Menning og saga

Ár dauðans

Nú á dögum spreyta hundruðir manna sig við tind Everests. Með auknum fjölda hefur slysunum einnig fjölgað. Árið 1996 má þó öðrum fremur nefna ár dauðans á Everest. Flestir fórust þann 10. maí þegar fjórir leiðangrar lenda fyrirvaralaust í ofsaveðri.

BIRT: 04/11/2014

Dauðinn situr um hvern þann sem hyggst klífa hæsta tind heims. Að meðaltali leggja um 300 fjallgöngumenn á Everest árlega og það eru ekki allir sem snúa lifandi frá þeirri glímu. Fjallið hefur til þessa kostað um 220 manns lífið, þar af 15 á „Ári dauðans“ árið 1996.

 

Tölfræðin sýnir að einn af hverjum 100 lætur því lífið annaðhvort á leiðinni upp eða niður fjallið. Þetta sýnir rannsókn sem var gerð af fræðimönnum við m.a. Massachussetts General Hospital árið 2008. Þeir höfðu safnað gögnum saman frá 1921 til 2006 en þá fórust alls 212 á Everest. Öllu nákvæmar þá dóu 1,3 þeirra sem reyndu að klífa tindinn. Samkvæmt rannsókninni fórust langflestir á svonefndu dauðasvæði yfir 8.000 metrum, þar sem loftið inniheldur aðeins þriðjung þess súrefnis er finnst við sjávarmál. Hrap er algengasta dauðaorsökin, en alls fórust 113 með þeim hætti, meðan aðrir 52 létust úr hæðarveiki og kulda.

 

Í vindsorfnum búðum í 7.925 m hæð liggja 33 manneskjur og láta sig dreyma. Engin þeirra sefur enda bylur haglélið á nælontjöldunum í stormviðrinu, en þrátt fyrir hávaðann eru allir sem í leiðslu þetta fimmtudagskvöld í maí. Þó hitastigið sé langt undir frostmarki er mikill hugur í mönnum. Eftir nokkurra vikna aðlögun í Himalaya nálgast sú stund óðfluga þegar sigrast verður á Everest og draumar manna rætast.

 

Sérhver tilraun til samskipta milli tjaldanna kafnar í vindinum, en orðum er hvort sem er ofaukið. Allir bíða þess að storminn lægi svo hefja megi ævintýrið og um hálfáttaleytið, þegar dettur á dúnalogn öllum til undrunar, heyrast lausnarorð úr tjaldi Rob Halls: „Það er útlit fyrir að við höfum náð samkomulagi, félagar. Við höldum í veisluna klukkan hálf tólf.“ Rob Hall er leiðtogi Adventure Consultants-hópsins sem rétt eins og Mountain Madness-hópur Scott Fischers sem og leiðangur Taiwanbúans Makalu Gau með tvo sjerpa innanborðs, hafa valið föstudaginn 10. maí til að klífa fjallið. Skömmu fyrir miðnætti heldur flokkur Halls með 15 fjallgöngumenn fyrstur af stað; hálftíma síðar yfirgefur hópur Fischers, sömuleiðis 15 manns, búðir 4 og skömmu síðar Makalu Gau og tveir sjerpar hans. Samtals halda því 33 eftirvæntingarfullir fjallgöngumenn í átt að tindinum baðaðir draugalegu tunglsljósi á Mount Everest. Eftir þriggja tíma klifur í nístandi kulda ákveður Frank Fishbeck að snúa frá. Hann segir við leiðsögumann sinn Rob Hall að „eitthvað virðist ekki vera rétt við þennan dag“. Nokkru seinna ígrundar einnig Doug Hansen, sömuleiðis frá Adventure Consultants-hópnum, að snúa við en er talinn á að halda áfram þrátt fyrir að vera ískalt og nær örmagna. Hann er aumur í hálsinum og hefur hvorki sofið né matast undanfarna tvo daga, en óttast hins vegar að þetta tækifæri hans til að sigrast á Everest fari forgörðum. Árið áður varð tímaskortur þess valdandi að hann varð að snúa frá toppnum í einungis 90 m fjarlægð – algjört reiðarslag fyrir þennan bandaríska póstburðarmann, sem um áraraðir hafði unnið tvöfalda vinnu til að hafa ráð á að láta draum sinn í Himalaya rætast.

