Hvar eru flugmóðurskipin?
Þetta hefur verið eins konar staðalspurning af vörum sitjandi Bandaríkjaforseta, þegar bólað hefur á ófriðarskýjum eða hernaðarvá gegn Bandaríkjunum síðustu 70 árin.
Staðsetning flugmóðurskipanna skiptir svona miklu máli vegna þess að þau eru mikilvægasti einstaki þátturinn í hervörnum Bandaríkjanna. Ekki síst gildir þetta um stærstu skipin, sem eru af svonefndri Nimitz-gerð. Þau komu fram á sjónarsviðið á 8. áratugnum og settu þá ný viðmið varðandi stærð og hernaðargetu.
En nú er tími Nimitz-gerðarinnar að líða undir lok. Þrátt fyrir ítrekaðar endurbætur er tæknin ekki nægilega fullkomin til að standa undir þeim kröfum sem í framtíðinni verða gerðar af herforingjum og stjórnmálamönnum sem þurfa að taka ákvarðanir í skyndi. Bandaríkjamenn hafa þess vegna sett af stað byggingu alveg nýrrar kynslóðar stórra flugmóðurskipa sem kallast CVN-21, en í heitinu felst tilvísun til þess að skipin séu hugsuð fyrir 21. öldina. Nýju skipin verða afkastameiri og þurfa færri í áhöfn en geta engu að síður sent fleiri flugvélar á loft.
Fyrsta skipið fær heitið USS Gerald R. Ford eftir fyrrum forseta Bandaríkjanna, en hann var reyndar einmitt í embætti þegar fyrsta flugmóðurskipið af Nimitz-gerð var sjósett árið 1975.
Eftir fimm ára undirbúning stendur nú til að hefja smíði þessa skips hefjist í árslok og ef allt gengur að óskum verður það tilbúið árið 2015 og á þá að leysa af hólmi flugmóðurskipið USS Enterprise sem verður lagt eftir hálfrar aldar þjónustu í bandaríska flotanum.
Hin nýja kynslóð flugmóðurskipa verður á stærð við Nimitz-skipin og í útliti verða talsverð líkindi með gerðunum tveimur. En neðan þilja kemur nú til sögunnar margvísleg ný tækni sem gerir þessi nýju skip að mun öflugri stríðstólum. Til viðbótar nýrri tækni og nýrri hönnun er svo gert ráð fyrir að unnt verði að bæta við skipin tækninýjungum sem vænta má að komist í gagnið á næstu áratugum.
Tækninýjungar valda því að ekki þarf jafn marga í áhöfn og skipin þurfa líka minna viðhald. Hvort tveggja dregur úr rekstrarkostnaði, en það var einmitt ákveðin krafa yfirmanna flotans.
Ein markverðasta breytingin leynist langt niðri í skipinu þar sem tveir kjarnakljúfar eiga að framleiða orku til að knýja skipið áfram og sjá að auki margvíslegum tækjabúnaði fyrir rafmagni. Þetta er ný gerð kjarnakljúfa sem kallast A1B og notar orkuríkari kjarna en eldri gerðir og skilar meira en tvöföldu afli.
Og það verður full þörf fyrir aukna raforkuframleiðslu þar eð í þessum skipum verða margvísleg ný rafmagnstæki. Nú eru ýmis orkufrek tæki ýmist knúin gufu- eða vökvaafli. Þetta gildir t.d. um flugskotin sjálf sem hafa verið gufuknúin, en verða rafknúin í nýju skipunum.
Rafmagn tekur líka við af vökvadælubúnaðinum sem notaður hefur verið til að hemla í lendingu. Dælur, upphitun og fjölmörg tæki í stórum eldhúsum um borð eiga nú líka að nota raforku og samtals sparast um 10 km af gufuleiðslum.
Innblástur frá Formúlu I
Breytingar verða líka á aðalþilfarinu sjálfu. Mest áberandi verður að turnlaga yfirbyggingin, sem í daglegu tali kallast „eyjan“, flyst 30 metrum aftar.
