220 milljón ár – og enn í toppformi

Krókódílarnir hafa lifað af risaeðlur, árekstra loftsteina og ótal loftslagsbreytingar. Þessar lífseigu skepnur hafa í tímans rás komið fram í formum sem fá okkur til að sperra upp augun: Frá ægilegum skrímslakrókódílum sem gátu auðveldlega étið risaeðlur til háfættra sérkennilegra smákrókódíla er líkjast helst hundum. Þróunin hefur jafnvel boðið upp á plöntuætukrókódíla. Í meira en áratug hefur steingervingafræðingurinn Paul Serrano leitað í Sahara eyðimörkinni og hann hefur hvað eftir annað þurft að endurskoða hugmyndir sínar um útlit krókódíla. Einkennileg form þeirra hafa orðið til þess að hann hefur veitt nýjum tegundum nöfn eins og andakrókódíll, rottukrókódíll og jafnvel pönnukökukrókódíll.

BIRT: 04/11/2014

LESTÍMI:

7 mínútur

Krókódílar leyndust undir eyðimerkursandinum.

 

Sahara geymir steingervinga af furðulegustu krókódílategundum. Háfættir krókódílar með fæturna lóðrétt undan líkamanum eins og spendýr er ein þeirra tegunda sem líkist hreint ekki þeim krókódílum sem við þekkjum nú á dögum. Frá 1997 hefur teymi vísindamanna leitt af bandaríska steingervingafræðingnum Paul Serrano rannsakað þessi sérkennilegu dýr og hann er frá sér numinn af hrifningu.

 

„Krókódílarnir hafa lagað sig að búsvæðum sínum á ótrúlega heillandi máta,“ segir Serrano. Þetta undursamlega safn af steingerðum tegundum nær til krókódíla með gjörólíka lífshætti sem eru allir frá tímabili frá því fyrir 110 – 95 milljón árum þegar svæðið var þakið fenjum og fljótum. Sumar tegundanna hafa fundist í afar fáum eintökum þannig að örðugt er að segja til um útbreiðslu þeirra, en þeir gætu auðveldlega hafa verið ráðandi þáttur í dýralífi fortíðar. Stærstu og ógnvænlegustu tegundirnar hafa verið í toppi fæðukeðjunnar meðan minni tegundir gætu hafa gegnt sama hlutverki og nagdýr hafa nú á dögum.

 

Háfættur andakrókódíll

 

 

Eitt sérkennilegasta dýrið sem Serrano og félagar hafa fundið er andakrókódíllinn. Þetta var háfætt dýr sem líkja má kannski við meðalstóran hund. Nafnið er tilkomið af stuttu, breiðu og flötu trýni dýrsins sem líkist stórum andargogg. Skannanir á heila dýrsins sýna að utan um heilann voru loftholur sem bendir til þarfar fyrir hraðri kælingu þar sem krókódíllinn var snar í snúningum. Einnig eru merki um mjúkan vef í trýninu sem bendir til háþróaðs lyktarskyns. Tennurnar eru dæmigerðar oddhvassar krókódílatennur svo enginn vafi leikur á að þetta var rándýr. En erfitt er að segja til um hver bráð þess var. Varla hefur svo smávaxið dýr getað lagt að velli stærri dýr en Serrano telur að langir leggirnir hafi gert tegundinni kleift að veiða froska og smávaxin dýr í grunnu vatni.

 

Villisvínakrókódíllinn sló bráðina í rot

 

Fæst dýr hefðu kosið að standa andspænis hinum 6 m langa villisvínakrókódíl. Þetta var skaðræðisskepna sem lifði þar sem nú er Níger og var með – jafnvel miðað við mælistiku krókódíla – sérstaklega þróaðar tennur. Oddhvassar tennurnar sem sums staðar lágu í þrem röðum hafa að líkindum verið lagaðar til að grípa stóra fiska. Það getur nefnilega verið erfitt að ná taki á hálum fiskum. Hafi tennurnar hins vegar nýst til að bíta í stærri landdýr gátu þær líklega auðveldlega brotnað. En kannski hefur tegund þessi lagt sér til munns bæði smærri risaeðlur og stóra fiska.

 

Einnig er mögulegt að tannraðirnar hafi gegnt svipuðu hlutverki og hjá hákörlum. Hafi fremsta röðin brotnað eða dottið út var næsta tönn í röðinni tilbúin til að taka við sama hlutverki.

