Innan við hálfa sekúndu. Það er sá tími sem það tekur heilann í flestum tilvikum að bera kennsl á andlit með því að raða saman nefi, augum, munnsvip og öðrum andlitsdráttum.
En þetta er ekki öllum jafn auðvelt. Ákveðinn hundraðshluti fólks er haldinn svonefndri andlitsblindu sem veldur erfiðleikum við að þekkja andlit. Í allra svæsnustu tilvikum getur þetta fólk lent í vandræðum með sína eigin spegilmynd eða jafnvel að þekkja andlit frá öðrum hlutum.
Nú sýnir ný rannsókn, gerð af vísindamönnum m.a. við Harvardháskóla, að fyrirbrigðið gæti verið útbreiddara en talið var.
Álitið hefur verið að andlitsblinda hrjái 2-2,5% fólks en niðurstöðurnar frá Harvard benda til að það sé 1 af hverjum 33 eða 3,08% sem uppfylli skilgreiningarskilyrðin. Ástæðurnar virðast geta verið mismunandi. Þetta segir Joseph Degutis prófessor í geðlækningum sem er aðalhöfundur niðurstöðugreinarinnar sem birtist í vísindatímaritinu Cortex. Hann greinir milli tveggja mismunandi gerða andlitsblindu.
Önnur gerðin stafar af sköddun tiltekinna heilastöðva og þjáir um 1 af hverjum 30.000 íbúum í Bandaríkjunum. Hin gerðin er ástand sem á sér erfðafræðilega eða þroskasögulega skýringu. Og sú gerð er mun útbreiddari, útskýrir prófessorinn.
Niðurstöðurnar byggjast annars vegar á spurningakönnun og hins vegar prófun á 3.341 einstaklingi. Þátttakendur voru spurðir um erfiðleika við að þekkja andlit í hversdagslífi sínu og síðan var hæfni þeirra til að læra að þekkja ný andlit prófuð, ásamt hæfninni til að bera kennsl á þekkt andlit.
Andlitið brennir sig fast í heilann
Fólk sem ekki er með andlitsblindu þekkir nágranna sinn strax meðal þúsunda annarra. Náttúruúrval hefur gert mannsandlit auðþekkjanlegt – og gert heilann að sérfræðingi í að geyma það.

1. Andlitið lendir í hnakkanum
Þegar þú sérð andlit, senda 100 milljónir ljósnæmra frumna myndina til sjónstöðvanna aftast í heilanum.

2. Heilastöð leitar að nefi og munni
Heilastöð í hnakkablaði heilans leitar að augum, nefi og munni og ákvarðar hvort þetta sé andlit.

3. Taugafrumur skapa nákvæmt kort
Í enn öðrum heilastöðvum, neðst í gagnaugablaðinu, mynda frumurnar nákvæmt kort yfir hvert einasta smáatriði andlitsins.

4. Heilinn geymir andlitið
Upplýsingar um andlitið eru varðveittar í heilanum. Það annast einkum framheilinn og heiladrekinn.
Rúmlega 100 manns reyndust glíma við einhvers konar andlitsblindu og niðurstöðurnar afhjúpuðu 31 með mjög alvarlega andlitsblindu en í 72 tilvikum var þessi blinda mun vægari.

Litskrúðugar fjaðrir löðuðu að maka
Hún drapst fyrir meira en 160 milljón árum, en nú hefur rannsóknarteymi tekist að endurskapa liti á þessa fjaðurskreyttu eðlu. Og eins telja þeir sig vita hvers vegna eðlan var svo litrík
Lestu einnig:
Harvard vísindamennirnir telja því líka að líta beri á andlitsblindu sem stig á kvarða, þar eð fólk eigi í afar mismiklum erfiðleikum og eldri skilgreiningar hafi verið of stífar.
„Flestir vísindamenn hafa beitt allt of ströngum greiningarskilyrðum og fjölmörgu fólki sem á í erfiðleikum hefur verið sagt að það sé ekki andlitsblint,“ segir Joseph Digutis prófessor við Harvard News.
Hann segir viðurkenningu á vandamálinu geta haft afgerandi þýðingu fyrir viðkomandi.
„Það er mikilvægt að víkka skilgreininguna, því það eitt að fá að vita að þú þjáist af vægri andlitsblindu getur hjálpað þér að bregðast við og draga úr neikvæðum áhrifum í hversdagslífinu, t.d. bara að þú getir útskýrt þetta fyrir vinnufélögunum eða leitað þér réttrar meðferðar,“ útskýrir hann.