Lifandi Saga

Forsmekkurinn að Stalíngrad: Loftbrú fyllti Göring stórmennskubrjálæði

Í febrúar 1942 lokast 92.000 þýskir hermenn inni í herkví Sovétmanna og birgðir eru fluttar til þeirra með flugvélum. Þessi vel heppnaða loftbrú verður til þess að Göring ímyndar sér að hann geti endurtekið kraftaverkið í Stalíngrad.

BIRT: 14/12/2023

Frostið hrjáir þýsku hermennina í norðvesturhluta Sovétríkjanna. Ískristallar setjast á augnlokin og gera þeim erfitt að halda augunum opnum en í febrúar 1942 þurfa þýskir hermenn að hafa augun hjá sér og skyggnast stöðugt út yfir snævi þakið nágrennið.

 

Í þorpinu Biakowo hafa tíu daga samfelldar árásir haldið Þjóðverjum á tánum. Þorpið er aðeins ein af mörgum útstöðvum hinnar svonefndu Demjansk-herkvíar, þar sem 96.000 þýskir hermenn eru umkringdir sveitum Rauða hersins.

 

Að hörfa einhvers staðar á þessari víglínu getur leitt til þess að varnir Þjóðvera hrynji til grunna á svæðinu öllu og hermennirnir hafa því fengið skipanir um að verjast til síðasta blóðdropa.

 

Þegar sprengjum rignir niður þann 18. febrúar vita hermenn SS-foringjans Erwins Meierdress af reynslunni að í kjölfarið er að vænta stórfelldrar árásar sovéskra fótgönguliða yfir freðnar mýrarnar utan við þorpið. Og mikið rétt, þarna birtist Rauði herinn.

 

Út um húsglugga og frá bráðabirgðastöðvum dynur vélbyssuskothríðin út yfir snævi þakið landið.

Þjóðverjar þurftu stöðugt að vera á varðbergi svo óvinurinn kæmi þeim ekki á óvart.

Fjölmargir sovéskir hermenn falla niður í snjóinn sem fyrir er rauðlitaður af blóði meira en 300 samlanda sinna sem fallið hafa í undangengnum árásum.

 

Skyndilega verður Meierdress fyrir skoti og hnígur niður alvarlega særður. Af 120 manna liði hans eru nú aðeins 30 eftir og skyndilega birtast sovéskir brynvagnar.

 

„Óvinveittir bryndrekar í þorpinu. Yfirmaðurinn illa særður. Við berjumst til síðasta manns.“ Þannig hljóma talstöðvarboðin frá Þjóðverjunum sem nú búa sig undir hið versta.

Þjóðverjar náðu miklum árangri með léttum, brynvörðum fallbyssum þegar rússneskir bryndrekar brutust inn í herkvína.

Dauðinn bíður í leynum alls staðar í Demjansk-herkvínni snemma árs 1942. Hersveitirnar eru umkringdar og þeim berast hvorki matvæli né hergögn nema frá flugvélum sem þarna mynda fyrstu alvöru loftbrú sögunnar. Á hverjum degi lendir flugvél eftir flugvél hlaðin vistum og birgðum og æðsti yfirmaður þýska flughersins, Hermann Göring flugmarskálkur, hrífst svo af árangrinum að hann fyllist stórmennskubrjálæði.

 

Veruleikafirring þessa sama flugmarskálks á eftir að bitna illilega á hersveitunum sem nokkru síðar lokast inni í Stalíngrad.

 

Rússar nota vélsleða

Hersveitir Hitlers höfðu lagt undir sig smábæinn Demjansk í október 1941 – aðeins fjórum mánuðum eftir að Þjóðverjar réðust inn í Sovétríkin.

Demjansk-herkvíin (guli krossinn) var nokkurn veginn mitt á milli Leningrad (St. Pétursborgar) og Moskvu og myndaðist þegar Rauði herinn þvingaði Þjóðverja til undanhalds vestur á bóginn í ársbyrjun 1942.

Hlutar herliðsins slógu hring um Leningrad en meginherinn hélt áfram sókninni til Moskvu. En þegar rússneski veturinn lagðist yfir landið gerði Stalín gagnárás og í upphafi árs 1942 voru sex þýskar herdeildir umkringdar og Demjansk-herkvíin þar með orðin að veruleika.

 

Umfangið rann ekki upp fyrir Þjóðverjum fyrr en sunnudaginn 8. febrúar. Þótt þá væru enn færar leiðir út, höfðu 96.000 hermenn einangrast frá meginhernum og engin tök voru á að koma neinum birgðum til þeirra með bílum eða járnbrautarlestum.

 

Að sumarlagi er landið kringum Demjansk afar torfært vegna votlendis en nú sýndi vetur konungur tennurnar og frostið fór niður í 40 stig. Fljót, stöðuvötn og mýrar frusu og voru allt kjörlendi fyrir skíðaferðir.

