Lifandi Saga

178 flugvélar lentu í gildru Hitlers

Stór flugfloti bandarískra sprengjuvéla flýgur í ágúst 1943 inn yfir Rúmeníu í lítilli hæð. Skotmarkið er olíubirgðastöð Þjóðverja í Ploiesti. Síst af öllu grunar flugmennina að þeir séu á leið inn í vandlega skipulagða gildru.

BIRT: 05/10/2023

John Kane lautinant trúir ekki sínum eigin augum. Eftir margra klukkustunda flug í fararbroddi 47 B-24 sprengjuflugvéla er hann að lokum kominn að skotmarkinu: Ploiesti-olíuhreinsunarstöðinni í Rúmeníu.

 

Samkvæmt áætluninni eiga vélar hans að sprengja upp birgðastöð skammt suður af Ploiesti en honum til undrunar er staðurinn þegar hulinn reykjarmekki eftir aðra árás – eitthvað hefur farið úrskeiðis.

 

Kane lætur flugvélarnar lækka flugið niður undir trjátoppana en skyndilega breytist loftið í sannkallað sprengjuvíti.

 

„Neðan við okkur umhverfðist skyndilega allt. Ég sá venjulegar heysátur umturnast í sprengjuvörpur og vélbyssuhreiður sem skutu að okkur allt hvað af tók,“ rifjaði hann upp síðar.

 

Lest með loftvarnarvögnum leggur af stað í sömu átt og vélarnar fljúga og spúa miskunnarlaust sprengikúlum og vélbyssuskothríð að flugvélunum.

Hátt í 200 sprengjuflugvélar gerðu árás á Ploiesti. Hér gerir vél úr sprengjuvélasveit 98 árás en í bakgrunni springur flugvél sem skotin var niður. Myndin er tekin úr annari sprengjuvél sem flaug en neðar.

Bandaríkjamennirnir hafa aldrei séð neitt þessu líkt. Allt landsvæðið umhverfis Ploiesti þakið vel duldum loftvörnum.

 

Í örvæntingu skýtur Kane öllum 2.400 skotunum úr vélbyssunni í trjónu flugvélarinnar þannig að loftsiglingafræðingurinn situr eftir í gríðarstórri hrúgu af skothylkjum.

 

„Þú ert búinn með öll skotfærin!“ hrópar hann.

 

Sjö af níu fremstu flugvélunum verða fyrir skotum en vélarnar haldast á lofti og stefna beint á birgðastöðina.

 

Nú taka flugmennirnir mið af reykháfnum – olíuhreinsunarstöðin Astra Romana sem hefur dulnefnið „White 4“ er nánast ósýnileg í þeim kolsvörtu reykskýjum sem stíga upp frá Ploiesti fyrir hádegið þann 1. ágúst 1943.

„Við vorum teymdir gegnum fordyri helvítis.“
Einn leiðangursmanna á skýrslu sinni.

Hópur Kanes flýgur beint inn í reykskýið. Hér dugar ekki að gefast upp, því þessi árás – ein sú dirfskufyllsta í seinni heimsstyrjöld – gæti ráðið úrslitum í stríðinu. Án olíu frá Rúmeníu stöðvast stór hluti stríðsvéla Þjóðverja.

 

En Þjóðverjar hafa í leynum byggt upp gríðaröflugar loftvarnir við Ploiesti. Hinar gríðarmiklu olíubirgðir eru varðar nánast óvinnandi vígi vel falinna varna. Einn leiðangursmanna komst þannig að orði eftir á:

 

„Við vorum teymdir gegnum fordyri helvítis.“

 

Olíustöðin líflína Hitlers

Sumarið 1943 var seinni heimsstyrjöldin búin að standa í hátt í fjögur ár. Stríðslukkan hafði snúist og vonir Hitlers um að komast yfir olíulindir Stalíns á Kákasussvæðinu voru brostnar eftir blóðugan ósigur á austurvígstöðvunum.

 

Þjóðverjar voru því háðari rúmensku olíunni en nokkru sinni fyrr en hún flæddi úr olíuhreinsunarstöðinni í Ploiesti, 80 km norðan við Búkarest.

 

Bandamenn gerðu sér þetta ljóst og áætluðu að vel heppnuð árás á þessar hreinsi- og birgðastöðvar gætu stytt stríðið um hálft ár. Ploiesti varð þess vegna eitt þýðingarmesta skotmarkið sumarið 1943.

Bandamenn höfðu gamlar loftmyndir af Ploiesti og notuðu þær til að merkja mikilvægustu skotmörkin.

