Jarðskjálftar stafa af því að risavaxnir jarðskorpuflekar eru á hreyfingu og rekast hver á annan.
Slík flekamót kallast misgengi og þegar mjög mikil spenna byggist upp þar sem flekar núast saman kippast skorpuflekarnir harkalega til og um leið losnar um spennuna.
Við finnum kippina sem jarðskjálfta og vegna þess hvílík ógnaröfl þarna eru að verki er ógerningur að koma í veg fyrir þá.
Viðvörunarkerfi
Þótt ekki sé unnt að koma í veg fyrir jarðskjálfta gengur verkfræðingum æ betur að vinna gegn eyðileggingaráhrifum þeirra.
Viðvörunarkerfi duga oft til að koma fólki á örugga staði, stöðva járnbrautarlestir, sem annars færu út af sporinu og loka fyrir gas- og rafleiðslur til að koma í veg fyrir stórbruna.
Varnir gegn jarðskjálftum gætu orðið enn mikilvægari í framtíðinni vegna þess að hækkandi yfirborð heimshafanna eykur þrýsting á landgrunnsfleka, sem liggja meðfram hættulegustu sprungunum, t.d. við San Andreas í Kaliforníu og norður-anatólska misgengið í Tyrklandi.
Borholur draga úr styrk jarðskjálfta
Árið 2014 tókst frönskum vísindamönnum að skapa örugga bletti á titringssvæði.
Þeir notuðu borholur til að leiða bylgjur frá manngerðum skjálfta fram hjá tilteknu svæði. Með aðferðinni mætti tryggja öryggi t.d. sjúkrahúsa og kjarnorkuvera á jarðskjálftasvæðum.