 

Æðsti yfirmaður Rússa á svæðinu, hershöfðinginn Pavel Kurochkin, nýtti sér aðstæðurnar og tefldi fram hermönnum á skíðum og vélsleðum. Í þessum djúpa snjó voru stórir vélsleðar látnir draga hermenn á skíðum og þeir komust miklu hraðar yfir en ökutæki eða hefðbundnir fótgönguliðar.

 

Hvað eftir annað kom Kurochkin Þjóðverjunum á óvart og honum tókst að loka öllum götum á herkvínni.

Á sovésku Aerosan-sleðunum sat ökumaðurinn í skjóli við brynplötu en aftan við hann stóð vélbyssuskyttan. Aerosan-sleði gat dregið marga skíðamenn á eftir sér.

Yfirmaður hinna innilokuðu herdeilda, Walter von Brockdorff-Ahlefeldt, andvarpaði þungan þegar hann var að skoða landabréf sín síðari hluta sunnudagsins. Eftir nýjustu fregnir af framrás Rauða hersins var útlitið svart.

 

„Hr. hershöfðingi, hefur hringurinn þar með lokast?“ spurði aðstoðarmaður hans.

 

„Alveg greinilega,“ svaraði von Brockdorff-Ahlefeldt.

 

Næstu daga hertu Rússarnir tökin og hinir innikróuðu Þjóðverjar urðu að gefa upp á bátinn allar vonir um að brjóta sér leið út. Þeir voru innilokaðir á svæði á stærð við Snæfellsnes. En von Brockdorff-Ahlefeldt reyndi að blása þeim von í brjóst.

 

„Við erum 96.000 hermenn og þýski hermaðurinn hefur yfirburði yfir þann rússneska. Það er það sem skiptir máli. Það eru erfiðar vikur framundan en við höfum þetta af,“ sagði hershöfðinginn.

 

Áttu að halda stöðunni

Í fyrsta sinn í seinni heimsstyrjöldinni var stór, þýskur her umkringdur og átti útrýmingu á hættu. Engu að síður aftók Hitler með öllu að reyna að hörfa. Hann vildi nota þessa hermenn í sókninni til Moskvu um leið og það yrði gerlegt.

Þýskir skriðdrekar héldu stöðugt áfram til austurs en birgðaflutningar drógust aftur úr.

1942 var upphafið að endinum hjá Hitler

Árás Hitlers á Sovétríkin var nærri því að kremja her Stalíns undir fótum sér en óvenjuharður vetur bjargaði Moskvu.

 

Innrás Þjóðverja í Sovétríkin 1941 hafði gengið framar björtustu vonum. Í desember var þýski herinn í aðeins 30 km fjarlægð frá Moskvu en þá kom hinn ógnarkaldi vetur Stalín til bjargar.

 

Snjórinn gerði Þjóðverjum óhægt um vik að koma birgðum fram til víglínunnar og eftir hálfs árs sókn voru hermennirnir orðnir úttaugaðir af þreytu og hergögnin slitin. Stalín flutti herdeildir frá Síberíu og gat í lok ársins mannað varnir Moskvu með tvöfalt fleiri hermönnum en Þjóðverjar höfðu til sóknar. Og þá réðist Rauði herinn til gagnsóknar. Sóknin kom Þjóðverjum í opna skjöldu og hrakti þá undan en Stalín var ekki ánægður.

 

„Verkefni okkar er ekki að gefa þýskum hermönnum tíma til að hvíla sig, heldur að þröngva þeim stöðugt til vesturs og neyða þá til að nota neyðarbirgðir sínar,“ fullyrti Sovétleiðtoginn í janúar 1942.

 

Skömmu síðar náði gagnsóknin til allra vígstöðva og þá lokuðust sex þýskar herdeildir inni á svæði kringum Demjansk, ríflega 450 km norðvestur af Moskvu.

Foringinn bannaði öllum að nota orðið „herkví“. Opinberlega átti að tala um Demjansk sem „virki“ og hann gerði miklar kröfur:

 

„Demjansk verður að verja til síðasta manns!“

 

Þjóðverjarnir bjuggu reyndar svo vel að hafa meira en 300 stórskotaliðsvopn og varnarstöðvum hafði verið komið fyrir áður en herdeildirnar lokuðust inni. Aftur á móti bitnuðu vetrarhörkurnar illa á hermönnunum.

 

„Af og til fer frostið alveg niður í 58 gráður. Vetrarklæðnað höfum við ekki. Það eina sem skýlir okkur gegn frostinu eru yfirhafnir og hjálmhúfur. Það tekur ekki langan tíma fyrir fínustu grýlukerti að myndast niður úr munnvikunum,“ skrifaði hermaðurinn Günter Fernickel í bréfi heim.

