Dauðinn heillaði Breta á 19. öld, þar sem opinberar aftökur drógu ekki einungis til sín þúsundir áhorfenda, heldur voru portrett myndir með nýlega látnum fjölskyldumeðlimum – sem var stillt upp meðal lifandi ættingja – löng og rótgróin hefð.
Þegar Viktoría drottning varð ekkja árið 1861 olli áralöng sorg hennar því að í tísku komst að syrgja lengi og innilega. Og á ótal öðrum sviðum voru Bretar sem helteknir af dauðanum.
Ekkert sló þó eins mikið í gegn á Viktoríutímanum en svonefnt anthropomorphic diorama. Þetta má kalla uppstillta manngervinga á okkar ástkæra ylhýra. Fyrirbærið gekk út á – í öllum sínum hryllilega einfaldleika – að stilla uppstoppuðum dýrum upp þannig að þau gegndu hlutverki manna. Marsvín sem spiluðu krikket og íkornar sem slógust vopnaðir boxhönskum fengu Breta til þess að klappa saman höndum af einskærri hrifningu.
Þekktustu verkin á þessu sviði eru ennþá talin vera sannkölluð listaverk og eitt slíkt var árið 2003 selt fyrir meira en fimm milljónir núvirtra króna.
Drottningin var heilluð af dauðum dýrum
Uppstoppuð dýr þóttu ákaflega eftirsóknarverð þegar í upphafi 19. aldar. Veiðimenn vildu fá sigurtákn sín á arinhilluna og þeir sem hrifust af náttúrusögu æsktu þess að fá að kanna nánar fágæt og fælin dýr.
Sérhver sómakær breskur bær hafði því yfir að ráða minnst einum flinkum uppstoppara sem gat stoppað dýr upp eftir pöntunum og fengið þau til að líta út fyrir að vera eins mikið lifandi og kostur var. Dýrunum var stillt upp á tréstofna eða steina, þau prýddu gluggakistur og veggi á ótal heimilum. Stundum voru haldnar heljarinnar sýningar á slíkum uppstoppuðum gripum.
Á heimssýningunni í Lundúnum árið 1851 gat almenningur fengið að líta uppstoppaðan fíl sem átti að sýna Bretum hversu stórbrotin dýr var að finna í nýlendunni Indlandi. Þetta var nú reyndar afrískur fíll en fáir áttuðu sig á því.
Á heimssýningunni var einnig að finna langtum minni dýr sem fönguðu svo sannarlega athygli landans. Þar fengu Bretar í fyrsta sinn að kynnast uppstilltum manngervingum sem fjórtán uppfinningasamir Bretar settu á svið.
Áhorfendur á öllum aldri flykktust að til að sjá þessar skemmtilegu uppstillingar en þar gaf að líta m.a. mýs að berjast með sverðum og kött sem spilaði á píanó – sem hinn þýski Hermann Ploucquet hafði stoppað svo lystilega upp.
Hinn þýski Hermann Ploucquet stillti köttum upp að spila fyrir svín.
Sjálf Viktoría drottning var svo hrifin af skoplegum sköpunarverkum Ploucquets, að kvöldið eftir opnunina á heimssýningunni skrifaði hún í dagbók sína að dýrin væru „virkilega dásamleg“. Verk Ploucquets reyndust innblástur fyrir marga breska uppstoppara. William Heart og sonur hans Edward Heart urðu þannig þjóðþekktir fyrir fjölmarga boxandi íkorna sína.
Konungur þeirra allra var þó breski kirkjuvörðurinn Walter Potter sem nýtti alla sína frítíma í sjö ár til að skapa sína fyrstu stórbrotnu uppstillingu manngervinga.
Þar gaf að líta tilkomumikla fuglajarðarför þar sem kráka gegndi hlutverki prests og ugla nokkur var líkgrafari. Hvorki fleiri né færri en 98 uppstoppaðir fuglar voru í þessu verki sem var stillt út árið 1861 í krá einni við mikinn fögnuð. Kráin var í eigu fjölskyldu hans í bænum Bramber á sunnanverðu Englandi.
