5 atriði sem við þurfum að vita um grímur

Gera þær gagn? Á hvern hátt gagnast þær? Og hvenær gera þær ekkert gagn? Grímur eru afar umdeildar og mörgum spurningum um þær ósvarað. Vísindin geta svarað mörgum þeirra.

BIRT: 30/09/2020

LESTÍMI:

8 mínútur

Þrjú lög af vefnaði hafa skipt heiminum í tvo hópa

Annar hlutinn er þeirrar skoðunar að grímur séu það mikilvægasta í baráttunni gegn kórónuveirunni. Hinn helmingurinn heldur því fram að grímur hefti frelsi okkar, án þess að sýnt hafi verið fram á gagnsemi þeirra – nema síður sé.

Nú látum við vísindin dæma um gagnsemi grímna.

Gagnast grímur gegn kórónuveirunni?

Fyrst í stað voru mörg lönd mótfallin því að mæla með grímunotkun í baráttunni gegn kórónuveirunni, þar sem vísindin gátu ekki sagt fyrir um með óyggjandi hætti hvort grímurnar gerðu gagn.

Nú hafa vísindamenn hins vegar safnað saman niðurstöðum alls 172 vísindagreina um gagnsemi grímna í baráttunni við COVID-19, auk niðurstaðna rannsókna á öðrum sambærilegum veirum, á borð við MERS og SARS.

Svarið er augljóst: Gríma minnkar hættuna á kórónuveirusmiti um 85 hundraðshluta að meðaltali.

Bestu gæðin – svonefndar FFP3-öndunargrímur eða rykgrímur, tryggja mesta öryggið og minnka smithættuna um allt að 96 hundraðshluta.

Aðrar gerðir, þær sem við einfaldlega köllum grímur, minnka hættuna um 67 prósent og meira að segja heimagerðar grímur geta veitt vörn gegn smiti.

Þetta er ein af ástæðum þess að bandarísku heilbrigðisyfirvöldin, CDC, telja að alger maskaskylda í öllum opinberum rýmum gæti útrýmt COVID-19 á fjórum til átta vikum í Bandaríkjunum.

Safngreiningin gefur engu að síður til kynna að hluti veiruagna geti fundið sér leið í gegnum vönduðustu grímurnar.

Íbúar Suðaustur-Asíu voru fljótir að tileinka sér notkun á grímum eftir að kórónuveiran braust út, m.a. íbúar í Hong Kong.

Tölfræðin lýgur ekki þegar grímur og maskar, ásamt öðrum smithamlandi aðferðum, eru rannsökuð á einstaklingum í raunheimum.

Þrjár tilteknar rannsóknir sýna fram á gagnsemi maskanotkunar í borginni Hong Kong, á sjúkrahúsi og rakarastofu.

 

 • Hong Kong
  Í Hong Kong nota 98,8 hundraðshlutar íbúanna grímur og til þessa hafa einungis verið skráð 55 dauðsföll af völdum COVID-19 í borginni, þrátt fyrir að íbúafjöldinn sé 7,5 milljónir og byggðarþéttleikinn nemi 6.690 íbúum á ferkílómetra.

 • Sjúkrahús
  Á sjúkrahúsinu Brigham and Women’s Hospital í borginni Massachusetts í Bandaríkjunum drógust nýsmit saman um helming eftir að maskaskyldu var komið á meðal starfsfólks.

 • Rakarastofa
  Tveir bandarískir rakarar með COVID-19 smituðu engan þeirra 139 viðskiptavina sem þeir klipptu á tíu daga tímabili. Bæði rakarar og viðskiptavinir notuðu grímur.

Hvaða grímugerð á ég að nota?

Hægt er að velja ýmsar gerðir af grímum, allt frá gagnlegu FFP-öndunargrímunum yfir í heimagerðar taugrímur. Sumar gerðirnar vernda einkum og sér í lagi notandann, á meðan aðrar vernda fremur fólkið í kringum hann gegn hugsanlegu smiti.

Kórónuveiruagnir eru að meðaltali 0,125 míkrómetrar í þvermál en einn míkrómetri er þúsundasti hluti út millímetra.

Jafnvel bestu grímurnar sía ekki frá svo örsmáar agnir en þess ber að geta að kórónuveirur svífa sjaldnast einar um í loftinu.

Agnirnar hlaupa í kekki í munnvatnsdropum eða þá smásæjum agnúða úr barkanum og það eru þessar agnir sem einkum eru taldar bera smit manna á milli. Þessar agnir geta andlitsmaskarnir heft, með mismiklum árangri þó.

 

Grímunum má skipta í þrjá flokka en þeir eru:

 • Öndunargrímur, þ.e. FFP-maskar
 • Skurðmaskar, öðru nafni grímur
 • Taumaskar
Maskar eru ekki bara maskar, því til eru öndunargrímur, grímur og taumaskar.

