Lifandi Saga

Fallbyssur urðu hakkavél stríðsins: Sprengjuregnið

Til að hagga víglínunni í vestri dugar ekkert minna en aragrúi af fallbyssum og sprengjuvörpum. Þetta er álit hershöfðingjanna og 1916 grípa þeir til skæðustu eyðileggingar sem á þessum tíma þekktist í heiminum – aleyðandi sprengjuregn.

BIRT: 26/12/2023

Þótt hugurinn hrópi á frið eru það einungis öskur og dunur dauðans sem berast að eyrum þýska hermannsins Karls Gorzel á Thiepval-hæðinni norðan við Sommefljót.

 

Það ýlir í sprengikúlunum sem þjóta um loftið áður en þær springa af svo miklu afli að jörðin skelfur.

 

Moldarstrókar rísa til himins og jarðveginum rignir svo niður yfir Gorzel og félaga hans og fyllir vit þeirra, treður sér inn í munn, nasir og eyru.

 

Ekki fyrr en eftir margra klukkutíma samfellt sprengjuregn verður stutt hlé.

 

Gorzel er 21 árs og í kringum sig heyrir hann nú grátstafi og neyðaróp.

„Þvílíkur óhugnaður! Engin ummerki um skotgröfina.“
Þýski hermaðurinn Karl Gorzel eftir stórskotaliðsárás við Somme.

Í kringum hann liggja samlandar hans margir með óhugnanleg sár og limir hafa tæst af sumum. Blóð streymir niður í sundurtættan jarðveginn, þar sem fyrir tveimur klukkustundum var fremsta skotgröfin í víglínu Þjóðverja.

 

„Þvílíkur óhugnaður! Engin ummerki um skotgröfina – einungis sprengjugígar, svo langt sem augað eygði,“ skrifar Gorzel í bréfi en honum vinnst ekki langur tími til að virða fyrir sér þetta nýja landslag.

 

„Skothríðin harðnar aftur. Hún dynur í höfðinu og varirnar brenna. Örlög okkar eru í Guðs höndum,“ skrifar Gorzel um óhugnaðinn á Somme-vígstöðvunum 1916.

 

Myndskeið: Sjáðu upprunalegar kvikmyndir af fallbyssum fyrri heimstyrjaldar

Gorzel er þó aðeins einn af þeim milljónum ungra manna sem í fyrri heimsstyrjöldinni lentu í svo gereyðandi sprengjuregni að annað eins hafði ekki áður sést í veraldarsögunni.

 

Aldrei gefst næði fyrir stórskotaliðinu. Fallbyssur og stórar sprengjuvörpur eru mestu ógnarvopn styrjaldarinnar. Þær drepa flesta, valda verstu sárunum og bitna verr á sálarlífinu en nokkur önnur vopn.

 

Sprengjuregnið tætir menn í smátt og má eiginlega nefna sannkallaða hakkavél stríðsins á vesturvígstöðvunum.

Á öllum vesturvígstöðvunum breytti stórskotaliðið blómstrandi jörð í eyðimörk.

Fyrst í aukahlutverki

Þegar fyrstu fallbyssukerrurnar birtust á vígstöðvunum sumarið 1914 minnti sviðsmyndin helst á Napóleonsstríðin heilli öld fyrr. Vissulega voru fallbyssurnar langdrægari en hernaðartæknin var óbreytt.

 

Í upphafi orrustu var skotið úr fallbyssum á varnir andstæðinganna og fótgönguliðið fylgdi svo í kjölfarið og átti að nýta ringulreiðina sem fallbyssuskothríðin hafði valdið.

 

Gallinn var sá að varnarmannvirkin í fyrri heimsstyrjöld stóðust fallbyssuskothríð. Skotsprengjur voru tiltölulega fáar og sá fjöldi sem herirnir réðu yfir 1914 dugði ekki til að eyðileggja varnarmannvirki andstæðinganna. Gallinn var sá að varnarmannvirkin í fyrri heimsstyrjöld stóðust fallbyssuskothríð.

Sprengjuhögl neyddu menn í skjól

Í byrjun stríðsins voru haglasprengjur mest notaðar. Þær dreifðu stálkúlum þegar þær sprungu og eina vörnin var að leita skjóls í skotgröfunum. En þar með glötuðu þessar sprengjur gildi sínu.

