar mínútur.