Það hefur verið sannað með tilraunum á gerlum, ormum, músum og nú síðast öpum, að lífverur lifa lengur á kaloríusnauðu fæði.
Bandarískir vísindamenn við Wisconsin-Madison-háskólann hafa fylgst með 76 rhesusöpum og mataræði þeirra í 20 ár á fullorðinsaldri, en þessir apar verða um 27 ára undir vernd manna. Helmingur apanna fékk hefðbundna fæðu en hinn helmingurinn 30% minna af kaloríum. Eftir 20 ár reyndist gríðarmikill munur á hópunum tveimur. Mesta athygli vakti að 37% apanna, sem fengu venjulegt fæði, voru dauðir þegar rannsókninni lauk en aðeins 13% af hinum.
Í heilsufæðishópnum voru krabbamein og hjarta- og æðasjúkdómar helmingi færri og þar fékk ekki einn einasti api sykursýki. Af öpunum sem fengu hefðbundinn mat, fengu 5 sykursýki og 11 sýndu forstigseinkenni. Í heilanum mátti líka sjá greinilegan mun. Apar sem fengu heilsufæði héldu meiri frumumassa í þeim hlutum heilans sem stjórna hreyfingum, úrlausn vandamála eða geyma svonefnt starfsminni.