 

1. Tímastillt haglasprengja náði niður í skjólið

Gegn fótgönguliðum sem höfðu grafið sig niður í skotgrafir voru notaðar tímastilltar haglasprengjur. Þær sprungu í lofti, um 25 metrum frá skotmarkinu og í 4,5 metra hæð. Þannig náði hluti kúlnaregnsins niður að óvinunum.

 

2. Snertisprengjur gegn fótgönguliði

Gegn fótgönguliðum í árás voru notaðar snertisprengjur sem sprungu við lendingu og dreifðu þá stálkúlum yfir fótönguliðanna.

 

3. Haglasprengjur gegn riddaraliði

Meðan riddaraliði var enn beitt, notaði stórskotaliðið hinar hefðbundnu haglasprengjur. Þær sprungu strax eftir að þeim var skotið. Þegar skotgrafahernaður hófst fyrir alvöru urðu sprengjurnar sprengifimari.

Skotsprengjur voru tiltölulega fáar og sá fjöldi sem herirnir réðu yfir 1914 dugði ekki til að eyðileggja varnarmannvirki andstæðinganna.

 

Þegar fallbyssuskothríðin hófst leituðu óvinirnir skjóls í skotgröfunum en skriðu svo aftur upp að vélbyssunum þegar skothríðinni linnti. Ógerlegt var að koma óvininum á óvart vegna þess að allmörgum fyrstu skotunum þurfti að eyða til að ná réttri hæðarstillingu á fallbyssuna, þannig að skotin hæfðu í mark.

 

Þeir sem skutu úr fallbyssunum höfðu oft léleg kort í höndunum. Þar var iðulega ekki sýndur hæðarmunur á landi. Menn þurftu því að stilla fallbyssurnar rétt, áður en skothríðin hafði rétt áhrif.

 

Þetta tók svo langan tíma að fallbyssuskothríðin gerði sjaldnast mikinn skaða.

 

Fallbyssur á forgangslista

Þýskir, franskir og breskir herforingjar voru hins vegar allir á þeirri skoðun að einungis gríðarlega öflugt stórskotalið væri þess megnugt að rjúfa kyrrstöðu skotgrafahernaðarins. Til þess þurfti þó margfalt fleiri sprengiskot en til voru.

 

„Það er ekki hægt að eyðileggja neitt ef maður þarf stöðugt að vera að telja sprengjurnar sínar,“ sagði pirraður breskur stórskotaliði árið 1914.

 

Framleiðsla á fallbyssum og sprengjum lenti þess vegna efst á forgangslistanum.

Skrímsli stórskotaliðanna tættu vesturvígstöðvarnar

Báðir stríðsaðilar þróuðu betri og kröftugri sprengjuvopn öll stríðsárin og samhliða jókst skelfing manna í skotgröfunum.

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Allir veðjuðu á fallbyssur

Frá ágúst og fram í desember féllu nærri milljón hermenn í stríðinu. Þjóðverjar höfðu unnið mest á þar eð þeir höfðu náð mestallri Belgíu á sitt vald ásamt stórum hluta af Norður-Frakklandi.

 

Fjarri víglínunni, í Englandi, Frakklandi og Þýskalandi, voru verksmiðjur mannaðar allan sólarhringinn við að framleiða sprengjur. Langdrægari, nákvæmari og hraðvirkari fallbyssur voru líka framleiddar.

 

Sama gilti um svokallaðar haubitsbyssur, sprengjuvörpur, ekki ósvipaðar fallbyssum en með styttra og víðara hlaup.

 

Þessar sprengjuvörpur gátu skotið mun stærri sprengikúlum sem fóru í háan boga að bækistöðvum óvinanna.

 

Árið 1914 framleiddu Bretar aðeins 91 fallbyssu og sprengjuvörpur en strax 1915 urðu þær 3.226.

Í orrustunni við Somme 1916 höfðu Breta safnað að sér nærri 1.500 fallbyssum og sprengjuvörpum og létu sprengjum beinlínis rigna yfir víglínu Þjóðverja.

Þar eð mikill fjöldi karlmanna var sendur til vígstöðvanna voru það iðulega konur sem unnu við þessa framleiðslu.

