Bakteríur hafa hina undraverðustu hæfileika og nú hafa vísindamenn við tækniháskólann í Delft í Hollandi uppgötvað hæfni sem kom þeim á óvart. Sívalar bakteríur, svo sem E. coli og B. subtilis geta flatt sig út þegar þær þurfa að komast um þrengsli. Bakteríurnar eru yfirleitt um 1 míkrómetri í þvermál en í rannsóknastofunni gátu þær komist í gegnum rifu sem aðeins var hálfur míkrómetri. Væri rifan þrengd enn, beittu bakteríurnar nýrri aðferð til að komast leiðar sinnar. Þær stækkuðu, skiptu sér og birtust út úr rifunni hinum megin í öllum mögulegum nýjum formum.
Af uppgötvuninni leiðir að við getum vænst þess að finna bakteríur þar sem þær ættu annars ekki að vera – bæði í náttúrunni og „hreinu“ umhverfi svo sem síum í vatnshreinsistöðvum og á rannsóknastofum.