 

Einn samlanda hans sagðist hafa notað „sundurskorinn kvensokk sem húfu“.

Flugvellirnir voru líflínan

Tveir flugvellir í Demjansk-herkvínni gerðu flughernum mögulegt að mynda loftbrú til hinna nauðstöddu hermanna. Flutningavélarnar flugu á þessar örsmáu flugbrautir frá þýskum völlum í vesturhluta Sovétríkjanna.

Demjansk-herkvíin

96.000 þýskir hermenn voru á Demjansk-svæðinu sem var meira en 100 km langt og breiðast um 90 km. Svæðið var svo stórt að ekki var unnt að beita stórskotaliði úr öruggri fjarlægð. Þess í stað fyrirskipaði Stalín leifturárásir gegn Þjóðverjunum.

Flugvöllurinn í Demjansk

Þegar Þjóðverjar tóku Demjansk 1941 uppgötvuðu þeir litla grasflugbraut sem Rússar höfðu komið upp. Þjóðverjar neyddu rússneska stríðsfanga til að stækka flugbrautina í 800 x 50 metra. Flugvöllurinn gat tekið samtímis á móti 30 flutningavélum en svo margar vélar lentu þar sjaldnast.

Peski-flugbrautin

10 km austur af Demjansk lögðu Þjóðverjar aðra flugbraut, 600 x 30 metra að stærð við þorpið Peski. Á tímabilinu 19. febrúar til 18. maí 1942 fóru þýskar flutningavélar 14.455 ferðir til flugvallanna tveggja. Það samsvarar 240 flugferðum á dag.

Innrásin mistókst

8.500 sovéskir fallhlífahermenn svifu til jarðar að baki víglínu Þjóðverja til að eyðileggja flugvellina snemma í mars. Það tók þá viku að komast í grennd við höfuðstöðvarnar í djúpum snjó og mikilli ófærð. Árásin var gerð 19. mars en hermennirnir voru hraktir til baka og aðeins um 900 náðu að lokum aftur út til Rauða hersins.

Ramushevo-landbrúin

Eftir að hafa notast við loftbrúna í tvo og hálfan mánuð tókst Þjóðverjum þann 21. apríl að ryðja 4 km breiða landræmu gegnum sovéskt yfirráðasvæði. Hin svonefnda Ramushevo-landbrú var notuð til að flytja birgðir til aðþrengdra þýskra hermanna. Vegna stórskotaliðsárása Sovétmanna var þessi leið þó áhættusöm og tiltölulega fáar bílalestir sem fóru um landbrúna.

Flugvellirnir voru líflínan

Tveir flugvellir í Demjansk-herkvínni gerðu flughernum mögulegt að mynda loftbrú til hinna nauðstöddu hermanna. Flutningavélarnar flugu á þessar örsmáu flugbrautir frá þýskum völlum í vesturhluta Sovétríkjanna.

Demjansk-herkvíin

96.000 þýskir hermenn voru á Demjansk-svæðinu sem var meira en 100 km langt og breiðast um 90 km. Svæðið var svo stórt að ekki var unnt að beita stórskotaliði úr öruggri fjarlægð. Þess í stað fyrirskipaði Stalín leifturárásir gegn Þjóðverjunum.

Flugvöllurinn í Demjansk

Þegar Þjóðverjar tóku Demjansk 1941 uppgötvuðu þeir litla grasflugbraut sem Rússar höfðu komið upp. Þjóðverjar neyddu rússneska stríðsfanga til að stækka flugbrautina í 800 x 50 metra. Flugvöllurinn gat tekið samtímis á móti 30 flutningavélum en svo margar vélar lentu þar sjaldnast.

Peski-flugbrautin

10 km austur af Demjansk lögðu Þjóðverjar aðra flugbraut, 600 x 30 metra að stærð við þorpið Peski. Á tímabilinu 19. febrúar til 18. maí 1942 fóru þýskar flutningavélar 14.455 ferðir til flugvallanna tveggja. Það samsvarar 240 flugferðum á dag.

Innrásin mistókst

8.500 sovéskir fallhlífahermenn svifu til jarðar að baki víglínu Þjóðverja til að eyðileggja flugvellina snemma í mars. Það tók þá viku að komast í grennd við höfuðstöðvarnar í djúpum snjó og mikilli ófærð. Árásin var gerð 19. mars en hermennirnir voru hraktir til baka og aðeins um 900 náðu að lokum aftur út til Rauða hersins.

Innrásin mistókst

8.500 sovéskir fallhlífahermenn svifu til jarðar að baki víglínu Þjóðverja til að eyðileggja flugvellina snemma í mars. Það tók þá viku að komast í grennd við höfuðstöðvarnar í djúpum snjó og mikilli ófærð. Árásin var gerð 19. mars en hermennirnir voru hraktir til baka og aðeins um 900 náðu að lokum aftur út til Rauða hersins.