Finnið þá andlitsgrímu sem hentar best: Hér eru upplýsingar um þrjár gerðir

FFP-maskar vernda einkum notandann

Hringlaga eða egglaga maski sem leggst þétt að andlitinu. Fáanlegur með innbyggðum ventli sem auðveldar öndun en heldur jafnframt úti hugsanlegum ögnum sem kunna að bera með sér veirur. Kallast einnig rykgríma.

 

Lög: 3-5 eða fleiri.

 

Síunargeta: Evrópsku síunarstaðlarnir – FFP – byggja á getunni að stöðva agnir sem eru 0,3 míkrómetrar í þvermál eða stærri.

 • FFP1 stöðvar örugglega minnst 80% ofangreindra agna.
 • FFP2 stöðvar örugglega minnst 94% þeirra.
 • FFP3 stöðvar örugglega minnst 99,95% þeirra.

 

Öndunargrímur eru gerðar með það fyrir augum að verja notandann gegn utanaðsteðjandi veirum með fínmöskvuðum síum úr óofnu plasti.

Tilraunir hafa reyndar leitt í ljós að þessar hlífar verja okkur hin einnig, þar sem þær grípa nánast alla munnvatnsdropa sem kunna að berast frá notandanum.

Skurðmaskinn verndar einkum HINA

Grímur vernda umhverfið, einkum gegn hósta og hnerra notandans.Ferhyrndur, oft litaður, gjarnan útbúinn sveigjanlegri málmbraut sem mótar maskann að nefinu. Kallast einnig lækna- eða skurðgrímur.

 

Lög: Yfirleitt þrjú

 

Síunargeta: Hlutverk skurðmaska er einkum að vernda umhverfið gegn hósta og hnerra notandans og að koma þannig í veg fyrir smit frá COVID-19- sjúklingum til annarra.

 

Grímur skiptast í þrjá gæðaflokka sem gefa til kynna að hve miklu leyti þær halda ögnum inni.

 

 • Grímugerð I síar 95% af bakteríunum úr útöndun notandans.
 • Grímugerð II síar 98%.
 • Grímugerð IIR síar 98% og verndar gegn utanaðsteðjandi vökvaúða.

 

Þó svo að grímum sé einkum ætlað að vernda aðra í næsta umhverfi notandans, vernda þær notandann sjálfan þó einnig. Rannsókn sem enn hefur ekki verið ritrýnd leiddi í ljós að skurðgrímur veita jafngóða vörn og öndunargrímur en í rannsókninni er jafnframt lögð áhersla á að báðar maskagerðir séu notaðar á réttan hátt.

Taugrímur vernda ÞIG OG AÐRA (svolítið)

Taugrímur vernda notandann og umhverfi hans í óþekktum, takmörkuðum mæli. Breytilegt útlit og efni. Gerðar úr bómull eða pólýester.

 

Lög: Breytilegur fjöldi. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) mælir með minnst þremur lögum: einu vatnsdrægu innra lagi, öðru vatnsdrægu ytra lagi og helst síandi miðlagi úr gerviefnatrefjum, t.d. frauðplasti sem ekki drekkur í sig raka, heldur flytur hann áfram.

 

Síunargeta: Ekki er vitað nákvæmlega að hve miklu leyti heimagerðar eða keyptar taugrímur vernda en það er þó takmarkað. Bresk rannsókn frá árinu 2013 leiddi í ljós að heimagerðar grímur úr bómull síuðu u.þ.b. helming veiruagna.

 

Hversu skilvirkar slíkar grímur eru, ræðst í raun af samsetningu efnanna, löguninni, hversu þétt efnið er ofið, svo og fjölda laga.

Grímur samanstanda oft af þremur lögum úr mismunandi efni og skilvirknin ræðst m.a. af samsetningu efnanna og þéttleikanum. Andstætt við öndunargrímur eru aðrar grímur að öllu jöfnu ekki alveg þétt upp við andlitið og munnvatnsdropar eiga því greiða leið bæði út og inn.

Öndunargrímur veittu bestu vörnina í rannsóknarstofuprófunum en í tilraunum sem gerðar voru í daglegu lífi fólks reyndust læknagrímur þó veita fullt eins góða vörn.

Jafnvel heimagerð gríma er betri en engin gríma, ef marka má rannsóknarniðurstöður sem snerta kórónuveiruna.

Í nýlegri rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum var kannað hve mikið munnvatnsdropum fækkaði með notkun hinna ýmsu gerða af grímum.

FFP-maskar og læknagrímur lokuðu á flesta dropana en allar grímurnar sem rannsakaðar voru, ef undan eru skildir flískragar, lokuðu á minnst helming vökvaagnanna.

Hér má sjá hvers vegna flískragar gagnast ekki sem grímur:

Því meira grænt sem sést, þeim mun fleiri agnir sluppu í gegn í tilraunum með enga grímu, bómullargrímu, læknamaska og flískraga.

WHO mælir einungis með heimagerðum grímum ef ekkert annað býðst þá stundina og allar smitvarnaraðgerðir eru hafðar í heiðri.

