Tyggigúmmí er gert úr náttúrugúmmíi eða gervigúmmíi. Í báðum tilvikum er í því að finna svonefnda pólímera, þar sem mörg þúsund tiltölulega einfaldar sameindir eru tengdar saman í langar keðjur. Til eru margar mismunandi gerðir en oft er hér sameindin ísópren sem hefur efnafræðiformúluna CH2=C(CH3)CH=CH2. Í gúmmíi er erfitt að rjúfa efnabindingar pólímera og þessi efni meltast því ekki. Jafnframt eru pólímerar mjög teygjanlegir og breyta um lögun fremur en að brotna. Tennur og kjálkar ýta þessum sameindum bara fram og til baka, án þess að gera þeim neinn skaða.