Ramushevo-landbrúin

Eftir að hafa notast við loftbrúna í tvo og hálfan mánuð tókst Þjóðverjum þann 21. apríl að ryðja 4 km breiða landræmu gegnum sovéskt yfirráðasvæði. Hin svonefnda Ramushevo-landbrú var notuð til að flytja birgðir til aðþrengdra þýskra hermanna. Vegna stórskotaliðsárása Sovétmanna var þessi leið þó áhættusöm og tiltölulega fáar bílalestir sem fóru um landbrúna.

Auk kuldans skorti Þjóðverja mannskap. Herdeildirnar sem nú voru innilokaðar höfðu verið tvöfalt fjölmennari þegar innrásin hófst og víglínurnar voru alls um 300 km að lengd.

 

„Varnarstöðvar hafa verið settar upp og mannaðar. En til þess þarf alla hermennina, líka kokkana,“ skrifaði ungur lautinant.

 

Von Brochkdorff-Ahlefeldt hélt þó færanlegum hersveitum innar á svæðinu og þær áttu að geta komið til bjargar þegar árásarlið blésu einhvers staðar til stórsóknar. Slíkar einingar gripu t.d. inn í atburðarásina 18. febrúar, þegar einungis örfáir menn stóðu eftir af liði Meierdress í Biakowo.

 

Skömmu efir að Meierdress hafði verið borinn á brott kom hersveit með fallbyssur og bryndreka til aðstoðar þeim 30 mönnum sem eftir stóðu.

 

Rauði herinn mátti þola gríðarlegt mannfall í bardögunum um Demjansk-herkvína en engu að síður var útlitið svart fyrir Þjóðverja. Matur og skotfæri yrðu senn þrotin. Afdrif hermannanna réðust nú af því hvort þýski loftherinn gæti flutt nægar birgðir.

 

Ekki björgulegt upphaf

Von Brockdorff-Ahlefeldt lofað hermönnum sínum því að matvælum og skotfærum yrði varpað niður úr flugvélum og að „nægur matur“ bærist.

Flugflota Hermann Görings hafði gengið vel frá stríðsbyrjun, nú varð verkefnið annað en að elta uppi óvinaflugvélar og sprengja þær.

Sjálfur flugmarskálkurinn Göring hafði lofað að Luftwaffe gæti komið upp loftbrú sem dygði til að sjá fyrir þörfum 96.000 hermanna með a.m.k. 200 tonna birgðum á dag.

 

En fyrstu tvo dagana bárust þó að eins 16 og 27 tonn til liðsins í herkvínni.

 

Eitthvað varð til bragðs að taka. Göring sendi í snarhasti einn skarpasta hugsuð lofthersins, Fritz Morzik ofursta til austurvígstöðvanna. Þann 18. febrúar lenti hann í Pskov, 250 km vestan Demjansk.

 

Þaðan átti hann nú að sjá um fyrstu meiri háttar loftbrú sögunnar og þessi atorkusami ofursti pantaði 220 flutningavélar til Pskov, einkum Junkers Ju-52 en þessi gerð gekk undir gælunafninu „Ju frænka“.

 

Þótt Ju-52 væri tiltölulega stór vél og búin þremur hreyflum, bar hún ekki nema tveggja tonna farm. Það þurfti sem sagt að lágmarki 100 flugferðir á dag til að koma nægum birgðum matvæla, skotfæra og eldsneytis til Demjansk.

 

Aðalvandamálið var þó að vélarnar þurftu að fljúga yfir sovéskt yfirráðasvæði þar sem mikið var af loftvarnarbyssum. Orrustuvélar Sovétmanna gátu líka birst skyndilega.

Friedrich-Wilhelm „Fritz“ Morzik ofursti var síðar gerður að yfirmanni þýsku flutningaflugvélanna.

Til viðbótar áttu flugmennirnir á hættu að finna ekki staðinn. Þær tvær flugbrautir sem Þjóðverjarnir höfðu rutt voru litlar og erfitt að koma auga á þær í þessum alhvítu víðernum. Önnur flugbrautin var svo lítil að Þjóðverjar kölluðu hana „handklæðið.“

 

Lausn Morziks var þessi: „Fljúgið lágt, rétt yfir trjátoppunum!“

 

Báðar brautirnar voru flughálar og flugmennirnir áttu á hættu að renna út í skafla og skemma flugvélina. Morzik sendi þess vegna hóp allra færustu vélvirkja flughersins inn í herkvína, til að unnt væri að gera við mögulegar skemmdir á mettíma.

 

Sérstakur hitunarbúnaður var notaður til að halda hreyflunum heitum meðan verið var að ferma og losa, þannig að þeir færu umsvifalaust í gang.

