Sumir hafa vafalaust tekið eftir því að í desember 2008 og janúar 2009 var fullt tungl óvenju stórt og skært. Þetta var engin sjónhverfing heldur er ástæðunnar að leita í braut tunglsins um jörðu.
Braut tunglsins kringum jörðina er nokkuð aflöng og fjarlægðin milli jarðar og tungls getur verið frá 363.300 upp í 405.500 km – sem reyndar eru meðaltölur.
Þegar tunglið er næst okkur er það sagt í jarðnánd og þegar við sjáum fullt tungl í jarðnánd virðist það óvenju stórt og skært.
Þetta er þó ekki eina skýringin á hinu tilkomumikla fulla tungli í desember sl. Tunglið lýtur nefnilega ekki aðeins aðdráttarafli jarðar heldur hefur sólin einnig sín áhrif og jarðnándarpunkturinn því ekki alltaf á sama stað. Næst jörðu kemst tunglið alveg niður í 356.000 km fjarlægð. Það var þetta sem gerðist í desember þegar tungl var fullt einmitt í mestu jarðnánd. Þetta tvennt fer sjaldan saman og gerist næst árið 2016.
Þegar tunglið er fjærst jörðu er talað um jarðfirrð. Ef við gætum borið saman fullt tungl í jarðnánd og jarðfirrð mætti sjá talsverðan stærðarmun. Fjarlægðarmunurinn getur farið allt upp í 50.000 km og stærðarmunurinn héðan séð orðið ríflega 14%. Munur á ljósstyrk getur aftur á móti farið upp í 30%.
Munurinn á ljósstyrk er svo mikill að varla er unnt að komast hjá að taka eftir honum. Nokkuð öðru máli gegnir um stærðarmuninn, en þar ber t.d. að gæta þess að okkur sýnist tunglið stærra þegar það er nálægt sjóndeildarhring en ef það er hátt á lofti. Í rauninni er tunglið örlitlu nær okkur hátt á lofti en þegar það sést við sjóndeildarhring þannig að ætla mætti að þessu væri öfugt farið. Að mannsaugað skuli skynja tunglið stærra við sjóndeildarhring, stafar af því að þar ber augað það saman við umhverfið.