5 rangar fullyrðingar um kórónubóluefni

Erum við öll tilraunakanínur í prófunum á tilraunatækni sem gerir okkur ófrjó og genabreytt? Hér eru skýringar vísindanna á fimm fullyrðingum um kórónubóluefnin.

BIRT: 31/08/2021

LESTÍMI:

4 mínútur

>  Fullyrðing 1: Kórónubóluefnið breytir erfðaefni þínu.

>  Fullyrðing 2: mRNA er ný og óprófuð tækni.

> Fullyrðing 3: Við þekkjum ekki langtímaverkun bóluefnisins.

> Fullyrðing 4: Bóluefnið er hættulegra en að fá Covid-19.

> Fullyrðing 5: Kórónubóluefnin geta gert fólk ófrjótt.

Læknisfræði

Lestími: 5 mínútur

FULLYRÐING 1: KÓRÓNUBÓLUEFNIÐ BREYTIR ERFÐAEFNI ÞÍNU

mRNA er ekki það sama og DNA.

mRNA-bóluefnin frá Moderna og Pfizer-BioNTech bera messenger-RNA (boðbera-RNA) inn í frumur líkamans til að kenna þeim að mynda veiruprótín.

 

Þegar frumurnar framleiða prótínin lærir ónæmiskerfið að þekkja kórónuveiruna og getur síðan varist utanaðkomandi sýkingu.

 

Þótt mRNA- og DNA-sameindir séu skyldar getur kórónubóluefni ekki breytt erfðaefni okkar.

Boðbera-RNA (mRNA) er að finna í öllum lifandi frumum og virkar sem tenging milli DNA í litningunum og prótínaverksmiðja frumnanna sem sjá til þess að líkaminn framleiði þau prótín sem hann þarf á að halda.

 

Í rauninni útskýrir mRNA fyrir frumum líkamans hvernig eigi að framleiða prótín.

 

mRNA er þess vegna ekki það sama og DNA og mRNA getur ekki runnið saman við DNA og breytt erfðamengi okkar. Til viðbótar er mRNA fremur veikburða sameind sem ekki lifir í frumunni nema um þrjá sólarhringa áður en hún brotnar niður.

 

Að bóluefnin frá Pfizer-BioNTech og AstraZeneca séu ekki fær um að komast inn í DNA hefur verið staðfest af vísindamönnum hjá Queensland Brain Institute í Ástralíu í nýrri vísindarannsókn.

 

FULLYRÐING 2: MRNA ER NÝ OG ÓPRÓFUÐ TÆKNI

 

Þótt bóluefnin frá Pfizer-BioNTech og Moderna séu vissulega fyrstu mRNA-bóluefnin á markaði, er tæknin alls ekki ný.

 

Fyrstu tilraunir með þessa aðferð voru gerðar 1989 og árið 2005 tókst vísindamönnum hjá Læknaháskóla Pennsylvaníu að flytja boðbera-RNA inn í mannsfrumur.

 

Fyrirtækin BioNTech og Moderna sem þróuðu mRNA-bóluefnin hafa þar að auki unnið að þessari tækni í meira en áratug. Hjá Moderna hefur m.a. verið unnið að gerð bóluefnis gegn zíka-veirunni en hjá BioNTech hafa menn unnið að þróun inflúensubóluefnis.

 

FULLYRÐING 3: VIÐ ÞEKKJUM EKKI LANGTÍMAVERKUN BÓLUEFNISINS

 

Lyf sem tekin eru daglega, geta valdið langtímaáhrifum. Það stafar af því að efni í lyfinu geta safnast upp í líkamanum við reglubundna inntöku.

 

Öfugt við slík lyf eru kórónubóluefnin aðeins gefin tvisvar. Og þar eð mRNA-sameindir brotna fljótlega niður og hverfa úr líkamanum eftir fáeina daga, er engin ástæða til að ætla að bóluefnin hafi langtímaáhrif.

 

Þær aukaverkanir sem bóluefnin geta haft, koma fram á fyrstu vikunum eftir bólusetningu. Algengustu aukaverkanir kórónubóluefna eru höfuðverkur, hiti og eymsli.

 

Margt fólk hefur áhyggjur af langtímaáhrifum kórónubóluefnanna.

FULLYRÐING 4: BÓLUEFNIÐ ER HÆTTULEGRA EN AÐ FÁ COVID-19

Rannsóknir breskra heilbrigðisyfirvalda sýna að tveir skammtar af Pfizer-BioNTech eiga þátt í að koma í veg fyrir alvarleg veikindi og veitir 96% vörn gegn sjúkrahúsinnlögnum.

 

Hjá WHO er talið að meira en 4 milljónir hafi látist úr Covid-19. Fjöldi andláta eftir bólusetningu er af allt annarri stærðargráðu.

 

Í Stóra-Bretlandi, þar sem meira en 130.000 hafa látist úr Covid-19 hafa verið skráð 1.526 dauðsföll meðal fólks sem fengið hafði bólusetningu innan við sjö dögum fyrir andlátið. Að sögn breskra stjórnvalda var langflest af þessu fólki bæði gamalt og með undirliggjandi sjúkdóma og dó því ekki af völdum bólusetningarinnar.

 

Það er sem sagt algerlega út í hött að ætla að bera saman fjölda dauðsfalla vegna Covid-19 og fjölda dauðsfalla vegna bólusetningar.

 

Barnshafandi kona bólusett við Covid-19.

FULLYRÐING 5: KÓRÓNUBÓLUEFNIN GETA GERT FÓLK ÓFRJÓTT

 

Kórónubóluefnin hafa engin áhrif á frjósemi.

 

Virkni mRNA-bóluefnanna felst í því að kenna frumum líkamans að mynda veiruprótín til að ónæmiskerfið nái að þekkja broddprótín kórónuveirunnar.

 

Það kann að rugla einhverja í ríminu að annað broddprótín er nefnist syncitin-1 hefur þýðingu fyrir þróun legkökunnar á meðgöngu. Kórónubóluefnin eru hins vegar ekki fær um að hafa nein áhrif á broddprótínið syncitin-1.

 

Eina brottprótínið sem bóluefnin hafa áhrif á eru broddprótín kórónuveirunnar.

 

Bóluefnið frá Pfizer-BioNTech var reyndar prófað í tengslum við þunganir strax á tilraunastigi. Af þeim konum sem tóku þátt í þeirri prófun tókst 23 að verða þungaðar og eina konan sem ekki tókst það reyndist alls ekki hafa fengið bóluefnið heldur lyfleysu.

 

 

 

Birt: 31.08.2021

 

 

MORTEN MØLLER BERTELSEN

 

 

BIRT: 31/08/2021

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is