 

Í lok febrúar komst Luftwaffe loks upp í þau 200 tonn á dag sem lofað hafði verið og í herkvínni unnu menn í kappi við tímann við að tæma flugvélarnar.

 

Síðan var öllu saman, skotfærum, mjöli og síðum nærbuxum á hermennina, hlaðið á hestasleða og komið út í alla afkima herkvíarinnar.

Birgðasprengjan var dregin með handafli til varnarstöðva þýsku hermannanna.

Stálhylki fyllt með vistum og hergögnum

Í smábæ einum um 130 km suðvestur af Demjansk voru þýskir hermenn líka umkringdir veturinn 1942. Þar var ekki hægt að lenda þannig að birgðum var varpað úr flugvélum.

 

Flugvél sem reynt hefði að lenda við Kholm hefði samstundis verið skotin í tætlur af Rauða hernum. Þess vegna reyndi þýski loftherinn að sjá innikróuðum samlöndum sínum fyrir birgðum með stálhylkjum sem kölluðust Versonungsbomben eða birgðasprengjur.

 

Stálhylkin minntu á tundurskeyti að lögun og var varpað út í fallhlíf í mörg hundruð metra hæð. Í hylkjunum var komið fyrir vopnum, skotfærum og síðast en ekki síst matvælum.

 

Öflug skothríð skapaði flugvélunum þó mikla hættu og þegar vikurnar urðu að mánuðum náði æ minna af birgðum til Kholm. Hermennirnir sultu og höfðu tæpast krafta til að draga þau 250 kg þungu hylki sem tókst að koma niður á réttan stað.

 

Eftir að hafa varist Rússum í 105 daga var hermönnunum í Kholm loks bjargað 5. maí þegar þýskar sveitir náðu að brjóta sér leið til þeirra. Hermennirnir voru upphaflega 5.500 en aðeins 1.200 voru enn á lífi.

Árás fallhlífasveita

Í byrjun mars var Stalín orðinn bálreiður yfir því að ekki væri fyrir löngu búið að ráða niðurlögum Þjóðverjanna í Demjansk.

 

Herstjórnin í Moskvu hafði upphaflega reiknað með að það tæki Rauða herinn fimm daga að yfirbuga Þjóðverjana. En vikum saman bárust bara fréttir af harðri vörn Þjóðverja.

 

„Kyrrlátt og snævi þakið land utan við þorpin gat skyndilega breyst í glymjandi víti, þegar við gerðum framrás. Gjammandi fallbyssu- og vélbyssuskothríð lét engan fermetra ósnortinn. Vélbyssuhreiðrin voru falin alls staðar í þorpunum,“ sagði Kurochkin hershöfðingi í skýrslu.

Í þessu mikla frosti var ekki hægt að grafa lík. Þjóðverjar notuðu sums staðar lík í brjóstvörn í stað sandpoka.

Hersveitir Hitlers vörðust með öllum tiltækum ráðum, útskýrði rússneskur yfirmaður í stórskotaliðinu.

 

„Þjóðverjar settu upp brjóstvörn í fremstu víglínu úr líkum hermanna okkar. stöfluðu þeim upp og helltu vatni yfir, enda var ógerningur að grafa skotgrafir.“

 

Til að mynda sprungur í varnir Þjóðverja sendi herstjórnin í Moskvu Kurochkin hershöfðingja 8.500 fallhlífahermenn þann 6. mars.

 

Fallhlífahermennirnir tilheyrðu úrvalssveitum Rauða hersins. Þeir lentu nokkuð víða í norðvesturhluta herkvíarinnar, söfnuðust saman í skóginum og laumuðu sér að flugbrautum Þjóðverja. Þeir áttu líka að hertaka aðalstöðvar von Brochkdorff-Ahlefeldts í Dobrosli skammt frá Demjansk.

 

Aðfaranótt 13. mars hófu 2.000 rússneskir hermenn árás sína út úr skóginum norður af Demjansk en Þjóðverjar notuðu sprengjublys til að lýsa upp næturhimininn til að hægt væri að skjóta á óvinina með öllu sem hægt var.

 

„Loftvarnarbyssur okkar æpa, sprengjuvörpurnar hlæja og skotunum rignir yfir verurnar í hvítu felubúningunum,“ skrifaði SS-hermaður í bréfi heim.

Gríðarlegar frosthörkur urðu til þess að ekki var hægt að grafa hina föllnu. Sums staðar notuðu Þjóðverjar lík í stað sandpoka sem vörn.

Þegar fyrstu stórárás fallhlífahermannanna lauk tveimur sólarhringum síðar lágu 800 Rússar dauðir í snjónum.

 

Viku síðar reyndu 3.000 aðrir rússneskir sérsveitarhermenn að ráðast á Dobrosli og flugvöllinn norðaustur af Demjansk en aftur tókst að „skera á þá“, eins og SS-foringi komst að orði.

