Læknisfræði
Lyfjameðferð og geislameðferð gegn krabbameini eru tvíeggjuð sverð sem drepa ekki aðeins krabbafrumur, heldur ráðast einnig gegn heilbrigðum vef og hafa þannig alvarlegar aukaverkanir. Ný aðferð felst nú í því að að pakka frumueitrinu inn í dauðar bakteríur. Þessar bakteríur virka líkt og marksæknar sprengjuflaugar því þær berast inn í krabbameinsæxlið og gefa þar frá sér eitrið. Niðurstöður fyrstu tilrauna á svínum þykja lofa mjög góðu.
Aðferðin grundvallast á því að ástralskir vísindamenn hafa fundið leið til að koma bakteríum til að skipta sér við jaðar frumunnar en ekki í miðju. Þannig verða til eins konar örbakteríur sem ekki bera í sér neitt erfðaefni og eru þar af leiðandi dauðar. Þessar örbakteríur eru fylltar með frumueitri og á yfirborði þeirra er komið fyrir mótefni sem bindur sig við ákveðið prótein sem aðeins er að finna á yfirborði krabbafrumna.
Dauðu örbakteríurnar hafa marga kosti umfram aðrar flutningaaðferðir, t.d. litlar fitukúlur sem kallast lípósómur. Frumuhimna bakteríanna er svo sterk að ensím í blóðinu ná ekki að brjóta hana niður og það eykur líkurnar á að þær nái alla leið til krabbafrumnanna. Nú hyggjast vísindamennirnir hefja fyrstu tilraunir á krabbameinssjúku fólki í lok þessa árs.