Læknar við Utah-háskóla í Bandaríkjunum hafa þróað fljótandi “sameindasmokk” sem á að vernda konur gegn eyðniveirunni og þar með sjúkdómnum.
Þetta er vökvi sem inni í skeiðinni myndar þunna, hlaupkennda himnu. Breytingin orsakast af hitabreytingunni úr stofuhita í líkamshita. Þegar himnan kemst í snertingu við sæði verður hún fljótandi og gefur um leið frá sér efni sem drepur eyðniveirur. Það er hátt pH-gildi sæðisins sem leysir þetta efni úr læðingi. Tilraunir hafa sýnt að engar aukaverkanir fylgja þessari nýju vörn.
Tilgangurinn er að veita konum tækifæri til að verja sig gegn eyðnismiti og “sameindasmokkurinn” er einkum hugsaður fyrir konur í þriðja heiminum þar sem þessi veira er mjög útbreidd. Á næstu 5 árum ætti nýji smokkurinn að komast í dreifingu segja vísindamennirnir.