Segja má að það sé „kalt hraun“, en það er engu að síður nokkuð heitt. Hraun sem upp kemur í eldgosi er yfirleitt fljótandi við meira en 900 gráðu hita. Í Tanzaníu er að finna eldfjall þar sem upp kemur hraun sem aðeins er um 500 stiga heitt.
Fjallið heitir Oldoino Lengai, sem merkir Fjall guðanna á masaímáli. Fjallið er eitt margra á jarðflekamótum í Austur-Afríku.
Yfirleitt sjáum við nýtt hraun fyrir okkur sem rauðglóandi massa af bráðnu bergi, en vegna hins lága hitastigs er hraunið úr Oldoino Lengai nánast svart að lit og líkist því til að sjá fremur leðjuflóði.
Eiginleikar hrauns ákvarðast af efnasamsetningu ásamt dýpinu þar sem það á upptök sín.
Kvartsríkt hraun er yfirleitt þykkfljótandi en hraun sem inniheldur lítið af kvartsi er fremur þunnfljótandi. Hátt hitastig veldur því líka að hraunið verður þunnfljótandi en við lægra hitastig verður hraunið þykkara í sér. Við Oldoino Lengai er þessu öfugt farið.
Hraunið sem kemur úr fjallinu er sem sé bæði fremur svalt og þunnfljótandi. Ástæðan er óvenjuleg efnasamsetning. Í þessu hrauni er mikið af karbónötum og innihald þess af natríum og kalíum er hátt. Hraunið kallast karbónatít og hraun af þessari gerð er hvergi þekkt annars staðar. Fjallið hefur gosið oft síðustu aldirnar. Síðasta gos var 2007-2008.