Þegar Edmund Hillary vaknaði fimmtudaginn 28. maí 1953 fann hann að eitthvað ískyggilegt var í vændum. Nýsjálenski fjallgöngumaðurinn hafði aftur verið með martröð. Hann dreymdi að hann væri á harðahlaupum undan snjóflóði, að hann stykki frá einum ísnum yfir á þann næsta yfir hyldjúpar jökulsprungur, allt þar til hann komst ekki lengra. Fastur og dauðadæmdur.
Með þjakandi tilfinningu í maganum hlustaði hann eftir þrúgandi þögninni sem hvíldi yfir leiðangursbúðunum í 7.900 metra hæð og brátt gerði Hillary sér grein fyrir hvað þögnin táknaði: Storminn sem geisaði daginn á undan hafði lægt og nú var unnt að halda leiðangrinum áfram. Enn voru 950 metrar eftir á tindinn, aðeins tveggja daga klifur, ef allt gengi að óskum og þá yrðu Hillary og sjerpinn Tenzing Norgay komnir upp á tind hæsta fjalls veraldar, fyrstir allra.
Að baki lá margra mánaða strangur undirbúningur, undir leiðsögn Konunglega landafræðifélagsins í London en forsvarsmenn félagsins á eftirstríðsárunum létu sig dreyma um að færa heimsveldinu aftur frægð og frama.
Í tjaldinu sváfu Hillary og sjerpinn Tenzing Norgay með súrefnistæki til þess að þeir væru vel úthvíldir alla morgna til að takast á við þverhníptar fjallshlíðarnar og þunnt loftið.
Leiðangurinn var metnaðarfyllsta tilraunin sem farin hafði verið til þessa í þeim tilgangi að bera sigur úr býtum gegn Everestfjalli, auk þess sem Bretar töldu þetta jafnvel vera síðustu vonina til að komast fyrstir á tindinn. Yfirvöld í Nepal höfðu veitt frönskum og svissneskum fjallgöngumönnum einkaleyfi til að fara í leiðangra á fjallið árin 1954 og 1955.
Versta hugsanlega sviðsmyndin væri endurtekning á gremjulegum ósigrinum árið 1912, þegar Bretinn Robert Falcon Scott laut í lægra haldi í baráttunni um að komast fyrstur manna á Suðurskautið. Norðmaðurinn Roald Amundsen bar sigur úr býtum þegar hann komst á Suðurpólinn 34 dögum áður sem skipti sköpum hvað frægð og frama snerti.
Til þess að tryggja velgengni í leiðangrinum á Everest hafði Konunglega landafræðifélagið valið John Hunt sem fyrirliða leiðangursins. Þessum reynda liðsforingja til aðstoðar hafði félagið vandað valið á dugmestu og reyndustu fjallgöngugörpum breska heimsveldisins.
Þörf fyrir mörg tonn af útbúnaði
Þremur mánuðum fyrir draumfarir Hillarys, í febrúar árið 1953, héldu Hunt og hinir 13 þátttakendur leiðangursins upp frá Englandi til Katmandú í Nepal með 7,6 tonn af útbúnaði og birgðum.
Mount Everest er staðsett á landamærum Nepals og Tíbets. Árið 2020 mældu kínverskir vísindamenn hæð fjallsins og komust að þeirri niðurstöðu að það væri nákvæmlega 8.848,86 m hátt.
Leiðangursmennirnir, ásamt 400 burðarmönnum frá svæðinu, burðuðust með farangurinn í 17 daga í átt að rótum Everestfjalls.
Þaðan roguðust litlir hópar sjerpa en svo nefnast harðgerir fjallabúarnir í Nepal, með útbúnaðinn á bakinu upp í grunnbúðirnar sem voru í fimm kílómetra hæð.
Þegar búðirnar höfðu verið reistar hófu Bretarnir að leita eftir öruggustu leiðunum yfir varhugaverðar jökulsprungurnar og upp lóðrétta ísveggina. Þeir óttuðust einkum gönguna yfir hinn svokallaða Khumbu-falljökul.