 

Eftir tvær vikur og mikið mannfall hætti Kurochkin við aðgerðir fallhlífasveitanna en Þjóðverjarnir voru ekki til í að sleppa þeim sem eftir lifðu út úr herkvínni. Örmagna Rússarnir voru hundeltir og vísbendingar eru um að þeir hafi gripið til þess að éta lík fallinna félaga. Í skýrslu þýsks læknis um lík tveggja Rússa segir:

 

„Tvö freðin lík, höfuðkúpan brotin með hvössu áhaldi. Heilinn fjarlægður. Sýnileg merki þess að hann hafi verið skafinn upp.“

 

Af 8.500 fallhlífahermönnum náði aðeins um einn af hverjum tíu að komast aftur til yfirráðasvæðis Rauða hersins.

 

Særðir fluttir með flugi

Þjóðverjarnir í Demjansk-herkvínni héldu einungis út fyrir tilstilli loftbrúarinnar.

Menn Hitlers skorti pylsur og skotfæri

Þýsku herdeildirnar í Demjansk þurftu að lágmarki 200 tonna birgðir á dag og helst 300 tonn.

Kjöt og sítrónur

Þótt matarskammtar væru minnkaðir um helming, þurfti daglega að flytja 54 tonn af matvælum. Einkum var það svínakjöt í margvíslegu formi, ekki síst hinum ómissandi pylsum. Niðursoðnir ávextir og sítrónur komu í veg fyrir skyrbjúg.

Hey fyrir þúsundir hesta

Flytja þurfti hafra og hey fyrir þá 20.000 hesta sem Þjóðverjar höfðu með sér. Þeir voru lífsnauðsynleg dráttardýr í snjónum og drógu birgðasleða langar leiðir frá flugbrautunum.

Tóbak fyrir taugarnar

Í seinna stríði reyktu nánast allir hermenn. Reykingar róuðu taugarnar og drógu úr sultartilfinningu. Súkkulaði og áfengi fengu hermennirnir í kvínni líka við hátíðleg tækifæri.

Fallbyssur þurftu fóður

Sífelldur skortur var á stórskotaliðssprengjum í Demjansk, jafnvel þótt þetta væri stór hluti af farmi flugvélanna. Þúsundum byssuskota var líka flogið inn daglega.

Bensín í tunnum

Þýskir vörubílar og skriðdrekar þurftu daglega um 21 tonn af eldsneyti. Einkum þurfti mikið bensín á þau farartæki sem þurftu fljótt að komast á þá staði þar sem Rússar kynnu að ráðast fram.

Flutningavélarnar fluttu ekki aðeins nauðsynjavörur inn á svæðið, heldur tóku særða hermenn með sér til baka. Sú vitneskja gerði þeim sem eftir voru lífið bærilegra.

 

En brottflutningarnir tókust ekki alltaf sem skyldi því sovéskar herflugvélar sátu fyrir flutningavélunum. Það var sárt fyrir Þjóðverja að horfa á brennandi flutningavélar hrapa með særða félaga um borð.

 

Til að bregðast við flutti Morzik þýskar Messerschmitt-orrustuvélar til stöðva við víglínuna og þær fengu það hlutverk að fylgja Ju-52 vélunum til og frá Demjansk.

 

Daglega voru háðar hatrammar orrustur í lofti og þegar kom fram í lok mars höfðu Þjóðverjar náð yfirhöndinni í lofti og það sást á tölunum.

 

Þjóðverjar misstu alls 52 flutningavélar í mars en í apríl voru aðeins átta skotnar niður.

 

Í apríl hækkaði hitastigið og snjórinn bráðnaði í Demjansk-herkvínni. Jarðvegurinn sem verið hafði gaddfreðinn og ámóta harður og steinsteypa breyttist í samfellda eðju.

Þýskar Stuka flugvélar réðust miskunnarlaust á Rauða herinn í því skini að reyna að brjótast í gegnum varnirnar sem Rússar höfðu komið fyrir utan um Demjansk- herkvínna.

Rússar voru þannig sviptir því forskoti sem þeir höfðu haft í kuldanum og Þjóðverjar hagnýttu sér aðstæðurnar til að senda Walther von Seydlitz-Kurzbach hershöfðingja með tvær herdeildir í átt að Demjansk til að ryðja undankomuleið úr herkvínni.

 

Þjóðverjarnir nýttu sér Stuka-flugvélarnar sem steyptu sér niður yfir Rússana og létu sprengjum rigna yfir þá og von Seydlitz-Kurzbach og herdeildunum tveimur tókst að ná til Ramushevo og mættu þar hermönnum innan úr herkvínni sem á sama tíma höfðu gert útrás.