Ploiesti var Mekka olíunnar

Öfugt við flestar aðrar Evrópuþjóðir höfðu Rúmenar meira en nóg af olíu á stríðsárunum. Olíulindir við Ploiesti voru svo auðugar að Hitler vildi allt til vinna til að eiga vináttu Rúmena.

 

Þegar seinni heimsstyrjöldin braust út var gríðarmikil olía framleidd í Rúmeníu. Landið liggur að Svartahafi og hafði framleiðslu- og hreinsigetu upp á 10,7 milljónir tonna á ári – samsvarandi um þriðjungi olíuframleiðslu Sovétríkjanna á Kákasussvæðinu.

 

Mekka olíunnar var Ploiesti-svæðið. Þar voru 85% olíulindanna og sjö stórar olíuhreinsistöðvar voru keyrðar allan sólarhringinn til að vinna þetta svarta gull.

 

Ploiesti var Þjóðverjum óhemju mikilvægt svæði. Í Þýskalandi voru afar takmarkaðar olíulindir og Þjóðverjar framleiddu eldsneyti úr brúnkolum en sú framleiðsla var langt í frá nægjanleg.

 

Hitler kom því á bandalagi við Rúmena og gaf þeim m.a. fyrirheit um að endurheimta Bessarabíu frá Sovétríkjunum.

 

Á móti áttu Rúmenar að leggja til hermenn og þó ekki síður olíu fyrir stríðsvélar möndulveldanna.

Vegna öflugra loftvarna í Vestur- og Mið-Evrópu var útilokað að gera loftárásir frá Englandi en frá Benghazi í Líbýu gátu langdrægar sprengjuflugvélar, svo sem B-24 Liberator, komist þessa 4.000 km til Ploiesti og til baka.

 

Aðgerðin fékk heitið „Aðfall“ og 178 flugvélar áttu að taka þátt í árásinni, búnar eldsprengjum og bæði 250 og 500 kg sprengjum. Til að tryggja að þýskur radar kæmi ekki auga á flugvélarnar voru þær látnar fljúga lágflug.

 

Til viðbótar átti þessi lága flughæð að auka líkurnar á því að sprengjurnar hittu í mark en alls áttu fimm hópar sprengjuvéla að eyðileggja alls sjö olíuhreinsistöðvar.

 

Það var mat manna að loftárás í svo lítilli hæð myndi kosta þrefalt fleiri flugvélar en Lewis Bereton hershöfðingi sem fór með æðstu stjórn verkefnisins var yfir sig hrifinn af hugmyndinni.

 

„Hann viðurkenndi sjálfur að mikilfengleiki áætlunarinnar hefði heltekið sig,“ sagði einn úr áhöfn Johns Kane síðar.

Fyrir brottför fékk flugsveit 98, sveit Kanes, lokaupplýsingar í herstöðinni í Benghazi.

Í líbýsku eyðimörkinni létu verkfræðingar reisa nákvæma eftirlíkingu af Ploiesti-svæðinu og þar voru allir 1.753 hermennirnir látnir æfa sig.

 

„Við æfðum þetta þangað til við gátum sprengt allt blindandi,“ rifjaði einn hermaðurinn upp.

 

En þrátt fyrir vandaðan undirbúning var þó eitt atriði sem Bandaríkjamennirnir vissu lítið um: Loftvarnir í Ploiesti.

 

Loftvarnasnillingurinn

Í Rúmeníu hafði þýski hershöfðinginn Alfred Gerstenberg nýtt síðustu þrjú árin til að búa Ploiesti undir stóra loftárás. Þessi leyndardómsfulli hershöfðingi var góðvinur Hermanns Göring, yfirmanns þýska flughersins.

 

Þeir höfðu barist saman sem flugmenn í fyrri heimsstyrjöld og að því er loftvörnum viðvék reyndist Gerstenberg sannur snillingur.

 

1940 var hann sendur til Rúmeníu þar sem hann tók til við að fullkomna varnir Ploiesti. Hann byrjaði á því að reka burtu alla þá sem mögulega gætu verið njósnarar og bjó síðan svo um hnútana að óviðkomandi kæmust ekki með nokkru móti inn á svæðið.

 

Göring var eini tengiliður Gerstenbergs í Berlín en það dugði honum mæta vel. Honum tókst að fá til Ploiesti suma af bestu mönnum þýska flughersins, þeirra á meðal tæknisérfræðinga. Árið 1943 voru alls um 75.000 liðsmenn flughersins í Ploiesti.