Hæðótt landslagið á jöklum er á stöðugri hreyfingu og sú leið sem hafði virst vera örugg og fær daginn á undan gat hafa breyst í dauðagildru næsta dag, þar sem ísinn gaf sig skyndilega undan leiðangursmönnum.
Sjerparnir og Bretarnir grópuðu spor með miklum erfiðismunum og komu jafnframt fyrir öryggislínum upp eftir fjallinu, auk þess að koma fyrir átta tjaldbúðum á mikilvægum stöðum á leiðinni upp á tindinn. Meðan á þessu verki stóð vöndust leiðangursmennirnir smám saman aukinni hæð en með því móti má koma í veg fyrir háfjallaveiki.
Litlu munaði að tilraun Breta til að sigrast á Everest tækist árið 1933. Þeir urðu hins vegar frá að hverfa þegar þeir áttu aðeins eftir 270 metra á tindinn.
Everestfjall átti eftir að kosta mörg mannslíf
Alls leið 101 ár frá því að indverskur stærðfræðingur uppgötvaði Everestfjall þar til það fyrst var klifið.
- 1852
Hæsta fjall veraldar
„Herra, ég hef fundið hæsta fjall veraldar“, sagði stærðfræðingurinn Radhanath Sikhdar yfirmanni indversku landmælingastofnunarinnar árið 1852 en sú stofnun kortlagði fjallið fyrir Bretana. Eftir fjögurra ára mælingar var opinber hæð fjallsins ákvörðuð sem 29.002 fet (8.840 metrar).
- 1865
Fjallinu gefið nafn
Allt til þessa hafði fjallið gengið undir heitinu Tindur 15 en Konunglega landafræðifélagið nefndi það í höfuðið á sir George Everest sem var fyrrverandi yfirmaður indversku landmælinganna.
- 1922
Fyrsti leiðangurinn endaði hörmulega
Fyrstir til að reyna sig við fjallið voru breskir leiðangursmenn. Fjallgöngumennirnir náðu ekki alla leið á tindinn en mennirnir slógu eldra met með því að komast hærra en í 8.000 m hæð en þegar þeirri hæð hafði verið náð fórust sjö sjerpar í snjóflóði.
- 1924
Mallory og Irvine hurfu
Nýr breskur leiðangurshópur reyndi sig við Everest. Einn þeirra var George Mallory sem tekið hafði þátt í leiðangrinum árið 1922 en í nýja leiðangrinum hvarf hann ásamt félaga sínum Andrew Irvine þar sem þeir reyndu sig við tindinn. Lík Mallorys fannst árið 1999.
- 1933
Fyrsti leiðangur Norgays
Bretar gerðu tvær tilraunir, með Hugh Ruttledge í fararbroddi, þá fyrri árið 1933 og svo aftur árið 1936. Báðar ferðir mistókust. Ungur sjerpi tók þátt í leiðöngrunum og lýsti því yfir að hinn 49 ára gamli Ruttledge væri orðinn of gamall til að klífa fjöll. Sjerpi þessi hét Tenzing Norgay.
- 1952
Svisslendingar reyndu nýja leið
Svissneskir leiðangursmenn reyndu að sigra Everestfjall frá suðurhliðinni. Fjallagarparnir frá Alpalandinu börðust hatrammlega við fjallið en í hópi þeirra voru Raymond Lambert og Tenzing Norgay sem nú tók þátt aftur. Síðustu metrana skriðu félagarnir á fjórum fótum, íþyngdir af öllum útbúnaðinum og örmagna af þreytu. Þegar mennirnir áttu eftir um 250 metra upp á tindinn gátu þeir ekki meir og gáfust upp.
Leiðangursstjórinn sendi fjallgöngumenn sína til skiptis niður í grunnbúðirnar svo þeir gætu hvílst og safnað kröftum. Þetta átti einkum við um tvo hópa sem fyrirhugað var að láta reyna sig við tindinn en þeir fengu að hvíla sig á meðan félagar þeirra fikruðu sig upp eftir ísi þöktum fjallshlíðunum.
