Áætlað er að rúmlega 150 milljón manns verði fyrir alvarlegum sveppasýkingum á hverju ári og 1,7 milljónir deyja..
Vírusar og bakteríur hafa hingað til fengið alla athyglina og ógnin af sveppum hefur gleymst. Þessu hyggst Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, breyta. Árið 2022 gáfu samtökin í fyrsta sinn út skýrslu um sveppasýkingar.
Fjölmargir sveppir lifa á og í líkama okkar án þess að valda okkur skaða, en hjá ónæmisbældum geta þeir þróast í lífshættulegar sýkingar.
Sífellt fleiri sveppir verða ónæmir fyrir sveppalyfjum og óttast vísindamenn að þeir fari að ógna heilbrigðum einstaklingum.
Hér eru fimm hættulegustu sveppirnir.
1. Aspergillus fumigatus

Myglusveppur ræðast á lungun
Sveppurinn Aspergillus fumigatus þrífst í jarðvegi, úrgangi, dauðum laufum, lofti og vatni og víða annars staðar. Hann nær inn í lungun með andardrætti. Sýkingin veldur einkum lungnasjúkdómi en sveppurinn getur líka náð til annarra líffæra – einkum heilans og taugakerfisins.
Í mestri hættu er fólk með langvinna lungnasjúkdóma eða veiklað ónæmiskerfi vegna krabbameins, eyðni eða líffæragjafa.
Sýkingin leggst á um 3 milljónir á ári. Sveppurinn þróar æ meira ónæmi gagnvart lyfjum og dánartíðni fer því hækkandi.
Dánartíðni: Allt að 80%.
2. Cryptococcus neoformans

Banvæn sýking í heilahimnu
Gersveppurinn Cryptococcus neoformans er nánast úti um allt og komist hann í líkamann við innöndun, getur hann valdið lífshættulegri sýkingu.
Sýkingin hefst í lungunum og leiðir oftast til lungnabólgu sem einkennist af hósta, öndunarerfiðleikum, brjóstverkjum og hita.
Einkennin versna til muna þegar sveppurinn kemst út í blóðið og nær til taugakerfisins. Sýkingin getur leitt til aukins þrýstings á höfuðkúpu, blindu, nýrnaskaða og heilahimnubólgu með einkennum á borð við höfuðverk, sársauka í hálsi, uppköst, óráð og breytta hegðun.
Án meðhöndlunar deyja allir sem fá sveppinn í heilahimnuna.
Dánartíðni: Allt að 61%.
3. Candida auris

Fjölónæmur sveppur veldur ótta
Sveppurinn Candida auris fannst í fyrsta sinn 2009 og hefur síðan valdið miklum ugg, einkum á sjúkrahúsum, þar sem hann lifir í vellystingum. Lengri sjúkrahússlega en 10-15 dagar er ein helsta orsök smits.
Mikið veikir sjúklingar og fólk með veiklað ónæmiskerfi eru helstu fórnarlömbin. Sveppurinn lifir á húð en getur komist inn í líkamann og þá sýkt blóð, taugakerfi, augu, bein og líffæri.
Aðlögunarhæfni sveppsins er mikil og hann hefur verið fljótur að mynda þol gegn lyfjum. Dánartíðnin er því há ef sveppurinn nær að sýkja blóðið.
Dánartíðni: Allt að 70%.
4. Candida albicans

Venjulegur þarmasveppur veldur dauða
Gersveppurinn Candida albicans er sá sem algengast er að valdi sjúkdómum. Sveppurinn er algengur í fólki og þrífst í munni, hálsi, þörmum, húð og í skeiðinni – án þess að valda vandræðum. En missi líkaminn stjórn á honum og hann kemst t.d. í slímhúð eða vef getur það valdið erfiðum eða jafnvel lífshættulegum sýkingum.
Allt eftir staðsetningu geta einkennin verið hiti, kláði eða útbrot – eða jafnvel blinda, nýrnabilun og blóðstorka.
Ónæmiskerfið kemur í veg fyrir sýkingu og því er fólk með veiklað ónæmiskerfi í mestri hættu á því að fá sveppinn í blóðið, taugakerfið og innri líffæri og dánartíðni er þá mikil.
Dánartíðni: Allt að 50%.
5. Histoplasma capsulatum

Sveppurinn breytir sér í líkamanum
Í jarðvegi er mikið af Histoplasma capsulatum, einkum ef í honum er mikið af saur fugla og leðurblakna. Í jarðvegi er þetta eins konar myglusveppur og fjölgar sér með gróum. Í mannslíkamanum hegðar hann sér líkt og gersveppur og sýkir vef.
Sveppurinn kemst inn í gegnum lungun og getur breiðst út í blóðið, taugakerfið og líffærin.
Fullfrískt fólk vinnur oftast bug á sýkingunni en sé ónæmiskerfið veiklað getur hún valdið hita, höfuðverk, verkjum, hósta og mögulega banvænum bólgum í líffærum og vefjum. Líffæraþegar sem fá ónæmisbælandi lyf eru meðal þeirra sem eru í hættu.