Potter hélt síðan áfram að skapa hvert stórvirkið á fætur öðru, með dauðum dýrum sem hann fann við vegakantinn eða keypti hjá kanínuræktendum í nágrenninu. Einnig bar einatt við að fólk kæmi til hans með dauð gæludýr sín, ketti og hamstra; svo komu einatt veiðimenn með dauða íkorna sem þeir drápu í skóginum og höfðu engin not fyrir.
MYNDBAND: Horfðu á safn Hr. Potters
Eini fyrirvari Potters var sá að dýrið mátti ekki hafa verið of lengi dautt, því þá myndi það ekki líta vel út uppstoppað. Verkum Potters fjölgaði á hverju ári og árið 1880 stofnaði hann lítið safn við hliðina á krá ættingja sinna.
Stækka þurfti stöðina í Bramber
Snilli Potters gerði hann víðfrægan um allt England og upp úr 1880 varð Mr. Potters Museum of Curiosities –safn Hr. Potters um skringilega hluti – eftirsóknarverður áfangastaður almennings í Bretlandi.
Þegar baðgestir héldu til Brighton gátu þeir einnig farið í skipulagðar ferðir til Brambers sem liggur 17 kílómetra norðan við hafnarbæinn. Þúsundir af skemmtanasólgnum Bretum flykktust þangað og stækka þurfti járnbrautarstöðina í Bramber.
Töfrum gæddar hendur Potters umbreyttu með tímanum einhverjum 10.000 dauðum íkornum, köttum, marsvínum, froskum, fuglum, músum, rottum og kanínum í alls konar uppstillingar sem sýndu mannlega hegðun.
Safngestir gátu t.d. notið uppstillingar með kettlingum sem spiluðu krokket, heila skírnarathöfn með músum, stærðarinnar brúðkaup þar sem kettir voru klæddir í brúðarkjóla, prestahempur og kjólföt.
Walter Potter (1835-1918) uppstoppaði meira en 10.000 dýr.
Í öðrum uppstillingum mátti sjá íkorna reykjandi pípu og spilandi á spil og kanínuungar gegndu hlutverki skólanemenda sem skrifuðu eitthvað skemmtilegt niður í námsbækur sínar.
Fyrir utan krúttleg pelsdýr sem voru að fara að gifta sig eða leika krokket spreytti Potter sig einnig á óhugnanlegri sviðsetningum. Bretar á Viktoríutímanum dáðu hrylling, þannig að Potter innréttaði einnig heila sýningu með vansköpuðum dýrum.
Þar stillti hann upp kettlingi sem var með tvö höfuð og öðrum með átta fætur og tvö skott. Eins var að finna þar eina hænu og tvo kjúklinga með fjóra fætur. Þessi afmynduðu dýr voru sögð vera komin frá bændum í nágrenninu sem höfðu gefið þessum víðfræga uppstoppara dýrin.
Með tímanum gat Potter lifað af tekjunum frá safninu en þar mátti einnig kaupa margvísleg póstkort með myndum af helstu perlum hans. Hann vann að slíkum uppstillingum allt þar til hann dó og einnig mátt oft hitta Potter á safninu þar sem hann naut aðdáunar almennings.
„Fólk tekur kannski ekki eftir gamla manninum sem er oft nálægt dyrunum – snillingur sem hefur skapað ævintýraland“, var skrifað í sunnudagsblaðið Sunday People árið 1914, þar sem fjallað var um ævistarf Potters og „safn sem má aldrei gleymast“.
Í sýningu Hr. Potters var kettlingur sem kom í heiminn með átta fætur
Fjórum árum síðar lést Potter en uppstillingar hans lifa áfram. Aðsóknin tók þó að dala í Bramber og á áttunda áratugnum var safninu lokað. Árið 1984 festi hótel nokkuð kaup á öllum gripunum og árlega heimsóttu um 30.000 gestir safnið til að fá að sjá alla dýrgripina.
En vinsældir uppstoppaðra gripa fóru minnkandi og árið 2003 seldi hótelið safn Potters á uppboði og dreifðust gripirnir þá hingað og þangað. Eftirsóttasta uppstillingin, fuglaútförin frá 1861, seldist á heilar sex milljónir króna.
Lesið meira um uppstoppuð dýr
- Dr. Pat Morris: Walter Potter’s Courious World of Taxidermy, Constable, 2018.