Að lokum, þann 26. maí, eftir þriggja mánaða undirbúning, gaf Hunt þeim Tom Bourdillon og Charles Evans fyrirmæli um að klífa upp á efsta tindinn á Everest. Þeir tveir höfðu verið valdir til að reyna sig við tindinn fyrstir allra og tilraun þeirra hófst frá áttundu búðum í þúsund metra fjarlægð frá tindinum.
Vegalengdin reyndist Bretunum tveimur hins vegar ofviða sem börðust við feikilegan kulda. Ísing myndaðist stöðugt í súrefnistækjum þeirra og þeir Bourdillon og Evans gáfust upp og urðu frá að hverfa, afar vonsviknir, þegar þeir áttu aðeins eftir eitt hundrað metra á tindinn.
Fjórir menn áttu að ryðja brautina
Tveimur dögum síðar, nánar tiltekið 28. maí, vöknuðu þeir Hillary og Tenzing við það í áttundu búðum að tveir breskir leiðangursmenn höfðu bæst í hópinn, ásamt tveimur sjerpum. Hunter sem var orðinn reynslunni ríkari eftir tvær misheppnaðar tilraunir til að komast á tindinn, ákvað að setja upp nýjar búðir í 8.500 metra hæð þar sem þeir Hillary og Norgay skyldu verja nóttinni áður en þeir legðu til atlögu við tindinn.
Hér má sjá Edmund Hillary, klæddan þunnum nælonjakka, lesa dagblað á Everestfjalli.
Nákvæmur undirbúningur tryggði velgengni
Leiðangurinn sem farinn var árið 1953 var þaulhugsaður í minnstu smáatriðum. Gömlu, þungu tweed-ullarfötin og austurrísku fjallaklifurshattarnir höfðu vikið fyrir háþróuðum jökkum, fjallgönguskóm og tjöldum sem allt veitti gríðargóða vörn gegn hrikalegum vindhviðum og jökulkulda.
Samsettir stigar fyrir jökulsprungur
Auk þess að hafa meðferðis hefðbundinn klifurútbúnað í líkingu við kaðla, brodda fyrir fjallgönguskó og ísaxir höfðu leiðangursmennirnir í fyrsta sinn með fimm álstiga, hvern 1,8 metra langan sem hægt var að skeyta saman í einn stiga. Stigarnir voru m.a. notaðir til að brjótast yfir jökulsprungur.
Nælon auðveldaði för fjallgöngumannanna
Árið 1952 gerðu leiðangursmenn tilraunir með ýmiss konar nútímalegan fatnað til að nota við erfiðar veðuraðstæður á fjallinu Jungfrau (4.158 m) í Sviss. Þátttakendur í tilraununum hrifust einkum af hinu svokallaða næloni sem nýlega hafði verið uppgötvað og veitti vatns- og vindvörn á utanverðum jökkunum sem fóðraðir voru að innan með ull og dúni. Þetta nýja efni gerði það að verkum að staðalklæði leiðangursmannanna, að meðtöldum fjallgöngskóm og vettlingum, vógu nú einungis átta kíló.
Mennirnir fengu orku úr laxi og pylsum
Breski herinn sá leiðangurshópnum fyrir fæðu og voru mennirnir útbúnir með ílátum með mat að eigin vild, t.d. laxi eða sardínum. Þessu fæðuvali var ætlað að örva matarlystina en hún hverfur eins og dögg fyrir sólu í þunnu loftinu. Á lokastigum fjallaklifursins fengu mennirnir svokallaða „árásarskammta“ en um var að ræða mat í lofttæmdum umbúðum í stað þungs dósamatar.
