Flugmaðurinn Leonard Cheshire og áhöfn hans trúa ekki heppni sinni. Það er björt og tær tunglskinsnótt 12. nóvember 1940 og þeir eru í breskri Whitley-
sprengjuflugvél yfir einu best varða iðnaðarsvæði Þýskalands nálægt Köln.
Þrátt fyrir það hafa þeir eiginlega ekkert orðið varir við hinar alræmdu loftvarnabyssur Þjóðverja. En um leið og þeir kasta fyrstu sprengjunni heyrist ærandi sprenging.
„Það varð allt vitlaust. Hundruð leitarljósa skutust upp í himininn og okkur fannst eins og hundruð byssa byrjuðu að skjóta á okkur,“ rifjar Cheshire upp.
Sprengikúla æðir í gegnum fremri vélbyssuturninn á vél Cheshire og springur nokkra metra fyrir ofan flugvélina. Önnur sprengikúla springur fyrir aftan vinstri væng flugvélarinnar og rýfur þriggja metra langan skurð í skrokk hennar.
Cheshire er blindaður af björtu ljósinu í nokkrar sekúndur og finnur flugvélina hrapa niður á 500 kílómetra hraða.
„Við verðum að stökkva út“, hugsar hann ósjálfrátt en ákveður samt að reyna að bjarga flugvélinni.
Þvert á allar líkur nær Cheshire stjórn á vélinni og bjargar skemmdri flugvélinni og áhöfninni aftur heim til Englands.
En ótal aðrar flugáhafnir bandamanna komast aldrei heim eftir sprengjuárásirnar sem eiga að knésetja Þýskaland.
Vissulega gátu sprengjuflugvélarnar náð langt á bak við víglínur óvinarins en Þjóðverjar höfðu
banvæna mótvægisaðgerð: Þeir voru að þróa eitt umfangsmesta loftvarnakerfi sögunnar.

Þúsundir sprengjuflugvéla neyddu Þjóðverja til að leggja mikinn þunga í loftvarnir sínar.
Yfirráð í lofti ráða úrslitum
Flugvélar voru fyrst notaðar af alvöru sem vopn í fyrri heimsstyrjöldinni þegar allir gerðu sér grein fyrir að sprengjuflugvélar myndu gegna lykilhlutverki í hernaði í framtíðinni. Hraði, drægni og sprengjuhleðsla flugvélarinnar var því stöðugt bætt.
Af sömu ástæðu fóru herir á millistríðsárunum að þróa loftvarnavopn sem gætu varist árásum úr lofti – þetta átti sérstaklega við í Þýskalandi.
Eftir fyrri heimsstyrjöldina hafði landinu verið bannað að smíða orrustuflugvélar og ný þungavopn en þýski stál- og vopnarisinn Krupp gekk í samstarf við sænsku Bofors verksmiðjurnar sem gerði Þjóðverjum kleift að þróa öflugar fallbyssur.
Meðal nýju vopnanna var 88 mm Flak loftvarnabyssan, með skothraða upp á tæplega 3.000 km/klst. Hún gat sent sprengikúlur upp í þá hæð sem nýjustu flugvélar millistríðstímans gátu náð.
Hugtakið „flak“ var skammstöfun á orðinu Flugabwehrkanone – loftvarnabyssa – sem varð algengt hugtak fyrir stórskotaliðsvopn.
Þegar síðari heimsstyrjöldin braust út árið 1939 hafði Þýskaland nasista komið sér upp loftvarnakerfi sem samanstóð af 650 Flak loftvarnavirkjum með 2.600 þungum loftvarnabyssum og 560 loftvarnavirkjum með léttari byssum.
Þýskaland var því betur í stakk búið til að verjast loftárásum en nokkur önnur þjóð í heiminum.
Engin flugvél komst undan loftvarnaeldinum
Þjóðverjar réðu yfir loftvarnabyssum í gífurlegu magni – allt frá léttum vélbyssum sem gátu skotið á orrustuflugvélar í lágflugi til 27 tonna stálskrímsla sem ógnuðu sprengjuflugvélunum í meira en 10 kílómetra hæð.

