Maðurinn

Fyrst var hún hötuð en í dag er hún daglegt brauð

BIRT: 09/11/2014

Þegar getnaðarvarnarpillur voru leyfðar sem getnaðarvörn í Bandaríkjunum árið 1960 var kynlíf á einu augabragði losað undan oki fjölgunarinnar. Kvenréttindakonur fögnuðu því að konur hefðu nú loks yfirráð yfir eigin líkömum en aðrar óttuðust að pillan myndi hafa í för með sér siðferðislega hnignun. Í dag er pillan nánast jafnalgeng og vítamín og er notuð af meira en 100 milljónum kvenna víðsvegar um heim.

Aðvörun: Þetta efni kemur í veg fyrir egglos. Þessa aðvörun var að finna á miðanum á litla, brúna pilluglasinu sem innihélt lyfið Enovid, sem kom á markað í Bandaríkjunum síðsumars árið 1957.

Lyfið hafði nýverið hlotið samþykki yfirvalda í meðhöndlun á óreglulegum blæðingum og skyndilega fjölgaði þeim konum mjög verulega. Innan við tveimur árum eftir að Enovid kom á markað voru ríflega tvær milljónir kvenna farnar að nota lyfið. Það sem flestallar konurnar sóttust eftir var í raun ekki sjálft lyfið Enovid heldur aukaverkunin, þ.e. getnaðarvarnareiginleikinn. Fréttin um þennan aukalega ávinning af töflunum breiddist út eins og eldur í sinu, landshorna á milli, jafnvel þótt getnaðarvarnir væru mikið bannorð og notkun getnaðarvarna væri bönnuð í mörgum ríkjum og jafnvel einnig upplýsingagjöf um takmörkun barnaeigna.

Enovid var hins vegar ekkert á leiðinni út af markaðnum. Eftir þriggja ára skuggatilveru hlaut pillan loks viðurkenningu heilbrigðisyfirvalda í Bandaríkjunum sem getnaðarvörn og á næstu árum kynntust konur í öðrum löndum einnig þessari byltingarkenndu pillu. Pillan sló í gegn, hægt var að forðast milljónir af óæskilegum þungunum og konur fögnuðu því að ráða nú loks yfir kynlífi sínu.

Ráðleggingar um öruggt kynlíf voru bannaðar

Nú til dags eru p-pillur nánast jafnalgengar og vítamíntöflur. Fyrir rúmlega fimm áratugum var hins vegar aðeins um draumsýn að ræða í hugum fjórmenninga sem töldu kvenréttindakonu, erfingja að auðævum, kaþólskan lækni og illa þokkaðan líffræðing.

Kvenréttindakonan var Margaret Sanger, sem var fædd árið 1879 og alin upp í kaþólskri fjölskyldu í New York. Á yngri árum Margaretar flokkuðust upplýsingar um getnaðarvarnir sem klám og þegar hún svo missti móður sína fimmtuga, eftir 18 meðgöngur, ásakaði hún föður sinn um að hafa valdið dauða hennar: „Þetta er þín sök. Mamma lést af völdum of margra barneigna,“ sagði Margaret ásakandi við hann.

Margaret var lærð hjúkrunarkona og árið 1916 opnaði hún fyrstu getnaðarvarnarstofuna í fátækrahverfi í New York. Yfirvöld lokuðu hins vegar fljótt stofunni og Margaret var dæmd í 30 daga fangavist. Refsivistin skelfdi hins vegar ekki Margaret en hún var alla starfsævi sína í forsvari fyrir umdeilda hreyfingu sem setti á laggirnar getnaðarvarnarstofur víðs vegar um Bandaríkin. Þarna kynntist Margaret sorglegum örlögum margra kvenna, sem sökum skorts á getnaðarvörn höfðu verið fjötraðar við heimilið af stórum barnahópi ellegar höfðu veikst lífshættulega eftir að hafa látið eyða fóstri hjá skottulækni. Þessi reynsla mótaði Margaret að svo miklu leyti að hún fór að gæla við þá hugmynd að þróa sjálf kraftaverkatöflu sem á auðveldan, áhrifamikinn og öruggan hátt gæti veitt vörn gegn þungun. Konur áttu að hafa rétt á að stjórna eigin frjósemi, sagði Margaret Sanger, sem hélt því fram að þessi þáttur skipti sköpum fyrir réttindi kvenna. „Engin kona getur talist vera frjáls ef hún á ekki sjálf eða hefur rétt sjálf yfir líkama sínum. Þetta er leiðin í átt að frelsi kvenna,“ sagði Margaret strax á árinu 1922.