Fjallgönguskórnir einangraðir með „kapok“-fræjum
Árið 1950 höfðu Frakkarnir Maurice Herzog og Louis Lachenal misst allar tær sökum kals þegar þeir klifu fjallið Annapurna í Himalajafjallgarðinum (8.091 m). Bretarnir létu fyrir vikið sérhanna fjallgönguskó til að nota í meiri hæð en 6.000 metrum, með þykku einangrunarlagi gerðu úr fræjum „kapok“-trésins sem komið var fyrir milli tveggja vatnsheldra laga. Þessir sérstöku háfjallaskór vógu hvor um sig eitt kíló.
Nýir þrýstikútar sáu fyrir viðbótarsúrefni
Leiðangursmennirnir höfðu þörf fyrir meira súrefni til að geta klifið uppi í þunnu loftinu. Breskir vísindamenn höfðu hannað létta þrýstikúta sem gátu geymt meira súrefni en áður hafði tíðkast. Hópurinn gat fyrir vikið haft meðferðis 193.000 lítra af súrefni í stað þeirra 20.000 lítra sem svissneskur leiðangur hafði haft yfir að ráða árið á undan. Með því að sofa með súrefnisgrímur vöknuðu Bretarnir vel úthvíldir og tilbúnir undir frekari fjallgöngur.
Lítil færanleg tjöld
Leiðangursmennirnir höfðu meðferðis tveggja manna tjöld sem auðvelt var að tjalda á litlum bergsyllum á fjallinu. Með því að nota nælon tókst að gera þau vindþétt en það var ekki lengur hægt að festa tjaldhælana í lausamjöllinni og voru súrefniskútar því notaðir til að fergja tjöldin.
Áformað var að Bretarnir og sjerparnir skyldu berjast á undan og grópa út spor alla leiðina að næstu búðum sem áætlað var að reisa aðeins 300 metrum fyrir neðan tindinn. Þeim var einnig ætlað að burðast með aukalega súrefniskúta í átt að búðunum. Hugmyndin var sú að þeir Hillary og Tenzing skyldu fylgja í fótspor félaga sinna, án þess að erfiða um of og vera eins vel úthvíldir og frekast var unnt fyrir lokatilraunina.
Einn sjerpanna veiktist hins vegar af völdum súrefnisskorts þegar mennirnir voru komnir vel á veg og þurfti fyrir vikið frá að hverfa á meðan hinir þrír roguðust með mörg kíló af útbúnaði á bakinu og byrjuðu að fikra sig upp á við þegar klukkan var 8.45 að morgni.
Hillary og Tenzing dokuðu í eina klukkustund og lögðu síðan af stað í fótspor félaga sinna. Þó svo að aðstoðarmennirnir bæru óheyrileg þyngsli varð Hillary sjálfur að burðast með 20 kg af útbúnaði á bakinu. Tenzing bar eilítið minna. Hægt og rólega börðust tvímenningarnir áfram yfir Suðurskarðið, einkar torfært fjallaskarð sem breiðir úr sér rétt áður en hæðin fer að aukast.
Edmund Hillary og Tenzing Norgay héldu vinskap sínum ævilangt.
Skarð þetta er einn alkaldasti staðurinn á Everestfjalli, þar sem hvergi er nokkurt skjól og ískaldur vindurinn nístir inn í merg og bein.
Búðir í 8.500 metra hæð
Ekki leið á löngu áður en Hillary og Tenzing náðu mönnunum þremur fyrir framan þá. Hópurinn komst í sameiningu upp að útbúnaðinum sem John Hunt og einn sjerpanna höfðu varðveitt fyrir lokasprett þeirra Hillarys og Tenzings. Hér á miðri ísbreiðunni var að finna eitt tjald, aukalega súrefniskúta, mat og eldsneyti fyrir prímus.
Þessi sjón vakti blendnar tilfinningar hjá Hillary. Þessi aukalegi útbúnaður var lífsnauðsynlegur til að komast af í næstu búðum en Hunt hafði hins vegar ekki tekist að burðast með útbúnaðinn alla leið upp í þá hæð þar sem fyrirhugað hafði verið að reisa níundu búðirnar.