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu
Þegar Bretar og Frakkar lýstu yfir stríði á hendur Þjóðverjum í september 1939 var yfirmaður þýska flughersins, Hermann Göring, því fullur sjálfstrausts. Yfirmaður Luftwaffe útilokaði algjörlega að óvinurinn gæti ógnað Ruhr-héruðunum í Þýskalandi, þar sem 60 prósent af hergagnaiðnaðinum var. Hann varð þó fljótt að sjá eftir þeirri yfirlýsingu.
Aðeins átta mánuðum síðar gerði konunglegi breski flugherinn (RAF) loftárás á Ruhr-svæðið í fyrsta skipti.
Árásin skapaði ótta meðal Þjóðverja. Ef Bretum tækist að eyðileggja hergagnaiðnað Þýskalands úr lofti væri stríðið tapað.
Gífurlegum fjármunum var því varið til að stöðva sprengjuflugvélar bandamanna.
Sprengjuteppi fyllti himininn
Frá 1941 voru útvarðastöðvar þýska loftvarnakerfisins meðfram ströndum Danmerkur, Hollands og Belgíu, þar sem belti af Freya-ratsjám fann óvinasprengjuflugvélar skömmu eftir að þær höfðu tekið á loft frá Bretlandi.
Þannig gátu fyrstu loftvarnabyssurnar tekið vel á móti Bretum, þegar þeir flugu yfir Holland sem varð þekkt sem „hraðbraut sprengjuflugvélanna“. Á fyrstu mánuðum ársins 1941 sáu loftvarnavirkin í hernumdu löndunum um 80 prósent af þeim flugvélum bandamanna sem Þjóðverjar skutu niður.
Svokallaðar Würzburg ratsjár lengra inni í álfunni gættu þess að fylgja sprengjuflugvélum óvinarins.
Ratsjárnar gátu mælt hæð, stefnu og hraða flugvélar. Þessi gögn voru send til loftvarnavirkjanna sem staðsett voru á áætlaðri leið sprengjuflugvélanna.
Eftir þeim upplýsingum gátu mennirnir í loftvarnavirkjunum sem oftast höfðu sex fallbyssur, stillt byssurnar þannig að sprengjurnar springju í réttri hæð.
„Eftir fyrsta skotið varstu næstum heyrnarlaus. Einnig var mikill reykur en hann hvarf eftir smá stund. Við vorum hvorki með grímur né búnað til að hlífa heyrninni,“ sagði Günther Vogel sem var í loftvarnavirki með 88 mm byssum nálægt Hamborg.
Það þurfti 8-10 menn til að stjórna þungum byssunum, hvort heldur var 88 mm, 105 mm eða 128 mm. Þegar allir sinntu hlutverki sínu fullkomlega gátu hálfsjálfvirkar byssurnar skotið um 15 skotum á mínútu.
„Yfir okkur, fyrir neðan okkur, fyrir framan og aftan, sprungu sprengjur í þrumuveðri úr stáli“.
Breski sprengjuflugmaðurinn Richard Rivaz.
Þess vegna gátu Þjóðverjar breytt himninum í sprengjuteppi og sprengjubrotin tættu sundur allt í nágrenni þeirra. Hins vegar gátu Þjóðverjar ekki séð almennilega hvað átti sér stað í stórbrotnu eldhafinu á himninum.
„Vélarnar flugu frekar hátt. Og við gátum ekki séð þær vegna þess að augu okkar beindust að stilliskífum og öðrum mælitækjum,“ rifjar Günther Vogel upp.
Óvinurinn gat hins vegar séð byssurnar á stuttu færi. Og engin sjón olli þeim meiri skelfingu.
„Yfir okkur, fyrir neðan okkur, fyrir framan og aftan, sprungu sprengjur í þrumuveðri úr stáli“ sagði breska skyttan Richard Rivaz sem í sprengjuárás yfir Köln sá hvernig þýsk leitarljós fönguðu hverja flugvélina á fætur annarri, vél eftir vél með miskunnarlausum ljóskeilum sínum.
Til að hagga víglínunni í vestri dugar ekkert minna en aragrúi af fallbyssum og sprengjuvörpum. Þetta er álit hershöfðingjanna og 1916 grípa þeir til skæðustu eyðileggingar sem á þessum tíma þekktist í heiminum – aleyðandi sprengjuregn.
Börn voru kölluð til þjónustu
Vorið 1942 hófu Bretar harðar næturárásir á Þýskaland í 2.000-3.000 metra hæð. Árið eftir tóku Bandaríkjamenn þátt með loftárásum í dagsbirtu en í 8.000-10.000 metra hæð.
Ógnin hvíldi yfir Þjóðverjum allan sólarhringinn og leiddi til stórfelldrar fjölgunar loftvarnavirkja. Bara árið 1943 framleiddu þýsku vopnaverksmiðjurnar um 25.000 loftvarnabyssur af öllum stærðum.
Þá höfðu svo margir þýskir hermenn verið fluttir á austurvígstöðvarnar að erfitt var að manna loftvarnirnar í Þýskalandi. Því voru 15-16 ára drengir kallaði til þess í þúsundatali.
„Þjónustan sem loftvarnaaðstoðarmaður sinnti var ekki sjálfviljug en margir upplifðu hana sem frelsun því þú slappst úr hinu venjulega, daglega lífi í skólanum,“ skrifaði rithöfundurinn Günter Grass sem 15 ára gamall var kallaður í loftvarnavirki með 88 mm byssum í Danzig (Gdansk).

