Lesendur dagblaðsins The Sun fengu furðulega innsýn í lífið á tunglinu í ágúst árið 1835:
„Þessar verur eru ugglaust saklausar og hamingjusamar þó svo að ánægjustundir þeirra séu ekki í neinu samræmi við það sem við jarðarbúarnir teljum vera siðsamlega hegðun“.
Lesendur vita mæta vel að hverju er verið að ýja: Leðurblökufólkið á tunglinu stundar kynlíf hvar sem verða vill, líka frammi fyrir öðrum. Vegna velsæmis og siðferðis þess tíma verður blaðið að fara í kringum sannleikann sem líklega á rætur að rekja til stjörnuathugunarstöðvar heimsþekkts stjörnufræðings í Suður-Afríku.
Þessar æsilegu fréttir vekja mikla athygli alls staðar, allt frá auðmannshöllunum í New York yfir í predikunarstóla kirknanna er verið að ræða um þetta framandi leðurblökufólk sem enginn hafði barið augum fyrr.
Blaðsöludrengirnir í New York höfðu varla undan að hrópa: „Nýjustu fréttir frá tunglinu“ áður en dagblöðin voru hrifsuð úr greipum þeirra og þeir þurftu að hlaupa aftur inn á afgreiðslu dagblaðsins til að sækja fleiri eintök.
Fyrsta útgáfa blaðsins birtist tveimur árum áður.
Enginn vildi missa af greinaröðinni um lífið á tunglinu og hundruð manna stóðu í röð fyrir framan ritstjórnarskrifstofurnar dag hvern til að tryggja sér nýjustu útgáfu blaðsins.
Telja má víst að The Sun hafi heyrt söguna hjá breskum vísindamanni að nafni dr. Andrew Grant sem hélt því fram að hann hefði heimsótt stjörnufræðinginn John Herschel.
Sá síðarnefndi var talinn einn helsti geimvísindamaður síns tíma en með sex metra löngum stjörnukíki sínum hafði Herschel m.a. fundið fjórar nýjar vetrarbrautir sem eru í rösklega 300 ljósára fjarlægð frá sólu.
Vetrarbrautir þessar bliknuðu hins vegar í samanburði við nýjustu rannsóknir Herschels, sagði dr. Grant. Englendingurinn hafði þróað glænýtt tæki sem sameinaði öflugasta sjónauka heims með smásjá sem gerði kleift að sjá algerlega skýrar myndir af yfirborði tunglsins, stóð í The Sun.
Leðurblökufólki tunglsins voru með stóra vængi og flugu um naktir, skrifaði The Sun.
Fréttin var hins vegar uppspuni frá rótum. Dr. Grant var í fyrsta lagi ekki til, heldur var hann tilbúningur blaðamanna hjá The Sun. Hinn virti stjörnufræðingur John Herschel hafði heldur ekki hugmynd um að nafn hans væri misnotað í tilraun æsifréttablaðsins til að auka söluna.
Vísindi slá í gegn
Árið 1835 nutu geimvísindi mikilla vinsælda víða um heim á meðan fólk beið eftir að halastjarna Halleys birtist á næturhimninum. Hinn 35 ára gamli aðalritstjóri dagblaðsins The Sun, Richard Adams Locke, var viss um að hægt væri að græða á þessu og í ágúst lét hann svo til skarar skríða.
Locke bjó til breskan vísindamann sem hann kallaði dr. Andrew Grant og var sá gerður ábyrgur fyrir fréttunum. Til þess að gera greinarnar enn trúverðugri lét Locke sem svo að Grant þessi hefði hitt sjálfan John Herschel. Sá var enskur stjörnufræðingur og hafði hann, Locke til mikillar ánægju, sest að í Suður-Afríku, fjarri öllum helstu fréttamönnum heims.
Herschel var enn fremur þekktur í Bandaríkjunum, eftir að hann ritaði bókina „A Treatise on Astronomy“. Bók þessi var aðgengilegt rit sem ýtt hafði undir vinsældir almennings á stjörnum, plánetum og fjarlægum vetrarbrautum. Á árunum milli 1830 og 1840 voru margir því orðnir eins konar áhugastjörnufræðingar, á meðan aðrir höfðu yfir að ráða eigin smásjá sem þeir gátu fylgst með minnstu verum jarðríkisins í.