Hópurinn varð fyrir bragðið að burðast með enn meira á bakinu og þess má geta að Hillary þurfti sjálfur að bera tæp 30 kg sem var meira en hann taldi vera gerlegt að bera á líkama nokkurs manns í svo mikilli hæð.
Mennirnir fikruðu sig áfram á viljastyrknum einum saman og tóku að svipast um eftir hentugum stað fyrir níundu búðir, í grennd við það sem kallaðist Suðurtindur fjallsins.
Níu búðir gögnuðust Hillary og Tenzing til að komast á tindinn
Hinn 29. maí 1953 steig Edmund Hillary fæti á tind hæsta fjalls veraldar. Þetta var að undangenginni margra mánaða erfiðisvinnu við að reisa mikilvægar búðir, þar sem hægt var að fá skjól, fæðu og hvíld á erfiðri göngunni upp í móti.
Búðir 1)
Grunnbúðir
Grunnbúðirnar voru reistar 12. apríl. Þaðan burðuðust mennirnir með mat og súrefni upp eftir fjallinu.
Búðir 2)
Khumbu-falljökullinn
Hinn ógnvænlegi Khumbu-falljökull trónir í 5.486 metra hæð en það svæði er þakið ósýnilegum jökulsprungum og ótryggum ís sem gefur skyndilega eftir. Eitt erfiðasta verkið sem leiðangursmennirnir stóðu frammi fyrir var að finna leið þarna í gegn og þar rétt fyrir ofan voru svo reistar aðrar búðir.
Búðir 4)
6.462 m ofar
Aðeins þjálfuðustu og dugmestu sjerparnir og leiðangursmennirnir komust alla leið upp í fjórðu búðir.
Búðir 6)
Lhotse-veggurinn
Þessi 1.125 metra langi og bratti ísveggur er einn af varhugaverðustu stöðunum á Everestfjalli. Hækkunin nemur sums staðar allt að 80 gráðum en lausamjöll og ís gera það að verkum að stöðugt er hætta á snjóflóðum og skriðum.
Búðir 8)
Tveir gáfust upp
Tom Bourdillon og Charles Evans hófu atlögu sína á tindinn úr 7.894 metra hæð en urðu frá að hverfa, afar lúpulegir. Hillary og Tenzing lærðu af reynslu þeirra og létu koma níundu búðum fyrir ofar í fjallinu.
Búðir 9)
Atlagan við tindinn
Þessar ofarlegu búðir gerðu það að verkum að Hillary og Tenzing þurftu „aðeins“ að klífa 350 metra upp á við síðasta daginn
Tindurinn
Þessi 12 metra háa klettasylla sem nefnist Hillary Step, er síðasta varhugaverða hindrunin á leiðinni upp á tind Everestfjalls. Syllan er nefnd í höfuðið á Edmund Hillary sem komst upp á tindinn rétt á undan Tenzing Norgay.
Þegar klukkan var orðin 14.30 komst hópurinn upp á litla sléttu í fjallshlíðinni í 8.500 metra hæð sem hvorki var lárétt né sérlega hentug en aftur á móti það skásta í stöðunni.
„Þetta verður að duga“, kallaði Hillary til hinna sem hnigu niður úr þreytu á syllunni.
Mennirnir virtu andaktugir fyrir sér mörg hundruð kílómetra sem blöstu við af víðfeðmu fjallalandslaginu í Himalajafjallgarðinum. Skömmu síðar kvöddu síðustu aðstoðarmennirnir þrír þá Hillary og Tenzing og lögðu af stað niður í áttundu búðir aftur.
Þeir Hillary og Norgay voru nú einir eftir og hófu að jafna út sylluna sem best þeir máttu, með ísöxum sínum og drifu sig svo í að tjalda tveggja manna tjaldinu. Mönnunum tókst að kveikja á prímusnum og neyddu sig til að borða staðgóða máltíð sem samanstóð af kjúklingasúpu, sardínum á kexi, döðlum, apríkósum og heitum, sykruðum sítrónudrykk.