Loftvarnir í Ploiesti voru betri en í Berlín

Allt frá 1940 höfðu Þjóðverjar stöðugt þróað og bætt varnir við Ploiesti. Olíuvinnslusvæðið hafði því einhverjar fullkomnustu loftvarnir í allri Evrópu í ágúst 1943.

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Gerstenberg notaði liðsafla sinn m.a. til að setja upp radartæki allt í kringum Ploiesti og á Balkanskaga, þar sem hann kom sér líka upp kerfi loftvarðstöðva.

 

Hann faldi mörg hundruð loftvarnabyssuhreiður undir heystökkum, húsum og kirkjuturnum.

 

Þessar öflugu varnir voru algjör andstæða þess sem bandamenn höfðu gert sér í hugarlund en þeir reiknuðu með um 100 loftvarnafallbyssum í mesta lagi.

 

Sú hugmynd að loftvarnabyssur væru einkum mannaðar miðlungsgóðum, rúmenskum skyttum reyndist líka röng. Í rauninni voru 80% loftvarnatækja mannaðar þrautþjálfuðum Þjóðverjum sem Gerstenberg sá til að héldu daglegar, erfiðar æfingar.

 

Ef hermennirnir kvörtuðu voru þeir samstundis sendir á austurvígstöðvarnar – lestin þangað kom við í Ploiesti.

 

Síðast en ekki síst hafði Gerstenberg safnað saman ríflega 100 þýskum og rúmenskum orrustuflugvélum á flugvöllum í grennd við olíuhreinsistöðvarnar. Ploiesti var með öðrum orðum orðin ein risavaxin gildra, reiðubúin að skella saman skoltum um hverja sprengjuflugvél sem hætti sér þangað.

Þjóðverjar höfðu einnig grafið hundruð tunna af efnablöndu sem sendi þykkan reyk yfir Ploiesti. Kveikt var í tunnunum ef um loftárás var að ræða.

Sprengjuvélarnar dreifðust

Um fjögurleytið að morgni 1. ágúst lögðu sprengjuvélar bandamanna upp frá flugvöllum í Líbýu og innan skamms var flugflotinn allur kominn út yfir Miðjarðarhaf en strax þar lentu níu vélar í vandræðum og neyddust til að snúa við.

 

Undan strönd Korfú tók flugvél með kallmerkið Wongo Wongo í sveit 376 að rása fram og til baka og flugvélarnar í kring þurftu að taka krappar beygjur til að komast hjá árekstri.

 

John Kane lautinant horfði á þetta úr fjarlægð en sveit 98 var þá aftar í flugflotanum.

 

„Flugvélin skrúfaðist niður í hafið og sprakk í svörtu reykskýi. Við sátum þarna undrandi og horfðum á sveit 376 sundrast. Vélarnar dreifðust til allra átta.“

 

Flugvélarnar í sveit 376 náðu reyndar saman aftur en þegar flugflotinn nálgaðist júgóslavnesku fjöllin tókst ekki betur til en svo að fremri sveitirnar tvær, 376 og 93, aðskildust frá hinum þremur.

 

Flugmenn í öllum sveitunum fimm höfðu fengið ákveðnar fyrirskipanir um talstöðvaþögn og þess vegna náðist ekki að sameina flugflotann á ný. Fyrri sveitirnar urðu á endanum langt á undan hinum þremur þegar að sjálfri árásinni kom.

Sprengjuflugvélin „Wongo Wongo“ hrapaði í Miðjarðarhafið skömmu eftir flugtak frá Benghazi. Enginn lifði af.

En það var borin von að koma Þjóðverjunum á óvart. Strax um tíuleytið höfðu Þjóðverjar veður af því að stór loftárás væri í aðsigi þegar radarstöðvar í Serbíu og Búlgaríu greindu flugflotann.

 

Þegar til flugvélanna sást frá varðstöðvum í transylvanísku Ölpunum um klukkutíma síðar, var Gerstenberg strax viss um að árás á Ploiesti væri yfirvofandi.

 

En Bandaríkjamenn skyldu ekki þurfa að kvarta yfir móttökunum.

 

Óreiða yfir Rúmeníu

Yfir Rúmeníu lenti sveit 376 aftur í vandræðum þegar yfirmaður hennar, Keith Comton, breytti stefnunni of snemma.

 

Í stað þess að snúa í átt að Ploiesti við þorpið Floresti, sneri hann við þorpið Targoviste. Hinir flugmennirnir eltu hann í blindni, nema einn.

 

Það var flugmaðurinn John Palm sem sneri sinni vél til Ploiesti.

