Í Bandaríkjunum mun nafnið Wilkes Booth um aldur og ævi verða tengt fyrsta morðinu á bandarískum forseta. Hinn 14. apríl árið 1865 skaut leikari að nafni John Wilkes Booth forsetann Abraham Lincoln til bana meðan á leiksýningu stóð.
Hæstráðandi innan Suðurríkjahersins, Lee hershöfðingi, hafði þá gefist upp fimm dögum áður og Wilkes Booth vonaðist til að morðið yrði til þess að vekja á ný baráttuandann í Suðurríkjunum og að unnt yrði að halda bandaríska borgarastríðinu áfram. Eldri bróðir morðingjans, Edwin Booth, var einnig einn af þekktustu leikurum Bandaríkjanna en bræðurnir tveir voru eins ólíkir og dagur og nótt.
Þar sem John var hliðhollur Suðurríkjunum, var Edwin yfirlýstur andstæðingur þrælahaldsins og talaði máli Norðurríkjanna. Og þó svo að John hafi myrt Abraham Lincoln bjargaði Edwin elsta syni forsetans frá bráðum dauða.

Abraham Lincoln var forseti í bandaríska borgarastríðinu á árunum 1861-1865.
Dag einn árið 1864 var Edwin Booth staddur á lestarstöðinni í borginni Jersey City í New Jersey, í Norðurríkjunum. Borgarastyrjöldin geisaði og það úði og grúði af hermönnum og fjölskyldumeðlimum þeirra á mannmörgum brautarpallinum. Elsti sonur forsetans, að nafni Robert Todd Lincoln, lýsti atburðunum síðar meir í bréfi á þennan veg:
„Ég stóð og beið þess að kaupa miða (í svefnvagn lestarinnar, ritstj.). Á milli brautarpallsins og lestarinnar var lítil glufa, líkt og við er að búast og rétt í þann veginn sem mannmergðin þrýsti mér í átt að vagninum fór hann af stað.
Ég féll með fæturna niður í glufuna en þá var gripið í frakkalaf mitt og ég dreginn upp á pallinn aftur. Þegar ég ætlaði að fara að þakka manninum lífgjöfina, áttaði ég mig á að þetta var Edwin Booth sem var mér að sjálfsögðu kunnugur. Ég þakkaði honum hjartanlega fyrir“.

Grimmilegasta refsingin: Rómverjar drógu dauðann á langinn
Hver andardráttur kostaði óheyrilega kvöl og það gat tekið marga daga að deyja. Með krossfestingunni höfðu Rómverjar komið sér upp svo grimmúðlegri aðferð við aftökur að jafnvel valdsmennina sjálfa hryllti við. Jesús var síður en svo eina fórnarlambið.
Edwin Booth vissi lengi vel ekki hver það var sem hann hafði bjargað. Því komst hann ekki að raun um fyrr en nokkrum mánuðum eftir að yngri bróðir hans hafði skotið Lincoln forseta. Sagt er að björgunarmaður piltsins hafi glaðst yfir að vita hverjum hann hafði bjargað.