Við gamla herleið milli Egyptalands og Palestínu hafa fornleifafræðingar frá egypska menningarráðuneytinu fundið virki sem byggt hefur verið í tengslum við fjögur musteri. Eitt musteranna er hið stærsta, gert úr leirmúrsteinum, sem fundist hefur í Sinai-eyðimörkinni. Þetta musteri er 70×80 metrar að grunnfleti og veggirnir 3 metra þykkir.
Tilgangur þessa stóra musteris og virkisins kynni að hafa verið að vekja hrifningu og aðdáun hátt settra sendimanna og herforingja á leið til og frá Egyptalandi. Auk þessa 3.000 ára gamla virkis og musteranna fjögurra, hafa fornleifafræðingarnir fundið margt annað áhugavert meðfram þessari leið, sem nefndist Hórusvegur eftir Hórusi, guði himinhvelfingarinnar, en hann var með fálkahöfuð. Árið 2008 fundust t.d. rústir pakkhúsa með hveiti og vopnabirgðum fyrir egypska hermenn.
Samkvæmt áletrunum á veggjum Karnakmusterisins í Lúxor var Egyptaland varið í austri með 11 virkjum. Virkið sem nú er fundið, hefur verið eitt þeirra og þar með hafa fundist 5. En 6 leynast enn einhvers staðar í eyðimerkursandinum.