Það aukapláss sem með þessu skapast gerir kleift að sinna öllu sem gera þarf varðandi hverja flugvél milli ferða á einum og sama stað. Nú þarf áhöfnin að flytja flugvélar milli þjónustusvæða, en á nýju skipunum verður unnt að vinna viðhaldseftirlit, fylla á eldsneyti og koma fyrir vopnum og skotfærum á flugvélarstæðinu – líkt og við sjáum gerast í Formúlu I.
Ásamt einfaldari meðhöndlun vopna og nýrri tækni við flugtak og lendingu, þýðir þetta að frá flugmóðurskipum af Gerald R. Ford-gerð verður unnt að fara um þriðjungi fleiri flugferðir á sólarhring en frá þeim skipum sem nú eru í notkun.
Hluti þeirra flugvéla sem í framtíðinni hefja sig á loft frá flugmóðurskipum, verður án efa ómannaður. Það er meðal nýjunganna að þessi skip eiga að verða fær um að meðhöndla ómannaðar vélar. En til að stýra slíkum vélum örugglega inn til lendingar á þilfar flugmóðurskips þarf þó háþróaða tækni sem ekki er að öllu leyti tilbúin ennþá.
Ómannaðar flugvélar eru þegar í notkun hjá bandaríska hernum og þess er vænst að þær muni gegna enn stærra hlutverki í framtíðinni, enda sparast mikið fé þegar ekki þarf að mennta flugmenn og greiða þeim laun. Ómannaðar flugvélar eru líka langoftast léttari en mannaðar vélar og þurfa minna eldsneyti.
Til nota um borð í flugmóðurskipum þarf hins vegar að þróa sérstaka útgáfu ómannaðra véla. M.a. þarf að styrkja þær sérstaklega til að þær þoli álagið við flugtak og lendingu.
Nú er unnið að þessari þróun í allmörgum flugvélaverksmiðjum og frumgerð var kynnt til sögunnar í árslok 2008. Reiknað er með fyrsta reynsluflugi fyrir árslok 2009, en þó eiga enn eftir að líða a.m.k. 10 ár þar til þessar vélar verða teknar um borð í flugmóðurskipin.
Skip sem endast lengi
En menn hafa rúman tíma til að bíða. USS Gerald R. Ford og önnur skip sömu gerðar eiga nefnilega að vera í notkun í hálfa öld hið minnsta. Þegar gert er ráð fyrir svo löngum endingartíma, þarf líka að reikna með að skipin geti varist ýmsum ógnum sem enn eru ekki komnar fram. T.d. er gert ráð fyrir að GPS-stýrð vopn og önnur nákvæmnisvopn – svonefnd „smart weapons“ –muni í framtíðinni gegna stærra hlutverki en nú.
Verkfræðingar og hönnuðir gera því sitt besta til að gera nýju flugmóðurskipin nógu sveigjanleg til að næstu hálfa öldina verði unnt að búa þau nýjum hátæknivopnum.
Til þess þarf m.a. að halda þyngdinni í lágmarki. Til að létta skipin hefur flugskýlum neðan þilja verið fækkað úr þremur í tvö og ein af þremur flugvélalyftum í Nimitz-gerðinni verður ekki í nýju skipunum.
Þessi einföldun ásamt því að nota einungis rafknúin tæki, gerir það líka að verkum að áhöfnin verður miklu fámennari. Hjá Bandaríska flotanum telja menn að unnt verði að fækka um þúsund manns.
Heimsóknir í slipp verða líka mun fátíðari. Kjarnorkuknúin skip þurfa aðeins að taka „eldsneyti“ einu sinni í upphafi og síðan ekki söguna meir í 50 ár og menn reikna hiklaust með að Gerald R. Ford-skipunum dugi að koma inn til viðhalds og eftirlits á þriggja ára fresti í stað eins og hálfs árs eins og gildir um Nimitz-skipin.
Og það stóreykur auðvitað líkurnar á því að skipin verði til taks þegar Bandaríkjaforseti spyr: „Hvar eru flugmóðurskipin?“