 

„Þrátt fyrir mikla yfirburði óvinanna sigruðuð þið. Að sigrast á þeim þrautum sem þið hafið staðist er meðal mestu hetjudáða sem þýskir hermenn hafa unnið.“ M.a. þannig hljóðuðu lofsyrðin sem bárust frá herstjórninni.

 

Í fyrsta sinn í þrjá mánuði gátu hermenn von Brockdorff-Ahlefeldts nú vænst ríkulegra birgðasendinga. Næstu vikunum var varið í að koma upp gaddavírsgirðingum og 22.000 jarðsprengjum til að styrkja varnir landræmunnar sem tengdi þýskt yfirráðasvæði við herkvína.

 

Jafnframt var unnið hörðum höndum að því að gera þessa forarleið almennilega færa.

„Herra Foringi, ég fullvissa yður um að loftherinn getur flutt nægar birgðir til 6. hersins.“
Hermann Göring, áður en Stalíngrad var umkringd.

Til þess voru notaðir trjábolir og byggðar brýr. Vörubílar hlaðnir vistum og vopnum streymdu nú inn í herkvína við Demjansk.

 

Um þessa farleið fluttu Þjóðverjar nú um 100 tonn á hverjum degi og Morzik gat því loks dregið úr hinum stórhættulegu loftflutningum til Demjansk.

 

Tengingin varð líka til þess að Demjansksvæðið taldist nú hluti víglínunnar og þar með sóknartangi eins og Hitler hafði óskað sér. Í Úlfagreninu fagnaði Foringinn en í Moskvu var Stalín æfur af bræði.

 

Hálfu ári síðar beindu báðir þessir bardagahaukar sjónum að Stalíngrad langt í suðri. Um haustið 1942 tókst Rauða hernum þar að einangra nærri 300.000 þýska hermenn. Og velgengni Görings með loftbrúna til Demjansk átti eftir að hafa djúpstæð áhrif á örlög þeirra.

 

Dýrkeyptur sigur

Hersveitir von Brockdorff-Ahlenfeldts voru enn í Demjansk þegar Hitler og hershöfðingjar hans hittust í nóvember 1942 til að leggja á ráðin um hvað gera skyldi varðandi 6. herinn sem var innikróaður í Stalíngrad.

Orrustan um Stalíngrad: Persónulegt einvígi Hitlers og Stalín

 

 

Haustið 1942 eiga Stalín og Hitler í persónulegu einvígi á götum Stalíngrad. Hvorugur gefur tommu eftir og þeir kæra sig kollótta um ægilegt mannfall manna sinna. Orrustan um Stalíngrad er ein harðasta orrusta sögunnar.

 

 

Lestu meira:

Enn einu sinni vísaði Hitler á bug öllum hugmyndum um brottflutning og yfirmaður lofthersins, Hermann Göring, taldi sig búa yfir lausninni.

 

„Herra Foringi, ég fullvissa yður um að loftherinn getur flutt nægar birgðir til 6. hersins. Ég treysti mér til að sjá til þess,“ lofaði Göring.

 

Flugmarskálkurinn minnti á loftbrúna til Demjansk. Að meðaltali hafði flugherinn náð að flytja þangað 273 tonn á dag og Göring fullyrti að ef nauðsyn krefði gæti flugherinn aukið það magn upp í 500 tonn.

 

„Ég hef enga ástæðu til að draga fullyrðingar hans í efa,“ sagði Hitler staðfastur, þegar hinir hershöfðingjarnir andmæltu og kölluðu loforð Görings jafnvel tálsýn.

 

Það fór þó svo að mjög fljótlega reyndist loftbrúin til Stalíngrad ekki vera annað en loftkastalar í höfði Görings. Loftflutningar til Stalíngrad náðu 90 tonnum á dag og fyrir bragðið ýmist sultu þýsku hermennirnir eða frusu í hel í Stalíngrad og 2. febrúar 1943 gáfust leifar 6. hersins upp fyrir Rauða hernum.

Þýsku hermennirnir í Stalíngrad komust í þrot með vistir og urðu að gefast upp.

Loftbrú til Stalíngrad fyrirfram dauðadæmd

Eftir árangurinn í Demjansk fylltist Hermann Göring stórmennskubrjálæði. Hann fullvissaði Hitler um að flugherinn gæti komið birgðum til 300.000 innilokaðra hermanna í Stalíngrad. Það varð örlagaríkt.

 

Árangurinn í Demjansk var mönnum enn í fersku minni í nóvember 1942, þegar Hitler fyrirskipaði 300.000 manna her að verja Stalíngrad – jafnvel eftir að milljón manna sovéskur her hafði umkringt borgina.

 

Foringinn byggði ákvörðun sína ekki síst á því að Hermann Göring hafði lofað að koma matvælum og skotfærum til borgarinnar með nýrri loftbrú, rétt eins og í Demjansk.