 

„Þrátt fyrir hitann máttum við ekki lofta út, ekki einu sinni í matarhléum, því dyrum og gluggum þurfti að loka vegna sprengjuhættunnar,“ sagði Editha Krell sem starfaði í þýskri vopnaverksmiðju og sá fjórar ungar stúlkur slasast lífshættulega á fjögurra mánaða tímabili.

Stórskotaliðsmenn voru ekki öruggir, jafnvel þótt þeir væru talsvert að baki sjálfri víglínunni. Hér leitar hermaður skjóls fyrir sprengjum.

Meðan hergagnaframleiðslan var á fullu gerðu yfirmenn herjanna sitt besta til að auka nákvæmni stórskotaliðsins. Nú var öllum orðið ljóst að ýmsir þættir, svo sem vindhraði, loftþrýstingur og hæðarmunur, skiptu verulegu máli.

 

Árið 1915 stofnuðu Bretar landfræðinefndir til að teikna nákvæmari kort og árið eftir var komið á fót sérstökum athugunarsveitum. Stórskotaliðið fékk nú til viðbótar nýja veðurspá þrisvar á dag.

 

Athuganir úr lofti fengu líka aukinn forgang. Bæði belgför og flugvélar voru notaðar til að mynda stöðu óvinanna. Það fór hrollur um hermennina þegar óvinaflugvél flaug yfir.

 

„Við vorum þeim algerlega ofurseldir og Bretarnir beittu stóru fallbyssunum af óhugnanlegri nákvæmni, sprengikúlurnar komu hver á fætur annarri beint niður á varnarlínu okkar,“ sagði Karl Gorzel um orrustuna við Somme 1916 – árið sem stórskotaliðið sýndi mátt sinn og megin fyrir alvöru.

Á vesturvígstöðvunum var skotið milljónum sprengikúlna. Hér sjást tæmd sprengjuskothylki eftir upphafsárás stórskotaliðs.

Sprengjur féllu dag og nótt

Fyrsta eina og hálfa árið hafði verið skelfilegt fyrir hermenn í skotgröfum en nú versnaði ástandið til muna. Í febrúar 1916 hófu þýskir hermenn orrustuna við Verdun með því að skjóta um einni milljón sprengja að vörnum Frakka – á aðeins einum sólarhring. Einvígi stórskotaliðanna hélt áfram – fram og til baka – í 302 daga.

 

„Sprengjur falla og drepa alla án nokkurrar miskunnar. Ég skil ekki hvernig ég get enn verið á lífi,“ skrifaði franski hermaðurinn Paul Pireaud:

 

„Þetta er gjöreyðing á einu augnabliki án þess að við sjáum nokkru sinni framan í óvininn.“

 

Annar Frakki tekur í sama streng: „Við erum í ríki dauðans. Logar helvítis lýsa upp nóttina. Næturmyrkrið er skyndilega tætt sundur. Allt í kring hljóma sprengingarnar frá dómsdagsbjarmanum“.

 

Um sumarið þetta sama ár hófu Bretar öflugustu sprengjuárás sína á 29 km langri víglínu meðfram fljótinu Somme. Í sjö sólarhringa rigndi sprengikúlum frá fallbyssum og sprengjuvörpum yfir varnarlínu Þjóðverja.

„Ekkert hefur lifað af“.
Breski hershöfðinginn Henry Rawlinson eftir að 1,5 milljón sprengja var skotið.

Á einni viku skjóta Bretar og Frakkar meira en einni og hálfri milljón sprengja – fleiri en samtals var skotið á fyrstu 12 mánuðum stríðsins.

 

„Það er óhugsandi að nokkur hafi lifað af,“ áleit breski hershöfðinginn Henry Rawlinson.

 

Hann hafði rangt fyrir sér. Þegar 100.000 breskir hermenn gerðu árás eftir sprengjuhríðina, svöruðu Þjóðverjar með vélbyssum og sprengjuregni. 19.240 Bretar féllu á fyrsta sólarhringnum sem samsvarar því að 13 menn hafi verið drepnir á mínútu í 24 klukkustundir.

 

Þannig héldu bardagar áfram, rétt eins og við Verdun og víðar á vesturvígstöðvunum.

Getur einhver varist jarðskjálfta sem er að gleypa hann?“

Franskur hermaður um sprengjuregn Þjóðverjanna.