Mörgum þýskum drengjum fannst það heiður að vera í loftvarnavirkjunum og verja föðurlandið.
Með tilkomu 38.000 ungra drengja á fallbyssurnar voru u.þ.b. 1,1 milljón manna sem tók þátt í loftvörnum árið 1944. Þeir réðu yfir allt að 40.000 loftvarnabyssum og 7.000 leitarljósum.
Þar á meðal var hinn 15 ára gamli Wolfgang Waldhauer sem var falið í febrúar 1944 ásamt hópi jafnaldra að manna 20 mm vélbyssu á einum af þremur loftvarnaturnum í Berlín.
Ofan á sjö hæða háum steinsteyputurni stóðu tvær risastórar 128 mm byssur en minni 20 mm vélbyssan hans Waldhauer stóð á svölum fyrir neðan. Héðan horfði hann á vítiselda himinsins.
„Þeir fjölmörgu ljóskastarar sem – þegar himinninn var heiður – söfnuðust saman um hverja einstaka flugvél af mikilli nákvæmni og héldu síðan áfram yfir í þá næstu,“ sagði Waldhauer eftir stríðið.
Efst á turninum hjálpaði hinn 17 ára gamli Harry Schweizer við að hlaða stóru 128 mm byssurnar sem Hitler kallaði „fallegasta vopn sem smíðað hefur verið“. Oft skutu fleiri en ein byssa samtímis á sama skotmark.
„Kraftur hverrar sprengingar náði yfir um 50 metra sem þýddi að allar flugvélarnar á samsvarandi svæði áttu mjög litla möguleika á að lifa af,“ útskýrði Schweizer.
Í einni árásinni varð turninn sjálfur fyrir sprengju sem reif handlegg af einum manni og ungur strákur missti auga.

Þegar flugvél var „fönguð“ af þýsku leitarljósunum tóku loftvarnabyssurnar við og tættu hana í sundur.
Kastarar vísuðu á dauðadæmdar sprengjuvélar
Þúsundir ljóskastara voru staðsettar meðfram vesturströnd Þriðja ríkisins sem og nálægt stórum borgum og iðnaðarsvæðum.
Öflugar ljóskeilur þeirra lýstu upp óvinaflugvélarnar og gerðu þær auðveldari skotmörk fyrir loftvarnabyssurnar.
Leitarljósin voru mikilvægasti hluti þýskra loftvarna á nóttinni þegar ljóskeilur þeirra leituðu að óvinaflugvélum á himninum. Hvert leitarljósafylki samanstóð að jafnaði af þremur stöðvum með samtals 27 ljóskösturum sem náðu yfir 30 kílómetra aðflugssvæði.
Algengasta leitarljósið var 150 sentimetrar í þvermál og var með rafal sem framleiddi 24 kílóvött. Þetta gaf þessum risa ljósstyrk upp á u.þ.b. 1 milljarð lux – ca. 1.000 sinnum meira en dagsbirta á björtum sumardegi.
Richard Rivaz, skytta í breskri sprengiflugvél lýsti því hvernig það var að lenda í leitarljósum:
„Geisli eins þeirra sveiflaðist yfir til okkar og staðnæmdist þar. Guð hvað ljósið var bjart! Allt í skotturninum mínum var upplýst. Ég vildi helst fela mig!”
Í sumum ljósastöðvunum var Würzburg ratsjá sem gat leitað uppi flugvél og fylgt henni þar til kveikt var á leitarljósinu. Hinar stöðvarnar fylgdu síðan í kjölfarið og lýstu upp skotmarkið.
Slíkt safn ljósa gat lýst upp skotmörk í allt að 12-14 kílómetra hæð. Þegar sprengjuflugvél var fundin og upplýst var nánast ómögulegt fyrir hana að komast undan og loftvarnabyssurnar gátu auðveldlega hæft skotmarkið.
Í febrúar 1944 voru Þjóðverjar með alls 13.748 ljóskastara.
Í nóvember 1943 þurfti vígbúnaðarráðherra Þýskalands, Albert Speer, að leita skjóls í einum turnanna og varð gagntekinn af því sem hann sá fyrir utan, þar sem óvinaflugvélar hentu út litsterkum, logandi blysum til að merkja skotmörkin:
„Ég þurfti stöðugt að minna mig á hinn grimma veruleika til að verða ekki töfraður af því sem ég sá: ljósinu frá fallhlífablysunum sem Berlínarbúar kölluðu jólatré, reykskýjunum sem fylgdu sprengingunum; óteljandi ljóskeilum leitarljósanna og spennunni, þegar flugvél náðist og reyndi að komast undan ljóskeilunni og síðast blossanum þegar sprengikúla hitti hana.“
En loftvarnirnar hjuggu skarð í fjármagn nasistanna. Á síðasta ársfjórðungi 1944 notaði herinn allt að 20 prósent af heildarfjárveitingum til stríðsrekstrarins í skotfæri til loftvarna – ekki síst vegna þess að það þurfti að meðaltali 16 þús. 88 mm skot til að skjóta niður hátt fljúgandi sprengjuflugvél.
Þó að til samanburðar hafi 128 mm fallbyssan aðeins þurft að nota 3.000 skot til verksins, þá var ljóst að Þjóðverjum var um megn að reka þetta til lengdar.
Byssustrákarnir urðu frægir sem fullorðnir
Af u.þ.b. 60.000 þýskum táningsdrengjum sem voru sendir til að aðstoða við loftvarnirnar urðu nokkrir frægir á fullorðinsaldri.

