Lifandi Saga

Ferðin að iðrum jarðar

Árið 1829 fór vísindaleiðangur frá New York til Suðurskautslandsins. Opinberlega átti áhöfnin að kanna óþekktar siglingaleiðir. Einn af áhöfninni hafði þó annað og meira í huga, en hann hugðist sanna að jörðin væri hol að innan.

BIRT: 17/11/2023

Margra metra háar öldur lömdu á veigalitlum árabátnum og jusu ísköldum sjó yfir mennina. Beint á móti 20 manna áhöfninni blasti við láréttur klettadrangi.

 

Alls staðar í kring mátti sjá risavaxinn hafís á hreyfingu í froðufellandi sjónum. Briggskipið Annawan, sem fylgdi þeim frá New York til Suðurskautsins, var þegar horfið sjónum.

 

Við erum stödd á árinu 1829 og einn misheppnaðasti vísindaleiðangur allra tíma er í þann veginn að fara alveg í vaskinn.

 

Mennirnir berjast af öllum kröftum til að reyna að lenda bátnum á eina staðnum í þessu gegnfreðna landslagi þar sem hægt er að lenda árabát og maðurinn að baki leiðangrinum, Jeremiah N. Reynolds, er í þann veginn að viðurkenna að hugsanlega hafi hann haft rangt fyrir sér.

Briggskipið Annawan fylgdi Reynolds að ströndu Suðurskautslandsins þar sem hann vonaðist til að finna innganginn að iðrum jarðar.

Hann hafði gert ráð fyrir að sigla á lygnum íslausum sjó við þægilegt hitastig þarna í einungis átta km fjarlægð frá suðurskautinu. Þess í stað umluktu mennina gróðursnauðir ís- og klettadrangar, sem kipptu stoðunum undan kenningunni sem hann hafði barist svo hatrammlega fyrir síðustu sex árin.

 

Hann er þó enn sem fyrr sannfærður um að á Suðurskautslandinu eigi hann eftir að verða vitni að jarðfræðilegum stórviðburði sem skekja muni allan vísindaheiminn og kollvarpa allri fyrri vitneskju um eðli jarðarinnar. Auk þess sem hann hafði í hyggju að sanna að inngangurinn að iðrum jarðar lægi gegnum suðurskautið.

 

Áttavitamælingar gefa til kynna að jörðin sé hol

Reynolds var engan veginn einn um þá kenningu að jörðin væri hol að innan. Árið 1692 kunngjörði enski stjörnufræðingurinn Edmond Halley, sá sem uppgötvaði Halastjörnu Halleys og fann upp vökvafyllta áttavitann, kenningu þess eðlis að jörðin samanstæði af þremur byggilegum hvolfum, sem hringsnerust á mismiklum hraða hvert inni í öðru.

 

Hvert hvolf bjó yfir eigin gufuhvolfi og eigin segulsviði, ef marka mátti Halley.

 

Kenningunni var enn fremur ætlað að útskýra nokkrar hömlulausar áttavitamælingar, sem voru í þann veginn að gera vísindamenn samtímans gráhærða.

 

Árið 1716 lýsti ógrynni norðurljósa upp himininn yfir Englandi. Edmond Halley bætti þessu furðulega fyrirbæri á lista sinn yfir sönnunargögn.

 

Hann taldi að þessi dansandi ljós stöfuðu af því að lofttegundir úr innri heimum seytluðu út á pólum jarðarinnar.

Af marka má kenningar Cyrus Teeds búum við á innanverðri jörðinni og sólin hangir í miðju hennar.

Sólin er inni í jörðinni

Árið 1869 missti ungur bandarískur vísindamaður, að nafni Cyrus Teed, meðvitund þar sem hann gerði tilraun með rafmagn. Þegar hann rankaði úr rotinu var hann þess fullviss að sólin hengi inni í miðju jarðar og að heimurinn væri innan í jörðinni.

 

Hann stofnaði sértrúarsöfnuð sem nefndist Koresh og lagði grunn að bænum Estero í Flórída, sem átti sitt blómaskeið á árunum 1903-1908. Íbúarnir fundu upp alls kyns hugvitssamleg áhöld fyrir staðfræðilegar mælingar og þeir töldu sig hafa fundið sönnun fyrir því að yfirborð jarðar bognaði upp á við.

 

Söfnuðurinn leystist upp eftir andlát Cyrus Teeds árið 1908.