 

Innan skamms þaut vél hans yfir trjátoppa og símalínur og varð fyrsta flugvélin sem lenti í kúlnahríð óvinanna.

„Ég var ekki nema 40 metrum fyrir aftan. Ég skaut og kveikti í hægri vængnum,“
Þýski orrustuflugmaðurinn Hans-Wilhelm Schöpper um árás á sprengjuflugvél.

20 mm sprengikúla boraði sig inn í vélina og varð manni að bana.

 

Til að halda flugvélinni á lofti lét Palm sleppa öllum sprengjunum og reyndi síðan að komast undan.

 

En þýski Messerschmitt-flugmaðurinn Hans Wilhelm Schöpper var þegar búinn að ná miði.

 

„Ég var ekki nema 40 metrum fyrir aftan. Ég skaut og kveikti í hægri vængnum,“ sagði Schöpper síðar.

 

B-24 vélin hrapaði skömmu síðar. John Palm komst þó lífs af ásamt öðrum.

 

Á meðan þetta gerðist hafði runnið upp fyrir Compton að hann var ekki á réttri leið. Í flugsveit hans voru 28 vélar sem áttu að verða fyrstar til að varpa sprengjum á Ploiesti og þær þurftu nú að taka á sig stóran sveig og ráðast á Ploiesti úr annarri átt.

 

„Við höfum farið af leið. Sprengið það sem þið getið,“ kallaði hann í talstöðina.

 

Tilviljanakennd árás

Sveit 93 var undir forystu Bakers lautinants og hafði fylgt á eftir vélum Comtons. Baker áttaði sig á rangri stefnu og eftir sex mínútna flug leiddi hann sínar 37 sprengjuvélar til baka til Ploiesti.

 

Þessi nýja innflugsstefna þýddi að vélarnar þurftu að fara þversum yfir Ploiesti til að komast að skotmörkum sínum.

 

En af nánast öllum húsþökum dundi loftvarnaskothríð á vélunum. Áhafnir vélanna leituðu því að nýjum skotmörkum upp á eigin spýtur.

 

Þetta líktist einna helst sirkusflugi þar sem flugvélarnar dreifðust út um allt í leit að olíuhreinsistöðvum til að sprengja, meðan sprengikúlurnar þutu allt í kringum þær.

„Logarnir stóðu út um allt í flugstjórnarklefanum.“

Vél Bakers hafði kallmerkið Hell‘s Wench og var ein hinna fyrstu sem vélbyssuhreiður breytti í fljúgandi eldkúlu.

 

„Logarnir stóðu út um allt í flugstjórnarklefanum,“ var haft eftir áhöfn annarrar vélar skammt frá.

 

Önnur flugvél varð fyrir svo ákafri skothríð að skrokkurinn brotnaði sundur í miðjunni áður en hlutarnir tveir féllu niður í þorp rétt utan við Ploiesti.

 

Sorglegasti atburðurinn gerðist eftir að rúmenski orrustuflugmaðurinn Carol Anastasescu skaut niður B-24 sprengjuvél. Þetta 30 tonna ferlíki skall inn í kvennafangelsið í Ploiesti og kostaði 61 mannslíf.

 

Rúmenski flugmaðurinn réðist síðan að annarri sprengjuflugvél en mætti harkalegri skothríð. Vél Anastasescus varð alelda en flughæðin var allt of lítil til að hann gæti kastað sér út í fallhlíf.

 

En hann sá aðra sprengjuflugvél rétt hjá og var snöggur að taka ákvörðun. „Ég gat verið snöggur að binda enda á þennan óbærilega sársauka.“

 

Harðákveðinn flaug hann orrustuvélinni beint inn í sprengjuvélina: „Ég fann ofboðslegan hita og síðan ekki meir.”

 

Við áreksturinn þeyttist Anastasescu út úr vélinni og féll 50 metra til jarðar. Mörgum klukkutímum seinna fannst hann í heysátu – á lífi.

B-24 vélarnar voru lestaðar stórum sprengjum eins og þessari sem vó hálft tonn.

Sérútbúnar sprengjuvélar

B-24 Libertor var hægfara og þunglamaleg flugvél en vélarnar sem sendar voru til Ploiesti voru sérstaklega útbúnar til að geta betur staðist þessa hættuför.

 

Í seinni heimsstyrjöld tóku B-24 Liberator smám saman við af hinum þekktu Flying Fortress-sprengjuvélum. B-24 vélarnar gátu borið þyngri farm og höfðu meira flugþol en þóttu á hinn bóginn óstöðugar.