 

Skortur á reipi kostar drjúga bið

 

Skömmu fyrir dagrenningu verður nokkurt umrót í leiðöngrunum þremur. Fjallgöngumenn Scott Fischers hafa dregið uppi lið Halls og Makalu Gau og sjerpar hans hafa einnig blandast hópi þessara ævintýramanna sem í fremur sundurleitri keðju strita í gegnum mittisdjúpan lausasnjó.

 

Við sólarupprás hefur þessi liðssöfnuður náð yfir Svalirnar, útskot á suð-austurhryggnum í 8.534 m hæð þar sem snarbrattir klettaveggir gnæfa 30 m í loft upp. Til að komast yfir þessa torfæru þarf að notast við reipi og áttu sjerparnir þegar að vera búnir að festa reipin á sinn stað. Af óþekktum ástæðum hafði það ekki verið gert svo nú myndast flöskuháls við rætur bjargsins þar sem fjallgöngumennirnir verða að eyða meira en klukkustund í fimbulkulda meðan leiðsögumaður Fischers, Neil Beidleman vinnur upp seinkunina.

 

Á meðan biðinni stendur ákveður Beck Weathers, bandarískur þátttakandi úr hópi Rob Halls að seinka för sinni lítillega. Eftir aðgerð á hornhimnunum eru augu hans orðin afar viðkvæm og nú er svo komið að hann fær vart greint handa sinna skil. Ekki bætir úr skák að hann hefur nuddað ískristöllum inn í augun og rispað báðar hornhimnur. „Ef sjónin fer að batna þá rölti ég á eftir ykkur,“ tilkynnir hann Hall.

 

Eftir það sem flestum finnst óratími heldur hópurinn nú hægt upp með reipinu meðan aðrir bíða óþreyjufullir í hóp við rætur fjallsins. „Flýtið ykkur, flýtið ykkur“ heyrist hvað eftir annað. Tíminn flýgur, það er enn löng leið framundan og í síðasta lagi klukkan 14 ættu allir að hafa náð á toppinn eða vera innan seilingar hans, eigi þeir að eiga von á að komast í öryggi búðanna áður en myrkrið skellur á.

 

Skömmu fyrir hádegi gefast þrír af þátttakendum Halls, þeir Lou Kasischke, Stuart Hutchison og John Task, upp. Hver þeirra hefur reitt af hendi 65.000 dali til að fá fylgd upp á topp heimsins, en þegar markmiðið er litlu meira en þrjá tíma framundan eru horfur á að ná þangað fyrir klukkan 14 ekki góðar. Vonsviknir halda þeir félagarnir niður fjallið í fylgd tveggja sjerpa.

 

Sú ákvörðun reynist vera harla góð því á suðurtindinum, South Summit, í 8.750 m hæð myndast enn á ný flöskuháls sem tefur fjallgöngumennina frekar. Vegna samskiptaörðugleika hafa sjerparnir ekki lagt út reipi meðfram egghvössum og bröttum hryggnum sem leiðir upp á tind Everest. Á þessum hluta leiðarinnar getur ein misráðin hreyfing valdið hrapi niður 2 km og fyrir óvana fjallgöngumenn er hryggurinn sannkölluð dauðagildra. Á meðan leiðsögumenn frá liði Halls og Fischers festa reipið þurfa aðrir þátttakendur að bíða átekta.

 

Við Hillary Step, 12 m háan lóðréttan bjargvegg sem rís eins og óyfirstíganlegur þröskuldur einungis 60 m neðan við toppinn, þurfa fjallagarparnir enn að hópast í biðröð. Eitt stakt reipi liggur yfir þessa alræmdu hindrun og meðan fjallgöngumennirnir yfirstíga hana hver af öðrum hverfa allir nærliggjandi tindar í skýjabólstrum. Það veldur þó engum áhyggjum því ofan við tind Everest er himininn heiðskýr og engan grunar að óveður kunni að vera í nánd.