Á kenningunni var þó einn verulegur annmarki. Árið 1687 tókst enska eðlisfræðingnum Isaac Newton þegar að sanna að þyngdaraflið leitar inn mót miðju jarðar. Ef jörðin væri hol að innan hefði hún fyrir löngu lagst saman undan eigin þunga, nema auðvitað eitthvert óþekkt afl þrýsti á móti. Á meðan engir vísindamenn gátu fundið neina skynsamlega viðbót við lögmál Newtons, þá var kenningin líkt og úr lausu lofti gripin.

 

Hugdetta þessi hélst þó engu að síður lifandi og árið 1818 blossaði hún upp á nýjan leik þegar John Cleves Symmes Jr., fyrrum liðforingi í bandaríska hernum, sendi frá sér stórfurðulega tilkynningu.

 

Iður jarðar voru byggileg

Symmes hafði allt frá blautu barnsbeini verið hugfanginn af stórkostlegri hugmynd. Líkt og Edmond Halley hafði haldið 126 árum áður, var Symmes þeirrar skoðunar að jörðin væri hol.

„Ég lýsi því hér með yfir að jörðin er hol og að iður henni eru byggileg. Ég sver við allt sem mér er kært að þetta er satt og rétt.”
John Cleves Symmes Jr.

Eftir að hafa gegnt herþjónustu við landamæri Kanada í stríðinu á milli Breta og Ameríkana árin 1812-1815 settist Symmes að í Missouri og hóf að stunda viðskipti þar. Þar verslaði hann við indíána sem keyptu af honum varning í skiptum fyrir skinn, á meðan hann hægt og hljótt viðaði að sér sönnunum fyrir því að jörðin væri hol.

 

Symmes áleit ekki einvörðungu að jörðin væri hol, heldur átti enn fremur að vera hægt að komast inn í hana gegnum tvö stór op á suður- og norðurskautinu. Opin voru rösklega 2200 km í þvermál og umlukin risavöxnum fjöllum.

 

Til þess að komast að opunum þurfti því fyrst að klífa fjöllin en að því loknu væri leikur einn fyrir hugprúða landkönnuði að ferðast undir yfirborði jarðar. Í raun og veru væri ekkert því til fyrirstöðu að ferðast skautanna á milli í sérkennilegu rökkurlandslagi.

 

„Ég lýsi því hér með yfir að jörðin er hol og að iður henni eru byggileg. Ég sver við allt sem mér er kært að þetta er satt og rétt og gef kost á mér til að rannsaka iður jarðar ef heimurinn vill styðja mig og liðsinna mér í þessu risavaxna verkefni mínu“, tilkynnti Symmes í bréfinu sem hann hóf að dreifa til dagblaðanna árið 1818 og til allra þeirra sem höfðu áhuga á holri jörðinni.

 

Hann hélt jafnframt erindi um uppbyggingu jarðar og studdi kenningar sínar með athugunum, sem í fljótu bragði minntu á alvöru vísindarannsóknir.

Samkvæmt þjóðernissinnuðum stuðningsmönnum kenningarinnar um hola jörð flúði Hitler í iður jarðar.

Hitler er ekki dáinn – hann felur sig inni í jörðinni

Hugmyndin um hola jörð hefur skapað margar samsæriskenningar. Einn af þeim skrýtnustu er að Adolf Hitler hafi fundið vísbendingar um að jörðin væri hol að innan.

 

Og skrýtnasta kenningin er sú að Hitler hafi ekki látist árið 1945, heldur hafi hann flúið inn í jörðina í gegnum suðurpólinn með sínum dyggustu fylgjendum – og að afkomendur hans eru enn í felum í iðrum jarðar og bíða eftir tækifærinu að ná völdum á ný.

 

Kenningin á sér að sjálfsögðu enga stoð í raunveruleikanum, en er gott dæmi um hvernig hugmyndin um hola jörð hefur veitt mönnum með frjótt ímyndunarafl innblástur.

Hann upplýsti meðal annars um fiskitorfur og fuglahópa sem ferðuðust í norðurátt en virtust aldrei snúa aftur.

 

Þá hafði Symmes jafnframt safnað skýrslum um mikið magn rekaviðar undan norðurströndu Noregs, Íslands og Síberíu.

 

Honum fannst langtum líklegra að rekaviðurinn stafaði frá skógum í iðrum jarðar en að hann hefði rekið alla leiðina frá miðbaug til Íshafsins.

 

Symmes kunni jafnframt margar sögur af því hvernig lygn sjór leysti af hólmi ís og snjó lengst í norðri og suðri. Aragrúi sjómanna hafði séð milt veðurfar leysa af hólmi fimbulkulda á fyrrgreindum slóðum.