 

En þótt umsátrið um Stalíngrad stæði aðeins í 71 dag eða mánuði skemur en umsátrið um Demjansk, gat Göring ekki staðið við loforð sitt. Annars vegar var flugleiðin umtalsvert lengri en hins vegar hafði orrustuflugvélum Rauða hersins fjölgað.

 

Vegna fjarlægðarinnar var ekki hægt að veita flutningavélunum vernd orrustuvéla. Ósigurinn í Stalíngrad kom Þýskalandi á kné og það sem eftir var stríðsins voru hersveitir Hitlers á undanhaldi á austurvígstöðvunum.

 

Þýskir hermenn:         

Demjansk:  96.000             

Stalíngrad: 300.000

 

Dagleg þörf:   

Demjansk:  200 tonn          

Stalíngrad: 500 tonn

 

Loftbrúin skilaði:        

Demjansk: 273 tonnum að meðaltali         

Stalíngrad: Sjaldan meira en 137 tonnum

Ósigurinn hafði djúpstæð áhrif á gang stríðsins. Eftir þetta var endanlega útséð um möguleika Þjóðverja til að vinna stríðið.

 

Demjansk-orðan

Hrakfarirnar í Stalíngrad leiddu til þess að Hitler féllst loks á að draga hersveitirnar til baka frá Demjansk.

 

Þann 17. febrúar 1943 – sléttu ári eftir innilokunina – gengu fyrstu hermennirnir fylktu liði út í gegnum Ramushevo-landbrúna og 10 dögum síðar yfirgáfu síðustu þýsku hermennirnir Demjansk.

 

Hitler veigraði sér ekkert við að slá um sig og líta á baráttuna í Demjansk sem stórsigur. Allir sem tekið höfðu þátt í þessari baráttu, jafnt landhermenn sem flugmenn, fengu heiðursorðu, Demjansk-skjöldinn sem var ein af sex orðum sem Þriðja ríkið veitti hermönnum sínum í seinni heimsstyrjöldinni.

 

Vissulega mátti líta á það sem ákveðinn sigur að þýsku herdeildirnar skyldu standast álagið í Demjansk en sá sigur var dýrkeyptur.

 

Þótt loftbrúin hefði náð að flytja nauðsynlegar vistir og aðrar nauðsynjar höfðu Þjóðverjar misst 265 flugvélar, þar af 125 flutningavélar og 387 flugmenn og aðra áhafnarmeðlimi.

Demjansk orðan var borinn með stolti af þýsku hersveitunum eftir sigurinn gegn ofureflinu. En heimskulegar ákvarðanir Hitlers voru Þýskalandi dýrkeyptar.

Þetta veiklaði flugherinn verulega en hitt var þó jafnvel enn verra að Demjansk-loftbrúin hélt mjög stórum hluta lofthersins uppteknum á svæði sem hafði afar takmarkaða hernaðarþýðingu 1942.

 

Margir sagnfræðingar telja að bæði mannafli og tækjakostur hefði getað komið að miklu meiri notum annars staðar – t.d. til stuðnings sókninni að Stalíngrad.

Lestu meira um Demjansk-herkvínna

Franz Kurowski: Demjansk – der Kessel im Eis, Podzun-Pallas-Verlag, 2001


Werner Haupt: Demjansk 1942 – ein Bollwerk im Osten, Dörfler Verlag, 2007

HÖFUNDUR: TROELS USSING

© Courtesy of Nik Cornish at www.Stavka.photos,© Shutterstock,© akg-images/Universal Images Group/Sovfoto,© Fotosearch/Getty Images,© Robert Röhr/Wikimedia Commons,© Narodowe Archiwum Cyfrowe/Wikimedia Commons,© Wikimedia Commons,© akg-images/Collection Berliner Verlag/Archive,© Wikimedia Commons & Shutterstock

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Jörðin

Myndast skýstrókar í Norður-Evrópu?

Lifandi Saga

Hver var fyrsti þekkti guðinn?

Lifandi Saga

Hvenær fórum við að kyssast?

Maðurinn

Hvers vegna verður maður þreyttur eftir að hafa borðað?

Lifandi Saga

Hvers vegna eru til herra- og kvenreiðhjól?

Maðurinn

Lítið en mikilvægt atriði í uppeldinu getur haft mikil áhrif seinna á lífsleiðinni

Heilsa

Sérfræðingar í sykursýki: Jafnvel lítið magn af þessari tegund matar getur aukið hættuna um 15 prósent.

Maðurinn

Þú ert tveimur sekúndum frá því að springa úr reiði

Heilsa

Langvinnur hósti er ef til vill arfgengur

Tækni

Þvinguð ófrjósemisaðgerð átti að uppræta heimsk börn

Maðurinn

Hvernig meðhöndla menn kviðslit?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is