 

Á næstu klukkustundum verður Hillary Step eitt allsherjar umferðaröngþveiti þar sem fjallgöngumenn sem hafa þegar náð til topps mæta hinum sem eru á leiðinni upp. Á snarbröttum fjallshryggnum er skipst á hamingjuóskum og hvatningarhrópum til þeirra sem enn eiga eftir að ná upp þessa fáeinu metra í 8.850 m hæð. Á báðum endum reipisins eru biðraðir og meðan dýrmætar mínútur líða ein á fætur annarri taka þétt þokuský smám saman að leggjast yfir fjallið.

 

Síðasti nær toppnum tveimur tímum of seint

 

Um klukkan 15 heldur Scott Fischer síðastur manna yfir Hillary Step. Alla leiðina hefur hann gætt þess að enginn heltist úr lestinni og þrátt fyrir að hann sem leiðsögumaður ætti þegar að hafa skipað öllum að halda niður lætur hann sem ekkert sé. Þess í stað heldur hann áfram upp og fyrst klukkan skömmu fyrir fjögur – tæpum tveimur tímum eftir síðustu forvöð – nær hann á hæsta tind heims. Í talstöðinni tilkynnir hann grunnbúðum sínum sigri hrósandi að allir úr Mountain Madness-hópnum hafi komist á toppinn. „En mikið rosalega er ég þreyttur,“ segir Fischer sem hefur allan daginn verið lasburða.

 

Á tindinum er að finna Rob Hall – hann bíður eftir félaga sínum Doug Hansen sem er rétt ókominn yfir síðustu hindrunina. Einnig hafa Makalu Gau og sjerpar hans tveir náð á toppinn, en vegna tafanna snúa þeir strax við og halda niður fjallið.

 

Á meðan á þessu stendur, gengur öðrum leiðangursmönnum vel ferðin niður til 4. búða. Örmagna halda þeir löturhægt niður á við í litlum hópum. Súrefnið er á þrotum hjá mörgum og þeir stefna á Suðurtoppinn, þar sem sjerpar hafa komið fyrir birgðum með fullum súrefnisflöskum. Með nýjar súrefnisbirgðir yfirgefa hinir fyrstu Suðurtoppinn þegar birtu er tekið að bregða. Það er tekið að snjóa og þétt skýin þurrka út öll kennileiti um hvar Everest endar og himininn tekur við. Á Svölunum í 8.412 m hæð stígur skyndilega fram snævi þakin vera eins og uppvakningur úr kófinu og birtist Mike Groom, einum af leiðsögumönnum Rob Halls. „Sæll Mike,“ segir maðurinn sem Grooms til furðu reynist vera Beck Weathers. Hann hefur þolinmóður beðið hinna, allt frá því hann hætti við uppgönguna, en er nú orðinn nánast blindur. Groom verður strax ljóst að Weathers getur alls ekki komist niður fjallið af eigin rammleik. Hann bindur þá saman með reipi og með öndina í hálsinum fylgir hann Weathers niður brattann. Öðru hvoru hrasar Weathers og Groom er allan tímann skelfingu lostinn yfir möguleikanum á að þeir hrapi báðir til bana.

 

Ráfandi um 300 m frá búðunum

 

Meðan mennirnir halda niður fjallið hefur bætt í storminn. Og þegar hinir fyrstu ná í öryggi 4. búða er skollið á ofsaveður. Meginhluta fjallgöngumannanna er enn að finna ofar í fjallinu – fangaðir í blöndu af niðamyrkri, þéttri þoku og stormi.

 

Blandaður hópur 11 fjallgöngumanna úr liðum Halls og Fischers nálgast á þessum tíma búðirnar. Nær örmagna skreiðast þeir áfram hvattir af tveimur sjerpum. Stormurinn lemur andlit þeirra með ógnarkrafti og snjóhríðin skerst eins og nálar í augun svo að sjerparnir sveigja lítillega undan vindi en missa fyrir vikið áttanna. Í meira en tvær klukkustundir ráfa fjallgöngumennirnir hist og her, gjörsamlega þrotnir af kröftum, án þess að hafa hugmynd um að búðirnar eru aðeins 300 m undan.