 

Þó svo að Symmes væri gagntekinn af hugmyndafræði sinni var hann öldungis ófær um að miðla henni til annarra. Hann var einstaklega nefmæltur, talaði allt of hratt og mismælti sig í sífellu. Árið 1823 hitti hann svo mann sem kunni að koma fyrir sig orði og að koma umdeildum skoðunum á framfæri.

 

Hol jörð laðar að áheyrendur

Jeremiah N. Reynolds starfaði sem ritstjóri á litlu dagblaði í Ohio þegar hann hlýddi á John Cleves Symmes. Þrátt fyrir það hversu illa Symmes tókst að koma boðskap sínum á framfæri varð Reynolds svo hugfanginn af hugmyndinni um að jörðin væri byggileg að innanverðu, að hann sagði starfi sínu lausu og gekk samstundis til liðs við Symmes.

 

Saman tókst þeim í nokkur ár að halda erindi um hugðarefni sitt fyrir fullu húsi, en Symmes sá fyrir staðreyndunum og Reynolds gætti þess að frásögnin ýtti undir ímyndarafl áheyrendanna. Báða dreymdi þá um að fara með leiðangur til suðurskautsins og að snúa aftur með fullgilda sönnun fyrir því að jörðin væri hol að innan.

John C. Symmes helgaði líf sitt kenningunni um að jörðin væri hol og byggileg að innanverðu.

Reynolds áttaði sig á mikilvægi þess að tefla fram einkar litríkum kenningum ef binda ætti vonir við opinbera styrki verkefninu til handa.

 

Symmes var hins vegar ekki reiðubúinn til að gera neinar málamiðlanir á sinni útgáfu af sannleikanum og á endanum slitnaði upp úr samstarfi þeirra, að undangengnu heiftarlegu rifrildi.

 

Hætt við leiðangurinn

Reynolds hitti margoft fulltrúa Bandaríkjaþings í tilraun sinni til að afla fjár til sjóferðarinnar. Hann var afar klókur maður og hélt því leyndu hver megintilgangur ferðarinnar væri og lagði þess í stað aðaláherslu á að Bandaríkin ættu þátt í rannsóknarleiðangri til syðstu svæða heims.

 

„Þjóðin dregst hjálparvana aftur úr í kapphlaupinu um að rannsaka fyrst allra þjóða einu óbyggðu heimsálfuna“, tilkynnti hann öllum sem hann áleit hafa völd og áhrif.

 

Ákafi Reynolds vakti athygli John Quincy Adams forseta og hinn 21. maí 1828 veitti þingið leyfi fyrir vísindaleiðangri undir forystu Reynolds.

 

Eftirmaður forsetans, Andrew Jackson, dró hins vegar leyfið til baka en atorkusöm hagsmunavinna Reynolds var ekki unnin fyrir gíg. Nokkrir steinríkir viðskiptajöfrar stigu fram og fjármögnuðu ferðina.

 

Reynolds var raunar ekki lengur opinber stjórnandi leiðangursins en hann var þó um borð þegar Annawan og tvö önnur skip létu úr höfn frá New York í október 1829 og tóku stefnuna á iður jarðar. Symmes komst hins vegar ekki með, því hann lést fimm mánuðum áður en ferðin var farin.

 

Aðeins ís á pólnum

Þó svo að hitastigið breyttist aldrei til muna, líkt og Reynolds hafði talið, gafst hann engan veginn upp og setti út árabát í því skyni að róa síðasta spölinn að suðurpólnum, með 19 áhafnarmeðlimi innanborðs.

 

Þeim tókst ekki að finna innganginn að iðrum jarðar en komust hins vegar heilir á húfi að landi á Suðurskautslandinu. Vandræði þeirra voru þó rétt í þann veginn að hefjast.

 

Þeir tóku engar birgðir með sér og hefðu hæglega geta látist úr hungri áður en storminn lægði.

 

Þeir komu auga á sæljón fyrir algera tilviljun og slátruðu því og átu. Eftir tíu daga frost og vosbúð höfðu þeir ekkert annað val en að leggja á hafið á nýjan leik.

 

Leiðangursskipið Annawan og skipin tvö, sem fylgdu því, voru enn ekki sjáanleg en dauðinn var vís ef mennirnir fyndu ekki skipin.

Íslendingurinn Hans og prófessorssonurinn Axel á leið niður í iður jarðar í skáldsögu Jules Verne frá árinu 1864.

Bókmenntirnar fjölluðu um hola jörðina

Nokkrir af fremstu rithöfundum 19. aldar fengu innblástur af kenningu John Cleve Symmes um að jörðin væri hol að innan, svo og af litríkum frásögnum Jeremiahs N. Reynolds.