 

Það sem sérkennir þó þessa tegund er trýnið sem var afar beitt og sterklegt þannig að krókódíllinn gat notað það líkt og barefli. Kannski hefur það gegnt hlutverki í innbyrðis baráttu karldýra um hylli kvendýranna. Auk þess var öflugt trýnið mögulega notað sem barefli á veiðum, þannig að krókódíllinn hafi lamið og jafnvel rotað bráðina með því að sveifla til höfðinu en slík veiðiaðferð er þekkt hjá gavíalakrókódílum nútímans sem berja höfðinu til og frá þegar þeir komast í tæri við fiskitorfur. Fiskarnir sem verða fyrir höggum rotast og krókódíllinn getur síðan gætt sér á þeim í ró og næði.

 

Pönnukökukrókódílar í leynum

 

 

Ein furðuleg krókódílategund hefur fengið gælunafnið pönnukökukrókódíllinn þar sem hún var með óvanalega stórt og flatt höfuð – af 6 m lengd dýrsins voru kjálkarnir einir saman minnst 1 m. Þeir hafa að líkindum hentað til að fanga fisk sem hefur verið svo óheppinn að villast í námunda við krókódílinn er lá hreyfingarlaus í vatninu. Með leifturhraða skall gildran á fisknum. Finna má sömu aðlögun með afar langri, grannri og flatri höfuðkúpu hjá krókódílategundinni gavíal, sem einnig lifir á fiski. Pönnukökukrókódíllinn gæti þó hafa sérhæft sig á botnfiski sem faldi sig undir trjárótum og á sambærilegum stöðum þar sem auðveldara var að nota flatt trýnið til að grípa bráðina.

 

Ofurkrókódíll át risaeðlur

 

 

Rétt eins og fjölmörg skriðdýr fortíðar þróuðu krókódílarnir einnig með sér sannkallaða risa. Einn stærsta þeirra, sem var kannski stærsta krókódílategund sem nokkru sinni hefur verið uppi, hefur teymi Serranos fundið í Afríku. Þetta er ofurkrókódíllinn Sarcosuchus imperator, jötunn sem vó allt að 10 tonnum. Þegar upp úr 1940 fann franski steingervingafræðingurinn Albert Félix De Lapparent fyrstu slíka steingervingana í Sahara-eyðimörkinni.

 

Það voru þó aðallega tennur og smærri bein en fyrst þegar Serrano árið 1997 og 2000 fann fleiri bein, þ.m.t. meira en hálfa vel varðveitta beinagrind, var hægt að fá betri sýn yfir tegundina. Útreikningar á höfuðkúpu Sarcosuchus benda til að bitkraftur hennar hafi verið meira en 2 tonn – jafnvel meira en bitkraftur stærri ráneðla eins og grameðlunnar.

 

Hið sama á við um annan ofurkrókódíl, Denosuchus sem var álíka stór og Sarchosuchus, en var uppi fyrir 85 – 80 milljón árum. Frá 1850 hafa menn fundið smærri steingerðar leifar af Denosuchus í BNA og Mexíkó, en þó er margt á huldu um þetta dýr. Enginn vafi leikur samt á að báðir skrímslakrókódílarnir voru færir um að ráðast á og leggja að velli meðalstórar plöntuætur risaeðlanna, t.d. fjölmargar tegundir grænskegla sem lifðu einnig á fenjasvæðum.

 

Kremjandi bitið kom fyrst

Fyrstu frumstæðu krókódílarnir voru komnir af eldri skriðdýrum, forneðlunum, en af þeim eru risaeðlurnar einnig komnar sem og fuglar nútímans. Krókódílarnir voru smávaxnir og lifðu á landi en tóku þegar að þróa með sér öfluga kjálkavöðva og mikla höfuðkúpu. Þetta var aðlögun að kremjandi biti dýranna:

 

Væri höfuðkúpan ekki nægjanlega öflug myndi hún bresta undan þrýstingnum þegar kjálkavöðvarnir drógust saman. Árið 2001 fann brandarískur fræðimaður steingerving af Junggarsuchus slovani í Kína sem lifði fyrir 175 milljón árum. Junggarsuchus var einungis metri á lengd en þegar búinn höfuðkúpu þar sem beinin voru tekin að renna saman í öfluga heild til að þola þrýstinginn frá kjálkavöðvunum. Þessi litla tegund hafði því afar öflugt bit. Kannski var hún fær um að rífa bita úr stærri dýrum.

 

Hundakrókódíllinn var plöntuæta

 

 

Ein sérstakasta tegundin sem Paul Serrano hefur fundið nefnir hann hundakrókódílinn. Hann var með stutt og oddmjótt trýni ásamt löngum og grönnum fótleggjum sem gerðu honum kleift að hlaupa hratt væri honum ógnað. En tennur krókódílsins voru þó óvenjulegastar. Flestir krókódílar hafa svonefndar griptennur: öflugar oddhvassar tennur sem hæfa til að halda bráðinni fastri. Griptennur eru hins vegar ekki sérlega hentugar í að hluta í sundur fæðuna og að jafnaði tyggja krókódílar heldur ekki. Þess í stað gleypa þeir bráð sína í stærri bitum.

