Séð úr fjarlægð lítur jörðin mjög kúlulaga út en mælingar sýna viss frávik.
Mest áberandi er útbungun hnattarins við miðbaug, þannig að hann er aðeins „flatari“ á pólunum.
Frávikið frá fullkominni kúlulögun er þó ekki mjög mikið. Mælt yfir pólana er ummálið 40.008 km en sé mælt við miðbaug er það 40.075 km. Munurinn er sem sagt 67 km.
Suðurskautsvatnið rennur norður
Þessi munur stafar af hringsnúningi jarðar um möndul sinn. Snúningurinn skapar miðflóttaafl sem er núll við pólana en öflugast við miðbaug.
Áhrif miðflóttaafls má sjá í þvottavél eða þurrkara eða t.d. með því að setja dálítið vatn í gólffötuna og sveifla henni í hring. Vatnið helst í henni þegar hún er á hvolfi.
Hafið er heldur ekki alveg flatt. Vatnsborðið verður fyrir þyngdaráhrifum frá massafylli jarðskorpunnar undir hafsbotninum og mikilli massafylli í grenndinni, svo sem stórum og þykkum jökulbreiðum.
Af þessu leiðir m.a. að þegar íshellan á Suðurskautslandinu bráðnar, rennur meira vatn til okkar í norðrinu. Og á móti leiðir bráðnun Grænlandsjökuls til hækkandi sjávarborðs á suðurhveli.
Sól og tungl toga í vatn og land
Hitastig, selta og hafstraumar valda líka nokkrum ójöfnum á yfirborði sjávar.
Hæð sjávarborðs getur skeikað nokkrum metrum milli mismunandi staða á hnettinum.
Af þessu leiðir t.d. að við Panamaskurðinn er sjávarborð að meðaltali 40 cm hærra Kyrrahafsmegin en þegar kemur að útsiglingu á Atlantshafið.
Þyngdarafl bæði tungls og sólar togar líka í vatnið og myndar tvær eins metra háar sjávarfallabylgjur sem berast hringinn í kringum hnöttinn á hverjum degi.
Sól og tungl teygja reyndar líka á jarðskorpunni sem hækkar og lækkar um allt að 14,4 cm og 6,6 cm.
⇒ Hnötturinn er ójafn
Jafnvel þótt jörðin væri öll þakin vatni væri yfirborðið ekki alveg kúlulaga. Massi jarðar skiptist ekki alveg jafnt og dregur því meira vatn að sumum stöðum en öðrum.