Taugar hermannanna voru í afleitu ástandi vegna stöðugra ýluhljóða frá aðvífandi sprengikúlum. Jafnvel þeir hermenn sem komust í skjól í þeim stóru byrgjum sem grafin höfðu verið neðanjarðar, sátu þar í stöðugum ótta við hinar kraftmiklu sprengjur.

 

„Getur einhver varist jarðskjálfta sem er að gleypa hann? Til hvers er að skjóta úr riffli á eldfjall sem spýr glóandi hrauni?“ spurði franskur hermaður í uppgjafartón.

Fallbyssurnar urðu svo stórar í stríðinu að það þurfti að færa þær til á járnbrautarteinum.

Tjón af völdum sprengjuregnsins var gríðarlegt á báða bóga.

 

„Það vekur hermönnum á vígstöðvunum ekki lengur neinar tilfinningar að sjá höfuðlaus lík eða lík án fóta eða handleggja, lík með stór skotsár á kviðnum, ennið sprengt af eða gat á brjóstkassanum,“ sagði þýskur hermaður sem barðist við Verdun.

 

Alls staðar féllu hermenn eins og hráviði í bardögum sem virtust algerlega tilgangslausir.

 

„Sjúkraliðar bera særða á börum eins langt frá víglínunni og þeir geta. Liðsaukar berast og hinir dauðu eru grafnir. Svo kemur nýr dagur, enn hræðilegri en sá fyrri,“ skrifaði Karl Gorzel frá Somme haustið 1916.

 

Þessi 21 árs Þjóðverji lifði bardagana af en þarna féllu 320.000 aðrir, flestir fyrir sprengikúlum. Enn hafði stórskotaliðinu þó ekki tekist að sanna að það væri þess umkomið að vinna landsvæði. Nýjar aðferðir þurfti að þróa.

Yfir 300.000 létu lífið í átökunum við Somme. Hér sjást breskir hermenn á sundurtættu svæðinu árið 1916.

Sprengjumúr til skjóls

Hið ofboðslega sprengjuflóð breytti vesturvígstöðvunum í eins konar eyðimörk þar sem enginn gróður stóð eftir, aðeins bútar af trjástofnum stóðu enn á stöku stað. Hvorugur stríðsaðilinn hafði þó fundið ráð til að hnika víglínunni.

 

„Af hverju komumst við ekkert áfram?“ skrifaði vonsvikinn franskur fótgönguliði sem fannst hann og félagar sínir aðeins „bíða dauðans með þessu móti“.

 

Lausnin fólst í hörkulegustu gereyðingu stríðsins, eins konar skríðandi sprengjuvegg sem stórbætti samspil stórskotaliðs og fótgönguliða.

 

Aðferðin fólst í því að láta sprengjum stöðugt rigna yfir svæði skammt framan við fótgönguliðana.

 

Sprengingarnar mynduðu þannig eins konar varnarvegg sem „skreið“ áfram og fluttist lengra fram með ákveðnu millibili – og fótgönguliðarnir fylgdu á eftir.

 

Þessi skríðandi varnarveggur gerði óvininum ókleift að sjá fótgönguliðana nálgast. Um leið ruddu sprengikúlurnar úr vegi öllum hindrunum, svo sem gaddavír og jarðsprengjum.

 

Sprengjurnar knúðu jafnframt óvinahermenn til að leita skjóls í byrgjunum þannig að þeir náðu ekki að manna vélbyssurnar fyrr en það var orðið of seint.

 

Þessi aðferð krafðist á hinn bóginn fullkominnar samræmingar. Færu fótgönguliðarnir ekki nógu hratt yfir voru þeir ekki komnir nógu langt þegar sprengjuskotunum var hætt og óvinirnir náðu að svara árásinni.

 

Færu fótgönguliðarnir of hratt áttu þeir hins vegar á hættu að týna lífi fyrir eigin sprengjum.

 

Þrátt fyrir hættuna var fótgönguliðunum fyrirskipað að halda sig sem næst sprengjuveggnum. Útreikningar sýndu að um 10% af fótgönguliðum hlytu óhjákvæmilega að falla fyrir sprengjubrotum eða sprengjum sem kæmu niður of aftarlega.

 

Hershöfðingjarnir voru reiðubúnir að sætta sig við þetta mannfall ef aðferðin gæti rofið kyrrstöðuna á vígstöðvunum.

