Allar köngulær sem spinna vefi til að fanga bráð, eru meðal tiltölulega fárra dýrategunda sem veiða bráð sína í gildru. Algengast er að sjá kringlulaga köngulóarvefi.
Þegar könguló hefur lokið við kringlulaga vef, bíður hún þess að skordýr festist í honum. Sumar tegundir fela sig utan við netið, jafnvel í sérstökum felustað sem þær hafa spunnið í þeim tilgangi. Úr felustað sínum fylgist köngulóin svo með sérstökum merkjaþræði sem færir henni boð um hreyfingu í netinu. Aðrar köngulær koma sér fyrir í miðju netsins. Þetta hefur að líkindum þann kost að auðveldara er að greina hreyfingar, enda hvílir hver af alls átta fótum á stoðþræði í netinu. Þannig á köngulóin að líkindum auðveldara með að ákvarða hvar bráð hafi fest sig í netinu og hraðað sér á vettvang. Það getur komið sér vel, því sum skordýr geta losað sig strax aftur.