 

Þrír þeirra verst settu, japaninn Yasuko Namba og Bandaríkjamennirnir Charlotte Fox og Sandy Pittmann geta ekki lengur staðið á eigin fótum og draga þarf þau niður fjallið. Rétt eins og aðrir í hópnum eru þau aðframkomin vegna súrefnisskorts og 75°C frostið nístir í gegnum merg og bein.

 

Neil Beidleman reynir að halda saman þessum skara af ráfandi sálum. Af ótta við að einhver rambi fram af hengiflugi í blindni skipar hann síðustu fjallgöngumönnunum að skríða saman í skjól af klettasnös. Þar sitja þeir og berja hvern annan að utan í von um að fá örlítinn yl í kroppinn, en án árangurs.

 

Fjallgöngumenn liggja hreyfingalausir á ísnum

 

Þeir sem náð hafa í 4.búðir eru sem betur fer ómeðvitaðir um þann harmleik sem á sér stað í nokkurra hundruð metra fjarlægð en meðal þeirra fáu sem enn eru með fullum sönsum vaxa áhyggjurnar eftir því sem tíminn líður. 19 manns hafa ekki snúið aftur af fjallinu og leiðsögumaður Scott Fischers, Anatoli Boukreev, sem var einna fyrstur niður um 5 leytið hefur margsinnis farið út að leita.

 

Það er ekki fyrr en klukkan kortér í eitt um nóttina sem hann heyrir í hópi manna nálgast búðirnar. Þrátt fyrir óveðrið hefur Beidleman og þremur öðrum tekist að finna leiðina í gegnum þetta snjóvíti og það verða fagnaðarfundir. Fjórmenningarnir eru í skelfilegu ásigkomulagi og það er með herkjum að þeir geta gert Boukreev grein fyrir hvar félagar þeirra hafa lagst fyrir. Boukreev heldur samstundis af stað og þegar hann loksins finnur hópinn verður hann fyrir áfalli. Fjallgöngumennirnir liggja hreyfingalausir á ísnum nánast niðurgrafnir í snjóinn. Þeir Beck Weathers og Yasuko Namba virðast þegar vera andvana og er Boukreev ljóst að tæpar má það ekki standa fyrir aðra í hópnum.

 

Í dagrenningu næsta morgun er Everest sem gjörbreytt. Himininn er heiður og útsýnið stórfenglegt en í búðum 4 eru mörg tjöld uggvænlega tóm. Um afdrif tveggja þeirra sem saknað er er þegar vitað. Meðan á björgunaraðgerð liðinnar nætur stóð þurfti Boukreev að forgangsraða verkefnum sínum og neyddist til að skilja eftir Weathers og Namba, enda gat ekkert í mannlegu valdi bjargað lífi þeirra. Scott Fischer, Rob Hall, Andy Harris, Doug Hansen og Makalu Gau hafa hins vegar horfið sporlaust en klukkan kortér í fimm um morguninn hefur Rob Hall samband við grunnbúðirnar um talstöð og tilkynnir að hann sé að finna á Suðurtoppinum.

 

„Ég er of máttfarinn til að hreyfa mig,“ tilkynnir hann og segir ennfremur lágri röddu að þeir Andy Harris og Doug Hansen séu báðir látnir.
Sjerpinn Lopson flytur slæmar fréttir af þeim Scott Fischer og Makalu Gau. Kvöldið áður hafði sjerpinn setið með mönnunum tveimur í örlitlu skjóli nærri Suðursöðlinum meðan þeir reyndu að safna saman kröftum í æðandi storminum til að halda niður fjallið. Um tíuleytið að morgni dags fara tveir björgunarhópar af stað úr 4. búðum til að leita uppi Hall, Fischer og Gau. Þeir tveir síðastnefndu finnast þar sem Lopson hafði skilið við þá, en fyrir Fischer berst hjálpin of seint. Hann rétt svo dregur andann, augu hans stara sjónlaust og kjálkarnir eru klemmdir saman eins og í dauðastjarfa. Gau er hins vegar við fulla meðvitund. Eftir að hann hefur fengið heitt te og súrefni getur hann með aðstoð sjerpanna skjögrað niður í búðir 4.