 

„Vélin er klunnaleg og bregst treglega við stýringu. Frá jörðu séð mætti ætla að hægt væri að skjóta hana niður með grjóti,“ sagði Jacob Smart ofursti sem þó var þeirrar skoðunar að þessar vélar ætti að senda til Ploiesti.

 

Þrátt fyrir gallana varð B-24 fyrir valinu, einkum vegna flugþolsins. En til að auka öryggi voru gerðar ákveðnar breytingar á þeim vélum sem fóru til Ploiesti.

 

Brynvarnarplötum var bætt við og 50 kalibera vélbyssum komið fyrir í trjónunni til varnar gegn loftvarnastöðvum. Stóru sprengjurnar um borð voru misjafnlega tímastilltar, þannig að sumar sprungu ekki fyrr en allt að klukkustund eftir að þær féllu. Það torveldaði slökkvistarf til muna.

 

Í B-24 vélarnar voru líka settir tveir eldsneytistankar aukalega. Þeir tóku 1.500 lítra og það jók enn á flugþolið.

Kane flaug inn í vítiseldinn

Í vélinni Hail Columbia sá yfirmaður sveitar 98, John Kane, óreiðuna í aðfluginu að Ploiesti. Sveit 93 sem hafði villst af leið, hafði þegar sprengt hluta þess svæðis sem Kane átti að ráðast á.

 

Í lágfluginu lentu sveitir 98 og 44 hættulega nálægt hvor annarri og allar flugvélar mættu öflugum loftvörnum.

 

„Það var eins og allt nema eldhúsvaskarnir þeyttust upp í átt að okkur,“ rifjaði Kane upp.

 

Erfiðust var skothríðin frá hreyfanlegum dráttarvögnum. Í fararbroddi jók Kane hraðann og var kominn inn yfir Ploiesti kl. 12.12. Borgin líktist helst gjósandi eldfjalli vegna elda og skothríðar.

 

„Við vissum að þetta yrði stóráfall en við flugum beint inn,“ útskýrði siglingafræðingur Kanes, Norman Whaler, síðar.

 

Kane þaut í gegnum svört regnský en svo birtist olíuhreinsunarstöðin Astra Romana, skotmarkið White 4, skyndilega að baki reykjarkófinu.

B-24 vél úr flugsveit Kanes flýgur gegnum reykskýið frá brennandi olíuhreinsistöðinni Astra Romana (White 4).

Kane flaug svo lágt að þegar sprengja frá annarri vél sprakk fyrir neðan, stóðu eldtungurnar upp að flugvél hans, náðu inn í flugstjórnarklefann og hárin á öðrum handlegg hans sviðnuðu.

 

„Hreyfill 4 varð fyrir skoti,“ tilkynnti aðstoðarflugmaðurinn í sama bili.

 

Á þremur hreyflum stýrði Kane vélinni að Astra Romana og kl. 12.13 féll 500 kg sprengjan niður á skotmarkið. Um leið og Kane stýrði vélinni upp hæfði sprengja flugvélina við hliðina. Hún flaug beint inn í varnarbelg sem reif af henni annan vænginn og vélin steyptist niður á byggingar hreinsistöðvarinnar.

 

Sprengjuvélarnar komu nú úr öllum áttum inn yfir sjálfa borgina. Þýski hershöfðinginn Gerstenberg sem var staddur í borginni miðri, hélt að bandamenn hefðu skipulagt árásina svona og dáðist að herkænskunni.

 

En allmargar flugvélar rákust saman. Patch lautinant sem tilheyrði sveit Kanes, var mjög nærri því að fljúga inn í vél sem var skotin niður. Hún hrapaði svo nálægt Patch að hann sá „skotfærin springa eins og poppkorn í flugstjórnarklefanum sem var fullur af kolsvörtum reyk.“

 

14 vélar í sveit Kanes voru skotnar niður yfir olíuhreinsistöðvunum. Á móti kom að þeim tókst að sleppa 50 sprengjum yfir skotmarki sínu áður en þær hækkuðu flugið og svifu út yfir maísakrana í kring.

 

„Við flugum svo lágt á leið frá skotmarkinu að stélskytturnar eru enn að borða steiktan maís,“ spaugaði einn í áhöfninni á bakaleiðinni.

 

En hættan var aldeilis ekki afstaðin.

 

Orrustuvélar eltu flóttann

Um kl. 12.20 féllu síðustu sprengjurnar niður yfir Ploiesti. Meðal hinna síðustu voru sprengjur frá vélum í sveit Comptons sem hafði villst og flugmennirnir þurftu að láta sér nægja tilviljanakennd skotmörk.

