Taktu lófafylli af smánöglum, hjartalaga leðurpjötlu, hárlokk, 8 beygða látúnsnagla, dálítið af naflaló og tíu afklipptar neglur og settu þetta allt saman í flösku. Bættu þvagi við, innsiglaðu flöskuna og grafðu hana fyrir framan aðaldyrnar. Þetta var uppskriftin að því að hræða nornir burtu í Englandi á 17. öld. Galdrafárið var þá í hámarki og óttinn við svarta galdra gegnsýrði allt samfélagið. Með því að útbúa sér nornaflösku taldi fólk að það gæti varið sig gegn illum öflum og í tímans rás hafa fundist meira en 200 tómar nornaflöskur á Bretlandseyjum.
Á byggingarstað í London hafa menn nú í fyrsta sinn fundið ósnerta nornaflösku. Efnagreiningar sýndu að í þessari gljábrenndu flösku var um 300 ára gamalt þvag. Afklipptu neglurnar reyndust hafa verið vel hirtar og því líklega af einhverjum hátt settum, sem ekki hefur unnið erfiðisvinnu. Einum smánagla reyndist hafa verið stungið í gegnum leðurhjartað.
Nornaflöskurnar áttu ekki aðeins að veita vernd gegn hinu illa, heldur einnig að snúa bölbænum nornanna að þeim sjálfum. Af galdratrúnni eimdi eftir allt fram í byrjun 20. aldar.