 

Tilraunir til að bjarga Rob Hall misheppnast einnig. Á leiðinni upp fjallið lenda sjerparnir í miklum stormi og verða að snúa frá um 200 m frá Suðurtoppnum. En allan daginn hvetja félagarnir hinn aðframkomna Hall til að reyna að komast niður af sjálfsdáðum. Klukkan 15.20 er hann orðinn svo pirraður á endurteknum hvatningarorðum að hann hvæsir: „Ef ég héldi að ég gæti ráðið við hnútana á reipinu jafn kalinn og ég er, þá væri ég farinn héðan fyrir sex tímum.“

 

Uppvakningur reikar inn í búðirnar

 

Klukkan 18.30 leitast kona Rob Halls við að komast að því hversu slæmt ástandið er í gegnum gervihnattatengingu frá Nýja-Sjálandi. „Hvernig eru fætur þínir?“ spyr hún hikandi. „Ég hef ekki farið úr skónum til að kanna það en gæti sem best trúað að ég sé nokkuð kalinn,“ svarar Hall. Áður en að hann lýkur samtalinu býður hann konu sinni góða nótt með þeim orðum sem verða hans síðustu: „Sofðu rótt, elskan mín. Lofaðu mér að hafa ekki of miklar áhyggjur.“

 

Þegar umfang þessa mikla harmleiks kemur smám saman í ljós fyrir eftirlifendur í 4. búðum á sér stað lítið kraftaverk: Rétt fyrir 5 um eftirmiðdaginn birtist skyndilega snæbarinn uppvakningur sem reikar inn í búðirnar. Með bera og útrétta hönd fyrir framan sig eins og í stjarfri kveðju veltur veran inn í búðirnar þar sem fjallgöngumennirnir sjá sér til mikillar furðu að þarna hefur Beck Weathers risið upp frá dauðum. Þrátt fyrir að vera blindur á hægra auga og nær sjónlaus á hinu hefur honum tekist að ná til búðanna eftir að hafa legið meðvitundarlaus á ísnum í meira en hálfan sólarhring.

 

Áhyggjufullir en einnig glaðir í bragði fylgja félagarnir Weathers inn í tjald þar sem honum er komið fyrir í tveimur svefnpokum með hitaflöskum til fóta. Hann lýtur hræðilega út með svarblátt kalið yfir mestan hluta andlitsins. Púlsinn er varla greinanlegur en ólíkt þeim Rob Hall, Scott Fischer, Doug Hansen, Andy Harris og Yasuko Namba er hann þó á lífi.

 

Þriðjudaginn 14. maí fyrir hádegi er búið að umbreyta grunnbúðum Everest í sjúkraskýli. Lamaprestur brennir reykelsi og fer með bænir og nokkrir eftirlifenda fara með minningarorð um fallna félaga.

 

Beck Weathers og Makalu Gau hafa verið fluttir til Kathmandu með þyrlu deginum áður til að sinna kalsárum þeirra og flestir leiðangursmanna eru einnig illa haldnir: Augu þeirra eru bólgin, varirnar við það að detta af, kolsvartar kinnar af kalskemmdum og hendur og fætur pakkaðar inn í heljarinnar umbúðir. En þau sár sem aldrei gróa eru ósýnileg – þau sár hvíla á sálinni.

 

Lifandi Saga

Belgía biður Kongó afsökunar – með tönn

Lifandi Saga

Af hvaða kynstofni var Kleópatra?

Lifandi Saga

Af hvaða kynstofni var Kleópatra?

Lifandi Saga

Kitty var Kim Kardashian 18. aldar

Lifandi Saga

Kitty var Kim Kardashian 18. aldar

Náttúran

Í frysti frá dánarstund

Heilsa

Hinn týndi hlekkur milli krabbameins og mataræðis ef til vill fundinn

Heilsa

Vísindamenn: Miklir kostir þess að nota stigann frekar en lyftuna.

NÝJASTA NÝTT

Maðurinn

Úmamí – fimmta frumbragðtegundin

Maðurinn

Eru fingraför óhjákvæmilega ólík?

Maðurinn

Frestar þú leiðinlegum verkefnum? Samkvæmt vísindamönnum er það slæm hugmynd

Læknisfræði

Hversu gamalt er Viagra?