 

Árið 1864 gaf Jules Verne út skáldsöguna „Leyndardómar Snæfellsjökuls“ sem fljótt öðlaðist miklar vinsældir meðal barna um mestallan heim. Skáldsagan segir frá stórkostlegri ferð að miðju jarðar, þar sem furðuleg fortíðardýr lifðu, m.a. risaeðlur.

 

Bók þessi var undir verulegum áhrifum af skáldsögunni „Frásögnin af Arthur Gordon Pyms“ sem Edgar Allan Poe skrifaði árið 1838, en Poe var af mörgum talinn einn helsti rithöfundur gjörvallrar bókmenntasögunnar.

 

Poe var ötull aðdáandi Jeremiahs N. Reynolds og í bókinni „Frásagnir Arthur Gordon Pyms“ studdist hann að miklu leyti við frásagnir af ferð Reynolds til suðurskautsins í leitinni að innganginum að iðrum jarðar, sem hann að sjálfsögðu gæddi vænum skammti af hugarburði og uppspuna.

 

Átakamiklar og ævintýralegar ferðir Reynolds vöktu enn fremur forvitni samtímahöfunda hans. Árið 1839 gaf Reynolds út ferðasögu þar sem segir frá stórum hvítum hval sem herjaði á skip á Kyrrahafi. Hvalinn nefndi hann Mocha Dick, því hann sást oft í grennd við Kyrrahafseyjuna Mocha.

 

Hvalurinn, sem var risavaxinn búrhvalur, var alræmdur vegna gríðarlegrar stærðarinnar og skapofsans og honum hafði tekist að sökkva mörgum hvalveiðiskipum áður en hvalveiðimenn loks drápu hann árið 1838.

 

Reynolds kallaði frásögn sína „Mocha Dick eða hvíti hvalurinn í Kyrrahafi“. Frásögn hans hefur að öllum líkindum gefið rithöfundinum Herman Melville hugmyndina að stórvirki hans „Moby Dick“, sem kom út á árinu 1851.

Þá rak um sjóinn í 40 klukkustundir, þar til þeir lögðust upp að litlu klettarifi og komu sér fyrir þar hvað best þeir gátu. Um þrjúleytið næstu nótt kom Reynolds auga á ljós lengst úti á sjó.

 

Hann vakti uppgefna áhafnarmeðlimina og þeir eyddu síðustu kröftunum í að róa út að Annawan.

 

Leiðangurinn til suðurskautsins var stöðvaður og stefnan var tekin beint í norður. Áhöfnin gerði uppreisn þegar skipið var skammt frá bænum Valparaiso í Síle og Reynolds var settur í land.

 

Hann dvaldi síðan í Suður-Ameríku í þrjú ár áður en honum tókst að fá skipspláss með orrustuskipinu USS Potomac , sem sigldi með hann til Bandaríkjanna.

 

Árið 1836 gerði hann aðra tilraun til að fjármagna leiðangur til suðurskautsins. Leiðangurinn var farinn, en Reynolds var hins vegar ekki leyft að koma um borð.

 

Þess í stað gerðist hann rithöfundur og fór að skrifa bækur, auk þess að starfa sem lögfræðingur, sem sérhæfði sig í sjórétti.

 

Allt fram til síðasta dags velti hann því fyrir sér hvernig ysta skel jarðarinnar liti út neðan frá.

Lestu meira

Kenton, Edna: The Book of Earths, Forgotten Books, 2008 (1928)

 

Standish, David: Hollow Earth. The Long and Curious Story of Imagining Strange Lands, Da Capo Press, 2006

HÖFUNDUR: KASPER NIELSEN

Getty Images, © Mary Evans, © Bridgeman,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Náttúran

6 atriði sem þú ættir að vita um skeggskottu: Gráðugur ættingi silfurskottunnar gæti brátt hertekið heimili þitt

Tækni

Lúxus eftir dómsdag: Lítum á skýli milljarðamæringanna

Menning og saga

Indiana Jones raunveruleikans leitaði að sáttmálsörkinni

Náttúran

Átvögl sjávarins geta kælt loftslagið

Lifandi Saga

Í bók frá miðöldum leyndist óþekkt portrett af Michelangelo

Tækni

Edison gegn Tesla: Meistarar rafmagnsins hötuðust

Maðurinn

7 magnaðar staðreyndir um augu þín

Tækni

Minnislisti nördanna: Búnaður

Tækni

Nú fá róbótar siðferðilegan áttavita

Heilsa

Ný tækni vekur latar sáðfrumur

Jörðin

Glóandi sprengingar skapa hljóðhöggbylgjur

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is