Stór gaddavírssvæði vernduðu stöðurnar á vesturvígstöðvunum. Þessum hindrunum þurfti að ryðja úr vegi með skríðandi sprengivegg.

Aðferðin fínstillt

Bretar urðu fyrstir til að beita skríðandi sprengjuvegg í orrustunni við Somme en aðferðin reyndist ekki standa undir væntingum. Þjóðverjar höfðu komið upp gaddavírshindrunum sem enn voru í þokkalegu ástandi þegar fótgönguliðarnir komu að þeim.

 

Afleiðingin varð sú að fótgönguliðarnir urðu á eftir áætlun og fyrir bragðið náðu Þjóðverjar að manna vélbyssurnar áður en bresku hermennirnir náðu alla leið.

Alls staðar streymdu að menn með stálhjálma“.
Þýskur lautinant þegar óvinurinn birtist eftir árás með ,,skríðandi sprengjuregni”.

Á árinu 1917 var aðferðin fínstillt og samræmingin bætt. Það hafði líka afgerandi þýðingu að Bretum tókst að þróa næman sprengibúnað sem tendraði sprengjuna þegar hún snerti gaddavír.

 

Með þessu móti tókst miklu betur að eyða gaddavírshindrunum og fótgönguliðarnir gátu nú haldið í við sprengjuvegginn.

 

Það var ógnvænleg sjón sem blasti við hermönnum í lok langrar sprengjulotu, þegar óvinirnir vor samstundis komnir alveg að skotgröfinni.

 

„Eitt augnablik stóðum við sem dáleiddir af sjónarspilinu (sprengiregninu, ritstj.). Okkur vannst ekki tími til að gera að sárum okkar, því nánast um leið og sprengiregninu slotaði, var eins og líf kviknaði skyndilega allt í kring. Alls staðar streymdu að menn með stálhjálma,“ sagði þýskur lautinant í Flandri sumarið 1917.

Í stórskotaliðsárásum þurfti að reikna fjölmörg atriði, svo sem skotbrautina, þyngd sprengjanna og hve hratt ætti að skjóta þeim.

Þennan árangur mátti m.a. þakka fleiri fallbyssum sem tryggðu að hinu skríðandi sprengiregni var unnt að halda gangandi samfellt í langan tíma á langri víglínu.

 

Önnur árás, þar sem notaður var skríðandi sprengiveggur – í orrustunni við Passchendaele þann 12. október – endaði hins vegar með skelfingu.

 

Þegar árásin hófst snemma um morguninn hæfðu nokkrar af fyrstu sprengjunum nýsjálenska fótgönguliða sem voru að búa sig til framrásar.

Árásir með skríðand sprengivegg kröfðust vandlegrar skipulagningar. Hér sést tímatafla fyrir árás á Passchendaele. Hver lína sýnir áfanga í stórskotaliðsárásinni með fyrirfram ákveðnum tímum.

Og þegar fótgönguliðið hafði loks komist alla leið að víglínu óvinanna í gegnum hnédjúpa leðju, kom í ljós að sprengjurnar höfðu ekki náð að skadda gaddavírinn.

 

Nærri 1.000 nýsjálenskir hermenn týndu lífi áður en árásin var blásin af. Enginn dró þó í efa að enn öflugra stórskotalið og enn fleiri sprengjur væru það sem til þyrfti.

 

Árið 1917 framleiddu Bretar 76 milljónir af sprengiskotum og það var 150-földun á framleiðslunni frá 1914. Þessi ógnarfjöldi stórskotavopna varð til þess að hershöfðingjar voru farnir að tala um stórskotaliðsorrustur þegar þeir skipulögðu árásir á síðari hluta árs 1917.

 

Árásirnar áttu nú að nýta aukna skotlengd fallbyssnanna að fullu og skjóta á skotmörk talsvert handan víglínunnar.

Tugþúsundum saman komu ungir menn heim með hryllilegar skaddanir.

Sprengjur limlestu bæði líkama og sál

Hinar ofboðslegu sprengjuárásir leiddu af sér gríðarlegan fjölda særðra. Sprengjurnar tættu af mönnum útlimi, nef eða jafnvel hálft andlitið. Og þeir sem sluppu við líkamssár báru þungar sálarbyrðar alla ævi.