Margaret hitti mann í kvöldverðarboði árið 1951 sem átti eftir að aðstoða hana við að gera þennan draum að veruleika, en þetta var líffræðingurinn Gregory Pincus. Hann hafði stundað rannsóknir á áhrifum kynhormóna árum saman en þekktastur var hann samt fyrir rannsóknir frá árinu 1934, þar sem honum hafði tekist að frjóvga kanínur með gervifrjóvgun, en þær rannsóknir mörkuðu upphafið að gervifrjóvgun í tilraunaglösum, sem tíðkast í dag. Þetta starf hans var afar umdeilt og fyrir vikið var Pincus uppnefndur dr. Frankenstein og hann hafði ekki gott orð á sér í háskólaumhverfinu. Margaret áttaði sig hins vegar á að rannsóknir Pincusar gerðu það að verkum að hann væri rétti maðurinn til að þróa getnaðarvarnarpilluna sem hún óskaði sér svo heitt.

Í gegnum starf sitt í getnaðarvarnarhreyfingunni hafði Margaret komist í kynni við moldríka konu, þ.e. auðkýfinginn Katharine McCormick, sem stutt hafði fjárhagslega við bakið á læknastofum Margaretar svo árum skipti. Þegar Margaret sagði Katherine frá hugmynd sinni um getnaðarvarnarpillur hreifst sú síðarnefnda strax af hugmyndinni. Strax á fyrsta fundinum með Pincus á árinu 1953 skrifaði Katherine ávísun upp á 40.000 Bandaríkjadali, sem var gífurlega há upphæð á þeim tíma.

Þessi umrædda ávísun var aðeins sú fyrsta af mörgum frá þessari gjafmildu auðkonu en hún var komin hátt á áttræðisaldur þegar hér var komið sögu og vænti þess að sjá skjótan árangur í stað fjárframlaga sinna. Pincus barst liðsauki úr óvæntri átt þegar hann rakst á gamlan félaga sinn, kaþólska læknisfræðiprófessorinn John Rock, sem hafði sérhæft sig í að aðstoða konur, sem þjáðust af ófrjósemi, við að eignast börn. Þó svo að kaþólska kirkjan legðist gegn getnaðarvörnum var John Rock ekki á sama máli og hafði ekkert því til foráttu að liðsinna Pincus. John var sannfærður um að konur ættu að hafa rétt á að verja sig gegn þungunum, í því skyni að berjast gegn fátækt og fyrirbyggja sjúkdóma og dauðsföll af völdum of tíðra barneigna.

Tilraunir í Púertó Ríkó báru góðan árangur

Sem frjósemislæknir hafði John Rock gert tilraunir með að sprauta konur með tilbúnum hormónum, sem heftu egglos í nokkra mánuði í senn. Tilgangurinn var sá að frjósemi kvennanna myndi aukast eftir þetta hlé og það var þessi sama aðferð, þ.e. að koma í veg fyrir egglos, sem Pincus og Rock hugðust beita í þróun á getnaðarvarnarpillu. Árið 1956 voru tilraunir þeirra komnar á það stig að þeir félagar gátu framkvæmt yfirgripsmiklar tilraunir á konum í fátækrahverfum í Púertó Ríkó. Þar ríkti mikil fátækt og eftirspurn eftir getnaðarvörn var gífurleg, svo þeir félagar fengu fljótt leyfi yfirvalda fyrir tilraunum með nýja lyfið sitt, Enovid. Eftir eins árs tilraunir þótti auðsýnt að lyfið væri afar gagnlegt og stjórnandi tilraunarinnar í Púertó Ríkó flutti Pincus og Rock þær fréttir að „Enovid veitti 100 prósent vörn gegn þungun“.

Að loknum frekari tilraunum á m.a. Haítí og í Mexíkó lögðu heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum svo blessun sína yfir Enovid , en fyrst í stað mátti raunar einungis ávísa því gegn alvarlegum blæðingatruflunum. Framleiðandanum G.D. Searles til mikillar furðu var lyfið nánast rifið úr hillum apótekanna og árið 1959 notaði hálf milljón kvenna í Bandaríkjunum lyfið en þá áttaði framleiðandinn sig á gífurlegum sölumöguleikunum sem fólust í lyfinu. Fyrirtækið sótti nú um að fá að markaðssetja lyfið sem getnaðarvörn í Bandaríkjunum og það leyfi fékkst þann 9. maí árið 1960. Pincus og Rock, og auðvitað einnig Margaret og Katherine, litu á þetta sem stórsigur, en aldrei fyrr í sögunni hafði lyf verið leyft sem ætlað var hraustu fólki. Enovid hlaut mjög svo jákvæðar móttökur, bæði meðal karla og kvenna, og þegar hin þekkta bandaríska fréttakona og leikritaskáld Clare Booth Luce skrifaði að „nú hefðu nútímakonur sama frelsi yfir líkömum sínum og karlar“, þá mælti hún fyrir hönd milljóna meðsystra sinna. Einungis tveimur árum eftir að Enovid kom á markað var 1,2 milljón bandarískra kvenna komin með lyfseðil upp á „pilluna“ og sigurganga pillunnar hófst um gjörvallan heiminn.