Matarlystin hverfur eins og dögg fyrir sólu í svo gríðarmikilli hæð en mennirnir voru meðvitaðir um að líkamar þeirra hefðu mikla þörf fyrir orku og sú vitneskja gerði það að verkum að þeir gátu snætt.
Djúpar, lífshættulegar jökulsprungur töfðu fyrir leiðangurshópnum á leiðinni upp í grunnbúðirnar með mörg tonn af útbúnaði. Ofar í fjallinu biðu mannanna aðrar hættur.
Stuttu síðar lagðist Tenzing Norgay til hvílu þeim megin í tjaldinu sem slútti nánast yfir margra kílómetra hyldýpið. Gamalreyndur sjerpinn virtist ekki kippa sér upp við að plássið væri af svo skornum skammti að tjaldbrúnin hékk eiginlega út fyrir fjallshlíðina.
Hillary orsakaði snjóflóð
Hitastigið fór niður í 30 stiga frost þessa nótt. Kuldinn og súrefnistækin sem mennirnir sváfu með til að tryggja líkamanum súrefni trufluðu svefn þeirra, enda vaknaði Hillary klukkan fjögur þann morgun.
Honum tókst að hita mat og drykki og varði því næst tveimur klukkustundum í að þíða gaddfreðna fjallgönguskó sína á eldinum frá prímusnum. Loks klukkan hálf sjö stigu mennirnir tveir út úr tjaldinu og við þeim blasti Everestfjall baðað í sólskini.
Fyrsti áfanginn fólst í að komast á Suðurtindinn sem trónir í 8.750 metra hæð yfir sjávarmáli. Nákvæmlega þangað höfðu félagarnir Bourdillon og Evans komist áður en þeir þurftu frá að hverfa, afar vonsviknir. Brattinn nam allt að 70 gráðum og mennirnir þurftu að klofa í djúpum snjó.
Þykkir fjallgönguskórnir áttu að tryggja að mennirnir fengju ekki kal í tærnar.
Hvert einasta skref urðu mennirnir að stíga af ýtrustu varfærni og með miklum erfiðismunum. Ein röng hreyfing gat orsakað snjóflóð sem myndi hrifsa mennina með sér út í tómið. Skyndilega gerðist það sem báðir mennirnir höfðu óttast. Snjórinn gaf sig undan Hillary sem datt samstundis.
Líkt og fyrir eitthvert óútskýrt lán staðnæmdist líkami hans í snjó eftir að hafa aðeins runnið einn metra. Snjóflóðið sem myndaðist féll áfram niður fjallshlíðina fyrir neðan hann. Hillary var sýnilega brugðið þegar hann kallaði Tenzing Norgay til sín.
„Mjög slæmt, mjög varasamt“, missti sjerpinn út úr sér.
„Eigum við að halda áfram?“ spurði Hillary og fékk svar sem ekki kom að miklu gagni. Svar sjerpans var sem sé:
„Ef þú vilt“.
Heiðskírt veðrið og tilhugsunin um alla mennina sem höfðu lagt svo mikið af mörkum til að koma honum alla þessa leið þvinguðu Nýsjálendinginn til að halda áfram. Hann gaf Tenzing vísbendingu um að taka við forystunni og einungis stundu síðar, klukkan níu þennan morgun, stigu mennirnir tveir upp á Suðurtindinn.
„Þetta er eins og að ganga eftir hnífsegg sem þakin er ís“
sagði Edmund Hillary um síðasta spölinn á Everestfjalli
Mennirnir virtu með lotningu fyrir sér síðustu rúmlega hundrað metrana af leiðinni upp á tindinn.
Dauðinn ógnaði beggja megin
Síðasta spölinn af Everestfjalli er gengið eftir löngum mjóum fjallahrygg.
„Þetta er eins og að ganga eftir hnífsegg sem þakin er ís. Til beggja hliða ógnar margra kílómetra hátt fall. Hægra megin niður í Tíbet, á vinstri hönd niður í Nepal“, eins og Hillary lýsti því seinna meir.
