Venus er sú reikistjarna sem kemur næst jörðinni á sporbraut sinni um sólina, en þó hún sé nálæg og jafnvel mjög lík jörðu geymir hún fjölda óleystra leyndardóma.
Eitt sinn voru höf á Venus og jafnvel líf, en nú er hún heitasta pláneta sólkerfisins og vísindamenn vita ekki hvers vegna loftslag plánetunnar varð svona öfgafullt.
Áratugir eru síðan geimfar skaut sér niður í þéttan lofthjúp Venusar en nú á ný kynslóð geimkanna að finna svörin við fjölmörgum spurningum.
Kannarnir munu hafa gríðarlegan fjölda hátækni mælitækja innanborðs sem eiga að kortleggja yfirborð Venusar og veita okkur nýja þekkingu á bæði yfirborði plánetunnar sem og lofthjúpnum og síðast en ekki síst möguleikanum á að líf þrífist á plánetunni.
MIT/Rocket Lab

Geimfarið Photon lætur rannsóknarfar síga niður í gegnum lofthjúpinn til að leita að ummerkjum lífs í dropum í skýjahulunni.
Leitar af lífi í skýjunum
Fyrsti einkafjármagnaði leiðangurinn til Venusar er skipulagður í samstarfi fyrirtækisins Rocket Lab og MIT (Massachusetts Institute of Technology) í BNA. Tækjabúnaður verður látinn fara niður í gegnum skýjahuluna til að greina hvort líf gæti leynst í skýjunum.
Tækið verður 5 mínútur í skýjunum og leysigeisli notaður til að mæla stærð dropanna, lögun og innihald. Reynist meira vera í dropunum en brennisteinssýra gæti það verið tákn um líf við Venus.
- Geimskot: 2025
- Tími: 6 mánuðir
- Mælitæki: 1
DAVINCI+

Leiðangrinum DAVINCI+ er ætlað að mæla samsetningu gufuhvolfsins til að sjá hvort einhvern tíma hafi verið höf á Venusi.
Leitar fornra úthafa
Með DAVINCI+ leiðangrinum (Deep Atmosphere Venus Investigation of Noble gases, Chemistry, and Imaging) hyggst NASA rannsaka gufuhvolfið til að komast að því hvort sjór hafi verið á plánetunni.
Gervihnöttur verður á braut um Venus og tekur myndir á innrauðum og útfjólubláum bylgjulengdum – sýnilegt ljós nær ekki gegnum gufuhvolfið – og lítið tæki verður sent niður í gegnum skýin til að greina efnasamsetningu þeirra.
Tækið verður heila klukkustund á leiðinni niður á yfirborðið þar sem hitinn gerir út af við það á örfáum mínútum.
- Geimskot: 2029
- Tími: 3 ár
- Mælitæki: 5
Venera-D

Rússneska Venera-D geimfarið er hannað til að lenda á yfirborðinu og standast þar hita og þrýsting í þrjá tíma.
Með leiðangri Venera-D hyggjast Rússar snúa aftur til Venusar eftir 40 ára fjarveru.
1982 entist Venera-13 í 127 mínútur á yfirborðinu og tók m.a. upp fyrstu hljóðin á annarri plánetu. Nú er markmiðið að Venera-D standist hitann og þrýstinginn í um 3 klukkustundir.
Í lendingarfarinu verða m.a. myndavélar og tæki til að mæla efnasamsetningu klapparinnar. Sjálft á geimfarið að vera á braut um Venus og gera radarmælingar á gufuhvolfinu.
- Geimskot: 2029
- Tími: 3 ár
- Mælitæki: 15
VERITAS

Geimfarið VERITAS notar radar til að mæla yfirborðið og nær að greina klappir niður í 15 metra upplausn.
Rannsakar yfirborðið
Geimfar NASA, VERITAS (Venus Emissivity, Radio Science, InSAR, Topography and Spectroscopy) á að kortleggja allt yfirborð Venusar með radar. Klapparmyndanir allt niður í 15 metra í þvermál eiga að sjást.
Í VERITAS verður líka innrauð myndavél, þar eð hitageislun frá klöppum getur sýnt úr hverju þær eru gerðar. Einnig verður unnt að mæla gastegundir frá mögulegum eldgosum. Vísindamenn vonast til að fá yfirlit um sögu Venusar.
- Geimskot: 2028
- Tími: 5 ár
- Mælitæki: 2
EnVision

Í EnVision-geimfarinu verður sérstakur radar sem sendir útvarpsbylgjur heilan kílómetra niður í jarðskorpuna til að sjá úr hverju hún er gerð.
Leitar dýpra
EnVision-geimfar ESA á að rannsaka hvers vegna Venus þróaðist á allt annan hátt en jörðin.
Geimfarið fer á braut og tekur radarmyndir af yfirborðinu með allt niður í 10 metra upplausn. Jafnframt verður útvarpsbylgjum skotið niður á allt að eins kílómetra dýpi í jarðskorpunni. Greiningar á innviðum plánetunnar verða jafnframt gerðar á grundvelli þyngdarsviðsins.
Í geimfarinu verða einnig þrír litrófsmælar sem eiga að greina efnasamsetningu gufuhvolfsins og klappanna niðri á yfirborðinu. Mælingarnar eiga m.a. að leiða í ljós hvernig eldvirkni hefur breytt plánetunni.
- Geimskot: 2032
- Tími: 6,5 ár
- Mælitæki: 6