Svertingjar óttuðust þjóðarmorð

Þó svo að margar konur tækju pillunni fegins hendi mætti henni gífurleg andstaða frá öðrum hliðum. Margir trúarhópar litu Enovid hornauga, því þeir óttuðust kynferðislega upplausn og hnignun siðgæðisins. Sem dæmi má nefna að kaþólikkar settu sig upp á móti notkun pillunnar, jafnvel þó svo að kaþólikkinn John Rock, sem átti stóran þátt í þróun hennar, segði opinberlega að pillan væri „eðlileg“ leið til að skipuleggja barneignir. Rök Johns Rocks voru þau að pillan myndaði eins konar framlengingu á starfsemi líkamans og innihéldi einungis sömu hormón og fyrir væru í æxlunarfærum kvenna. Vatíkanið gaf hins vegar ekki mikið fyrir þessar skýringar hans og komst að eigin niðurstöðu eftir að hafa velt málinu gaumgæfilega fyrir sér í átta ár. Páll páfi VI. sendi frá sér tilkynningu í júlí þess eðlis að p-pillan ætti ekki rétt á sér og hann hélt til streitu höfnun kirkjunnar gegn getnaðarvörnum.

Vatíkanið talaði þó að miklu leyti fyrir daufum eyrum, því pillan öðlaðist miklar vinsældir, þrátt fyrir bann kirkjunnar, sem í rauninni er enn í gildi, sem best sést af því að pillunotendum um heim allan hafði fjölgað í 12,5 milljón árið 1967. Á meðan kirkjan tók sinn umþóttunarfrest hafði pillan fest sig í sessi sem vinsælasta getnaðarvörnin meðal bandarískra kvenna, óháð trúarbrögðum þeirra. Dreifibréf páfans breytti engu um val kvennanna því árið 1970 notuðu tveir þriðju hlutar kaþólskra kvenna í Bandaríkjunum pilluna og kaþólskar konur í öðrum löndum þverskölluðust einnig við að sinna banninu.

Sumir Bandaríkjamenn af afrískum uppruna hötuðu p-pilluna þó engu síður en þeir í Vatíkaninu en á 7. áratugnum fór að bera á þeim orðrómi að pillan væri hluti af stórri stjórnaráætlun, sem gengi í besta falli út á að halda svörtum íbúum niðri og að takmarka áhrif þeirra og í versta falli væri um að ræða tilraun til að fremja á þeim þjóðarmorð. Amerískir blökkumenn hvöttu því svartar konur til að taka ekki pilluna og bentu á nauðsyn þess að svartir menn fjölguðu sér sem mest ef takast ætti að breyta pólitísku jafnvægi í Bandaríkjunum. Lífseigar goðsagnir héldu því að sama skapi fram að til væru tvær tegundir af pillunni: önnur fyrir hvítar konur, sem hefti egglos um stund, en hin fyrir svartar, sem gerði þær ófrjóar um aldur og ævi.

Blóraböggull fyrir siðferðislega hnignun

Þó svo að trúarsamtök, og jafnvel samtök svartra, bölvuðu pillunni í sand og ösku, var þessi litla pilla eins og himnasending fyrir 68-uppreisnina og það kynferðislega frelsi sem henni fylgdi. Um miðjan 7. áratuginn var persónulegt frelsi og uppreisnin gegn yfirráðum fjölskyldunnar og feðraveldinu efst á dagskrá meðal ungs fólks á Vesturlöndum og boðskapurinn „Make love, not war“ hljómaði eins og auglýsingaslagorð fyrir p-pilluna.

Nú á dögum eru flestir sagnfræðingar sammála um að pillan hafi ekki orsakað kynferðislega frelsið á Vesturlöndum, heldur hafi tilviljun ráðið því að hvort tveggja gerðist á sama tíma. Íhaldsöflin gerðu pilluna engu að síður að blóraböggli fyrir hnignun siðgæðisins, sem í augum margra var einkennandi fyrir þetta tímabil. Femínistar héldu því fram að konur hefðu sömu þörf fyrir kynlíf og karlar, og gerðu kröfu um sama frelsi, en þessi hugsun var ógnvekjandi í augum margra annarra: Frjálsar ástir voru sem sprengja fyrir undirstöður samfélagsins, þ.e. kjarnafjölskylduna, og þar sem p-pillan losaði kynlíf undan fjölgunarhættunni var ekkert við því að segja þótt lauslæti léti á sér kræla. Nú gátu konur stundað kynlíf með hverjum sem þær vildu, hvenær sem þær vildu, fyrir hjónaband og meðan á því stóð, án þess að þurfa að óttast þungun.