 

En á tæpum hálftíma hafði alls um 500 sprengjum rignt niður yfir Ploiestisvæðið. Eldtungur og reykjarmekkir liðuðust alls staðar upp í loftið.

 

Margar vélar voru illa farnar. Hreyflar höfðu stöðvast, skrokkarnir götóttir og vængir sundur skotnir. Og þeir voru með hefnd Þjóðverja á hælum sér.

„Orrustuvélarnar límdu sig við okkur eins og sniglar við trjástofn.“
Kane lautinant um flóttann frá Ploiesti.

Sprengjuvélarnar voru ekki hraðfleygar og eldsnöggar Messerschmitt-orrustuvélarnar og rúmensku IAR-orrustuvélarnar voru fljótar að ná þeim.

 

Einn orrustuflugmannanna var Rúmeninn Ioan Barladeanu sem kom fljótlega auga á margar vélar úr sveit 44.

 

„Mér fannst eins og ég væri með mörg hundruð flugvélar fyrir framan mig. Ég hafði aldrei séð svona stóra flugsveit,“ sagði hann síðar.

 

„Ég ýtti á skothnappinn þar til mér var orðið illt í hendinni, úr varð löng og samfelld skothríð. Ég sá sprengingu í hreyfli sem tók að spúa eldi og reyk.

 

Þessi fjögurra hreyfla vél hélt ekki stefnu nema í nokkrar sekúndur, áður en hún missti hraða og hrapaði. Guð minn góður, ég var alveg yfirkominn!“ sagði rúmenski flugmaðurinn.

 

Þýsku orrustuflugmennirnir höfðu meiri reynslu og það voru þeir sem eltu Kane á heimleiðinni.

 

Lautinantinn hafði þegar misst einn hreyfil og leið eins og „kryppluðum fiski á flótta undan hákarli,“ þar sem Hail Columbia skjögti áfram í loftinu, þegar tvær Messerschmitt-vélar birtust skyndilega.

 

„Orrustuvélarnar límdu sig við okkur eins og sniglar við trjástofn. Skothríðin dundi án afláts.“

 

Stélskyttan varði flugvélina af mikilli elju og öllum til mikils léttis hurfu orrustuvélarnar aftur. En nú hafði annar hreyfill gefið sig, hægri vængurinn var sundur skotinn og tvö skrúfublöð ónýt.

 

Kane var ljóst að hann næði ekki alla leið til Líbýu.

Eftir árásina lágu niðurskotnar bandarískar flugvélar og flugvélaflök víða í kringum Ploiesti.

Aðeins 88 náðu til Líbýu

Kane var síður en svo einn um að komast ekki til Líbýu. Margir flugmenn tilkynntu um erfiðleika yfir talstöðina og leiðtogi sveitar 98 talaði skýrt.

 

„Þetta er Kane. Allar skaddaðar vélar taki stefnu á Tyrkland,“ var boðskapurinn í talstöðinni.

 

Og einmitt á þeirri stefnu kom Hail Columbia skömmu síðar að Balkanfjöllum í Búlgaríu. Áhöfnin sat með hjartað í buxunum meðan vélin rétt skreið yfir fjallatindana.

 

„Ég get svarið að ég fann skrokkinn strjúkast við fjallið,“ hrópaði stélskyttan. Innan tíðar komu vélarnar inn yfir Tyrkland, þar sem alls sjö þeirra urðu að nauðlenda.

 

Þótt Tyrkland væri hlutlaust vildi Kane fremur komast til Kýpur og það tókst með naumindum. Eldsneytisafgangur í geymi í sprengjulestinni dugði þann hálftíma sem til þurfti.

 

Alls komust 12 vélar til Kýpur, sjö enduðu á Möltu og níu á Sikiley. Ein flugvél hafði farið svo lágt við Ploiesti að maískorn sátu föst á milli sprengjuhleranna. Á annarri vél töldu menn 376 skotgöt á skrokknum.

 

Aðeins 88 vélar komust heilu og höldnu til Líbýu eins og til stóð.

Aðeins 88 af 178 sprengjuflugvélunum komust aftur til herstöðvar í Líbíu. Ein þeirra lendir hér.

Í herstöðinni í Benghazi voru margir stólar auðir þegar sest var að kvöldmat. 54 flugvélar höfðu farist og 208 hermenn verið teknir til fanga. 308 höfðu látið lífið.