21.000 milljörðum íbúa hafði sólkerfið yfir að ráða
ef marka mátti falsvísindamann einn.
Áhugavísindamenn á öllum aldursskeiðum hungraði eftir nýjum fréttum og sjálfskipaðir sérfræðingar biðu þess álíka áhugasamir að slá á fréttaþorstann. Meðal þessara vafasömu vísindamanna var prófessor Franz von Paula Gruithuisen frá háskólanum í München.
Gruithuisen þessi hélt því fram að á tunglinu leyndust dökkir blettir sem hver og einn sem hefði yfir sjónauka að ráða, gæti séð að væru skógar og engi. Prófessorinn staðhæfði að hann hefði m.a. komið auga á vegi, virki og borgir í sjónauka sínum.
Enski presturinn og vísindamiðlarinn Thomas Dick gaf út nokkrar bækur þar sem hann færði rök fyrir því að líf hlyti að leynast á öðrum hnöttum. Slíkt væri einungis til marks um sönnun á hinu stórfenglega meistaraverki guðs, benti hann á.
Presturinn gekk svo langt að hann reiknaði út að íbúar sólkerfisins næmu 21.000 milljarði en þennan fjölda fékk hann út með því að margfalda stærð reikistjarnanna með íbúafjöldanum í Englandi.
Yfirritstjórinn Locke sagðist hafa verið orðinn hundleiður á öllum gervivísindamönnunum. Mörgum árum eftir að greinaröðin um leðurblökumennina á tunglinu birtist viðurkenndi hann að greinarnar hefðu fyrst og fremst átt að kenna Dick, Gruithuisen og hinum lexíu.
Á þriðja áratug síðustu aldar rannsökuðu menn líf jarðar í smásjá og alheiminn í gegnum sjónauka.
Slælegur fjárhagur yfirritstjórans hefur sennilega einnig haft sitt að segja.
Ef honum tækist að auka söluna á The Sun hugðist eigandi blaðsins greiða honum álitlega upphæð og Locke var ákaflega metnaðargjarn. Hann langaði til að tilheyra betri borgurum New York borgar og við þá iðju eyddi hann meiru en hann þénaði.
Nú sá hann tækifæri til að slá tvær flugur í einu höggi.
Eigandi fékk dollaramerki í augun
Eigandi dagblaðsins, Benjamin Day, vildi taka þátt í spauginu þegar Locke bauðst til að skrifa skröksögu um lífið á tunglinu. Æsifréttir seldu vel og hæfðu vel því sem The Sun stóð fyrir eða svo áleit Day.
Hin dagblöðin í New York kostuðu á þessum tíma sex sent og höfðuðu til lítils hóps kaupsýslumanna á meðan Sun var fyrsta blaðið sem hafði alla lágstétt stórborgarinnar sem markhóp. Fyrir einungis eitt sent gátu lesendurnir lesið um íþróttir, kjaftasögur og glæpi. Fréttamenn blaðsins voru sendir út af örkinni til að draga fram í dagsljósið sögusagnir en slík vinnubrögð höfðu ekki tíðkast áður.
Sökum þess að The Sun kostaði aðeins eitt sent en eitt sent kallaðist í daglegu tali „penny“, var farið að kalla þessa nýju dagblaðategund „penny press“.
Benjamin Day (1810-1889) er talinn faðir æsifrétta pressunnar. Auk The Sun átti hann einnig dagblaðið True Sun og fyrsta myndskreytta vikuritið Ameríku, Brother Jonathan.
Locke settist við skrifborð sitt og varði löngum tíma í að setja sig inn í landafræði tunglsins til þess að geta komið eins mörgum réttum upplýsingum inn í greinarnar og frekast var unnt. Honum tókst jafnframt að viðhafa sama háfleyga tóninn og gervivísindamenn þess tíma studdust við.
Í fyrstu greininni varði hann allmörgum línum í að útskýra með hvaða hætti Herschel hefði tekist að sameina sjónauka og smásjá þannig að hann og hinn nýuppfundni dr. Grant gætu grandskoðað tunglið.