 

Læknar höfðu aldrei séð neitt þessu líkt, þegar særðir hermenn tóku að streyma frá vesturvígstöðvunum. Stórskotaliðsárásir ollu bæði miklum sárum og útlimamissi.

 

Útreikningar sýna að af um 67.000 Þjóðverjum þurfti að taka einn eða fleiri útlimi. Sama gilti um 41.000 Breta. Að langstærstum hluta skýrðist þetta af sprengjuárásum.

 

Nokkuð dulin en mjög útbreidd afleiðing sprengjuárásanna var heyrnarsköddun.

 

Sprengingar á vesturvígstöðvunum voru svo miklar að drunurnar mátti oft heyra í London eða í um 325 km fjarlægð.

 

Stórskotaliðarnir sjálfir notuðu ekki eyrnahlífar og það kostaði oft sprengdar hljóðhimnur. Söm urðu örlög margra hermanna sem voru í nálægð þegar sprengjur sprungu.

 

Jafnvel þeir hermenn sem sluppu án líkamlegra áverka fengu harkalegt taugaáfall af völdum sprengjanna.

 

Þetta ástand kom oft í ljós eftir langvarandi sprengjuárásir og lýsti sér í fullkomnu sinnuleysi eða miklum líkamsskjálfta. Árið 1916 var svokallað „shellshock“ orsök 40% allra innlagna á hersjúkrahús.

Þreytan segir til sín

Skríðandi sprengiveggir dugðu ekki einir og sér til að ráða úrslitum í styrjöldinni. Samskiptalínur voru bættar og tengdu nú saman aðalstöðvar og stöðvar sem höfðu yfirsýn yfir fallbyssuhreiðrin. Því tók skemmri tíma að bregðast við gagnárásum andstæðinganna.

 

Hershöfðingjarnir tóku nú að beina sjónum að djúpum, langdrægum árásum sem gætu veiklað andstæðinginn nægilega til að hann gæti ekki samhæft varnir sínar nægilega vel.

 

Stórskotaliðið átti ekki lengur að einbeita sér að skotgröfum óvinanna heldur átti að nýta langdrægari fallbyssur til að eyðileggja stjórn- og samskiptastöðvar að baki víglínunni. Þannig mátti lama andstæðinginn og gefa eigin árásarher tækifæri til að vinna landsvæði.

 

„Nú er formúlan komin,“ sagði yfirhershöfðingi Frakka, Philippe Pétain.

 

Báðir stríðsaðilar nýttu þessar djúpu árásir sem aðeins stóðu í nokkra klukkutíma, í stað fleiri daga og nú var líka farið að nota gassprengjur.

 

„Það hljóð sem flestir óttuðust mest var það sem þessar sprengjur gáfu frá sér við lendingu. Þetta „bump“ var tákn þess að hinn lævísi dauði væri lentur,“ skrifaði hermaður í þýska hernum.

Í skógum og á ökrum við Verdun eru enn um 12 milljónir ósprunginna sprengja.

Dauðinn leynist í skógarsverðinum

Á hverju einasta ári gægjast mörg þúsund ósprungin skothylki frá fyrri heimsstyrjöld upp úr moldinni á ökrum og í skógum í Frakklandi og Belgíu. Hinni lífshættulegu „sprengjuuppskeru“ er hvergi nærri lokið.

 

„Járnuppskeruna“ kalla franskir bændur þau ósprungnu skothylki og annan járnúrgang frá fyrri heimsstyrjöld sem enn birtist upp úr moldinni í Norður-Frakklandi og Belgíu.

 

Þegar bændur plægja akra sína koma gamlar sprengjur, gaddavír, skothylki og sprengjubrot upp á yfirborðið.

 

Bara í orrustunni við Verdun var skotið um 65 milljónum sprengja. Margar þeirra sprungu ekki og áætlað er að 12 milljón ósprungnar sprengjur leynist enn í jarðveginum.

 

Þótt meira en heil öld sé liðin síðan ófriðnum lauk, eru þessi skotfæri enn lífshættuleg.

 

Bæði í Frakklandi og Belgíu vinna sprengjusveitir að því að hreinsa þau skotfæri sem árlega koma upp úr moldinni. Í hinni árlegu „járnuppskeru“ eru um 1.000 tonn af ósprungnum skotfærum og af og til kosta þau finnandann lífið.

