Það er vel þekkt að höfrungar nýta sér bylgjur á yfirborði sjávar. Þeir hafa sést stökkva víða undan ströndum þar sem háar öldur myndast. Oft nýta þeir sér líka yfirborðsbylgjur frá skipum eða bátum og eiga til að fylgja minni bátum og synda eða stökkva í kringum þá.
Ástæða þessa atferlis er líklegast sú að höfrungunum þyki þetta skemmtilegt. Kannski veita bylgjurnar þeim líka einhverja kitlandi og þægilega tilfinningu. Húð höfrunga er nefnilega næm fyrir snertingu, enda eru í henni bæði æðar og taugafrumur. Þetta má m.a. sjá í nánu félagslífi þeirra, en líkamssnerting er algeng, m.a. fíngerðar bægslasnertingar þegar tveir höfrungar synda hlið við hlið.
Eins og önnur félagslynd og vel greind spendýr, svo sem hundar og fílar, virðast höfrungar hafa ánægju af að leika sér. Leikgleðina sýna þeir alla ævi en hún er þó mest í æsku. Leikurinn þjónar hagnýtum tilgangi, því hann þroskar hreyfigetu og styrkir félagstengsl í hópnum. Dýrafræðingar telja þó að leikurinn geti einnig þjónað sínum eigin tilgangi, einfaldlega með því að veita gleði og ánægju.
Leikgleðin ásamt dágóðum skammti af forvitni, veldur því að höfrungar koma oft mjög nálægt mönnum.