Í annarri grein sinni skrifaði ritstjórinn í hrifningu um landslag úr blágrýti, strendurnar við eitt af höfum tunglsins og ógrynni plantna sem minntu mjög á þær sem þrífast á jörðinni. Að því loknu fór greinin að snúast um það bitastæðasta, þ.e. lífverurnar.
Stjörnufræðingurinn John Herschel var sonur Williams Herschels sem m.a. uppgötvaði plánetuna Úranus.
Lygasagan olli Herschel hugarangri í áraraðir
Stjörnufræðingurinn John Herschel skemmti sér fyrst í stað yfir hugamyndaríkum frásögnunum í The Sun en þegar fram liðu stundir reiddist hann ritstjóranum.
John Herschel (1792-1871) flutti til Suður-Afríku árið 1833. Þegar greinaröðin um leðurblökufólkið á tunglinu birtist í The Sun tveimur árum síðar hafði hann ekki hugmynd um að nafn hans kæmi fyrir á síðum blaðsins.
Í lok þessa sama árs kom bandaríski fjölleikastjórinn Caleb Weeks til Suður-Afríku í því skyni að veiða villt dýr. Hann hafði tekið með sér greinaröðina úr The Sun sem hann sýndi Herschel. Stjörnufræðingurinn hló að greinunum:
„Ég er smeykur um að raunverulegar athuganir mínar séu fremur fábrotnar í augum almennings miðað við það sem almenningur í Ameríku hefur eignað mér“.
Hláturinn hjaðnaði hins vegar fljótt hjá Herschel. Tveimur árum síðar skrifaði hann frænku sinni bréf þar sem hann lýsti því „hversu þreyttur hann væri orðinn á fólki sem fýsti að vita meira um lífið á tunglinu“. Árið 1836 skrifaði hann lesendabréf í tímaritið The Athenaeum, þar sem hann varaði við slíkum falsfréttum:
„Það er ekkert, óháð því hversu fráleitt og fáránlegt það er sem ekki er hægt að telja fólki trú um ef því er sögð sagan með trúverðugum hætti í 365 daga“
„Dr. Grant“ sló um sig með ótrúlegustu smáatriðum í The Sun:
„Í skugga trjánna komum við auga á hjörð brúnna, ferfættra dýra sem minntu á vísunda hvað útlitið snerti en voru raunar minni en þær tegundir sem við könnumst við úr náttúrufræðibókum. Vera þessi var þó með mjög greinilegt sérkenni sem við síðar meir áttum eftir að komast að raun um að er mjög algengt meðal allra ferfættra tungldýra en með því er átt við þykka totu yfir augunum, álíka breiða og ennið, áfasta eyrunum“.
„Hinn skarpskyggni dr. Herschel áttaði sig samstundis á að þessu fyrirbæri væri ætlað að vernda augun gegn gífurlegri birtu og myrkri sem allar verur okkar megin á tunglinu lenda í með reglulegu millibili“.
Dagblaðið seldist grimmt
Þegar fréttin um dýralífið á tunglinu komst í dreifingu í stórborginni höfðu dagblöðin nánast ekki undan. Sex næstu daga birtist ótrúleg frétt um leðurblökufólkið sem er „121 sentímetri á hæð að meðaltali og þakið glansandi koparrauðu hári. Að undanskildu andlitinu sem er gult á lit og minnir í raun réttri á bætta útgáfu af órangútan“.
Því var haldið fram í The Sun að leðurblökufólkið ætti oft í djúpum samræðum.
Í einni greininni fengu lesendur að kynnast umgengnisvenjum veranna sem uppgötvun Herschels auðveldaði að unnt væri að fylgjast með, þrátt fyrir það hversu gífurlega langt væri til tunglsins:
„Óháð því hvar við komum auga á verurnar, þá virtust þær ætíð eiga í djúpum samræðum. Líkamstjáning þeirra virtist vera einkar ástríðufull. Við drógum fyrir vikið þá ályktun að um hlyti að vera að ræða skyni bornar verur. Mánuði síðar sáum við í regnbogavíkinni að þeir gátu skapað listaverk og gert uppgötvanir“.