 

Kveðjubréfum þeirra allra var safnað saman og þau send til fjölskyldna þeirra. Loftárásin á Ploiesti hafði reynst dýrkeypt.

Í Benghazi biðu starfsmenn flugherstöðvarinnar eftir að sprengjuflugvélarnar sneru aftur. Af þeim 1.753 mönnum sem tóku þátt í árásinni voru 516 annaðhvort drepnir eða urðu strandaglópar í Rúmeníu, Búlgaríu og Tyrklandi.

Eftir á kom í ljós að umframframleiðslugeta í Ploiesti hafði verið svo mikil að olíuframleiðsla Þjóðverja gat haldið áfram því nær eins og ekkert hefði í skorist.

 

En loftárásin varð þó til þess að auka virðingu bandaríska flughersins. Skömmu eftir árásina var farið að tala um þessar hetjur sem hefðu sýnt fram á að bandarískar sprengjuflugvélar gætu ráðist á skotmörk sín úr lítilli hæð og þar með – til tilbreytingar – komist hjá að drepa saklausa borgara þúsundum saman.

Meðal þeirra sem skotnir voru niður var Bandaríkjamaðurinn Ned Howard sem missti annan fótinn þegar flugvél hans var hrapaði yfir Ploiesti. Hann eyddi næstu 13 mánuðum í fangelsi.

1944 réðust bandarískar sprengjuflugvélar aftur á Ploiesti en nú úr margra kílómetra hæð.

Ítrekaðar loftárásir voru gerðar á Ploiesti

Bandaríkjamenn vonuðu að loftárásirnar 1943 myndu gera olíuhreinsistöðvarnar óvirkar í marga mánuði en gert var við skemmdirnar á skömmum tíma. Bandaríkjamenn ákváðu því að gera aðra atlögu.

 

Þrátt fyrir mikið mannfall var árásin á Ploiesti álitin vel heppnuð. En fljótlega varð ljóst að árangurinn stóð ekki undir væntingum.

 

Gert hafði verið ráð fyrir að öll olíuframleiðsla stöðvaðist í marga mánuði en í Ploiesti var gert við skaðann á skömmum tíma og afköst aukin á meðan í þeim stöðvum sem ekki höfðu skaddast.

 

Fyrir árásina hafði afkastageta olíuhreinsistöðvanna ekki verið fullnýtt og í heildina minnkuðu afköstin því lítið og voru eftir fáeinar vikur orðin þau sömu og fyrir árásina. Aftur brunuðu flutningalestir með hina dýrmætu olíu til vígstöðvanna.

 

Bandaríkjamenn neituðu að gefast upp og 1944 fóru B-17 og B-24 sprengjuvélar í alls 19 árásarferðir til Ploiesti.

 

Í viðamestu árásirnar voru sendar alls 604 vélar. Öfugt við árásina 1943 var sprengjunum nú varpað úr margra kílómetra hæð. Þessar árásir kostuðu bandamenn alls 222 flugvélar en drógu líka mjög mikið úr afkastagetunni í Ploiesti.

LESTU MEIRA UM ÁRÁSINA Á PLOIESTI

J. Stout: Fortress Ploesti: The Campaign to Destroy Hitler’s Oil Supply, Casemate Publishers, 2011

D. Schultz: Into the Fire: Ploesti, Westholme, 2008

HÖFUNDUR: Troels Ussing , Niels-Peter Granzow Busch

© PhotoQuest/Getty Images,© U.S. National Archives,© U.S. National Archives,© U.S. National Archives,© Topfoto/Ritzau Scanpix,© Mondadori Portfolio/Getty Images

Menning

Muhammad Ali: Versti andstæðingur hans var BNA 

Tækni

Er gler í rauninni vökvi?

Tækni

Er gler í rauninni vökvi?

Lifandi Saga

Upphafsár slökkviflugvéla: Óttalausir flugmenn réðust gegn eldinum

Lifandi Saga

Upphafsár slökkviflugvéla: Óttalausir flugmenn réðust gegn eldinum

Lifandi Saga

Hvers vegna hættum við að nota einglyrni?

Náttúran

Tungan kom lífinu upp á þurrlendið

Lifandi Saga

Persneskur kóngur stal borg óvina og endurreisti hana í eigin ríki 

NÝJASTA NÝTT

Heilsa

Óhefðbundin en áhrifarík meðferð geðraskana

Lifandi Saga

Barbie breyttist í hasarhetju

Heilsa

Húðflúr getur hugsanlega aukið hættuna á ákveðinni tegund krabbameins

Lifandi Saga

Hverjir stunduðu djöflasæringar?