 

Tennur hundakrókódílsins voru allt annarrar gerðar. Þær eru flatar að ofan, nokkuð sem er dæmigert fyrir plöntuætur. Tegundin hefur því líklega verið plöntuæta – sannarlega óvanalegur eiginleiki í hópi dýra sem er þekktur fyrir að innihalda einungis rándýr. Með oddmjóu trýninu hefur tegundin getað bitið greinar og kvisti af trjám og tuggið þær með sínum flötu tönnum.

 

Rottukrókódíllinn gróf í jörðina

 

 

Rottukrókódíllinn hefur ekki öðlast nafn sitt af því að hann væri á stærð við rottu heldur af því að tegundin var með tvær stórar framtennur í neðri kjálka sem minna nokkuð á tennur nagdýra í yfirstærð. Dýrið var á stærð við eða litlu minna en aðrir smávaxnir landkrókódílar en hefur trúlega lifað á lirfum og öðrum smádýrum sem það gróf upp úr jörðinni með þessum einstöku tönnum.

 

Öndunin vísar veginn til fortíðar

 

Eftir 220 milljón ár og þróun sem hefur farið í margvíslegar áttir líta krókódílar nútímans áberandi eins út. Lifnaðarhættir þeirra eru svipaðir enda lifa þeir flestir í vatni og bíða í leynum eftir bráðinni. Sú tegund sem víkur þó frá í þessum efnum er hinn fágæti gavíal-krókódíll frá Afríku, en trýni hans er bæði grannvaxið og langt. En hvernig geta krókódílarnir hafa lifað af svo lengi þegar fjölmargar aðrar tegundir eru aldauða?
Fyrstu krókódílarnir lifðu á landi en sumar tegundanna löguðu sig snemma að lífi í vatni. Þetta kann að hafa veitt þeim einhverja vörn gagnvart fjöldaútdauðanum fyrir 65 milljón árum þegar krókódílarnir voru fáir stórra dýra sem lifðu af. En mörg önnur vatnadýr dóu út og því kann annað að hafa ráðið úrslitum. Samkvæmt Paul Serrano gegndi meltingarkerfi þeirra meginhlutverki:

 

„Bygging krókódílanna gerir þeim kleift að lifa í allt að eitt ár án fæðu. Þetta er ein helsta ástæða þess að þeir hafa lifað af allar hamfarir,“ segir hann.

 

Þriðji eiginleiki sem kann að hafa skipt máli er óhemju skilvirk öndun krókódílanna. Hún hefur nefnilega gert þeim kleift að nýta súrefni andrúmsloftsins mun betur en mörg önnur dýr. Á vissum tímaskeiðum í sögu jarðar féll súrefnisinnihald andrúmsloftsins umtalsvert, stundum í minna en 2/3 hluta þess sem það er í dag. Á slíkum tímaskeiðum áttu þau dýr sem nýttu súrefni loftsins best mun betri kost á að lifa af miðað við aðra dýrahópa.

 

Nýjar rannsóknir á líffæragerð krókódíla hafa sýnt furðulega mikil líkindi með öndun þeirra og fugla. Líffræðingar hafa um áraraðir vitað að öndun fugla er afar skilvirk, vegna flókins kerfis af loftsekkjum sem gera það að verkun að loftið í lungum fuglanna streymir ekki í eina tiltekna átt. Það þarf því ekki að fara inn og út sömu leið eins og hjá spendýrum. Afleiðingin er sú að fuglar geta tekið allt að 2,5 sinnum meira súrefni úr hverri öndun heldur en önnur dýr geta.

 

En nú hefur komið í ljós að þeir eru ekki einir um það afrek. Fuglar og krókódílar eru einu núlifandi meðlimir af flokki forneðla sem réðu ríkjum á landi fyrir 250 milljón árum þegar andrúmsloftið innihélt afar lítið súrefni. Sumir fræðimenn telja að forneðlur og því einnig krókódílar hafi upprunalega verið með heitt blóð og þá jafn kvikir og fuglar eru nú.

 

Óháð því hve skýringin er á þrautseigju krókódílanna verður að viðurkennast að þeir hafa fundið upp aðferð sem virkar. Nú á dögum eru mennirnir helsta ógn þeirra. Skinn þeirra er eftirsótt í bæði töskur og skó. En þó virðist útlit fyrir að krókódílarnir muni spjara sig – rétt eins og þeir hafa gert svo oft áður.

 
 

BIRT: 04/11/2014

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is