Salan á The Sun fimmfaldaðist á næstu dögum og þegar greinaröðin var birt á nýjan leik seldist blaðið í 60.000 eintökum.
Samkeppnisaðilunum á dagblaðamarkaðinum gramdist velgengnin og þegar stjörnufræðingar frá hinum virta Yale-háskóla báðu um að fá að líta á heimildirnar að baki frásögninni í The Sun en þar hafði verið vísað í vísindalegt tímarit í Edinborg, tjáði Locke þeim að heimildirnar hefðu rétt áður verið sendar til prentsmiðjunnar.
Í tímaritinu Journal of Commerce var greinunum um leðurblökufólkið líkt við ævintýri á borð við „Reisubók Gúllívers“ og „Róbinson Krúsó“ en dagblaðið New York Herald, helsti keppinautur The Sun, benti lesendum sínum á að vísindatímaritið The Edinburgh Journal of Science hefði ekki komið út frá árinu 1833 og að frásagnarmátinn í greinunum minnti einna mest á ritstíl aðalritstjórans, Locke.
Leyndardómurinn um tilvist jólasveinsins var annað viðfangsefni sem The Sun tók fyrir á síðum blaðsins.
The Sun skrifaði að jólasveinninn væri til
Sex áratugum eftir skröksöguna miklu um tunglið byrjaði The Sun á nýju gríni, enn og aftur með gott eitt í huga, þ.e. jólaandann.
Dag nokkurn árið 1897 fóru vinkonur Virginíu O’Hanlon að stríða henni fyrir að trúa enn á jólasveininn. Hún spurði fyrir bragðið pabba sinn sem sagðist ekki vita það fyrir víst en ef það stæði í The Sun, hlyti það að vera satt, sagði hann.
Virginía náði sér í pappír og blek og skrifaði bréf til blaðsins: „Vinsamlegast segið mér sannleikann: Er jólasveinninn til?“
Yfirritstjóri blaðsins, Francis Pharcellus Church, ritaði í leiðara blaðsins að vinkonur Virginíu hefðu rangt fyrir sér og að þær hefðu einfaldlega látið glepjast af þeirri vantrú sem nútíminn einkenndist af.
„Hann er til jafn örugglega og við á um kærleika, örlæti og væntumþykju og þú veist að allir þessir þættir eru til og að þeir glæða líf þitt fegurð og gleði. Ó, hvað heimurinn væri dapurlegur ef enginn jólasveinn væri til“, svaraði Church.
Leiðarinn átti eftir að vera prentaður svo oft aftur í kringum jólin, ekki einungis í The Sun heldur í hinum ýmsu dagblöðum um gjörvallan heim, að leiðarinn „Já, Virginía, jólasveinninn er til“ er í dag sá enskumælandi leiðari sem oftast hefur verið birtur.
Það var ekki fyrr en árið 1840, þ.e. fimm árum síðar sem Locke viðurkenndi að málið væri uppspuni frá rótum. Í dagblaðinu New Era sagði hann að greinarnar væru skrifaðar með gott eitt í huga. Frásagnirnar væru „háðsádeila á þá blöndu af trúarbrögðum og vísindum sem sumir guðfræðingar aðhyllast, þar sem óhagganlegar staðreyndir eru leystar af hólmi af loftkenndu ímyndunarafli sem samræmist trúnni“.
Í lesendabréfi sínu nefnir Locke ekki þá álitlegu 600 dala aukagreiðslu (um 26 milljónir á núvirði) sem eigandi The Sun hafði greitt honum eftir söluaukninguna.
Lesendur The Sun tóku það ekki nærri sér að Locke hefði haft þá að fífli. Þeir héldu áfram að kaupa blaðið, allt þar til útgáfu þess var hætt árið 1950.
Lesið meira um mikla tunglgabbið
Matthew Goodman: The Sun and the Moon: The Remarkable True Account of Hoaxers, Showmen, Dueling Journalists, and Lunar Man-Bats in Nineteenth-Century New York, Basic Books, 2010