Læknisfræði

Þannig má vinna bug á ógleði

Náttúran

Horfðu á myndskeiðið: Ný tegund risaslöngu fannst í Amasonregnskóginum

Lifandi Saga

Hvenær eignuðumst við grasflatir?

Lifandi Saga

Hryðjuverk nasista í New Jersey: Feiknarleg sprenging vakti BNA

Náttúran

Snjöll skordýr hafa fundið upp bestu brellur náttúrunnar

Jörðin

Veðrið er hlaupið í baklás

Heilsa

Óhefðbundin en áhrifarík meðferð geðraskana

Lifandi Saga

Barbie breyttist í hasarhetju

Heilsa

Húðflúr getur hugsanlega aukið hættuna á ákveðinni tegund krabbameins

Lifandi Saga

Hverjir stunduðu djöflasæringar?

Læknisfræði

Þannig má vinna bug á ógleði

Náttúran

Horfðu á myndskeiðið: Ný tegund risaslöngu fannst í Amasonregnskóginum

Lifandi Saga

Hvenær eignuðumst við grasflatir?

Lifandi Saga

Hryðjuverk nasista í New Jersey: Feiknarleg sprenging vakti BNA

Náttúran

Snjöll skordýr hafa fundið upp bestu brellur náttúrunnar

Jörðin

Veðrið er hlaupið í baklás

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Lifandi Saga

Hversu lengi hafa Bandaríkin stutt Ísrael?

Lifandi Saga

Hversu lengi hafa Bandaríkin stutt Ísrael?

Lifandi Saga

Bók frá 1898 sagði fyrir um Titanic-slysið 

Lifandi Saga

Bók frá 1898 sagði fyrir um Titanic-slysið 

Heilsa

Sjö venjur geta dregið verulega úr hættu á þunglyndi

Náttúran

Ofurmeginland gæti útrýmt dýralífi jarðar

Lifandi Saga

Hvenær byrjuðu indíánar að ríða hestum?

Tækni

Bílar svífa á methraða eftir nýrri grænni hraðbraut

Vinsælast

1

Læknisfræði

Þannig má vinna bug á ógleði

2

Náttúran

Horfðu á myndskeiðið: Ný tegund risaslöngu fannst í Amasonregnskóginum

3

Heilsa

Húðflúr getur hugsanlega aukið hættuna á ákveðinni tegund krabbameins

4

Náttúran

Snjöll skordýr hafa fundið upp bestu brellur náttúrunnar

5

Lifandi Saga

Hryðjuverk nasista í New Jersey: Feiknarleg sprenging vakti BNA

6

Heilsa

Óhefðbundin en áhrifarík meðferð geðraskana

1

Læknisfræði

Þannig má vinna bug á ógleði

2

Náttúran

Horfðu á myndskeiðið: Ný tegund risaslöngu fannst í Amasonregnskóginum

3

Heilsa

Húðflúr getur hugsanlega aukið hættuna á ákveðinni tegund krabbameins

4

Heilsa

Óhefðbundin en áhrifarík meðferð geðraskana

5

Lifandi Saga

Hvenær eignuðumst við grasflatir?

6

Lifandi Saga

Hverjir stunduðu djöflasæringar?

Heilsa

Vísindamenn hafa svarið: Hvers vegna eiga sumir auðvelt með að þyngjast?

Lifandi Saga

Nasismi skýtur rótum í BNA: Flughrap afhjúpar spilltan þingmann

Lifandi Saga

Hvers vegna var kókaín í Coke?

Náttúran

Vísindamenn leiða í ljós: Hundar geta orðið afbrýðisamir

Maðurinn

Hve mikið gagnamagn rúmast í heilanum?

Náttúran

Sníkill gæðir okkur fegurð

Læknisfræði

Ný tækni lokkar krabbafrumur úr felum

Jörðin

Hvenær var hnettinum skipt í tímabelti?

Lifandi Saga

Mömmustrákur tryggði bandarískum konum kosningaréttinn

Lifandi Saga

Hermaður sá heiminn á hvolfi eftir heilaskaða

Alheimurinn

Eitilhörð samkeppni um að leysa ráðgátur sólkerfisins

Læknisfræði

Soðnir kettir læknuðu nánast allt á miðöldum

Óhefðbundin en áhrifarík meðferð geðraskana

Vísindamenn hafa sýnt fram á að einföld meðferð getur haft furðu mikil áhrif á geðheilbrigði geðsjúkra.

Heilsa

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

 • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
 • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
 • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
 • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
 • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
 • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
 • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is