„Er litið á pilluna sem heimild til að stunda kynferðislegt samneyti með breytilegum elskendum? Getur aðgengi allra kvenna á barnsburðaraldri leitt til kynferðislegrar ringulreiðar?“ spurði tímaritið U.S. News & World Report í grein sem birtist árið 1966. Í greininni kom fram að getnaðarvarnarpillur nytu nú einnig vinsælda meðal stálpaðra skólastúlkna og að lögreglan væri farin að tilkynna um heilu hópana af giftum konum sem lifðu af vændi.

Forfeður p-pillunnar, þeir John Rock og Gregory Pincus, leiddu gagnrýnina hjá sér með því að benda á að ógiftar konur hefðu einnig stundað kynlíf áður en getnaðarvarnarpillur litu dagsins ljós, eini munurinn væri sá að þá hefðu þær notast við miklu ótryggari getnaðarvarnir. Staðhæfingu sinni til stuðnings gátu þeir vísað í Kinsey-skýrsluna um kynferðislega hegðun frá árinu 1953. Í þeirri skýrslu kom fram að yfir helmingur þeirra 6.000 kvenna sem tekin voru viðtöl við höfðu stundað kynlíf fyrir hjónabandið og að fjórða hver gift kona hefði verið manni sínum ótrú. Andmæli tvímenninganna gátu þó ekki þaggað niður í dómsdagsmönnunum og í grein sem birtist í tímaritinu Reader’s Digest árið 1968 varaði skáldkonan Pearl Buck við því að pillan væri eins og sprengja: „Allir vita hvað p-pillan er. Hún er pínulítil að sjá en samt er hætt við að eyðileggingarmáttur hennar á samfélag okkar verði meiri en áhrifin af kjarnorkusprengjunni“, skrifaði hún.

Þegar árin liðu lægði storminn um áhrif pillunnar á siðferði í kynferðismálum en þó var langur vegur frá því að allir hefðu tekið pilluna í sátt. Nú fór að bera á áhyggjum vegna aukaverkana pillunnar. Stjórnandi tilraunanna í Púertó Ríkó hafði veitt því athygli að pillunni fylgdu of margar aukaverkanir til að hægt yrði að leyfa almenna notkun hennar fyrirvaralaust en Pincus og Rock kusu að leiða athugasemdir hans hjá sér. Fyrstu p-pillurnar voru sannkallaðar hormónasprengjur með mjög heiftarlegar aukaverkanir á borð við flökurleika, svima, þyngdaraukningu og höfuðverk, en það sem verra var að skráð höfðu verið tilvik um blóðtappa, krabbamein og sykursýki, sem áttu að vera beinar afleiðingar af notkun pillunnar.

Málsvarar kvenréttindakvenna ásökuðu lyfjafyrirtækin um að hafa leynt mikilvægum upplýsingum um þessar lífshættulegu aukaverkanir og héldu því fram að saklausar konur hefðu verið notaðar sem tilraunadýr, án þess að hafa hugmynd um það. Víðs vegar um heiminn fóru konur í skaðabótamál við pilluframleiðendur, sem voru á þessum tíma orðnir allmargir, og í kjölfarið var farið að prenta litla fylgiseðla, sem stungið var inn í lyfjaumbúðirnar, með upplýsingum um þá áhættu sem fylgdi notkun p-pillunnar.

Mikilvægast af öllu var að hormónamagnið í pillunum var minnkað til muna. Fyrstu getnaðarvarnarpillurnar innihéldu allt að 100 míkrógrömm af estrógeni en skammtarnir minnkuðu niður í 20 til 50 míkrógrömm. Aukaverkanirnar urðu því bæði færri og vægari og fyrir vikið ber afmælisbarnið, sem nú stendur á fimmtugu, aldurinn afskaplega vel: Í mörgum löndum er pillan enn vinsælasta getnaðarvörnin og í dag hefja ríflega 100 milljón konur daginn á því að gleypa þessa litlu pillu, með litríka ferilinn.

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Maðurinn

Hið fullkomna morð er dautt

Lifandi Saga

Teþorstinn knésetti stórveldi

Náttúran

Fræðimenn rýna í innsta eðli risaeðlanna 

Menning

Saga kaffisins: Hinir syfjuðu loksins bænheyrðir

Lifandi Saga

Hervegir tengdu keisaradæmið saman 

Lifandi Saga

Barsmíðar og sektir Rómverja sköpuðu ósigrandi hersveitir

Lifandi Saga

Leynivopn Rómverja: Virkið var flutt meðferðis

Alheimurinn

Hvað verður um gaspláneturnar?

Læknisfræði

Hver var fyrsti kvensjúkdómalæknirinn?

Maðurinn

Af hverju þreytumst við í hita?

Menning og saga

Hvað varð um Nefertítí drottningu?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is