Í Danmörku mæla heilbrigðisyfirvöld aðeins með notkun heimagerðra og keyptra taugrímna ef ekki reynist unnt að nota skurðmaska. Taugríman skyldi samanstanda af þremur þéttofnum lögum af efni, leggjast þétt upp að andlitinu og þola daglegan þvott við 60 gráður.

Hvernig nota ég grímuna rétt?

Læknagrímur eru aðeins ætlaðar til nota einu sinni og mega ekki vera á enni, höku eða úlnlið meðan á notkun stendur.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, svo og heilbrigðisyfirvöld 160 landa, krefjast þess eða mæla með að almenningur noti grímur þar sem smithættan er hvað mest og ekki er gerlegt að viðhafa reglur um örugga fjarlægð svo sem í almenningsfarartækjum og kjörbúðum.

Tilraunir hafa sýnt fram á að smáagnir festast auðveldlega á ytra byrði grímna og einmitt þess vegna er einkar mikilvægt að meðhöndla grímur á réttan hátt. Að öðrum kosti geta grímur átt þátt í að dreifa smiti í stað þess að hefta það.

Þannig á að nota grímur

1

Undirbúningur
Þvoið hendur áður en gríman er snert.
Þvoið hendur gaumgæfilega áður en gríman er sett upp.

2

Ásetning
Setjið grímuna upp á réttan hátt.
Látið lituðu hliðina snúa út, staðsetjið málmbrautina yfir nefið og teygjurnar á bak við eyrun.

3

Stillt
Stillið eyrnaböndin á grímunni.
Tryggið að gríman hylji munn, nef og kinnar án þess að hún gapi á hliðunum.

4

Snerting
Snertið aldrei sjálfa grímuna.
Forðist að snerta framhliðina. Takið í eyrnaböndin til að fjarlægja grímuna.

5

Losun
Hendið grímunni strax eftir notkun.
Hendið grímunni í ruslafötuna og þvoið því næst hendurnar gaumgæfilega.

Hvernig get ég keypt rétta gerð af grímu?

CE-merkið er staðfesting á því að gríman standist allar öryggiskröfur ESB um hlífðarbúnað. Merkingin felur það m.a. í sér að framleiðandinn geti sýnt tæknilega skráningu og láti þriðja aðila sem ESB hefur samþykkt, sjá um prófanir á búnaðinum.

FFP3-maskar veita að öllum líkindum bestu vörnina en þar sem hætt er við skorti á heimsvísu mælir Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) með að slíkir maskar séu einkum notaðir af heilbrigðisstarfsfólki, svo og sérlega útsettum einstaklingum.

WHO mælir einvörðungu með taugrímum í neyðartilvikum.

Læknagrímur af gerðum I, II eða IIR henta best til daglegra nota, auk þess að vera nægjanlegar, svo fremi sem smithamlandi aðgerðir, á borð við tíðan handþvott og hæfilega fjarlægð milli fólks, eru hafðar í heiðri.

Í mars gerðu yfirvöld í Evrópu upptækar 34.000 falsaðar eða ósamþykktar grímur sem í versta falli gætu stuðlað að aukinni útbreiðslu kórónuveirunnar.

Þegar gríma er keypt skyldi fyrir vikið:

 • Ganga úr skugga um að lækningabúnaður sé með greinilega CE-merkingu á umbúðunum.
 • Gæta þess að grímurnar séu í órofnum umbúðum og að leiðbeiningar séu á því tungumáli sem notandinn skilur. Ekki er leyfilegt að selja grímur í stykkjatali.
 • Kanna hver framleiðandinn er en heiti hans skal koma greinilega fram á umbúðunum. Þá ber einnig að hafa svonefnt LOT-númer og tilvísunarnúmer á pakkanum, þannig að unnt sé að bera kennsl á nákvæmlega þessa afurð.

Get ég veikst af grímum?

Á internetinu er að finna ógrynnin öll af samsæriskenningum um hættuna af því að nota grímur. Höfundar samsæriskenninganna benda á súrefnisskort og hækkun koltvísýrings í blóði, svo og að

uppsöfnun á vökva og sveppum í lungum geti átt sér stað.

Engin þessara staðhæfinga hefur verið sannreynd.

Grímur eru hannaðar með það fyrir augum að hleypa loftsameindum inn og koltvísýringi út en jafnframt að loka á stærri agnir.

Í tilraun einni sem fólst í því að láta heilbrigðisstarfsfólk ganga greitt í eina klukkustund mældist enginn munur á hjartslætti, súrefnisskorti né koltvísýringsmagni í blóði, sama hvort þátttakendurnir notuðu grímu eður ei.

Hér má sjá hvers vegna flískragar gagnast ekki sem grímur:

Ein rannsókn sýndi þó fram á að um það bil þriðjungur þeirra sem nota FFP3-maska lengi í senn, getur átt það til að fá höfuðverk. Sumir finna fyrir óþægindum í húð.

Í mörgum löndum er ákveðnar reglur um það hve lengi starfsfólk má bera öndunargrímur.

WHO mælir með að FFP3-maskar séu í mesta lagi notaðir í fjóra tíma í senn.

BIRT: 30/09/2020

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is