Það kom honum sjálfum á óvart hve bjartsýnn hann samt sem áður var. Hann tók nú við forystunni næsta spölinn þangað til hann áttaði sig á að ekki væri allt með felldu með Tenzing. Allar hreyfingar sjerpans voru ákaflega hægar og Tenzing greip andann á lofti og andaði ótt.
Súrefnistækin á baki mannanna dældu þremur lítrum af súrefni inn í lungu þeirra á mínútu. Viðbótarbúnaðurinn nægði þeim hins vegar engan veginn til að anda eðlilega og að fá nægilegt súrefni til vöðvanna og heilans.
Myndin af Tenzing Norgay með súrefnisgrímu birtist síðar á frímerkjum og bókakápum.
Hillary hafði fyrir löngu vanist því að heili hans hugsaði hægar og að hann sárverkjaði í vöðvana en hegðun Tenzings vakti engu að síður mikinn ugg með Nýsjálendingnum sem skoðaði súrefnistæki sjerpans. Í ljós kom að tækið hafði stíflast af völdum íss.
Hillary tókst að losa gúmmíslönguna og munnstykkið með þeim afleiðingum að klakastykki duttu úr og súrefnið komst aftur leiðar sinn hindrunarlaust. Sjerpinn náði undir eins áttum og hresstist samstundis.
Erfiðasta hindrunin á Everest
Hillary og Tenzing voru nú komnir að varhugaverðasta staðnum á Everestfjalli en um er að ræða 12 metra háa klettasyllu sem þeir þekktu af loftmyndum af fjallinu sem þeir höfðu skoðað í þaula niðri í grunnbúðunum.
Hillary var búinn að gera sér grein fyrir að þessi staður skipti þá sköpum en þegar þeir nálguðust virtist engin fær leið til að klífa klettasylluna. Mönnunum tveimur tókst ekki að finna neina augljósa leið umhverfis klettinn og Hillary fann uppgjafartilfinninguna byrja að læðast að sér.
Uppi í þessari hæð bjó hann hvorki yfir styrk né getu til að taka sér fyrir hendur 12 metra hátt klifur.
Síðasta og afar hættulega klifrið upp á tind Everest var síðar nefnt Hillary Step.
Loksins uppgötvaði Hillary stórhættulega leið sem hann taldi vera færa: Gríðarstórt klakastykki var byrjað að losna frá klettinum og milli þessa íss og sjálfs klettsins hafði opnast þröng glufa.
Hillary þóttist sjá að hægt yrði að troða sér í gegnum sprunguna og ýta sér svo áfram upp.
Hillary tróðst áfram upp í móti
Þeir félagar ákváðu í sameiningu að gera tilraun til að komast þessa leið og Hillary steig ofur varlega fyrsta skrefið út á sprunguna á meðan sjerpinn herti takið á sínum enda öryggislínunnar.
Hillary var með andlitið upp að klettinum og hallaði bakinu sem súrefnisbúnaðurinn var festur við, upp að klakastykkinu og þannig byrjaði hann að troða sér fram á við, löturhægt. Hann skynjaði í hverju skrefi hvernig ísbroddarnir stungust inn í ísinn, jafnframt því sem hendurnar fálmuðu eftir syllunni á klettinum sem hægt væri að ná taki á.
Nýsjálendingurinn potaðist ofur hægt fram á við og upp í móti, í stöðugum ótta um að klakastykkið fyrir aftan hann losnaði. Að endingu komst hann þó alla leið upp og tókst að stíga síðasta skrefið út úr sprungunni.
Hillary ferðaðist um heiminn eftir sigurinn og var alls staðar hrósað fyrir afrekið. Hingað kemur hann í nóvember 1953 til Amsterdam ásamt eiginkonu sinni, Louise Mary.
Hillary fann léttinn hellast yfir sig. Tenzing Norgay beitti öllum sínum kröftum í að fara sömu leið og saup hveljur á meðan.
