Hafdjúpin skapa einhver erfiðustu lífsskilyrði á jarðríki og það þarfnast uppfinningasemi að lifa þar af.
Krabbadýr á borð við rækjur lifa yfirleitt ekki neðar en á 4.500 metra dýpi. Þar verður þrýstingur of mikill og sjórinn of súr.
Sýran tærir kalkskelina sem þá lætur undan þrýstingnum.
Japanskir vísindamenn urðu því vægast sagt forviða þegar þeir uppgötvuðu nýlega rækjulíka lífveru á 10.000 metra dýpi í Challengergjánni undan ströndum Filippseyja, dýpsta hafsvæði heims.
Styrkja skel sína með áli
Nánari rannsóknir sýndu að dýrið sem ber latneska heitið Hirondellea gigas, styrkir skelina með húð úr áli.
Þessi uppgötvun var þó bara enn merkilegri ráðgáta, því í sjó er sáralítið af áli. Dýrið hlaut því að hafa fundið málminn annars staðar.
Rækjan styrkir skelina með álhúð til að standast þrýsting á meira en 10.000 metra dýpi.
Býr til álskjöld í þarminum
Vísindamennirnir hófu nú tilraunir á seti af botni Challenger-gjárinnar.
Í rannsóknastofunni sköpuðu þeir sömu efnaskilyrði og í meltingarvegi rækjunnar og þá birtist svarið.
Sýra í meltingarveginum ásamt leifum plöntufæðu skapa aðstæður til að vinna áljónir úr setinu. Þetta krabbadýr étur sem sagt set á hafsbotni til að ná í málminn.
Úr meltingarveginum berast áljónir út í kalkskelina og þegar þær komast í snertingu við sjó myndast efnið alumíníumhýdroxíð sem leggst yfir skelina eins og skjöldur.
Þannig myndast þrýstibúningur sem stenst þrýstinginn á þessu dýpi.