 

Frá 1918 hafa meira en 600 franskir sprengjusveitarmenn týnt lífi við störf sín. Enn í dag er bannað að stíga fæti á fleiri þúsund ferkílómetra lands vegna sprengihættunnar.

Með fullkomnun aðferðafræðinnar og stórfjölgun bæði vopna og skotfæra fyrir stórskotaliðið höfðu báðir stríðsaðilar þróað alveg nýjar stríðsaðferðir á fjórum árum. Stórskotaliðið sem hafði verið í algeru aukahlutverki 1914, gegndi lykilhlutverki í stríðinu árið 1918.

 

Bara í franska hernum hafði fjölgað í stórskotaliðinu úr um 20% af hermönnum 1914 í 38% fjórum árum síðar. En eftir því sem fallbyssum fjölgaði og hlaupin lengdust tók þreytan að segja til sín.

 

Ástandið varð verra hjá Þjóðverjum sem glötuðu bardagaþrekinu þegar Bandaríkin hófu þátttöku í styrjöldinni sumarið 1918. Að lokum sáu Þjóðverjar sér ekki annan kost en að fallast á vopnahlé þann 11. nóvember 1918.

 

Alls hafði þá verið skotið 720 milljónum gassprengja á vesturvígstöðvunum. Hið baneitraða gas er talið hafa átt sök á þriðjungi allra dauðsfalla og örkumla í stríðinu.

 

Og meðal fórnarlamba styrjaldarinnar var Karl Gorzel. Þjóðverjinn ungi hafði haft heppnina með sér og lifað af orrustuna við Somme 1916 en heppnin fylgdi honum ekki alla leið. Hann féll í mars 1918 – átta mánuðum áður en fallbyssurnar þögnuðu og styrjöldinni lauk.

Lestu meira um fallbyssur heimstyrjaldarinnar:

Paul Strong & Sanders Marble: Artillery in the Great War. Bókin fæst hjá Amazon en einnig sem rafbók á áskriftarvefnum scribd.com. Áskrift kostar 10 dollara á mánuði og rafbókaúrvalið er gríðarmikið.

Alan Axelrod: The Battle of Verdun, Lyons Press, 2018

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Troels Ussing , Niels-Peter Granzow Busch

© Ritzau Scanpix,© Imageselect,© Bridgeman Images/billedmontage:,© Bridgeman Images,© Imageselect,© Naval History and Heritage Command,© US National Archives,© Shutterstock,© Australian War Memorial,© Getty Images

Maðurinn

Er hægt að verða gráhærður á einni nóttu?

Heilsa

Hrotur geta verið vísbending um hjartasjúkdóm: Einn hópur er í sérstakri áhættu

Heilsa

Hrotur geta verið vísbending um hjartasjúkdóm: Einn hópur er í sérstakri áhættu

Náttúran

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Náttúran

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

NÝJASTA NÝTT

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Alheimurinn

Tvíburi Vetrarbrautarinnar finnst í útjaðri alheimsins

Lifandi Saga

Hvers vegna klæddust fangar röndóttum búningum í gamla daga?

Vinsælast

1

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

2

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

3

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

4

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

5

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

6

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

1

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

2

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

3

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

4

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

5

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

6

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Jörðin

Leiða loftslagsbreytingar til fleiri jarðskjálfta?

Maðurinn

Heilsa okkar ræðst af blóðinu

Náttúran

Topp 5: Hvaða dýr stunda lengsta mökun?

Lifandi Saga

Sósíaldarwinistarnir lýstu yfir stríði gegn fátækum

Maðurinn

Er siðblindingi á vinnustaðnum þínum?

Maðurinn

Úmamí – fimmta frumbragðtegundin

Maðurinn

Eru fingraför óhjákvæmilega ólík?

Maðurinn

Frestar þú leiðinlegum verkefnum? Samkvæmt vísindamönnum er það slæm hugmynd

Læknisfræði

Hversu gamalt er Viagra?

Maðurinn

Ný rannsókn: Áhrif framhjálds á konur koma á óvart

Maðurinn

Hve lengi hefur krabbamein hrjáð mannkynið?

Maðurinn

Við getum lifað án heilastofns

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Er sólarvarnarkrem eina leiðin til að verjast geislum sólar eða eru til matvörur með sólarvörn?

Maðurinn

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

 • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
 • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
 • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
 • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
 • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
 • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
 • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is