Þegar báðir mennirnir voru komnir í gegn hvíldu þeir í stutta stund, jafnframt því sem þeir skynjuðu sogið frá Himalajafjallgarðinum sem baðaður var sólskini. Orkan var nánast uppurin en mennirnir héldu áfram. Að baki hverri nýrri hæð sem þeim tókst að komast upp leyndist ný og þó svo að landslagið væri farið að fletjast út virtist fjallið halda áfram í það óendanlega.
Þó kom að því að lokum, eftir fimm klukkustunda erfitt klifur, að þeir komust ekki hærra upp . Þetta var kl. 11.30, hinn 29. maí árið 1953. Hillary og Tenzing stóðu á efsta tindi veraldar, fyrstir allra.
Stöldruðu við í korter
Hillary átti fyrst í stað erfitt með að átta sig á að þeim hefði tekist ætlunarverkið en brátt fór sælutilfinningin að breiðast um allan líkamann. Þeim hafði tekist þetta! Fyrstir allra manna stóðu þeir nú á hæsta tindi veraldar.
Sir Edmund Hillary kveður Tenzing Norgay á flugvelli árið 1971.
Norgay og Hillary öðluðust frægð
Eftir að hafa tekist að sigrast á fjallinu lagði Tenzing Norgay fyrir sig gönguferðir með ferðamenn en félagi hans Hillary var hins vegar ekki búinn með sinn skerf af köldum og óvinvættum landsvæðum.
Reynslan af því að hafa kynnst hrikalegum kulda gat nýst annars staðar og Edmund Hillary (1919-2008) leiddi víðtækar rannsóknir Nýsjálendinga á Suðurskautinu.
Breska heimsveldið stóð fyrir fyrsta leiðangrinum yfir Suðurskautið en sú ferð var farin á dráttarvélum á skriðdrekabeltum. Að því loknu átti Hillary eftir að klífa tíu af hæstu fjöllum Himalajafjallgarðsins áður en hann var gerður að sendiherra Nýja-Sjálands í Nepal.
Enska drottningin aðlaði Hillary og það sem eftir lifði ævinnar beitti hann sér fyrir því af öllum kröftum að setja á laggirnar skóla og sjúkrahús í Nepal. Sir Edmund Hillary lést árið 2008. Frægðin tryggði Tenzing Norgay (1914-1986) starf sem leiðbeinanda í indverska ríkisskólanum fyrir fjallaleiðsögumenn.
Árið 1975 var hann leiðangursstjóri fyrir fyrstu bandarísku ferðamennina sem reyndu sig við Himalajafjallgarðinn. Sonur hans, Jamling Tenzing Norgay, tók við rekstri fyrirtækisins eftir andlát föðurins árið 1986. Árið 2003 aðstoðaði Jamling son Edmunds, að nafni Peter Hillary, við að komast á tind Everestfjalls til að fagna því að 50 ár væru liðin frá afreki feðra þeirra.
Mennirnir föðmuðu hvor annan í sigurvímu og þeim var ákaflega létt, þangað til þeir gerðu sér grein fyrir að þeir þyrftu að drífa sig niður aftur. Næstu fimmtán mínútunum vörðu Hillary og Tenzing í að grafa holu í snjóinn þar sem þeir lögðu fórnargjafir til guða fjallsins, kex, súkkulaði og önnur sætindi.
Síðan tók Hillary myndir í allar áttir og þar tók hann m.a. mynd af Tenzing sem síðar átti eftir að öðlast heimsfrægð, þar sem hann heldur ísöxinni yfir höfði sér. Það síðasta sem Hillary skildi eftir var lítill róðukross.
Þá hófst gríðarlöng niðurganga mannanna sem voru nú ekki lengur eingöngu dauðlegir menn, heldur lifandi goðsagnir.
Lesið meira um það þegar mönnum tókst að sigrast á Everestfjalli
- Edmund Hillary: High Adventure, Oxford University Press, 2003 John Hunt: The Ascent of Everest, Coronet Books, 2002 Christian Nørgaard: Verdens top – 50 år på Everest, Aschehoug, 2003