Maðurinn

Ný rannsókn: Áhrif framhjálds á konur koma á óvart

Maðurinn

Hve lengi hefur krabbamein hrjáð mannkynið?

Maðurinn

Við getum lifað án heilastofns

Náttúran

Vísindamenn kortleggja nú heimshöfin

Heilsa

41 næringarríkustu fæðutegundir jarðar

Menning og saga

Leynirými í 4.400 ára gömlum egypskum pýramída

Maðurinn

Úmamí – fimmta frumbragðtegundin

Maðurinn

Eru fingraför óhjákvæmilega ólík?

Maðurinn

Frestar þú leiðinlegum verkefnum? Samkvæmt vísindamönnum er það slæm hugmynd

Læknisfræði

Hversu gamalt er Viagra?

Maðurinn

Ný rannsókn: Áhrif framhjálds á konur koma á óvart

Maðurinn

Hve lengi hefur krabbamein hrjáð mannkynið?

Maðurinn

Við getum lifað án heilastofns

Náttúran

Vísindamenn kortleggja nú heimshöfin

Heilsa

41 næringarríkustu fæðutegundir jarðar

Menning og saga

Leynirými í 4.400 ára gömlum egypskum pýramída

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Lifandi Saga

60 aðalsmenn drukknuðu í skít

Lifandi Saga

60 aðalsmenn drukknuðu í skít

Náttúran

Skógareldar geisa um gjörvallan hnöttinn

Náttúran

Skógareldar geisa um gjörvallan hnöttinn

Alheimurinn

Hin dulda hlið tunglsins

Náttúran

Hver er hæsta tala sem hefur fengið nafn?

Náttúran

Taumhald á gróðureldum: Skógareldar

Lifandi Saga

7 óviðeigandi brandarar frá fornöld

Vinsælast

1

Maðurinn

Ný rannsókn: Áhrif framhjálds á konur koma á óvart

2

Lifandi Saga

Kitty var Kim Kardashian 18. aldar

3

Heilsa

41 næringarríkustu fæðutegundir jarðar

4

Heilsa

Vísindamenn hafa fundið mikilvægan eiginleika sem er sameiginlegur öllum sem náð hafa 100 ára aldri.

5

Maðurinn

Hve lengi hefur krabbamein hrjáð mannkynið?

6

Maðurinn

Úmamí – fimmta frumbragðtegundin

1

Maðurinn

Ný rannsókn: Áhrif framhjálds á konur koma á óvart

2

Heilsa

41 næringarríkustu fæðutegundir jarðar

3

Heilsa

Vísindamenn hafa fundið mikilvægan eiginleika sem er sameiginlegur öllum sem náð hafa 100 ára aldri.

4

Maðurinn

Hve lengi hefur krabbamein hrjáð mannkynið?

5

Maðurinn

Úmamí – fimmta frumbragðtegundin

6

Maðurinn

Við getum lifað án heilastofns

Lifandi Saga

Hve fjölmennir eru rússnesku minnihlutahóparnir í Austur-Evrópu?

Lifandi Saga

Afþreying í gegnum tímann: Allt frá skylmingabardögum til sirkustrúða

Maðurinn

Þannig kemstu í gegnum þrep sorgarinnar

Heilsa

Sorg getur breyst í sjúkdóm

Jörðin

Hversu mikið menga leikföng?

Maðurinn

Af hverju þessi ást á áfengi?

Heilsa

Er hægt að sofa of mikið?

Lifandi Saga

Hver fann upp á „kalda stríðinu“?

Maðurinn

Síðbúnar kvöldmáltíðir gera þig þyngri og svangari

Maðurinn

Hvernig grær brotið bein?

Maðurinn

Öfgar persónuleikans: Úthverfur eða innrænn persónuleiki

Alheimurinn

Hvað verður um orkuna frá sólarljósinu? 

Úmamí – fimmta frumbragðtegundin

Fimmta frumbragðtegundin, úmamí, er nýjasta, en ekki endilega sú síðasta, bragðtegundin á lista yfir frumbragðtegundir. Lesið greinina og öðlist nýja vitneskju um frumbragðtegundirnar fimm og bragðskyn okkar.

Maðurinn

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

 • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
 • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
 • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
 • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
 • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
 • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
 • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is