Páfinn flúði úr hernum
Joseph Ratzinger, síðar Benedikt páfi XVI, varð aðstoðarmaður 16 ára gamall árið 1943. Eftir það starfaði hann í nokkrum loftvarnavirkjum. Í nóvember 1944 var hann síðan kallaður í herinn en flúði. SS menn leituðu hans á heimili fjölskyldunnar en fyrir heppni náðist hann ekki.

Stjörnufélagsfræðingur var pyntaður
Árið 1943 varð Niklas Luhmann, þá 15 ára gamall aðstoðarmaður í loftvarnavirki. Í tvö ár mataði hann fallbyssurnar með sprengjum þar til hann var handtekinn af Bandaríkjamönnum sem að hans sögn pyntuðu hann og stálu úrinu hans. Síðan varð Luhmann einn mikilvægasti félagsfræðihugsuður Þýskalands.

Nóbelsverðlaunahafinn sjálfboðaliði
Rithöfundurinn Günter Grass heillaðist af fasisma sem unglingur og vildi ganga í herinn 15 ára gamall. Hann var of ungur til þess og í staðinn gerðist hann aðstoðarmaður í loftvarnavirki. Síðustu mánuði stríðsins þjónaði Grass í Waffen-SS áður en hann var tekinn til fanga. Grass opinberaði stuðning sinn við nasisma árið 2006 – sjö árum eftir að hann hlaut Nóbelsverðlaunin.
Skutu niður þúsundir flugvéla
Árið 1945 varð stöðugt lengra milli svörtu reykskýjanna á himninum yfir Þýskalandi. Vegna árangursríkra sprengjuárása bandamanna á iðnaðarsvæði Þýskalands var einfaldlega ekki nóg til af skotum til að fóðra loftvarnabyssurnar.
En þrátt fyrir að loks hafi tekist að þagga niður í þýsku Flak-byssunum höfðu þær gegnt mikilvægu hlutverki í stríðinu. Frá júlí 1942 til maí 1945 skutu loftvarnavirkin niður 6.745 breskar og bandarískar flugvélar.
Auk þess hjálpuðu þau til við að stressa óvininn þannig að í mörgum tilfellum hittu flugvélarnar ekki skotmörk sín á jörðu niðri.
„Við sigruðum aldrei þýsku loftvarnirnar“.
Yfirmaður bandaríska flughersins, Henry H. Arnold.
Án loftvarnavirkjanna hefðu þýsku borgirnar og verksmiðjurnar verið sprengdar í rúst mun fyrr. Og þó að bandamenn hafi getað fagnað sigri á Hitler í maí 1945, þá höfðu flugherir þeirra greitt það dýru verði í mannslífum og búnaði.
„Við sigruðum aldrei þýsku loftvarnirnar“ viðurkenndi yfirmaður bandaríska flughersins, Henry H. Arnold hershöfðingi, að stríðinu loknu.